Við sem fædd erum eftir miðja síðustu öld og fram til aldamóta og búum í hinum svonefnda vestræna heimi, erum kynslóðin sem á að skammast sín. Við erum fólkið sem ber fyrst og síðast ábyrgð á ástandinu í umhverfismálum heimsins í dag. Einhver okkar eru vissulega þessir vondu stjórnmálamenn sem annað hvort taka rangar ákvarðanir eða ekki ákvarðanir, einhver okkar eru þessir vondu iðnjöfrar og margmilljarðamæringar sem eiga lungann af auðæfum heimsins, einhver okkar eru þessir vondu hagfræðingar og fjármálaspekúlantar sem gambla með lífeyri og sparifé okkar, einhver okkar eru misvitrir vísindamenn sem eru fyrir löngu hættir að sjá heildarmyndina, einhver okkar eru sölumenn dauðans og telja okkur endalaust trú um auðkeyptar lausnir. En fyrst og fremst erum við auðtrúa neytendur sem höfum skapað eftirspurn til þess að ofangreindir aðilar hafa getað leikið sér með okkur og afvegaleitt. Við sitjum uppi með samfélag sem er að hruni komið fyrir aldalok og það er engum um að kenna nema okkur sjálfum.
Ríkissjónvarpið hefur nú lokið sýningu mjög athyglisverðrar þáttaraðar sem lýsti ástandinu tæpitungulaust. Þar var gerð mjög góð grein fyrir aðsteðjandi hættum og ítrekað bent á að lifnaðarhættir okkar jarðarbúa þurfi að breytast og það fyrr en seinna. En það eru fá dæmi þess að svo sé. Alþjóðasamningar eru gerðir og einstakar þjóðir setja sér markmið um takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda. Markmið sem eru jafn óraunhæf og að einhver taki mark á ádeilugrein eins og þessari. Íslensk stjórnvöld gera sínar áætlanir sem því miður lúta frekar að úrlausn vandamála, heldur en að draga úr þeim eða koma í veg fyrir þau og höfuðborgin ákveður að fækka bensínstöðvum!!! Kannski er það eitt besta dæmið um úrræða- og kjarkleysi stjórnvalda til að taka ákvarðanir sem skipta máli.
Við viljum auðvitað trúa því að vísindin finni lausnir á flestum okkar vandamálum og að sjálfsögðu er gaman að hlusta á fréttir um niðurdælingu á koltvísýringi sem svo breytist í grjót og málið leyst☺ Það er líka freistandi að trú á bakteríur sem brjóta niður plast og fatnað sem unninn er úr trjám. En stóra vandamálið er ekki einungis hlýnun af völdum gróðurhúsalofttegunda og súrnun hafanna í framhaldinu, né heldur allt plastið og kjarnorkuúrgangur sem við sitjum uppi með. Megin vandinn er að við horfumst ekki í augu við endimörk vaxtarins. Við getum ekki sóað út í það óendanlega. Við getum ekki keypt okkur endalaust lausnir við öllum okkar vandamálum. Það er t.d. ekki stórmannlegt að flytja úrgang okkar Vesturlandabúa til annarra heimsálfa og réttlæta það með því að við séum að skapa þessum þjóðum tekjur. Eða gefa þeim fatnað sem við höfum ekki lengur áhuga á og rústa þar með innanlandsframleiðslu þeirra. Það er heldur ekki lausn að kaupa okkur aflátsbréf til að kolefnisjafna flugferðir okkar.
Fyrir 60 árum starfaði hópur vísindamanna sem kallaðist Rómarsamtökin og gaf út bók sem nefndist Endimörk vaxtarins. Þó að á þeim tíma hafi helsta áhyggjuefni manna beinst að fólksfjölgun og nægjanlegu fæðuframboði, og hækkun á hitastigi vegna gróðurhúsaáhrifa nær óþekkt, var megin ályktun þessa hóps áhyggjur af veldisvexti m.a. á nýtingu jarðefna og uppsöfnun úrgangs. Helstu varnaðarorð hópsins voru „að mannkynið fær ekki ætlað sér þá dul að margfaldast með sívaxandi hraða og láta efnislegar framfarir sitja í fyrirrúmi án þess að rata í ógöngur á þeirri vegferð; að við eigum um það að velja að leita nýrra markmiða og ráða þannig sjálf örlögum okkar eða kalla yfir okkur afleiðingar hins taumlausa vaxtar, sem við fáum þá óumflýjanlega að kenna harðar á.“
En við hlustuðum ekki. Við létum okkur ekki nægja að hætta að hella uppá kaffi á gamla mátann heldur kaupum við nú kaffi til heimilisins í einnota plasthylkjum. Við kaupum skyndibita á öðru hverju götuhorni og drekkum að sjálfsögðu úr einnota kaffimáli. Þetta gerum við meira og minna á hlaupum því „það er svo brjálað að gera“. Við látum okkur ekki nægja að fara til útlanda að hámarki einu sinni á ári og við kaupum flíkur eins og enginn sé morgundagurinn. Hámark heimsku okkar kristallast í ferðum okkar um heimshöfin þar sem við eyðum efri árunum við allsnægtir allt á kostnað náttúrunnar.
