Innblásturinn fyrir þessari grein er löng saga um ósamræmið um allt sem mér var sagt um kynlíf og synd þess. Og svo það að upplifa og vitna að konur voru séðar sem lægsta tegund mannveru fyrir kynlíf ef ógiftar manninum á þeim tíma sem kynlíf fór fram, og enn meira ef það var ekki tilvonandi eiginmaður. Og við erum að sjá það viðhorf enn þann dag í dag. En karlar fengu samt enga slíka sleggjudóma eins og það sem þeir hefðu átt að fá ef konur áttu að fá titillinn hóra, áttu þeir að fá jafnháa sleggjudóma sem hórkarlar.
Pandóruboxið opnaðist svo um sannleikann um kynlífið sem fjölmiðlar fræddu mig um eftir að hafa verið haldið í vanþekkingu, af því að það hentaði stjórnvöldum og kennurum á þeim tíma að sleppa þeim kafla í heilsufræðinni. Það var áberandi mjög vanhugsað viðhorf.
Svo það að vakna til þess að skilja fyllilega hvernig hormónakerfið virkar í ráðríki sínu í líkamanum, tók mig svo í annan heim. Heim veruleikans gegn lygum sem var haldið að okkur um aldir til að þjóna karlveldinu og yfirvöldum.
Það að muna hvað hefðbundin trúarbrögð voru vanhæf í þeim efnum að tala um það kerfi líkamans, sem var séð sem synd á einn veg, en sem hetjudáð á hinn veginn þegar um karlmanninn og dreifingar hans á sæði sínu var að ræða. Fulltrúar trúarbragða gáfu enga innsýn, fræðslu eða leiðbeiningu í veruleika þess kerfis, né hvernig hugleiðsla gæti hjálpað við að vera við stjórn á því.
Kerfi sem er í upphafi og alla ævi í sumum körlum og auðvitað líka í sumum konum sem elska meðgöngu og það sem henni fylgir, en ekki endilega alltaf því sem fylgir þegar barnið kemur í heiminn af því að það kerfi er hið óbeislaðasta kerfi af öllum í líkamanum og kemur síðast í gang af öllu í líkamanum. Og við sjáum það í fréttum á hverjum degi nú á tímum að viss hluti karlkyns er ófær um að beisla það kerfi í sér. En kenna svo konum oft um stjórnleysi sitt.
Á einn veg hentaði kirkjunni að fá fleiri sóknarbörn í söfnuðinn með að börn fæddust tillitslaust við hvort það var í hjónabandi eða ekki, en hjónabandið séð sem eitthvað sem ætti að læsa alla inn í, burtséð frá hvort þeir tveir einstaklingar gætu í raun átt saman.
Á hinn veginn hentaði það þeim að henda konum í hina huglægu ruslakörfu fyrir ódannaða hegðun að hafa kynmök og njóta þeirra og að sæði hafði náð að hitta egg þegar engar getnaðarvarnir voru til.
Það var engin fræðsla um mikilvægi ábyrgðar eða mikilvægi þess að þetta kerfi væri ráðríkara en nokkurt annað kerfi í líkamanum, og að það væri mikilvægt að læra að stýra því sem best fyrir sjálfan sig.
Tilfinningabæling hjá körlum um aldir er hugsanlega fíllinn í rýminu
En fíllinn í rýminu hér er að minni reynslu og mati skortur á tali um bælingu tilfinninga og afleiðingar þeirrar bælingar.
Allar mannverur fæðast með allt litróf tilfinninga þó að þær geti ekki tjáð það með orðum frá byrjun. Af einhverjum ástæðum urðu þau viðhorf til fyrir löngu síðan um að það sæmdi drengjum ekki að tjá sig um, né lifa út allt litróf tilfinninga sinna á heildrænan og heilbrigðan hátt, hvað þá sýna tár.
Tregðan og vanhæfni aðila trúarbragða voru mjög ráðandi um þessa hluti þá. Skipunum um að karlar ættu að bæla allar tilfinningar, og konur í raun líka var haldið rækilega að þjóðinni, en án umræðu. Eins og sást eins og til dæmis í grein sem birtist þann 21. júli 2019 um Einelti á elliheimilum.
