Höfuðborgarsvæðið er að taka stakkaskiptum sem betur fer. Sumir eiga kannski bágt með að trúa því en meðal allra sveitarfélaganna (Reykjavíkur, Garðabæjar, Mosfellsbæjar, Seltjarnarness, Kópavogs og Hafnarfjarðar) er raunveruleg samstaða til þess að breyta svæðinu úr slitróttum úthverfabútasaumi bílaskipulaga í heildstætt borgarsvæði. Þvert á sveitarfélög og þvert á flokka. Þessi viðleitni birtist í tvíþættri stefnu. Annar anginn er auðvitað Borgarlínan þar sem markmiðið er að myndarlegur hluti borgarbúa geti reitt sig á almenningssamgöngur til flestra ferða. Byggð á höfuðborgarsvæðinu er ákaflega gisin sem veikir rekstrargrundvöll almenningssamgangna og því byggir hinn anginn á því að þétta byggð á höfuðborgarsvæðinu verulega. Því er stundum slegið fram í opinberri umræðu og í fjölmiðlum að þetta tvennt sé einhverskonar einkaáhugamál meirihluta borgarinnar eða borgarstjóra en slíkt er órafjarri lagi. Um þessi tvö stefnumál ríkir einhugur meðal allra sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins.
Núgildandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins er til þess að gera mjög framsækin stefnumótunaráætlun. Innan þess hefur verið mótuð ákaflega mikilvæg stefna meðal sveitarfélaganna að koma böndum á útþenslu byggðar (e. urban sprawl) með því að skilgreina vaxtarmörk sveitarfélaganna talsvert þröngt. Höfuðborgarsvæðið, eins og svo margar aðrar borgir sem tóku vaxtarkippi á miðri síðustu öld, er grátt leikin af illa skipulagðri útþenslu byggðar. Í sem fæstum orðum er útþensla byggðar dýr – efnahagslega, heilsufarslega, umhverfislega og félagslega. Skiljanlega ríkir um það einhugur, meira að segja í pólitískt fjölbreyttri flóru höfuðborgarsvæðisins, að koma böndum á útþenslu byggðar og þétta borgarnetið eins og kostur er.
Önnur mikilvæg forsenda svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins felst í þeirri áætlun að íbúum höfuðborgarsvæðisins muni fjölga um 70.000 manns til ársins 2040. Í því er fólgið ákveðið sóknarfæri höfuðborgarsvæðisins um að koma þeim íbúafjölda fyrir innan þéttingarreita og þar af leiðandi slá tvær kunnuglegar flugur í einu höggi: Tempra ótvíræð neikvæð áhrif útþenslu byggðar og styrkja verulega rekstrargrundvöll Borgarlínu.
Atvinnusvæðið teygir út anga sína
Í Morgunblaðinu nýlega birtist viðtal við borgarfulltrúa úr Breiðholtinu sem skaut að áhugaverðri athugasemd: „Bróðir minn býr í Þorlákshöfn og er 35 mínútur að keyra að austan til vinnu í Grafarvogi, en ég gjarnan um þrjú korter að komast niður í Ráðhús héðan úr Breiðholti.“
Fyrir 13,5 milljónir er hægt að tryggja sér nýbyggða, rúmlega 40 fermetra íbúð í Þorlákshöfn en sambærileg ný íbúð á höfuðborgarsvæðinu kostar á bilinu 32-39 milljónir. Auðvitað er fullkomlega skiljanlegt að fasteignaverð á landsbyggðinni sé ekki jafn hátt og á höfuðborgarsvæðinu en sveitarfélögin í nágrenni höfuðborgarsvæðisins virðast vera átta sig á þeim gæðum sem felast í tiltölulega mikilli nálægð við höfuðborgarsvæðið og ætla að notfæra sér það til að trekkja að íbúa, uppbyggingu og skatttekjur með ódýrum lóðum. Á heimasíðu Hveragerðisbæjar má finna frétt frá síðustu áramótum þar sem gríðarleg íbúafjölgun í bænum er fyrst og fremst sett í samhengi við nálægð við höfuðborgarsvæðið: „Hveragerði er vinsæll bær til búsetu enda njóta íbúar nálægðar við höfuðborgarsvæðið en njóta samt lífsgæða landsbyggðarinnar. Íbúum í Hveragerði hefur fjölgað um 857 frá því árið 2000 eða um 48,8%.“ Landshlutasamtök Suðurnesja og Vesturlands líta bæði svo á að nálægð við höfuðborgarsvæðið sé mikill kostur og lykilatriði í uppbyggingu einstakra bæja.
Sveitarfélögin í kringum höfuðborgarsvæðið (Akranes, Hveragerði, Vogar, Grindavík, Reykjanesbær, Ölfus og Árborg svo einhver séu nefnd) eru einmitt þau sveitarfélög sem vaxið hafa hvað mest síðustu ár umfram önnur íslensk sveitarfélög en til að mynda hefur íbúafjöldi þessara sveitarfélaga vaxið um 57% síðastliðin 20 ár meðan á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 35%. Nákvæmlega hvað skýrir þennan gífurlega vöxt eru áhöld um en augljóslega eiga öll þessi sveitarfélög einn mikilvægan þátt sameiginlegan: Nálægð við höfuðborgarsvæðið.
Dæmið frá borgarfulltrúanum er langt því frá einsdæmi eins og flestir geta vottað um – höfuðborgarsvæðið sem atvinnusvæði er miklu stærra en vaxtarmörk þess segja til um. Í nýlegri rannsókn kemur fram að allt að fjórðungur vinnandi íbúa Hveragerðis, Ölfuss og Akraness starfi á höfuðborgarvæðinu en hlutfallið er nær þriðjungi þegar kemur að Vogum. Þeim 70 þúsund nýju einstaklingum sem höfuðborgarsvæðið gerir ráð fyrir á næstu 20 árum er því að bjóðast valkostur sem gæti sett allar forsendur svæðisskipulags höfuðborgarsvæðins um þéttingu byggðar og Borgarlínu úr skorðum.
Auk þess að gera þéttingu byggðar og Borgarlínu erfiðara fyrir er augljóst að sá fjöldi Hvergerðinga, Skagamanna og Reykjanesbúa sem daglega sækja vinnu inn á höfuðborgarsvæðið komi þangað á einkabíl með tilheyrandi sliti, mengun, svifryki, hávaða og álagi á vegakerfi. Varla hefur farið fram hjá neinum að sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins (og þá sérstaklega Reykjavík) hafi það framarlega á stefnuskránni að draga verulega úr umferð einkabílsins og því gæti verið um að ræða verulega strik í reikning þeirra fyrirætlana. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið höndum saman og lyft grettistaki í átakinu gegn útþenslu byggðar en nágrannasveitarfélögin hafa gripið boltann á lofti og upp er komin snúin staða fyrir höfuðborgarsvæðið.
Homo economicus
Fyrir sérstaklega þá sem vinna í útjaðri höfuðborgarsvæðisins getur augljóslega verið mjög freistandi að velja sér frekar búsetu í nágrannasveitarfélagi heldur en í hringiðu höfuðborgarsvæðisins þegar í húfi eru ótvíræð gæði landsbyggðalífs, mögulega styttri ferðatími til og frá vinnu og umtalsvert lægra húsnæðisverð. Þetta er reikningsdæmi sem fólk, ekki síst væntanlegir fasteignakaupendur, er að velta mjög alvarlega fyrir sér. Um það vitnar 17% íbúafjölgun í Árborg og Grindavík síðustu 10 ár til dæmis og 20% hækkun fasteignaverðs á Akranesi á örfáum árum.
Ekki er seinna vænna fyrir sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins að taka þá umræðu um hvort eða hvernig eigi að taka á þessari stöðu en hér er um að ræða klassíska afleiðingu þess að sveitarfélög séu í samkeppni um íbúa, uppbyggingu og skatttekjur. Í áratugi leiddi sú samkeppni höfuðborgarsveitarfélaganna af sér galið fyrirkomulag illa skipulagðra úthverfa sundursneidd af hraðbrautum í kjölfar ódýrra lóðaúthlutana. Í dag hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu þó gert milli sín samkomulag um að slaka á innanhússamkeppninni til að vinna að umhverfisvænum sjónarmiðum almenningssamgangna og þéttingu byggðar. Á forsendum umhverfisins er því ekki lengur verið að bjóða upp á ódýrar lóðir í útjaðri byggðar á höfuðborgarsvæðinu en það stöðvar ekki útjaður höfuðborgarsvæðisins til þess að gera það.
Höfundur er stefnumótunarsérfræðingur.