Hannes Pétursson, höfuðskáld, spyr mig í grein í Fréttablaðinu (31.05.19), hvort ég sé genginn í lið með þeim, sem hann kallar „rúllubaggamenn“ þjóðrembunnar. Svarið við því er „nei“ en ég skulda skáldinu nánari skýringu á því, hvers vegna ég tel inngöngu í Evrópusambandið ekki fýsilegan kost að óbreyttu ástandi þar innan dyra. Eftirfarandi grein skýrir þessa skoðun mína að hluta til. Miklu ýtarlegri rökstuðning fyrir þessari afstöðu er að finna í væntanlegri bók minni, „Tæpitungulaust“á hausti komanda.
Á ráðstefnu Nordic-Baltic development forum í Riga fyrir fáum árum spunnust líflegar rökræður um kosti og galla sænska (norræna) módelsins annars vegar, og þjóðfélagsgerð hinna nýfrjálsu Eystrasaltsþjóða, sem einkennist af lágmarksríkisstjórn og lágum sköttum hins vegar. Göran Person, fyrrv forsætisráðherra Svía, hafði fyrr í umræðunni minnt áheyrendur á að Svíþjóð hafði verið lágskattaland með lágmarks ríkisstjórn allt fram að heimskreppunni miklu 1929. Það var markaðsbrestur fjármálakapitalisma, sem orsakaði kreppuna og breytti síðan stöðu mála.
Velferðarríkið og óvinir þess
Þar kom í umræðunni að þekktur, finnskur jafnaðarmaður stóð upp og spurði áheyrendur hvort þeir vissu, hvaða ríki væru efst á blaði yfir lágskattalönd. Svarið var að þar væru að finna „the failed states“ – hrunin ríki. Haítí væri efst á listanum. Á Haítí væru því sem næst engir skattar. Þar væri líka því sem næst engin menntun, engin heilsugæsla, fúnir innviðir og – ekki hvað síst – enginn hagvöxtur. Og engin von. Þetta skýrir hvers vegna skattar eru það verð sem við verðum að greiða fyrir að búa í siðmenntuðu samfélagi.
Kjarni ágreiningsins milli nýfrjálshyggjumanna og okkar hinna, sem aðhyllumst leiðir hins norræna velferðarríki, snýst um ólíkan skilning á hlutverki ríkisins við stjórn samfélagsins, þar á meðal til íhlutunar um markaði þegar þeir bregðast. Öfugt við Washington viskuna (annað orð yfir nýfrjálshyggjutrúboðið) sem ráðið hefur lögum og lofum um þjóðfélagsþróunina eftir fall kommúnismans, höfum við það fyrir satt að ríkisvaldið í lýðræðisríki sé ekki aðeins ábyrgðaraðili lýðræðis, réttarríkis og frelsis; án eftirlit ríkisins og athafna þess í nafni samfélagsábyrgðar geta fjármagnseigendur auðveldlega misbeitt valdi sínu, sjálfum sér til framdráttar og í blóra við almannahagsmuni. Af okkar skilningi er ríkið ekki andstæða markaðskerfis, heldur frumforsenda þess að unnt sé að búa við markaðskerfi. Þar sem ríkið er veikburða, þar sem virkt lýðræði þrífst ekki og valdhafar eru ráðríkir og spilltir, leiðir markaðskerfið brátt til auðræðis, eða í verstu tilvikum, til þjófræðis.
Þetta er sá lærdómur sem við getum dregið af fölskum fyrirheitum nýfrjálshyggjunnar. Þessir lærdómar hafa enn ekki náð að skila sér til þeirra sem með völdin fara í höfuðstöðvum heimskapitalismans í Washington DC né heldur í Berlaymont bákninu, sem hýsir Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins í Brussel. Við höfum svo sem upplifað allt þetta áður. T.d. á tímabili ræningja-barónanna í Bandaríkjunum um og eftir aldamótin 1900. Það var þegar Roosevelt BNA forseti hinni fyrri beitti ríkisvaldinu til að brjóta upp hvern ofurauðhringinn á fætur öðrum, í nafni almannahagsmuna. Það var þá sem Louis Brandeis hæstaréttardómari mælti hin fleygu orð sem vitnað var til í upphafi: „Við getum búið við lýðræði eða mikinn auð á fárra höndum – en við getum ekki haft hvort tveggja.“
Norræna módelið – fyrirmyndarþjóðfélagið
En við skulum ekki láta hugfallast þótt við ofurefli virðist við að etja. Gagnrýni nýfrjálshyggjunnar á velferðarríkið hefur reynst vera mestan part falsáróður án mikils innihalds í reynd. Reynslan sýnir að norræna módelið er eina þjóðfélagsgerðin, sem mótaðist í hugmyndafræðilegum átökum 20stu aldar, og hefur staðist dóm reynslunnar á öld hnattvæddrar samkeppni með yfirburðum.