Það var ekki fyrr en allir þessir fjölmiðlar komu til sögunnar og fólk fór að vera galopið um svo margt um kynlíf sitt án þess að finna til smánar og sektar um það að þessi hlutir eru að smá færast í heilbrigðara viðhorf þó að ástandið um þau mál hafi því miður líka dökkar hliðar eins og sést með allar fréttirnar um misnotkun af öllu mögulegu tagi af körlum í valdastöðum víða um heiminn.
Kannski var það gert út frá þörfum og kröfum of ráðríkra karla með meira magn af hormónum en var mannúðlega vinalegt, og það til að hafa völd, fara í stríð, ráða og svo að kúga konur. Við sjáum dæmi um þrá til þess enn þann dag í dag hjá ýmsum ráðamönnum heims. Svo að breytingar hafa ekki orðið eins jákvæðar og við höfum vonað. Ofan á það voru karlar að telja konum trú um að þær væru lægri í mannlega stiganum en þeir, og við erum því miður enn að vitna að sumir karlar telji að sé.
Hræðslan við hina fínni þræði tilfinninga
En ég efast um að þeir sem stýrðu þeim bælingarkröfum hafi nokkurn tíma hugsað um tilfinningalegan og mannlegan heimskostnað þess til lengdar. Þeir í þá daga hafa trúlega verið svo fullir af karlhormónum og því sem það setti í gang í þeim, að það álit gerst að það væri skemmtilegra og betra að sjá um að næmni og fínni tilfinningar fengju ekki að rísa upp, af því að þær grófu væru áhugaverðari. Vegna þess að það að vera í sambandi við þær fíngerðari og fágaðri myndi skemma þann tilgang sem þeir sáu sem mikilvægan. Þann að ráða.
Tilgang sem hefur ollið drápum af ótal ástæðum af stórum hópum og frá allskonar sjónarhólum. Því að það að vilja ráða yfir heilabúum heilla þjóða frá sjónarhóli trúarbragða, og fyrir karla að þurfa ekki að fá afleiðingar gerða sinna framan í sig, varð þöggunarkrafa að fylgja. Það að hafa föður sem predikar um synd kynlífs til dætra sinna, en fer svo beint út til að halda framhjá eiginkonunni með öðrum konum er dæmi um hámark hræsninnar.
Auðvitað hafa verið til karlmenn sem tjá tilfinningar sínar á heilbrigðan hátt og svo aðrir á einn veg eða annan í gegnum málverk og aðrar listir í stað tjáskipta við fólkið í kringum sig, um leið og þeir notuðu konur eins og þær væru annars flokks verur og leikföng. Picasso var einn af þeim sem var frægur fyrir það.
Það sem Kiljan sagði um að þó náttúran sé lamin með lurk þá leiti hún út um síðir
Þetta á svo sannarlega við um afleiðingar bælingar á tilfinningum sem trúlega er að einhverju leyti öðruvísi í kerfum karlkyns en kvenkyns.
Það er því að ansi auðvelt að sjá að það geti hugsanlega verið bein tenging á milli þessara margra alda krafna yfirvalda heims, og þá um leið samfélaga og foreldra um bælingu tilfinninga til karlmanna. Það að það væri ekki „karlmannlegt“ að sýna og birta sínar fíngerðu tilfinningar. Svo að útkoman yrði sú að þeir gætu ekki séð neina aðra leið til að „upplifa að finna fyrir unaði“ nema í gegn um það kerfi sem kemur síðast í gang í líkamanum og er getnaðar-færa-kerfið, það eina sem hlýðir ekki sleggjumeðferð til bælingar. „Og leitar út um síðir.“
Það kerfi er oft ansi krefjandi, og um leið hávært kerfi sem heilabú sumra sjá að verði að fá útrás í gegn um kynmök og/eða einnig oft líka ofbeldi í því kynlífi. Það gerist svo án hugsunar og þá auðvitað án umferðarreglna né tillitssemi til þess sem þeir telja sig verða að fá útrás á.
