„Kæru viðskiptavinir, vinsamlegast sýnið erlendum starfsmönnum okkar þolinmæði og velvild. Við vitum að þau leggja sig fram við að veita góða þjónustu.“ Mikið er það fallega gert af N1 og Olís og löngu orðið tímabært. Fólki hefur lengi vel verið gefið frjálst skotleyfi yfir því að vera pirrað og dónalegt varðandi fólk sem talar enga eða litla íslensku við komu til landsins. Að læra nýtt tungumál á fullorðinsárum er ekki auðvelt og hvað þá þegar þú mætir gagnrýni og dónaskap á meðan lærdómi stendur yfir?
Þegar ég flutti til Íslands fyrir tæplega 20 árum síðan voru tvær hindranir við að læra íslensku. Það fyrsta var ég sjálf. Ég hugsaði með mér að ég væri nú orðin svo gömul (27 ára!) og við ætluðum ekki að vera hér lengi, kannski tvö ár, þrjú í mesta lagi. Af hverju að leggja svona rosalega mikið á sig að læra þetta tungumál sem Íslendingar sjálfir segja að sé eitt erfiðasta tungumál í heimi til að læra? Ég vissi að ég myndi læra eitthvað og var fljót að ná orðum og einföldum setningum en sjálfstraustið við að tjá mig var lengur að koma. Og þá var það næsta hindrun, Íslendingar. Fyrirgefið en þetta verður að koma fram, þið getið oft á tíðum kennt sjálfum ykkur um að sum okkar eru lengi að læra íslensku.
Aldrei var vandamál hjá sjálfri mér að læra íslensku, ég var ekki hrædd við að segja eitthvað rangt, heldur vegna þess að fólk brást oft illa við og var dónalegt við mig þegar ég sagði eitthvað rangt eða um leið og fólk heyrði hreiminn skipti það yfir í að tala ófullkomna ensku við mig. Að auki vildi fólk oft deila því með mér hversu vel þau töluðu ensku, segja mér af hverju þau töluðu svona góða ensku eða jafnvel spyrja mig hvort ég þekkti Bob frá Alabama eða veitingastað í New York sem var svo geggjaður. Fólk átti það til að hlæja til dæmis að mér eða segja á hræðilegri ensku með óskiljanlegum hreim: “hvað varstu að reyna að segja? ég skildi þig ekki.“ Sem betur fer voru ekki allir svona og ég æfði mig vel og lengi með þeim sem sýndu mér þolinmæði og velvild.
Dæmi sem ég hef oft deilt með fólki er þegar ég þorði í fyrsta skipti að fara ein með strætó alla leið niður í bæ til að rölta um Reykjavík. Það þýddi að ég þurfti að skipta um vagn og fá skiptimiða. Eiginmaður minn, hann Garðar (það tók mig tæp 2 ár að læra að segja nafnið hans rétt og rúlla „R-ið“) kenndi mér að biðja kurteisislega um skiptimiða og skrifaði það niður á blað fyrir mig. Ég stóð ein í strætóskýli og æfði mig „vinsamlegast má ég fá skiptimiða… takk fyrir…vinsamlegast má ég fá skiptimiða…takk fyrir…“ Svo loksins kom strætó. Viðmótið sem ég fékk var fyrir neðan allar hellur. Um leið og hurðin opnaðist hreytti strætóbílstjórinn einhverju í mig, ég reyndi að opna munninn til að tjá mig en hann horfði á mig, ranghvolfdi augum og sagði „HVAÐ VILTU??“ Ég lokaði munninum og rétti honum blaðið sem ég var með til að æfa mig og peninga. Ég fékk skiptimiða, laumaðist aftur í vagninn, settist í sæti og dauðskammaðist mín fyrir að vera fullorðin, klár, sjálfstæð kona sem gat ekki einu sinni fengið fokking skiptimiða í strætó á Íslandi!
Ég náði að komast alla leið niður á Lækjartorg, eyddi deginum þar ein að rölta um og meira að segja náði að kaupa eitthvað smotterí. Mér leið vel. Svo var það önnur strætóferð heim aftur upp í Breiðholt. Ég tók aftur upp blaðið frá Garðari og æfði mig, ég var ákveðin að ég myndi ná þessu óháð þeim mótttökum sem ég fengi frá strætóbílstjóranum. Ég varð að gera þetta…fyrir mig. Strætó kom, hurðin opnaðist og þar sat kona sem bauð mér góðan daginn og meira að segja brosti til mín. Ég gleymi því aldrei. Blaðið fór aftur í vasann og ég fékk skiptimiða með því að spyrja. Viðmótið þann daginn skipti máli varðandi hversu vel það tókst að læra íslensku.
