Börnum er kennt frá unga aldri að meta stærð sem ákveðið gildi. Við brosum framan í krílin okkar og segjum brosandi: „Hvað ertu stór!?“ og þau rétta upp litlu hendurnar sínar og teygja sig til himins til að gera okkur til hæfis. Það er erfitt að vera lítill og þurfa að standa á tám til að ná í hluti sem aðrir nálgast án allra vandræða. Það er erfitt að halda í við stór skref fullorðinna þegar fæturnir eru litlir. Það getur verið erfitt að halda á hlutum sem er ekki gerðir fyrir svona litla fingur. Börn klifra klaufalega og með erfiði upp á stóla, inn í bíla, upp stiga og treysta á stóra fólkið til að leiða þau á milli staða. Það er erfitt að ná ekki í hurðarhúninn, upp á salernið og sjá ekki út um gluggann. Það er erfitt að vera lítill og upp á aðra kominn. Í sambandi barns við fullorðna er alltaf valdaójafnvægi. Við erum stærri og við höfum reynsluna. Við kunnum á heiminn og þau læra á hann af okkur. Allt sem börn læra um heiminn og lífið og allt annað kemur frá okkur. Við getum tekið barn, sem smæðar sinnar vegna er algjörlega á okkar valdi, og kastað því upp í loft því okkur finnst það skemmtilegt. Við getum sagt barni að setjast niður þegar það vill ekki setjast niður. Við getum sagt barni að skila leikfangi sem það vill leika sér með, sagt barni að kyssa annan fullorðinn sem því líður illa í kringum, látið barn hætta að hlaupa eða gera það sem okkur finnst sæmilegt að barn geri þá stundina. Stundum reyna þau að berjast á móti og sýna sjálfstæði áður en þau skilja að það þýðir ekki og þau gefast upp. Við erum nefnilega stór og við ráðum. Við kennum börnunum okkar að bera óttablandna virðingu fyrir valdi í öllu sem við gerum. Þeir sem eru eldri og sterkari geta misnotað vald sitt til að sýna vanþóknun sína, beitt ofbeldi eða hótunum til að fá sínu fram og krefjast hlýðni. Við kennum börnum að það er gott að vera stór. Hvað getum við gert til að jafna stöðuna og styrkja þau? Við sýnum þeim virðingu. Við mætum þeim með skilningi, við hlustum og við bregðumst við. Það er skylda okkar sem fullorðnir einstaklingar að bregðast við þar sem þau hafa ekki aldur eða þroska til að gera það sjálf. Hvernig vitum við hvenær þarf að bregðast við? Við hlustum. Hvað gerum við þegar við höfum hlustað? Við bregðumst við.
Íslenska ríkið lögfesti Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna árið 2013 og þar með varð það lagaleg skylda okkar að uppfylla þau skilyrði sem sáttmálinn inniheldur. Samkvæmt 6. grein Barnasáttmálans eiga börn rétt til lífs og þroska og það eru ekki bara vinsamleg tilmæli; það eru lög. Þroski í samhengi Barnasáttmálans nær yfir andlegan, líkamlegan, siðferðislegan, tilfinningalegan, sálfræðilegan og félagslegan þroska barna. Það er í lögum að við gætum þess að börn fái tækifæri til að dafna án ofbeldis. Í 12. grein sáttmálans segir enn fremur að börn hafi rétt til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif og að tekið skuli réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Okkur ber að hlusta. Af hverju erum við ekki að hlusta?
