Umræða um spillingu hefur verið áberandi hér á landi undanfarin ár. Ýmis mál hafa komið upp á yfirborðið sem hreyft hafa við samfélaginu og sum hver vakið upp spurningar um spillingu, siðferði og góða stjórnsýsluhætti.
Almenn skilgreining á spillingu er þegar einhver misnotar vald sem honum er treyst fyrir í staðinn fyrir persónulegan ávinning. En spilling er ekki bara spilling. Hún getur verið pólitísk, mikil eða lítil og hægt er að flokka spillingu eftir því hvar hún á sér stað. Einnig er hægt að flokka spillingu út frá þeim kostnaði sem hlýst af henni. Hægt að skipta kostnaðinum í fjóra flokka: Efnahagslegan, umhverfislegan, samfélagslegan og pólitískan. Spilling getur haft margvísleg áhrif á samfélög og kostað fólk pening, heilsu og frelsi. Í verstu tilfellunum kostar spilling fólk lífið. Spilling eyðir þeim böndum sem halda samfélögum saman og grefur undan trausti almennings á stofnunum, forystu þeirra og pólitískum kerfum.
Í eðli sínu hvílir leynd yfir spillingu og hana er erfitt að mæla. Þess vegna eigum við að leggja við hlustir þegar sérfræðingar vara við spillingarhættum, eða hreinlega spillingu, því hún er ekki einkamál nokkurs manns. Gott væri að byrja á þeirri staðreynd að spilling fylgir öllum samfélögum. Og já. Það er líka spilling á Íslandi.
Nokkur dæmi um spillingu eru: Mútur, fjárkúgun, fjárdráttur, vinargreiði, hagsmunaárekstur, svik, peningaþvætti, þrýstihópastarfsemi og að fanga ríkisvaldið. Það síðast nefnda á við aðstæður þar sem valdamiklar stofnanir, einstaklingar, fyrirtæki eða hópar nota spillingu til að móta stefnu stjórnvalda, hagfræðilega/efnahagslega eða lagalega, í þeim tilgangi að þjóna eigin hagsmunum.
Í samhengi við umræðuna um spillingu er oft talað um „skemmdu eplin“, eins og lausnin sé fólgin í því að tína þau upp úr tunnunni og þá verði allt í himna lagi. En kannski eru það ekki eplin sem eru skemmd heldur tunnan. Tunnan getur jú verið skemmd en eplin í lagi, enn sem komið er. Kannski er spillingin sem kemur upp á yfirborðið merki um galla í kerfinu sem enginn viðurkennir að séu til staðar, sama hvort gallarnir séu hannaðir á meðvitaðan hátt eða ekki. Sumir fræðimenn telja að verkefnið við að ná tökum á spillingu feli einmitt í sér að skoða tunnuna en ekki eplin. Það getur nefnilega verið auðvelt að búa til „skemmt epli“. Þegar einhver tekur á sig skellinn af tilteknu máli er auðvelt að benda á eplið og beina sjónum frá tunnunni. Þannig er hægt að friðþægja almenning, kveða niður gagnrýnisraddir og/eða kröfur um frekari skoðun eða aðgerðir. Tunnan er jafn skemmd eftir sem áður.
Það er margt eftir óunnið varðandi spillingu hér á landi. Margt er sannarlega á réttri leið en þrátt fyrir það er ekki erfitt að finna dæmi um alvarlega kerfisgalla.
Góð byrjun væri að viðurkenna að spilling þrífst hér á landi, kalla eftir auknu gagnsæi og að útbúa reglur um uppljóstrun og skipulag í kringum slíkt úrræði. Siðareglur mættu vera meira í heiðri hafðar, ekkert síður en lög, og kortleggja þarf spillingarhættur hvar sem þær geta myndast. Sama í hvaða geira og sama á hvaða stigi. Verkefnið er stórt en ekki óyfirstíganlegt. Getum byrjað á því að tala um spillingu eins og hún er og þá staðreynd að hún er bæði raunveruleg og viðvarandi. Við getum líkt þessu verkefni við því að borða fíl. Og hvernig borðar maður fíl? Með því að taka einn bita í einu.
Höfundur er rannsóknarlögreglumaður og stjórnsýslufræðingur. Heimildir fyrir efni greinarinnar er að finna í óbirtri MPA ritgerð höfundar um lögregluspillingu og mögulegar birtingarmyndir spillingar í starfsumhverfi lögreglumanna.