Það að þetta getnaðar-færa-kerfi er ekki líffræðilega ráðstafað af sköpun til að vera sett í neina beina tengingu við rökhyggju eða skynsemi í upphafi hefur ollið miklum vandræðum í heiminum.
Afleiðingar afneitunar og vanþekkingar á tilfinningum og getnaðar-færa-kerfum
Guðfræðin hefur aldrei frætt heiminn á neinn gagnlegan eða raunsæjan hátt – svo að ég viti – um tilgang tilfinninga eða kynlíf, og skólar slepptu þeim köflum af því að það var eitthvað óþægilegt fyrir kennara að opna munninn um það vegna hinnar djúpu skammar sem var um þau líffæri á þeim tímum; líffærum sem tengjast tilfinningum mjög mikið. Það var fötlun sem hefur kostað mannkyn marga erfiðleika.
Hinsvegar hefur einn af guðspekingum heims skrifað um þær og mikilvægi þeirra í bókum sínum og er það Alice B. Bailey.
Ég heyrði aldrei hugtakið „tilfinningalegar gáfur“ fyrr en eftir að ég kom hingað til Ástralíu og þegar bókin EI (emotional intelligence) kom út. Samt fannst mér innihaldið ekki segja nærri nóg um þau atriði.
Það vekur þó nokkra athygli, meðvitund og vilja til að upplifa og skilja allar tilfinningar sínar og finna rétt orð fyrir þær og er enn meiri vinna að gera þegar langtímabæling hefur verið í gangi á þeim. Ofuráhersla á rökhyggju getur byggt innri veggi gegn dýpri tengingum við innri mann og litróf tilfinninganna. Og það þá líklega skapað afskræmingu í tjáningu og hegðun af því að auðvitað eru tilfinningarnar þarna inni, og allskonar hugsanir með.
Það sorglega er að ofuráhersla á rökhyggju gerir mannverur meira eins og of hlýðin vélmenni við ísköld kerfi samfélaga og ríkisstjórna. Frekar en að styðja einstaklinga til að vera virkilega lifandi mannverur með allt litrófið um tilfinningar sínar til réttrar notkunar í samskiptum og hafa hjörtun opin. Það að mörgum konum hafi einnig verið innprentað að láta engan sjá sig tárfella á almannafæri er jafn slæmt og óhollt fyrir samfélagið.
Þegar sorinn á dýpsta stigi kemur í fjölmiðla
Það sorglega er trúlega að allt það sjúklega sem við höfum lært á undanförnum árum frá öllum þessum nýju fjölmiðlum sem hafa virkilega lyft hlutum sem hafa verið í felum, og verið sópaðir undir teppin um aldir eins og að nota ungabörn til kynferðislegrar fróunar. Það sýnir og sannar hversu lágt sumir einstaklingar leggjast til að fróa kynþörfum sínum og er það svo ógeðfellt að hugleiða, að það er erfitt að finna rétt orð um það.
Kannski telur mannkyn að þetta sé eitthvað nýtt en ég hef lesið bók þar sem kona, sem er núna um sjötugt eða eldri, segir frá að hafa verið kynferðislega misnotuð þegar hún var ungabarn, og ekki bara af föður og foreldrum heldur allri ættinni.
Þetta var nokkrum áratugum áður en tölvur komu til sögunnar, og það tók hana áratugi að reyna að fá einhvern til að hlusta á sig, hvað þá trúa því sem hún hafði upplifað. Meðferð öll þessi ár sem lét heilabúið í henni neyðast til hólfa sig í að verða níu persónuleika. Hún kom fram í þætti Oprah Winfrey fyrir mörgum árum síðan þar sem hún sagði sögu sína. Og ég keypti svo bókina hennar sem heitir Fragmented.
Hvaða sálfræðilega ástand lætur einstaklinga einu sinni fá slíka hugmynd, hvað þá að öll ættin og þá bæði kynin geri það á barni, og taki það svo til fleiri aðila til að gefa aðgang að barninu til þess sama? Ég vona að einhver eigi eftir að fræða heiminn um ástæður og réttlætingu hjá slíkum einstaklingum til að iðka og fremja slíka ólýsanlega glæpi, en slík rannsókn ætti að mínu áliti einungis að vera gerð í þeim tilgangi að enda slíkt og sjá það sem sjúkdóm.