Kommúnisminn er þegar huslaður á öskuhaugum sögunnar og óbeislaður kapítalismi undir formerkjum nýfrjálshyggjunnar hrekst nú úr einni kreppunni í aðra; og tórir einungis fyrir atbeina mesta björgunarleiðangurs í sögu ríkisins sem sagan kann frá að greina; og er þar um sinn í gjörgæslu.
Ef þú berð Norræna módelið saman við Amerískan kapítalisma er lítill vafi í hugum þeirra sem til þekkja um það hvor þjóðfélagsgerðin er fýsilegri. Þar tala staðreyndirnar sínu máli.
Leið Íslands út úr Hruninu
Ísland varð fyrsta fórnarlamb (kanarífuglinn í kolanámunni, munið þið?) bandarísku fjármálakreppunnar sem óhjákvæmilega smitaði út frá sér til Evrópu og umheimsins. Á Íslandi hrundu ekki bara einstakir bankar. Gervalt fjármálakerfið hrundi eins og spilaborg. Þetta var, ótrúlegt nokk, þriðja stærsta gjaldþrot fjármálasögunnar. Ekkert smá afrek þjóðar sem telur innan við hálfa milljón íbúa.
Hrunið hefur verið rækilega rannsakað af sérstakri rannsóknarnefnd sem sett var á laggirnar af Alþingi og skilaði skýrslu árið 2010 í níu bindum (3000 bls). Þar sem mörg önnur lönd fóru illa út úr þessari alþjóðlegu fjármálakreppu – ekki síst innan evrusvæðisins (EMU) – gæti verið lærdómsríkt fyrir aðra að kynna sér, hvers vegna Ísland rétti úr kútnum fyrr og betur en aðrar þjóðir.
Eystrasaltsþjóðirnar, svo dæmi sé tekið, urðu einnig fyrir alvarlegum áföllum. Það var hins vegar lán í óláni að bankakerfið var að mestu í eigu útlendinga. Þess vegna kom ekki til álita að krefja skattgreiðendur í þessum löndum um borgun fyrir skuldir fjármagnseigenda (eins og var gert t.d. við Grikki). Eigendur bankanna, með stuðningi ríkisstjórna heimalanda þeirra (aðallega Norðurlönd) og með atbeina Evrópusambandsins urðu að bera kostnaðinn af endurreisn bankanna og útlánagetu þeirra. Aðrar þjóðir á jaðri evrusamstarfsins voru ekki svo heppnar.
Sjö ástæður
Hvers vegna náði Ísland sér fyrr á strik og með meira afgerandi hætti en flestar aðrar? Að mínu mati voru helstu ástæðurnar þessar:
- Gengisfelling. Þetta er skjótvirk aðferð til að bæta samskeppnisstöðu útflutningsgreina og skera niður kaupmátt og lífskjör og laga þar með að snarminnkuðum þjóðartekjum. Gengisfellingin átti sinn hlut í því að snúa við langvarandi hallaviðskiptum við útlönd, sem var að nálgast heimsmet. Neikvæða hliðin á þessu er sú að bæði fyrirtæki og heimili voru fyrir mjög skuldug vegna lána í erlendum gjaldeyri. Vegna þess að gjaldmiðill er ónýtur var gripið til þess örþrifaráðs fyrir nokkrum áratugum síðan að vísitölubinda langtímaskuldir við verðlagsvísitölu. Þetta átti að vera skammtímaaðgerð til að kveða niður verðbólgu, örva sparnað og bjarga lífeyrissjóðum almennings frá því að fuðra upp á verðbólgubálinu. Kerfið er enn við lýði. Í staðinn fyrir gjaldmiðil nota Íslendingar þess vegna verðtryggða reiknieiningu í staðinn fyrir gjaldmiðil. Gengisfelling plús verðtrygging er því baneitraður kokteill fyrir skuldara. Þetta þýðir að fjármagnseigendur, sem áttu erlendan gjaldeyri (ósjaldan í skattaskjólum) græddu, en skuldarar (ekki síst yngsta kynslóðin) töpuðu. Þessu má líkja við náttúruhamfarir. Íslenskt þjóðfélag er ekki samt við sig síðan. Ójöfnuður fer hraðvaxandi. Samheldnin dvínar. Traustið er horfið.
