Ok skiptir heiminn máli

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skrifar um bráðnandi jökla víða um heim. Hún kallar eftir framlagi allra til að vinna gegn þeirri þróun.

Auglýsing

Eyjafjallajökull er sjötti stærsti jökull Íslands og öðlaðist heimsfrægð með eldgosinu árið 2010. Askan úr gosinu lamaði flugumferð í Evrópu og fréttamenn um allan heim reyndu sitt besta við að bera fram þetta langa og lítt þjála örnefni, íslenskumælandi fólki til talsverðrar skemmtunar. Íslenski jökullinn Ok, sem ber nafn sem flestir geta hæglega borið fram, hefur hingað til verið minna þekktur.

Nema að Ok er ekki lengur jökull.

Ísbreiðan sem áður þakti þetta svæði og taldi um 15 ferkílómetra að flatarmáli er nú horfin og hennar í stað er komið nýjasta og hæsta stöðuvatn landsins sem hefur hlotið nafnið Blávatn. Þar er vissulega fallegt umhorfs, vatnið umkringt fönnum í fjallasal, en fegurð vatnsins er blandin trega í hugum þeirra sem vita hvað var þarna áður og hvers vegna það er horfið. Hvarf Okjökuls er skýr birtingarmynd hnattrænnar hlýnunar, birtingarmynd þess sem ekki verður viðsnúið. 

Auglýsing
Á morgun, 18. ágúst, fer ég ásamt hópi listamanna og vísindamanna að kveðja Ok. Með í för verður Mary Robinson, fyrrum forseti Írlands, fyrrum mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna og baráttukona fyrir loftslagsréttlæti. Við athöfnina verður afhjúpaður minningarskjöldur sem á er letrað:

„Ok er fyrsti nafnkunni jökullinn til að missa titil sinn. Á næstu 200 árum er talið að allir jöklar landsins fari sömu leið. Þetta minnismerki er til vitnis um að við vitum hvað er að gerast og hvað þarf að gera. Aðeins þú veist hvort við gerðum eitthvað.“ 

Athöfnin á Kaldadal skiptir okkur máli hér heima en hún skiptir heiminn líka máli. 

Jöklar þekja um 11% af flatarmáli Íslands og eru eins konar sýnilegir lofthitamælar. Þeir hafa vaxið og hopað á sögulegum tíma; urðu líklega stærstir í kringum 1890 en hafa skroppið saman með nokkrum skrykkjum síðan þá. Hopunin hefur verið sérlega hröð síðan um síðustu aldamót. Innan örfárra áratuga hverfur Snæfellsjökull að óbreyttu. Í stuttu máli má segja að ísinn sé að hverfa frá Íslandi.

Nýtt landslag birtist þegar jöklarnir hverfa. Það er kannski heillandi og fagurt á sinn hátt og er þá nokkur skaði skeður? Eigum við að setja söknuð þeirra sem njóta jöklasýnar hátt á lista yfir vandamál framtíðarinnar?

Ef breytt landslag væri eina afleiðingin sem þyrfti að takast á við væri málið öllu einfaldara en vandinn ristir auðvitað dýpra en það. Íslaust Ísland er áhyggjuefni fyrir heimsbyggðina og vandinn er ekki bundinn við landið okkar með sínu kuldalega nafni. Jöklar bráðna um allan heim og hækka sjávarborð. Jöklar í Himalajafjöllum eru vatnsforðabúr fjórðungs mannkyns. Náttúruleg ferli riðlast með hvarfi jökla. Þiðnun sífrera leysir úr læðingi ógrynni gróðurhúsalofttegundarinnar metans, Bráðnun jökulhvela á Grænlandi og Suðurskautslandinu myndi til lengdar geta hækkað sjávarborð jarðar umtalsvert. Vísindamenn hafa ekki getað sagt til um hvenær bráðnunin verði komin á það stig að verða óafturkræf.

Hækkun sjávarborðs ógnar samfélögum manna frá Flórída til Bangladesh, Sjanghæ til Lundúna. Ef losun yrði stöðvuð með öllu í dag væri samt of seint að bjarga háfjallajöklum í hitabeltinu, eins og í Anders fjöllunum og í austurhluta Afríku. Ef hlýnun helst undir 1,5°C tækist líklega að bjarga einhverjum jöklum á milli hitabeltisins og heimskautasvæðanna, en tæpast nokkrum ef hlýnunin nær 2°C. Flestir hinna 200.000 jökla jarðar munu fylgja dæmi Oks og hverfa vegna hlýnunar andrúmsloftsins, nema við grípum til aðgerða og það hratt og örugglega.

Við eigum góða möguleika á að afstýra verstu hugsanlegu hörmungum eins og bráðnun Grænlandsjökuls ef við náum að halda hlýnun innan við 1,5°C. Líkurnar minnka verulega ef hlýnunin nær 2°C og framtíðarmyndin verður ansi dökk ef hitastigið hækkar umfram það. Við þurfum að bregðast við varnaðarorðum vísindamanna, sem koma skýrast fram í skýrslum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna, en ný skýrsla hennar um áhrif loftslagsbreytinga á höfin og freðhvolfið kemur út í næsta mánuði. Við verðum að setja meiri kraft í aðgerðir til að draga úr losun og fjarlægjast með því hættuleg mörk þar sem breytingar verða óafturkræfar og óstöðvandi.

