Hafið þið velt því fyrir ykkur í hvað eigi að nota rafmagnið sem HS Orka hyggst framleiða með Hvalárvirkjun?
Eflaust svara margir játandi án þess þó að hafa fengið nokkurn tímann viðunandi svör. Ýmsu er kastað fram til réttlætingar á hinum gríðarmiklu umhverfisfórnum sem fylgja myndu byggingu virkjunarinnar. Því er til dæmis oft haldið fram að Hvalárvirkjun sé byggð með atvinnu- og orkuöryggi Vestfirðinga í huga, eða til að mæta aukinni orkunotkun íslensks almennings og orkuskiptum í samgöngum. Því miður stenst ekkert af því skoðun.
Sem sagt, núverandi virkjanauppbygging er knúin áfram af hækkandi orkuverði til kísilvera en einkum gagnavera, sem fyrst og fremst grafa eftir rafmyntum á „starfssvæði“ einkarekna orkufyrirtækisins HS Orku á Suðurnesjum. Orkuöflun HS Orku með byggingu Hvalárvirkjunar kemur því af augljósum ástæðum orkuöryggi og atvinnulífi Vestfirðinga lítið við. Framlag orkufyrirtækisins er ekkert til samfélagsins á Vestfjörðum. Ef lesið er í nýútgefna skýrslu Landsnets um raforkuafhendingaröryggi á Vestfjörðum sést að orkuöryggið myndi aðeins aukast örlítið á norðanverðum Vestfjörðum við byggingu virkjunarinnar. Aukningin er hverfandi miðað við fyrri hugmyndir um Hvalárvirkjun, sem komust á flug fyrir rétt rúmum áratug, en þá átti að tengja virkjunina beint við Ísafjörð. Vissulega hefði það verið mikil framför á þeim tíma í orkuöryggi landshlutans og var beinlínis forsenda þess að þessi kostur kom yfir höfuð til álita í rammaáætlun. Tenging um Djúp yfir á Ísafjörð var samt þá og er enn óraunhæf vegna kostnaðar og tæknilegra örðugleika. Raforkuflutningskerfið á Vestfjörðum tók hins vegar stakkaskiptum með varaaflsstöð í Bolungarvík 2015, um sama leyti og HS Orka tók yfir undirbúning Hvalárvirkjunar. Þá var ekki lengur nauðsynlegt að tengja virkjunina beint við Ísafjörð og hugmynd HS Orku varð ofan á um að tengja virkjunina yfir í Kollafjörð á Barðaströnd til að koma orkunni suður eftir til kaupenda utan Vestfjarða. Hún mun því sem áður segir bæta litlu sem engu við orkuöryggi á norðanverðum Vestfjörðum.
Á sunnanverðum Vestfjörðum eru aftur á móti raunveruleg vandamál varðandi raforkuöryggi og áformar Landsnet þar fremur einfalda hringtenginu og varaaflsstöð á Keldeyri við Tálknafjörð. Þar með verður langvinnt rafmagnsleysi að mestu úr sögunni á Suðurfjörðunum. Skammvinnar en hvimleiðar rafmagnstruflanir myndu svo hverfa endanlega á bæði norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum ef settar yrðu upp rafhlöður sem tryggja hnökralausa yfirfærslu yfir á varaafl ef rafmagnið dettur út. Þessar aðgerðir er hægt að klára fljótt og vel og krefjast hvorki línulagna yfir hálendi Vestfjarða né eyðileggingar víðernanna upp af Ófeigsfirði með Hvalárvirkjun. Hvað Strandir áhrærir breytir Hvalárvirkjun engu um orkuöryggi enda er þar lítið um straumleysi þó enn vanti Orkubúið herslumuninn til að klára löngu tímabæra þrífösun með jarðstreng í Árneshreppi. Á eftir því þyrfti að reka.
Þegar öllu er á botninn hvolft er samt ljóst að nákvæmlega engin þörf er á því að virkja meira hér á landi nú enda framleiðum við þegar margfalt meiri raforku á íbúa heldur en allar aðrar þjóðir heims. Raforkuþörf almennings og atvinnulífs (utan orkufreks iðnaðar) mun vissulega aukast hægt en stöðugt á næstu áratugum með auknum íbúafjölda og orkuskipti í samgöngum blasa við í náinni framtíð. Því má öllu bregðast við með hægri, mildri og skipulegri uppbyggingu orkumannvirkja sem ekki gengur á villta náttúru eða víðerni. Raunar hafa skynsamari raddir orkugeirans meira og minna hafnað þeim áróðri að hér þurfi að virkja stíft áfram á kostnað náttúrunnar. Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hefur til að mynda sagt að ekki þurfi að virkja neitt á næstunni fyrir orkuskipti í samgöngum. Ættum við ef til vill öll að hlusta betur á hann og aðra sem vilja fara hægar í sakirnar og koma fram af nærgætni gagnvart náttúrunni?
Fólk sem heldur því fram að reisa þurfi fleiri virkjanir eins og Hvalárvirkjun virðist því miður vera að hugsa um eitthvað allt annað en almannahag, hvort sem um er að ræða hag Vestfirðinga eða íbúa annarra landshluta. Við ættum hreinlega að hætta umsvifalaust að velta okkur upp úr þessum hluta umræðunnar og fara að ræða af alvöru hin risastóru aðalatriði, eins og spurninguna um hvort réttlætanlegt sé yfir höfuð að fórna einum allramikilvægustu og merkilegustu víðernum Evrópu fyrir bitcoin-námugröft og örlítið meiri hagnað í bókhaldi erlendra fjárfestingarsjóða.
Óbyggð víðerni eins og svæðið sem hér er undir eru orðin mjög fágæt í heiminum. Það er hreinlega glórulaust og óverjandi að fórna víðáttunni fyrir óslökkvandi orkuþorsta andlitslausra rafmyntargullgrafara og eigendur orkufyrirtækja. Við skuldum kynslóðum framtíðarinnar að hugsa betur um náttúrugersemarnar okkar en það.
Eða hvað telja lesendur?
Höfundur er jarðfræðingur, höfundur bókarinnar Vegvísir um jarðfræði Íslands, stjórnarmaður í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og í samtökunum ÓFEIGU náttúruvernd sem vinna að verndun víðernanna á Ófeigsfjarðarheiði.