Önnur kona mun yngri varð fyrir því sama og skrifaði bók um það sem heitir Today I Am Alice. Bókin fjallar um að hún hafi verið misnotuð af föður sínum frá því að hún var ungabarn, en náði svo að segja mömmu sinni frá því. En samt ekki fyrr en það hafði gengið á í nógu mörg ár til að heilinn skipti persónu hennar í fjóra hluta. Mamma hennar skildi við föðurinn sem hafði líka tekið hana á samkomur fyrir aðra til að nota hana á sama hátt. Hún komst í meðferð.
Konur hafa greinilega líka gerst sekar um kynferðislega misnotkun, en ekki í nærri sama magni og fjölda og karlar hafa gert.
Hugsanlegt lögmál orsaka og afleiðinga þess að vera skipað að lemja allar tilfinningar niður – og það með sleggju
Ég sem kona hef mína eigin upplifun af afleiðingum þess að hafa ekki fengið leyfi til að hafa mínar eigin tilfinningar og tár, svo að sumar þeirra komu út á kvöldin í tárum í koddann. Svo að fyrir karlmenn með eitthvað öðruvísi hormónakerfi, en samt auðvitað með tilfinningar og næmni, væri það líka skrömblun hið innra fyrir þá og í þeim.
Ég fæddi son í heiminn sem sýndi mér ungur að hann hefði það mannlega eðli að vera í tengslum við tilfinningar sínar og gat líka séð um að vilja vera í umhverfi sem væri tilfinningalega nærandi fyrir sig, og það til dæmis var með að biðja um að vera ekki settur í skóladagheimilið sem þó var ný hugmynd þá, heldur vildi hann einkaumönnun þegar ég var að vinna. Hann sýndi það einnig á ýmsan annan hátt, og við fundum þá umönnun handa honum.
Ég sagði aldrei að hann eða stelpan ættu ekki að gráta, en ef það gerðist var það samfélagið sem sá um þann heilaþvott, sem vonandi var ekki alveg eins sterkur þá og hjá minni kynslóð. En ég hefði átt að spyrja þau mun fleiri spurninga og tala um mun fleira en ég gerði.
En ég held samt að sá þungi sleggju á tilfinningar hafi byrjað að dofna því að kynslóðin og þá meina ég karlmenn á eftir mér, synir kynslóðar minnar sýna að allavega margir þeirra hafa allt aðra upplifun af því að verða feður en var með feður þeirra. Feður sem voru mjög vandræðalegir þegar þeir komu í heimsókn á fæðingarstofnanir á árunum í kringum 1971. Og jafnvel eftir að þeim var leyft að vera viðstaddir fæðinguna í kringum 1973 þegar Fæðingarheimilið var komið í gang og lögunum var breytt. Faðir barna minna flúði af hólmi þegar búið var að dubba hann upp fyrir að vera viðstaddur árið 1973 – flótti sem var djúp vonbrigði fyrir mig.
Mismunurinn á þeirri kynslóð karla og svo hinn veginn á þeim drengjum sem voru að fæðast á þeim tímum er mikill. Allavega eru margir virkilega tilfinningalega tengdir við barnið sem er að fæðast, og ég sé marga ljúfa feður með börnum sínum í verslunarmiðstöðvum hér í Adelaide.
Það að horfa á þættina One born every minute hefur verið stórkostleg upplifun til að sjá þann mismun. Svo ekki sé gleymt að minnast á að það sýnir meiri mannlegheit og tengsl við allt í sér, en það sem hafði verið séð sem „karl-mann-legt“ sem ég sé sem ekkert nema vélmennisviðhorf.
Gæti bælingin virkað í eða á DNA-ið í fólki? Eða er það meira val um lærdóm til betri eða verri vegar?
Ég get alveg séð það fyrir mér hvað slíkur langtímaniðurbarningur er á þessu mikilvæga tilfinningakerfi sem við erum öll fædd með til að nota í lífinu, geti lent í genunum og gert allskonar skaða niður línuna, en samt á mismunandi hátt í mismunandi einstaklingum.
Svo ef þessi mikla sleggja á tilfinningar varð að fara í gang þegar drengir voru og eru bara smábörn, og feður og mæður bönnuðu þeim að sýna að þeir væru mannverur með tilfinningar, og tárin máttu ekki renna niður kinnar þeirra. Hvað gerðist hið innra í þeim við slíka kúgun, hvað verður eftir í þeim, eftir að hafa varið árum og áratugum í að lemja allar tilfinningar sem rísa upp og eru illilega lurkaðar niður?
Hugsa sér tjónið sem hefur orðið í taugakerfum þeirra og verður ef þetta viðhorf er enn í gangi. Hér í Ástralíu hefur það haft beina tengingu við mikinn fjölda sjálfsmorða karlmanna, svo að nú eru námskeið í boði til að breyta þeim viðhorfum og hegðun og hvetja þá til að ná sambandi við og tjá tilfinningar sínar.
Það að vinda ofan af slíkri langtímabælingu gerist ekki á einu augnabliki heldur tekur það sinn tíma og fer það eftir svo mörgu í hverjum og einum einstaklingi, því að það snýst líka um að breyta hugsunum sem taka ákvörðun um nýja opnun á tilfinningum.
Auðvitað hafa alltaf verið til karlmenn á öllum tímum sem voru ekki með það eðli að verða að nauðga eða misnota konur og leyft sér að hafa holla og góða tengingu við tilfinningar sínar.
Ég sé þá sem eldri sálir sem hafi lært afleiðingar af þessum bælingum, en ekki haft mátt eða völd eða áhrif til að breyta því í samfélaginu sínu.
Hinn eini staður sem allar þessar bældu tilfinningar lenda trúlega í
Þar sem taugakerfið í kynfærunum er þá trúlega það eina sem eftir er í líkamanum ekki er hægt að nota þá meðferð á. En einstaklingar með næga meðvitund geta séð um að misnota ekki þá kennd með því til dæmis að hafa sjálfsafgreiðslu í fróun ef ekkert annað er við hendina, vegna þess að þær verða að nota þau til að pissa, og fyrir kynlífið sem þeir geta enn upplifað virkni í.
Svo upplifa sumir sig sem þeir eigi rétt á að fá útrás í gegnum það, sem er mjög hugsanlega ein af ástæðum fyrir þessari tillitslausu hegðun til kvenna, og einnig til karla ef þeir eru samkynhneigðir.
Mér sem konu var sagt af móður minni að það væri aumingjaskapur að láta aðra sjá sig tárast á almannafæri, en ég vissi samt innst inni af einhverri tegund innsæis að það viðhorf væri stórlega mannskemmandi þó að ég gæti ekki tjáð þann sannleika þá, og ég fékk sömu skilaboð í vinnunni, því að þetta var þjóðarviðhorf.
Svo við það að hafa heyrt um það ótrúlega magn hópa um allan heim sem hjálpuðu hver öðrum að hafa aðgang að netinu til að stunda þessa sjúku iðju á börnum, þá fór það að læðast að mér að þetta gamla og kannski ekki það gamla viðhorf væri allavega hluti af sökudólgnum í þessu með langtíma niðurlamdar tilfinningar.
Er það virkilega svo harðvírað inn í suma karla að verða að nauðga?
Svo er greinilega stór hópur karla, sem sér það ekki, og telja að allt sem er sagt gegn þeirri þörf þeirra að verða að nauðga, eða misnota konur á hvaða hátt sem er, sé persónuleg árás á þá, þegar það er fyrst og fremst árás á hegðun þeirra, sem er ekki það sama og annað um þá.
Það eru hugsanlega ungar sálir sem einkenna of mikið í gegnum kynfærin og skilja ekki að það sé leið til að beisla það ástand, því að margir geta breytt hegðun ef þeir sjá að það borgi sig fyrir þá, eins og til dæmis til að sleppa við fangelsisvist. En ekki breytt svo mikið um hverjir þeir eru sem persónur.
Það er að segja ef sú hegðun að nauðga er upplifuð af þeim sem mikilvægum hluta persónu þeirra, sem væri mjög sorglegt. Auðvitað kemur persónuleikinn með að einhverju leyti í því ferli að leita eftir mannveru til að fá útrás á, og þá er hinum svokallaða „sjarma“ oft beitt til að fá konuna til að koma með sér á staðinn sem þeir hafa valið fyrir glæpinn. Þeir blekkja konuna í millitíðinni með daðri, sem í raun er ekkert nema villingarvopn til að ná að fá þá konu sem þeir vilja nauðga, og oft líka drepa eins og við sjáum of oft hér, næst á þann stað sem þeir hafa valið. Hlutir sem gerast því miður meira í svo fjölmennum samfélögum.
Af hverju þurfa menn að nauðga? Er það valdahungur eða veiðieðli? Er það ástand eðli hugsanlega frá djúpri ómeðvitaðri hegðun frá langtímamismeðferð sem þeir hafa upplifað um sínar eigin tilfinningar? Er það meðvituð eða ómeðvituð sæðisdýrkun?
Það eru trúlega ótal mismunandi ástæður fyrir slíku, sem ég get ekki vitað um. Ég er ekki karlmaður, né með það hugarfar.
Ég get bara sett fram spurningar því að ég veit ekki hvert svarið er, en finnst það alltaf óskiljanlegt af hverju þeir vilji ekki frekar hafa kynmök í ljúfu andrúmslofti ástar og samþykkis, en í einskonar stríðsástandi.
Ég hitti mann í danshúsi á Íslandi fyrir meira en þrjátíu árum sem sá sæði sitt sem mikilvægt til að skapa börn, en sá enga þörf fyrir, né hafði neina löngun til að sinna eða elska þá einstaklinga sem sæði hans gæti skapað. Hann vildi þá sem einskonar vinningsbikara en ekki sem mannverur með tilfinningar og þarfir. Það var hugsanlega af því að faðir hans sinnti honum ekki? Hvað gerir það í heilabúum drengja að faðir þeirra hundsi þá?
Þöggunarsnúran skaðar ekki bara tjáningu heldur bælir líka tilfinningarnar
Og af því að sú hegðun var í þöggunar-snúru karlveldisins eins of til dæmis að hundsa börnin sín, og ekki ræða um nauðganir sem þeir voru sekir um, og aldrei rætt né séð sem vandamál, heldur metið sem sjálfsagður réttur þeirra til að fá útrás á þessari einu tilfinningatjáningu sem þeim var föl, sem var og er um kynfærin. Af því að þeir voru og hafa verið sneiddir þeim hluta lífsins í sér. Svo að þess vegna hafa þeir aldrei náð í fyrsta lagi að skilja að þeir þurfi hjálp, hvað þá leita hennar.
Trúlega hefur ekki nein gagnleg hjálp verið til handa slíkri hegðun um aldir. Svo að þá er trúlega eðlilegt að þeir skilja ekki að þeir hafi vandamál, frekar en ég eftir að virði mitt sem mannveru var strikað út nema ef ég „fyndi mann og skaffaði þjóðinni börn“ sem tók stóran en óskilgreindan skammt af mínu tilfinningalega sjálfi í burtu í hálfa öld. Það sem er svakalegt er að ég vissi ekki einu sinni að ég hefði það vandamál fyrr en þá, sem var og er of seint til að laga dæmið.
Það atvik var frá þeirri djúpu meðtöku í konum frá því sem karlveldið hafði heilaþvegið þær um í langan tíma, að sæðið yrði að blífa – þó að þeir notuðu ekki þau orð – en útkoman var í þá átt. Karlveldið var sem sagt mikilvægara en kvenkyn, sem samt er nauðsynlegt svo að fleiri þegnar birtist.
Fötlun í hugum manna með of sterkra karlhormóna
Karlhormónar á háu stigi stýra oft þeirri tilhneigingu og trú í þeim sem hafa hana í miklu magni en án visku, að skoðanir þeirra og viðhorf séu betri en allra annarra. Hormónakerfi sem hefur enga tengingu við rökhyggju, skynsemi, samúð eða samhygð.
Það að svo mikið sé í fréttum á síðustu árum um misnotkun karla á þessum hormónum er vegna fjölmiðla, en ekki vegna þess að kynferðisleg misnotkun sé ný. Sú hegðun hefur gerst í gegnum aldirnar síðan mannkyn varð til.
Hvað er það í heilum karla sem láta þá hugsa þannig?
Hér í milljóna samfélagi var til dæmis þann 22. júlí 2019 frétt um mann sem drap konuna af því að hún vildi enda sambandið. Og það er alltaf að gerast.
Nauðganir og dráp á konum sem sumir karlmenn sjá sem einskonar fasteign, og þeir geta ekki sleppt taki sínu á né skilið að hún fór í sambandið sem samferðamannvera, en ekki sem fasteign. Hún neyðist svo til að þurfa að enda sambandið ef það er ekki að virka fyrir hana vegna ofbeldis í manninum.
En maðurinn er trúlega svo tilfinningalega þroskaheftur frá viðhorfum þjóðarinnar sem hefur ekki boðið upp á neina leiðbeiningu í þeim svo að hið innra er hann eins og smábarn sem sér þá ákvörðun sem dauðadóm í sér. Eða er með svo mikla frekju og eigingirni að hann getur ekki unnt henni þess að byrja nýtt líf, og þá kannski með öðrum manni.
Hann er ófær um að sjá að hún hafi rétt til að enda sambandið. Endar því líf hennar með hníf eða byssu, frekar en að kveðja og byrja upp á nýtt, og þá vonandi eitthvað vitrari og með hegðun sem þarf að breytast.
Hvaða bæling virkar þannig? Kannski skortur á víðsýni um lífið, tilfinningalegur vanþroski og ófærni um að sjá nýja möguleika fyrir hann sem hana. Þeir virðast sjá endi á sambandi sem hurð sé skellt er á þá, og lífinu sé lokið og telja kannski að þá sé engum annt um þá, og þurfa þá að læra að það sé ekki veruleiki heldur meinloka.
Tregða margra yfirvalda heims til að hjálpa þeim sem eiga við fíkn og önnur geðræn og tilfinningaleg vandamál að glíma, er dæmi um að þessi afneitun er enn algeng og stjórnvöld telja greinilega að peningum sé ekki vel varið í að hjálpa þeim, sem auðvitað er önnur sorgleg meinloka.
Afleiðingar tilfinningabælingar í körlum á konur
Svo að það var sláandi og sjokkerandi að lesa á The Guardian frá konunni sem stofnaði #MeToo-hreyfinguna segja mannkyni í fjölmiðlum að nú séu karlar að sjá hina frábæru #MeToo-hreyfingu sem meiriháttar árásir á sig, og sjá sig sem mikil fórnarlömb sem sýnir að sá hópur er ansi sjálfhverfur, af því að við höfum þegar séð að mjög margir karlmenn skilja hið góða í þeirri hreyfingu og hafa fagnað henni.
Ef einstaklingar hinsvegar taka málefnið of langt, er það ekki málefninu og hreyfingunni að kenna, heldur túlkun þeirra sem hugsanlega hafa tekið það í ranga átt eða þeir sem vilja ekki láta benda á hegðun sína, og kenna hreyfingunni um það.
Konur hafa verið meiri fórnarlömb margs frá körlum um aldir. En auðvitað hafa þeir þá líka verið fórnarlömb, eða fengið óréttlátan skammt af sumum hlutum lífsins, þó á allt annan hátt væri.
Og það af því að það hafa verið konur sem hafa séð það að sinna börnum sem sinn einkaheim, og ekki leitt eiginmenn inn í það með þeim að sinna ungabarninu frá byrjun og þar með hugsanlega oft sett upp vissa tilfinningalega veggi í körlum varðandi börnin sín.
Það er svo greinilegt hversu þetta með foreldrun og tilfinningar er oft allt annað í dag hjá mörgum, miðað við það sem var um aldir.
Til dæmis sá ég feður kynslóðar minnar og systkina ekki skipta á bleyjum, ekki aka barnavögnum eða kerrum eða mata börnin eða sinna á neinn hátt, og voru ansi fjarlægir þessum ungu mannverum. Svo hvað það gerði í þeim er spurning sem aðeins þeir geta svarað. Það var frá þessari bælingu og að það væri ekki séð sem karlmannsverk að skipta á bleyjum og sinna börnum.