Sem forsætisráðherra hef ég lagt þunga áherslu á að Ísland leggi sitt af mörkum í loftlagsmálum. Við stefnum að kolefnishlutleysi fyrir 2040, í síðasta lagi, og vinnum nú að framkvæmd fyrstu fullfjármögnuðu aðgerðaáætlunar Íslands í loftslagsmálum. Ísland stendur framarlega hvað varðar endurnýjanlega orkugjafa og nú þarf sú þróun að ná til samgönguflotans. Við höfum boðað bann á innflutningi bíla sem eru knúnir jarðefnaeldsneyti eftir 2030.

Auglýsing
Loftslagsvánni verður ekki mætt nema með öflugu samstarfi þjóða. Áhersla okkar á það kemur ekki síst fram í Norðurskautsráðinu þar sem Ísland gegnir nú formennsku og veitir brautargengi verkefnum sem miða að því að bregðast við loftslagsbreytingum á Norðurslóðum. 

Mannréttindi, félagsleg réttlæti og jafnrétti kynjanna eru samtengd loftslagsmálum og allar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum verða að taka mið af því. Því við vitum að loftslagsbreytingar koma verr niður á fátækum en ríkum og snerta konur á annan hátt en karla. Ísland hefur kallað eftir að kynjasjónarmið verði fléttuð inn í loftslagsstefnur á alþjóðavísu, m.a. í starfi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Á heimsvísu sjá konur í miklum mæli um umönnun barna og aldraðra og þar á meðal um öflun fæðu og vatns. Flóð og þurrkar hafa fyrir vikið margfalt meiri áhrif á konur og lífslíkur þeirra og lífsgæði. 

Í dag minnumst við Okjökuls. Á sama tíma sendum við skýr skilaboð um að við ætlum ekki að kveðja alla jökla heims í kjölfarið. Stór ríki sem smá, atvinnulíf og stjórnvöld, einstaklingar og samfélög: við þurfum öll að leggja okkar af mörkum. Við sjáum hvað er að gerast og við hvað þarf að gera. Hjálpumst að til að halda ísnum á Íslandi. 

Höfundur er forsætisráðherra Íslands. Greinin birtist fyrst í New York Times í dag en var þýdd til birtingar í Kjarnanum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
N1 er vinsælasti viðkomustaður þeirra sem hafa notað nýju ferðagjöf stjórnvalda.
Bensínstöðvar, baðlón og skyndibitastaðir vinsælust hjá notendum nýrrar ferðagjafar
Yfir 10 þúsund manns hafa nýtt nýja ferðagjöf stjórnvalda og um 50 milljónir króna verið greiddar út. Kunnugleg nöfn raða sér í efstu sæti þeirra fyrirtækja sem tekið hafa við mestu en baðlónið Sky Lagoon kemur nýtt inn á lista og tyllir sér í annað sæti.
Kjarninn 17. júní 2021
Guðjón Sigurðsson
Alþjóðlegur MND dagur 20. júní 2021
Kjarninn 17. júní 2021
Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Fyrrverandi seðlabankastjóri fékk fálkaorðuna
Forseti Íslands sæmdi fjórtán manns fálkaorðunni á Bessastöðum í dag.
Kjarninn 17. júní 2021
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.
Vilja endurvekja sjálfstæðisbaráttuna
„Eins og fyrri kynslóðum tókst að umbreyta íslensku samfélagi með sjálfstæðisbaráttu almennings þá mun okkur takast það einnig. Þeim tókst það og okkur mun líka takast það.“ Sósíalistaflokkurinn sendi frá sér tilkynningu í tilefni af 17. júní.
Kjarninn 17. júní 2021
Ólafur Ólafsson
Mannréttindadómstóll Evrópu vísar kæru Ólafs Ólafssonar frá
MDE hafnaði í morgun með afgerandi hætti að Rannsóknarnefnd Alþingis hefði brotið gegn rétti Ólafs Ólafssonar til réttlátar málsmeðferðar.
Kjarninn 17. júní 2021
Dánartíðni var hærri í öllum öðrum EES-löndum, ef miðað er við sögulegt meðaltal.
Umframdánartíðnin minnst á Íslandi
Minnsti munur var á mánaðarlegri dánartíðni og sögulegu meðaltali hennar hér á landi af löndum EES.
Kjarninn 17. júní 2021
Sjúkratryggingar Íslands greiða stærstan hluta af þjónustu sem veitt er á Heilsustofnuninni í Hveragerði.
Lítið gerst í úttekt á Heilsustofnun í Hveragerði og óvíst hvort henni verði haldið áfram
Fyrir rúmum tveimur árum var gerður nýr þjónustusamningur við Heilsustofnunina í Hveragerði. Skömmu síðar var upplýst um rekstrarkostnað sem vakti upp spurningar. Ráðist var í úttekt á starfseminni í kjölfarið. Hún hefur engu skilað.
Kjarninn 17. júní 2021
Eimskip viðurkennir brot sín og greiðir einn og hálfan milljarð í sekt.
Eimskip viðurkennir alvarleg samkeppnislagabrot og fær 1,5 milljarða sekt
Eimskip hefur viðurkennt að hafa viðhaft ólögmætt samráð við Samskip árum saman og greiðir 1,5 milljarð króna í sekt vegna máls sem hefur verið til rannsóknar frá 2013. Samskip eru enn til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Kjarninn 16. júní 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar