Ég skil það svo, að Einar Helgason hafi hvorki heyrt viðtal við mig á Útvarpi Sögu um orkupakka 3, né heldur lesið grein eftir mig hér á Kjarnanum, þar sem ég lýsi því í stórum dráttum, hvað gangi að Evrópusambandinu (og sérstaklega evrusvæðinu) að mínu mati. Þar setti ég einnig fram tillögur um lausnir, sem ég hef líka gert á erlendum vettvangi (Social Europe). Það er öndvert að rökræða við mann, ef sá hinn sami les hvorki röksemdafærslu gagnaðilans, né hlustar á hann.
Ég lýsi stundum sjálfum mér á þá leið, að ég sé hugsjónamaður (lýðræðisjafnaðarmaður og Evrópusinni) en aldrei draumóramaður. Ég tel mig vera raunsæismann í pólitík og tel, að pólitískur ferill minn standi undir þeirri lýsingu. Dæmin um, að hugsjónamenn gerist draumóraglópar - trúi á hugsjónina í blindni en loki augunum fyrir veruleikanum - eru sorglega mörg. Kommúnismi er göfug hugsjón - afnám arðráns manns á manni. En hversu margir voru ekki hugsjónaglóparnir, sem héldu áfram að trúa í blindni, eftir að framkvæmdin hafði snúist upp í andhverfu sína, lögregluríki með öllum sínum þrælabúðum?
Þetta útskýri ég nánar í grein minni hér á Kjarnanum: „Hvað gengur að Evrópu: og hvers vegna kippið þið því ekki í liðinn?" Í fyrri grein á sama vettvangi: „Leið Íslands út úr Hruninu", færi ég rök fyrir því, hvers vegna Ísland kom fyrr og betur út úr Hruninu en mörg aðildarríki evrusamstarfsins. Og mun betur, í ljósi þess samanburðar, en ef við hefðum verið fullgildir aðilar að evrusamstarfinu og sætt sömu meðferð og þau aðildarríki þess, sem harðast urðu úti í Hruninu. Ég ræði hvort tveggja út frá staðreyndum, ekki út frá blindri trú.
En hef ég þar með snúið baki við Evrópuhugsjóninni? Því fer fjarri. Ég á mörg skoðanasystkini innan Evrópusambandsins, sem gera sér grein fyrir því, að evrusasmstarfið er í tilvistarkreppu; að það þarf að hrinda fram róttækum umbótum á því samstarfi, ef það á að þjóna hagsmunum almennings - en ekki bara hagsmunum fámennrar elítu fjármagnseigenda. Það er ekki öll von úti enn um að það megi takast. En það mun ekki gerast með óbreyttri pólitík. Einar ætti að hafa í huga, að til skamms tíma voru allar ríkisstjórnir Evrópusambandsins - utan þrjár - hægrisinnaðar nýfrjálshyggjustjórnir. Ég á litla samleið með því liði yfirleitt. Hagsmunum almennings verður seint borgið í þeirra höndum.
Ég er sammála Einari um það sem hann segir um spillinguna í okkar eigin ranni. Við þurfum lífsnauðsynlega að losa okkar fólk úr viðjum skuldafangelsis, sem felst í gengisfelldum og verðtryggðum gjaldmiðli með ofurvöxtum í kaupbæti. En reynslan sýnir, því miður, að evran er ekki sú patentlausn, sem margir gerðu sér vonir um. Þvert á móti, það hefur komið á daginn, að fastgengi evrunnar (sem er miðað við þýska útflutningshagsmuni) veldur fjöldaatvinnuleysi í hinum veikari aðildarríkjum. Ekki viljum við það.
P.s. Einar talar illa um aðstandendur og hlustendur Útvarps Sögu. Það er helst á honum að skilja, að það sé vítavert að tala við svoleiðis fólk. Ég hef tamið mér á mínum stjórnmálaferli að fara ekki í manngreinarálit af þessu tagi. Ég hef lært það af langri reynslu, að það er fullt af góðu fólki í öllum flokkum. Líka hitt, að það væri vandlifað á Íslandi, ef bara mætti tala við vammi firrta fjölmiðla.