Ofbeldi gegn börnum er ógeðslegt. Það er líka óþægilegt og erfitt. Það er erfitt að tala um að fólk beiti börn, þessar litlu manneskjur sem þurfa á okkur að halda, ofbeldi. Ofbeldi er hinsvegar ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi. Þetta sýna nýjar rannsóknir svart á hvítu og tölfræðin er hrottaleg. 16,4% barna á Íslandi hafa orðið fyrir líkamlegu og/eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdaginn sinn (Rannsókn og greining, 2019). Þetta er fyrir utan vanrækslu, andlegt ofbeldi, rafrænt ofbeldi og einelti. Þær tilfinningar sem börn upplifa oftast eftir að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hendi fullorðins einstaklings samkvæmt Stígamótum eru til dæmis; skömm, kvíði, depurð, léleg sjálfsmynd og sektarkennd. Á Íslandi búa í kringum 80.000 börn, af þeim hafa 13.000 börn orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi. Þrettánþúsund! Við fullorðna fólkið bregðumst of sjaldan við þegar við sjáum, heyrum eða grunar að barn sé beitt ofbeldi. Oft er það af því að við vitum hreinlega ekki hvernig við eigum að bregðast við eða hvert við eigum að leita og erum hrædd um að gera mistök. Þegar við bregðumst ekki við þá erum við að taka ákvörðun um að leyfa barninu ekki að njóta vafans, það að neita að taka afstöðu er afstaða. Þegar barn hefur loksins fundið kjarkinn til að leita til fullorðins og þorir að segja frá ofbeldi sem það var beitt þá er það skylda okkar að bregðast við. Við eigum að taka ábyrgðina af herðum barnsins og gera viðeigandi ráðstafanir til að vernda barnið gegn hverskyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða kynferðislegri misnotkun. Skv. 19. grein Barnasáttmálans ber okkur skylda til að greina, tilkynna, vísa áfram, rannsaka, taka til meðferðar og fylgjast með tilfellum þar sem barn hefur sætt illri meðferð. Það tekur barn oft margar tilraunir að greina frá ofbeldi, oft hefur það reynt að segja frá án orða. Að hugsa sér að treysta einhverjum fyrir þessum stóra hlut, einhverjum sem er í valdastöðu gagnvart barninu, einhverjum sem hefur vald yfir barninu einungis sökum aldurs. Hugsum okkur svo að sá einstaklingur sem barnið velur að treysta bregðist ekki við, eða velji að trúa ekki orðum barnsins. Það er aðeins til að ala á og styrkja enn frekar þær neikvæðu tilfinningar sem barnið er að öllum líkindum nú þegar að glíma við. Kennarar eru í þannig starfi og vinna það náið með börnum að þeir verða oft fyrir valinu þegar börn velja sér einhvern til að segja frá. Ég get rétt ímyndað mér hversu erfiðar aðstæður það eru og þá sérstaklega ef börnin saka annan kennara um ofbeldi. Rétt eins og þegar þau segja fjölskyldumeðlim frá ofbeldi af hendi annars fjölskyldumeðlims. Það þekkist vel að slík mál hafa sundrað fjölskyldum. Þetta er erfitt og óþægilegt og stundum freistar líklega að láta eins og upplýsingarnar hafi ekki komið fram og sópa öllu undir teppið. Þá er mikilvægt að muna að fyrir barn sem orðið hefur fyrir ofbeldi, sem hefur lent í því að svo gróflega hefur verið brotið á réttindum þess, er það að segja frá eitt það erfiðasta sem þau gera. Við verðum að vera tilbúin að hlusta. Við þurfum að skapa umhverfi fyrir börn þar sem þau upplifa sig örugg að segja frá, þar sem þau vita að við hlustum á þau og trúum þeim. Við megum ekki skapa umhverfi þar sem börn segja ekki frá af ótta við afleiðingarnar og taka neikvæðu tilfinningar með sér inn í unglingsárin og síðar fullorðinsárin, ef þau lifa svo lengi. Við megum ekki bregðast trausti þeirra og senda þau skilaboð út í samfélagið að við stóra fólkið stöndum saman, af því að börn eru neðst í valdapýramídanum. Við eigum alltaf að taka slaginn, fyrir öll börn, alltaf.
Höfundur er verkefnastjóri Barnvæns Sveitarfélags.