Meðvirkni kvenna var ansi algeng í þeirri misnotkun. Ég lærði að móðir mín var í því liði þegar ég sagði henni frá kynferðislegri áreitni gamals manns gagnvart mér sem unglingi. Manns sem hún vissi hver var. Ég lærði svo frá svörum hennar að reynsla mín og tilfinningar skiptu hana enga máli, en þess manns öllu máli sem birtist með því hvernig hún stóð upp fyrir honum, um hvað hann hafði viljað. Hún sýndi mér enga samhygð né skilning á hvernig upplifun það myndi hafa verið. Móðir vinkonu var með sömu merkjum brennd sem kom fram þegar systkinin tóku stjúpföður sinn fyrir lög og rétt fyrir misnotkun, móðirin hafði enga samkennd með börnunum sínum en allar fyrir manninum.
Það sannaði fyrir mér að konur sem voru fæddar snemma á síðustu öld og fyrr, voru of oft heilaþvegnar og upplifðu sig of virðislausar og vanmáttugar hið innra til að mótmæla því veldi. Vegna þess að allt kerfið í þeim trúði í raun að karlveldið skyldi blífa. Þarfir karla voru mikilvægari en þarfir kvenna. Við sáum það líka frá viðhorfum í eldri konum í Frakklandi þegar #MeToo-hreyfingin fór af stað.
Sæðisdýrkun og heilaþvottur á konum skapaði og skapar enn ójafnvægi
Karlar hefðu gagn af því að sjá sæði sitt sem bankareikning sinn, frekar en afurð til að sýna allt þetta ábyrgðarleysi um hvar þeir skilja það eftir. Kæruleysi og ábyrgðarleysi hefur gengið á um aldir, og æskilegra er að skilja það ekki eftir þar sem það skapar barn sem þeir vilji ekki fá, sinna, né borga meðlag með.
Í kvikmyndinni Broke Back Mountain með Heath Ledger sem var ástralskur leikari (lést allt of ungur) sést þessi sæðisdýrkun í því að maðurinn sem hann lék er samkynhneigður, en samt giftur að þeirra tíma sið. En hann þoldi ekki þegar konan sagði að hún væri að nota getnaðarvarnir eftir að hún hafði séð hann kyssa mann á ástríðufullan hátt, og vissi þá hvert stefndi og hætti ekki á að verða barnshafandi aftur.
Hún var ekki viljug að bæta við börnum í fjölskylduna þrátt fyrir að hann vissi hver kynhneigð hans var, og varð hann æfur yfir ákvörðun konunnar að vilja nota getnaðarvörn.
Grunnurinn að þeirri hegðun var sæðisrétturinn. Mikilvægi sæðis þeirra sem blífur, en ekki nærri alltaf umhyggja fyrir blessuðum börnunum sem eru getin og fæðast, og þá ansi oft langt frá því að vera velkomin. Svo er sá réttur tengdur tilfinningabælingunum?
Tilfinningar og hugsanir eru auðvitað yfirleitt ansi samtvinnaðar, og þar liggur tækifærið til að læra þær umferðarreglur sem við getum verið glöð með að lifa eftir.
Maðurinn sem skrifaði handritið að kvikmyndinni Cider House Rules er einn af þeim þroskuðu karlmönnum sem sá þetta og skildi. Hann er jafnréttissinni.
---
Athugasemd frá höfundi:
Ég sé mig ekki sem neinn sérfræðing heldur meira sem langtímavitni að öllu þessu tilfinningalega ójafnvægi sem ég lifði við í hinu íslenska þjóðfélagi og var og er auðvitað enn að gerast um allan heim. Það er því miður greinilega enn í gangi miðað við viðhorf of margra karla til kvenna, þó að æ fleiri karlmenn séu jafnréttissinnaðir og lausir við þá hegðun sem hér er mest lýst.
Það að vera kona hefur líka skilað einu og öðru inn í heilabú mitt frá svo mörgu sem ég hef orðið vitni að, upplifað, lesið og heyrt.