Nú er það staðfest, Bára Halldórsdóttir fór yfir strikið þegar hún tók upp samtöl og drykkjuraus sex þingmanna. Það er líka staðfest að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fór yfir strikið þegar hún sagði að uppi væri rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson hefði dregið sér fé með því að rukka óhóflega fyrir not af eigin bíl. Hatari fór líka yfir strikið þegar liðsmenn sveitarinnar drógu upp Palestínska fánann á lokakvöldi Eurovision. Fleiri dæmi mætti tína til um fólk sem hefur farið yfir strikið, sum nýleg önnur eldri. Nokkur dæmi hafa orðið fræg. Rósa Parks fór til dæmis rækilega yfir strikið árið 1955 þegar hún neitaði að standa upp fyrir hvítum farþega í strætó. Ghandi fór vitaskuld margfaldlega yfir strikið í baráttu sinni geng breskum yfirráðum í Indlandi. Þann 24. október árið 1975 fóru um 25.000 konur á Íslandi yfir strikið þegar þær lögðu niður vinnu. Og nú nýlega hefur ung stelpa frá Svíþjóð, Greta Thunberg, þráfaldlega farið yfir strikið með því að skrópa í skólanum, og hvetja aðra nemendur til að gera hið sama, af því að henni ofbýður aðgerðaleysið í loftslagsmálum.
Þegar einhver fer yfir strikið líður yfirleitt ekki á löngu áður en sá dómur er upp kveðinn að hegðunin hafi verið óviðeigandi, ef ekki hreinlega brot á reglum. En hvaða strik eru þetta sem farið er yfir? Hver dregur þessi strik? Og hvaða hagsmunum þjóna þau?
Við gætum líka spurt hvar við værum stödd ef þetta fólk hefði ekki farið yfir strikið. Á íslensku heitir það að fara ekki yfir strikið að halda sig á mottunni. Hvernig væru Bandaríkin ef blökkumenn hefðu haldið sig á mottunni? Hvernig væri nýlendustefnan ef íbúar nýlendnanna hefðu haldið sig á mottunni? Hver væri staða kvenna ef konur um víða veröld hefðu alltaf haldið sig á mottunni?
Strikin sem farið var yfir í þeim dæmum sem ég nefndi hér að framan voru strik í kringum forréttindi hinna ríku, hinna hvítu, karlanna, eða hinna fullorðnu. Þeir sem draga strikið eru þeir sem hafa völdin og þeir sem hafa völdin kæra sig ekki um að láta þau af hendi. Strikið er tákn um réttlæti – en ekki réttlæti eins og það birtist í brjóstum réttsýnna manneskja heldur réttlæti sem endurspeglast í stofnunum, hefðum og venjum samfélags sem oft er langt frá því að vera réttlátt. Þetta réttlæti striksins er oft og tíðum meira í ætt við hina fornu kenningu sem Þrasýmakkos lýsti svo skorinort í Ríkinu eftir Platon: Réttlæti er það sem kemur hinum sterka vel.
Í orði hafa fáir tekið undir þessa kenningu Þrasýmakkosar, frekar kinkað kolli til Sókratesar sem andmælti honum með ærinni fyrirhöfn og sagði að réttlæti byggðist á samhljómi eða samræmi í ríkinu, þar sem hver strengur hljómaði eins og honum væri ætlað. En á borði er lítið spurt um hvernig strengirnir hljómi – eða svo við höldum áfram með þetta líkingamál, hver sjái um að stilla hljóðfærið. Kenning Þrasýmakkosar er leiðarljósið.
