Þrátt fyrir almenna velmegun, þá reynist það mörgum börnum og fjölskyldum þeirra erfitt að fóta sig í hinum flókna og hraða veruleika nútímans. Umhverfið getur verið óvægið, streituvaldandi og jafnvel stjórnlaust. Afleiðingarnar? Andleg veikindi, vanlíðan og ójafnvægi í fjölskyldunni. Góðu fréttirnar eru þær að fleiri eru orðnir meðvitaðir um hversu mikilvæg andleg heilsa er og að það er hjálp að fá. Vandinn er að hjálpin er ekki nægilega aðgengileg og úrræðin eru of fá. Því ætlum við að breyta – saman.
Vilji Alþingis
Alþingi samþykkti á dögunum tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar til fjögurra ára. Henni er ætlað að efla grunnvinnslu barnaverndarmála á fyrstu stigum, stuðla að snemmtækri íhlutun, auka samvinnu ríkis og sveitarfélaga og fjölga gagnreyndum úrræðum. Gert er ráð fyrir 600 milljón króna fjáraukningu til þess að byggja upp og þróa úrræði og þjónustu í málaflokknum.
Tíminn er óvinurinn
Stór hluti barna og unglinga sem eiga við vanlíðan eða geðröskun að stríða fá oft ekki viðeigandi aðstoð tímanlega. Hið sama gildir um aðra fjölskyldumeðlimi, en andleg veikindi og vanlíðan getur skapað afleiddan alvarlegan vanda fyrir aðra fjölskyldumeðlimi, og jafnvel svo alvarlegan að fjölskyldan leysist upp. Ástæða þess að börn fá ekki aðstoð tímanlega við sínum vanda, er að þau eða foreldrar þeirra, leita ekki eftir aðstoð þar sem vöntun er á úrræðum og biðin eftir þjónustu er oft löng. Einnig er aðkallandi að meiri samfella og samtenging sé á milli opinberra þjónustuaðila.
Samvinna færir fjöll
Í vetur hefur staðið yfir umfangsmikil samvinna þvert á ráðuneyti og við þverpólitíska þingmannanefnd í málefnum barna. Auk þess hafa yfir hundrað einstaklingar verið virkir þátttakendur í hliðarhópum þingmannanefndarinnar. Er þar um að ræða sérfræðinga, fulltrúa stofnana, sveitarfélaga, hjálparsamtaka og notenda kerfisins en með þátttöku þeirra hefur skapast dýrmætur samráðs- og samstarfsvettvangur um málefni barna. Hliðarhóparnir hafa fjallað um forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir, samtal þjónustukerfa, skipulag og skilvirkni úrræða og börn í sérstaklega viðkvæmri stöðu svo dæmi séu nefnd. Á þessum samstarfsvettvangi hefur farið fram mikilvægt samtal í þágu barna og mun afraksturinn nýtast stýrihópi Stjórnarráðsins í málefnum barna við að móta aðgerðaráætlun þvert á ráðuneyti um hvaða lögum þurfi að breyta og hvaða skref þurfi að stíga þegar kemur að kerfisbreytingum í þágu fjölskyldna og barna.
Með viljann að vopni og samvinnu að leiðarljósi, er hægt að færa fjöll. Það ætlum við að gera í málefnum barna og ungmenna.
Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.