Það er auðvitað ekki í takt við boðskap stjórnmálamanna og hagvaxtarkenningar langskólagenginna hagspekinga, en mín trú er sú að eina von okkar mannkynsins sé að draga úr hefðbundnum hagvexti og milliríkjaverslun. Því meðan þessir mælikvarðar vaxa og aukast er okkur ekki að miða nokkurn skapaðan hlut til raunverulega bættra lífsskilyrða á jörðinni. Og einu aðilarnir sem geta breytt þessu erum við sem neytendur. Á sama hátt og við sköpuðum eftirspurnina getum við dregið úr henni. Stjórnvöld og iðnrekendur heimsins munu aldrei koma með marktækar aðgerðir fyrr en eftirspurnin eftir þessu þarflausa prjáli sem heilaþvottur markaðsaflanna hefur logið inná okkur, minnkar verulega. Það er góðra gjalda vert að flokka og plokka og ágætis byrjun, en við verðum að komast fyrir rót vandans, ekki bara reyna að leysa afleiðingar hans.
En til hvers er sextugur velmegandi karl að láta sig þessi mál varða? Getur hann ekki gert eins og flestir aðrir og talið sér trú um að hans framlag verði alltaf svo lítið að það skipti ekki máli og bent á stjórnvöld til lausnar vandanum. Í raun er ástæðan einföld. Ég er hræddur. Ég er hræddur við að barnabörnin spyrji mig á næstu árum. „Afi, þykir þér ekkert vænt um mig?“ Þegar þau fara að ganga á mig og spyrja hvort ég hafi virkilega farið í tveggja til þriggja daga ferðir á fótboltaleiki erlendis eða í borgarferðir, hvort ég hafi keypt mér föt mánaðarlega og a.m.k. eina yfirhöfn á hverju ári og nýjan alklæðnað í hvert skipti sem ég fór á árshátíð, og hvort ég hafi átt snjósleða eða fjórhjól eða stóran jeppa til að leika mér á, þá fara sennilega að renna á mig tvær grímur. Og sennilega fjölgar grímunum þegar þau fara að spyrja um daglegar neysluvenjur. Hvort ég hafi keypt tannkrem í áltúpu og kassa, hvort ég hafi keypt kex í plasti, plastbakka og kassa að auki, hvort ég hafi keypt alls kyns vörur sem ég vissi að voru fluttar yfir hálfan hnöttinn og hvort ég hafi notað sjampó, hárnæringu og gel í hárið og farið í sturtu daglega. Þau eiga vísast líka eftir að spyrja mig hvort ég hafi alltaf verslað í stórmörkuðum, í IKEA og Rúmfatalagernum og ekki bara keypt hluti sem entust stutt heldur líka alltaf keypt meira en ég ætlaði. Og til að bíta höfuðið af skömminni eiga þau líka eftir að spyrja mig hvort ég hafi talið mér trú um að ég væri raunverulega umhverfissinni af því að ég flokkaði sorpið, keyrði ekki á nagladekkjum, gæfi notuð föt til Rauða krossins, styrkti Votlendissjóð og keypti kolefnisjöfnun þegar ég færi í flug!!
Ég tel líklegt að innan ekki margar ára verði lífsstíll minnar kynslóðar talinn einhver helsta aðför að lífi á jörðinni. Sóun okkar Vesturlandabúa er slík að ekkert getur réttlætt hana. En ef við aðeins sættum okkur við að með því að stíga skref til baka, segjum 20-30 ár, og leggja af þau ímynduðu og dýrkeyptu þægindi sem við höfum tamið okkur þá er von og reyndar okkar eina von. Hendum uppþvottavélinni, bönnum neyslu matvæla og drykkja á almannafæri, bönnum einnota bleyjur, fljúgum aldrei fyrir minna en viku stopp erlendis, sameinumst um að kaupa ekki buxur eitt árið og úlpur það næsta o.s.frv. Tökum ákvarðanir sem snerta hvert og eitt okkar. Aðeins þannig er von til að við vöknum og getum horft framaní barnabörnin okkar.
Höfundur er dundari.