Starf CLF skólans í Úganda er liður í að stuðla að auknu kynjajafnrétti í Úganda þar sem konur hafa staðið höllum fæti í samfélaginu – sérstaklega þegar kemur að menntun.
Algengt er að úganskar stúlkur flosni ungar úr námi og geta ástæður þess verið margþættar; fátækt, barneignir, óviðunandi aðstæður fyrir ungar stúlkur í skólum og ríkjandi viðhorf samfélagsins um að menntun drengja sé mikilvægari en menntun stúlkna.
Verknám stúlkna í Úganda og Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna
Heimsmarkmiðin voru sett árið 2015 af Allsherjarráði Sameinuðu þjóðanna og eru safn 17 markmiða sem öll eiga að stuðla að bættum lífskjörum og auknum mannréttindum fólks um heim allan. Starf samtakanna CLF á Íslandi, sem reka verkmenntaskóla fyrir stúlkur í Úganda, tekur hliðsjón af heimsmarkmiðunum í sínu starfi, þá sérstaklega er varðar markmið fjögur og fimm sem snúa að menntun fyrir alla og jafnrétti kynjanna. CLF á Íslandi eru samtök sem hafa starfað óslitið frá árinu 2004 með það að markmiði að styðja systursamtök sín í Úganda, Candle Light Foundation, en þau samtök stofnaði Erla Halldórsdóttir árið 2001 til að styðja við bágstaddar stúlkur í Kampala, höfuðborg Úganda.
Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) heldur því fram að til þess að stuðla megi að bættum efnahagslegum framförum svo að flestir megi njóta góðs af þurfi að líta til þriggja þátta. Það er að bæta úr lélegri menntun, lágri framleiðni og viðvarandi fátækt. Þetta sé að auki lykillinn að því að skapa mannsæmandi störf, ekki síst fyrir ungt fólk. Þessu tengt, er mikilvægt að bæði skapa og þróa verkfærni og kunnáttu á verklegum greinum til að halda í við síbreytilegan vinnumarkaðinn. Þróun á verkfærni er því ein af undirstöðum sjálfbærrar þróunaraðstoðar og efnahagslegrar framþróunar. Þá hefur verkmenntun einnig hjálpað fjöldamörgum að komast inn á atvinnumarkaðinn. Starf CLF tekur beinan þátt í að skapa tækifæri fyrir stúlkur og ungar konur í viðkvæmri stöðu til að þær geti tekið virkan þátt í atvinnulífinu og brotist þannig upp úr sárri fátækt.
Candle Light Foundation skólinn
Sú þekking og menntun sem stúlkurnar hafa öðlast í gegnum CLF skólann hefur, að sögn stúlknanna, haft jákvæð áhrif á líf þeirra og sjálfsmynd. Þær hafa aukna atvinnumöguleika og geta tekið þátt í að sjá fyrir fjölskyldum sínum og með því tekið þátt í uppbyggingu úgansks samfélags. Í dag hafa yfir 2000 stúlkur fengið stuðning til verkmenntunar hjá CLF skólanum og flestar fengið tækifæri á að nýta menntunina á einn eða annan hátt á atvinnumarkaði, sem er í takt við Heimsmarkmið númer átta sem kveður á um að lækka hlutfall þeirra ungmenna sem eru atvinnulaus eða stunda ekki nám. Þetta á sérstaklega við í Úganda sem er ein yngsta þjóð í heimi þar sem 55% þjóðarinnar eru undir 18 ára og eru ungmenni því hátt hlutfall atvinnulausra. Með því að mennta stúlkur og auka atvinnumöguleika þeirra er stuðlað að því að þær fresti barneignum og eignist jafnvel færri börn. Það á þátt í að stöðva ríkjandi hringrás fátæktar sem er viðhaldið meðal annars með barnahjónaböndum og barneignum ungra ómenntaðra stúlkna.
Þann 24. ágúst næstkomandi munu hlauparar CLF á Íslandi taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og safna um leið fé sem rennur óskipt í stækkun CLF skólans svo hægt sé að taka á móti fleiri nemendum og kaupa tæki og tól sem tengjast daglegum rekstri skólans. Hér má heita á hlaupara CLF á Íslandi í Reykjavíkurmaraþoninu og hér má kaupa vörur til styrktar skólanum.
Höfundar eru meðstjórnendur í stjórn CLF á Íslandi.