- Neyðarlög. Alþingi setti lög til að tryggja innistæður sparifjáreigenda og forða áhlaupi á bankana. Jafnframt var sparifjáreigendum veittur forgangur meðal kröfuhafa á þrotabú bankanna (umfram hluthafa og skuldabréfaeigendur). Loks heimiluðu lögin ríkinu (fjármálaeftirlitinu) að yfirtaka þrotabú föllnu bankanna. Margir óttuðust að þessi löggjöf, byggð á neyðarrétti þjóðríkisins, stæðist ekki lög sem vernda hag fjármagnseigenda. Sá ótti reyndist ástæðulaus. Þetta er þýðingarmikið fordæmi fyrir aðrar þjóðir við svipaðar kringumstæður. Vegna þessa tókst þrotabúi landsbankans að endurgreiða sparifjáreigendum í útibúum erlendis lágmarkstryggingu skv reglum Evrópusambandsins, öfugt við þá goðsögn að íslenskir kjósendur hafi í þjóðaratkvæðisgreiðslu einfaldlega neitað að borga.
- Það var engin bankabjörgun – ekkert bail-out. Heila kerfið hrundi. Stóru bankarnir drógu meira að segja sparisjóði landsins niður með sér. Það var þess vegna ekki fræðilegur möguleiki að bjarga neinum bönkum (og alls ekki eftir að Gordon Brown setti Ísland á lista yfir hryðuverkaþjóðir. Við þessar kringumstæður hvarflaði ekki einu sinni að IMF að krefjast þess að ríkið (skattgreiðendur) greiddu skuldir þrotabúanna.
- Skuldir voru afskrifaðar í stórum stíl. Erlendir lánadrottnar (evrópskir en fyrst og fremst þýskir bankar) sáu sér ekki annað fært en að afskrifa skuldirnar í stórum stíl. Þeir seldu hins vegar kröfur sínar á þrotabúin á eftirmörkuðum - fyrir spottprís. Skiptabú þrotabúanna afskrifuðu skuldir innlendra fyrirtækja, þegar þau þóttu á vetur setjandi eftir skulda uppgjör. Heimilin fengu hins vegar takmarkaða fyrirgreiðslu, enda fjöldi fólks sem missti heimili sín og flúði land til að byrja nýtt líf (einkum til Noregs).
- Ísland í gjörgæslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF). Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setti snarlega á gjaldeyrishöft (capital control) til að fyrirbyggja fjárflótta. Þetta skipti sköpum. Það læsti inni fjármagn spákaupmanna, sem áður höfðu nýtt tækifærin til skjótfengins gróða vegna spákaupmennsku í tengslum við gjaldmiðils- og vaxtamun. Höftin áttu að vera skammtímaúrræði en stóðu í meira en sex ár. Það gerði ríkisstjórninni kleift að semja við kröfuhafa um niðurfellingu og skuldaskil undir hótun um að skella á ella ofurgróðaskatta („windfall gains taxes“). Bráðabirgðalán frá öðrum ríkjum Norðurlanda og Póllandi forðaði neyðarástandi frá byrjun. Þau lán eru nú endurgreidd.