Spólum nú fram til ársins 2016. Nichole Leigh Mosty er sú fyrsta af fyrstu kynslóð kvenna af erlendum uppruna til að sitja sem varaforseti í forsetastól á Alþingi. Á ég að segja ykkur, ég var líka með blað þá þó ég kunni auðvitað að tala íslensku, en ég var að læra að tala hátíðlega og nota formsbundnar setningar þar sem hæstvirtu og háttvirtu fólki þurfti að vera sýnd sú virðing sem þau áttu skilið. Í hreinskilni sagt, hver man úr hvaða kjördæmi og í hvaða sæti allir 63 þingmenn voru? Núna var það ekki Garðar sem vann með mér í að undirbúa mig heldur voru það heimsklassa starfsmenn á Alþingi og forseti Alþingis sjálfur, Steingrímur J. Sigfússon. Þau sýndu mér þolinmæði og velvild. Ég var auðvitað stressuð, en það tókst! Ég gerði það, við innflytjendur gerðum það, við náðum að sýna hversu verðug við erum. Nema hvað, skilaboð sem biðu mín í tölvupósti þegar ég settist aftur í venjulegt þingsæti voru ekki falleg, sem dæmi „við viljum ekki að þú óhreinkir forsætisstólinn á þjóðþingi okkar!“ eða þessi hér sérlega fallega kveðja „NÚ ÞARF AÐ TALSETJA ALÞINGI! ÉG SKILDI EKKI ORÐ SEM ÞÚ SAGÐIR FRÚ MOSTY!“ Já það var allt skrifað í hástöfum.
Ég skal deila með ykkur hér smá leyndarmáli. Þegar ég felldi tár í ræðustól á Alþingi á eldhúsdeginum fyrir tveimur árum var það ekki vegna þess að ég var í svo miklu tilfinningalegu uppnámi yfir ræðunni minni, heldur var það vegna þess að ég var stressuð yfir íslenskunni. Það kom í ljós að ég var með eina setningu í ræðunni minni sem var nákvæmlega eins og setning sem var sögð af annarri þingkonu í mínu flokki í hennar ræðu. Ég var fullviss um að ég myndi fá gagnrýni fyrir að skrifa ekki mína eigin ræðu þó að ég gerði það. Ég var búin að lesa svo mörg skilaboð um íslenskuna mína og var svo oft tekin fyrir í virkum athugasemdum að meira að segja voru sumir í fjölmiðlum sem leituðu eftir því að ég myndi mismæla mig.
Ég skrifaði ræðuna mína af einlægni og var að reyna að þakka Íslendingum fyrir tækifæri sem ég fékk þó að það var vissulega erfitt á köflum. Ég sagði við samflokksmenn mína og starfsmenn þingflokksins að aðrir þingmenn myndu komast upp með það að hafa eins setning og annar þingmaður, en það yrði hellt yfir mig og ég myndi fá að heyra það vegna íslenskukunnáttu og bakgrunns. Þeim fannst ég vera aðeins að oftúlka þetta. En hér erum við að ræða um sama fólk sem töluðu af einlægni við mig um það að við ættum að hugsa hvort við í Bjartri Framtíð þyrftum að ritskoða allt sem ég myndi segja og skrifa og passa betur upp á íslenskuna mína. Við ákváðum að gera það ekki, ég mætti tjá mig frjálslega á samfélagsmiðlum og í viðtölum.
Þingmenn og starfsmenn þingsins sýndu mér alltaf þolinmæði og velvild, aldrei mætti ég pirring eða dónaskap vegna íslenskukunnáttu minnar og þar leið mér vel, innan veggja þingsins og þar lærði ég málfræði og helling af nýjum íslenskum orðum. Það voru virkir aðilar í athugasemdum bæði í fjölmiðlum og netsamskiptum sem voru dónalegir, sú fjarlægð gefur fólki skotleyfi.Sama má segja um fólk í þjónustustörfum. Myndi fólk áreita manneskju sem það væri viss um að hitta daglega eða myndi fólk frekar sýna þolinmæði og jafnvel aðstoða þau við að læra íslensku? Þá með því að tala hægt, leiðrétta á kurteisislegan hátt, jafnvel brúa bilið á milli tungumála með því að kenna þeim aðila sem er að glíma við að læra íslensku hvernig þýða á orðið yfir á íslensku. Til dæmis „gasoline is called bensín in Icelandic“ eða „má ég fá kaffi is may I have a coffee in Icelandic.“ Það hjálpaði mér mikið að fá orð að gjöf frekar en pirring frá fólki.
Þó að ég hafi náð mikilli framför og er oftast örugg við að tala og skrifa íslensku eftir 20 ára dvöl hér þá getið þið treyst því að ég er enn að læra, ritskoða, breyta og eyða færslum á samfélagsmiðlum vegna íslenskukunnáttu minnar. Ég leita ennþá til þeirra sem sýna mér þolinmæði og velvild við að læra íslensku og legg mig fram við að koma eins fram við þá sem eru nýbyrjaðir að læra.