Í vor þegar samningar verkafólks voru lausir og lítið gekk í viðræðum, efndu hótelþernur til verkfalls. Þegar Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu að löglega væri boðað til verkfallsins sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, að hún hlakkaði til:
„Við erum að fara í verkfall á morgun ... Þetta er kvennaverkfall. Haldið á alþjóðlegum baráttudegi verka- og láglaunakvenna. Þetta er söguleg staðreynd og ég hlakka afskaplega mikið til á morgun.“
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, var ekki sáttur við þessi orð og sagði: „Mér finnst ekki við hæfi að forystufólk hlakki til verkfalla“ Sólveig Anna, sem hafði augljóslega farið yfir strikið, útskýrði hvers vegna hún sá .verkfallið sem gleðiefni: „Ég er glöð af því að loksins fá raddir láglaunakvenna í íslensku samfélagi að heyrast hátt og skýrt. Þrátt fyrir að Ísland mælist hæst á listum um kynja-jafnrétti er staðreyndin sú að láglaunakonan hefur ekki fengið neitt pláss eða nein völd. Að okkur hafi tekist að troða okkur í sviðsljósið, að við skulum allt í einu vera orðnar „hættulegar“ er sögulegt; eignalausar, valdalausar, peningalausar konur eru allt í einu orðnar afl í íslensku samfélagi, afl sem mögulega þarf að taka tillit til og hlusta á! Er ekki við hæfi að gleðjast yfir því?“
Þegar valdinu er ögrað, hvort sem það er hið lúmska feðraveldi sem gengur prúðbúið fram í mynd hins umhyggjusama og betur vitandi föður – jafnvel landsföður – eða með grimmilegustu og háþróuðustu kúgunartækjum heims, eins og Ísraelsríki gegn hernuminni Palestínu, þá er vörnin gjarnan þessi: „Ég skil vel að þið séuð ekki alveg sátt en við höfum komið okkur upp tilteknum leikreglum, ákveðnum leiðum til að gagnrýna, til að eiga í samræðu, og ef þið viljið koma gagnrýni ykkar á framfæri þá verðið þið að fylgja þessum reglum.“ Reglurnar eru kenndar við lýðræði, stundum sagðar mikilvægur þáttur í að viðhalda stöðugleika og friði, jafnvel sagðar efla virðingu Alþingis (sbr. umsögn siðanefndar um ummæli Þórhildar Sunnu). Einmitt þessar reglur eru strikin sem stundum er farið yfir. Og þess vegna er svo mikilvægt að spyrja: Hver setur þessar reglur? Og hvaða hagsmunum þjóna þær?
Hefðir, venjur, stofnanir og siðir eru ævinlega barn síns tíma. En tímarnir breytast og hversu langt sem samfélaginu hefur miðað á vegferð sinni í átt að réttlæti, þá er markinu aldrei náð. Sérhver áfangi er einungis brottfararstaður á nýrri vegferð í leit að nýju réttlæti. Á hverjum tíma – okkar eigin tíma ekki síður en liðnum tíma – eru útlínur réttlætisins dregnar af þeim sem fengið hafa umboð til þess. Styrkur samfélagsins – eða ætti ég kannski að segja, styrkur lýðræðisins – felst ekki í því hversu réttir þessir drættir eru, heldur hveru móttækilegt samfélagið sé fyrir því að þessum reglum sé ögrað. Réttnefnt lýðræði amast ekki við því að farið sé yfir strikið, þvert á móti hvetur það borgarana til að fara yfir strikið, ef svo ber undir. Einungis með því að fara yfir strikið, er hægt að komast að því hvar það er og hvort það hafi verið dregið á ásættanlegum stað.
Þegar Rósa Parks fór yfir strikið, þá var það til að láta í ljósi þá skoðun, sem var ekki bara hennar heldur fjölmargra annarra, að það strik sem markaði kynþáttaaðskilnað í Bandaríkjunum væri dregið á kolröngum stað. Þegar Bára Halldórsdóttir ýtti á REC á símanum og sendi svo upptökurnar til fjölmiðla, var það vegna þess að henni fannst að það væri eitthvað mjög athugavert við það hvernig menn sem gegndu æðstu trúnaðarstörfum fyrir þjóðina töluðu um samstarfsfólks sitt, konur, fatlað fólk og eiginlega alla sem ekki voru þeirra eigin aðhlæjendur. Þegar Þórhildur Sunna sagði að það væri rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson hefði dregið sér fé, þegar hann rukkaði endurgreiðslur fyrir akstur sem samsvaraði því að hann keyrði 130 km á dag hvern einasta dag ársins, þá var hún ekki að hugsa um að halda sig innan þess striks sem markaði prúðmennsku þingmanns. Henni fannst réttlætið og virðing þingsins í húfi. Og þegar Sólveig Anna sagði að hún hlakkaði til verkfalls, þá var það vegna þess að hún gladdist yfir því að láglaunafólk hefði tekið til sín frumkvæði og ögrað því valdi sem um áratugaskeið hafði kúgað það, hundsað og lítilsvirt.
Lýðræði er ekki stjórnarfar prúðmennsku. Það er stjórnarfar sem einkennist af gagnrýni, ögrun við vald í öllum sínum myndum, en vitaskuld líka viðurkenningu á réttmætu yfirvaldi. En hið réttmæta yfirvald er ekki réttlæti hins sterka. Hið réttmæta yfirvald er endurómur þeirrar raddar sem hljómar veikast og af mestri hógværð í mergðinni.