- Ríkisskuldir. Þrátt fyrir mikla skuldaafskriftir varð íslenska ríkið (sem skuldaði lítið fyrir hrun) að taka á sig stórauknar skuldir, aðallega vegna endurfjármögnunar endurreistra banka og Seðlabankans, sem hafði orðið greiðsluþrota. Innlendar eignir (innistæður sparifjáreigenda og útistandandi lán til innlendra aðila) voru keyptar á afsláttarkjörum og færðar til nýju bankanna. Talsvert skortir á að gerð hafi verið grein fyrir þeim kjörum. Með þessum hætti komust hinir endurreistu bankar í ríkiseign. Einkavæðing bankanna í anda nýfrjálshyggju endaði því á fáum árum í allsherjar þjóðnýtingu bankakerfisins. Einn þessara banka Arion banki (fyrrum Kaupþing) telst nú að meirihluta til Amerískra vogunarsjóða, sem er ekki einasta háskalegt heldur að mati undirritaðs, ólöglegt.
- Á allra seinustu árum hefur sala eigna og arður af rekstri ríkisbankanna auðveldað ríkinu að greiða niður skuldir. Þess má geta að á tíma vinstristjórnarinnar sem fékk það hlutverk að moka flórinn eftir frjálshyggjutilraunina (2009-2013) varð skattkerfið gert stighækkandi auk þess sem reynt var að hamla gegn niðurskurði ríkisútgjalda ef það er borið saman við ráðandi harmkvæla pólitík (austerity) á evrusvæðinu. Rannsóknir sýna að það dró ögn úr ójöfnuði á sama tíma og kreppan náði hámarki (sjá Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson: Inequality in Iceland – Háskólaútgáfan 2017).
Þessu til viðbótar var svo hrein heppni:
- Fyrir áhrif loftslagsbreytinga uppgötvuðu Íslendingar nýja nytjastofna, t.d. makríl innan fiskveiðilögsögunnar, sem jók útflutningstekjur myndarlega og bætti gjaldeyrisstöðuna svo um munaði.
- Ferðamannabyltingin. Fjölgun erlendra ferðamanna á Íslandi hefur hreint út sagt verið byltingarkennd, fjöldi ferðamanna hefur sjöfaldast á fáeinum árum. Nú er svo komið að ferðamenn skila fleiri krónum í þjóðarbúskapinn en fiskurinn. Þetta hefur kallað á hvort tveggja aukna fjárfestingu og fjölgun starfa svo um munar. Atvinnuleysi er horfið. Innstreymi erlends verkafólks bjargar því sem bjargað verður.
- EFTA dómstóllinn sýknaði Ísland. Ríkisstjórnir Bretlands og Hollands (með stuðningi ESB) stefndu Íslandi fyrir EFTA dómstólinn fyrir brot á EES samningnum. Niðurstaða dómstólsins var sú að það væri engin ríkisábyrgð á tryggingarsjóði innistæðueigenda sem á að standa skil á lágmarkstryggingu sparifjáreigenda, skv Evrópusambandsreglum. Sú staðreynd að íslenska ríkisstjórnin ábyrgðist innistæður sparifjáreigenda í íslenskum bönkum og útibúum þeirra á Íslandi (en ekki í útlöndum) var ekki talin brotleg við grundvallarreglu Evrópusambandsins gegn þjóðernismismunun.
Staðreyndir
Samkvæmt skoðanakönnunum sem teknar voru í kjölfar hruns var meirihluti kjósenda þeirrar skoðunar að Ísland þyrfti að leita skjóls með aðild að Evrópusambandinu og upptöku evrunnar. Þessi staða er nú gerbreytt. Í ljósi reynslunnar af því hvernig pólitísk forysta Evrópusambandsins (Þýskaland) hefur beitt valdi sínu gagnvart veikari hagkerfum á jaðarsvæðum sambandsins telur meirihluti kjósenda nú, einnig skv skoðanakönnunum, að hag Íslands sé betur borgið utan heldur en innan sambandsins. Meginástæðurnar eru innbyggðir skipulagsgallar evrusamstarfsins og hörmulegar afleiðingar þeirrar harmkvælapólitíkur (austerity), sem leitt hefur til stöðnunar, fjölda atvinnuleysis, og stóraukinnar skuldsetningar jaðarríkja sambandsins. Staðreyndirnar benda til þess að þetta sé rétt mat.
Höfundur er fyrrverandi utanríkisráðherra.