Hjóla-borgarinn vaknar. Klæðir sig venjulega. Hann hjólar því það rignir ekki. Hann geymir hjólið sitt úti. Það er læst með skítalás. Hann hjólar ekki með hjálm og ekki í sérstöku vesti.
Hann rennur sér niður brekkur. Hjólar á jafnsléttu og reiðir hjólið upp stærri hæðir. Hann lítur ekki á hjólreiðar sem líkamsrækt heldur sem einskonar leið til að labba með aðeins minni áreynslu. Hann fer ekki í sturtu eftir hverja hjólaferð.
Hann skilur hjólið sitt eftir á ýmsum stöðum. Hjólunum hans er stundum stolið. Hann hjólar lítið á veturna. Hann á ekki ljós.
Hjólastríðsmaðurinn
Hjólastríðsmaðurinn vaknar. Hann ætlar í vinnuna. Hann fer í hjóla-herbúning, buxur, jakka, og sérstakt vesti til að allir sjái hann. Hann setur á sig hjálm.
Hann fer í lyftuna og ýtir á -1. Hann er á leið í kjallarann, í vopnabúðið, þar sem stríðstólið sjálft er geymt. Á veturnar notar hann nagla. Á sumrin er hann á götuhjóli á örmjóum dekkjum.
Hann vopnar hjólið með sérstöku GPS-tæki, tengdu við snjallsíma og hágæða myndavél. Það verður að vera hægt að mynda átökin.
Hann hjólar. Sem mest á götunni. Hratt. Hann er meðvitaður um rétt sinn og gefur ekki eftir. Hann fer langt og lengir leiðina suma daga vikunnar. Þegar hann kemur til vinnu fer hann í sturtu. Því hann er sveittur. Eftir átökin.
Það má vera alls konar
Það er til allskonar fólk og ég er ekki að halda því fram að það sé meira töff að hjóla á einn veg eða annan. Ég stunda sjálfur hlaup. Hlauparar eru eins konar “göngu-stríðsmenn”: Við klæðum okkur í sérstök föt, sérstaka skó, með göddum á veturna og án þeirra á sumrin. Við klæðum í sjálflýsandi vesti. Ef það er myrkur þá hlaupum við með lugt á enninu og við skráum hlaupaátökin í sérstöku forriti með hjálp sérstaks úrs.
Ef við förum langt þá tökum við með sérstakan hlaupabakpoka þar sem við geymum vatn, mat, aukaföt og annað sem stríðsmenn þurfa að hafa.
En þótt ég sjálfur stunda það að fara um á tveimur jafnfljótum, hlaðinn aukabúnaði, þá dettur mér ekki í hug að það væri gott að lögfesta stóran hluta af honum eða jafnvel að líta á það sem markmið í sjálfu sér að sem flestir noti allan þennan aukabúnað.
Óþarfi að þröngva öllum í herklæðin
Kannski væri þægilegra fyrir ökumenn ef allir gangandi væru með höfuðljós. En ef við myndum gera það að glæp að ganga án höfuðljósa þá myndi fólk síður labba. Við viljum ekki gera það flóknara að labba. Það er gott að fólk labbi.
Borgir eiga að geta rúmað alls konar hjólandi og alls konar labbandi fólk. Það á ekki að banna fólki að hjóla á göngustígum. En það á heldur ekki að ýta öllum út í það að vera hjólastríðsmenn. Ítarlegar reglur um hjálmaskyldu, klæðnað eða annan búnað sem gangandi og hjólandi þurfa vera með á sér gera það flóknara að labba og hjóla. Á endanum ýta þær öllum inn í bílana, þar sem allur öryggisbúnaðurinn fylgir með, og enginn þarf að pæla í neinu.