Það hefur verið gríðarlega mikil umræða um gæði skólamáltíða undanfarið og sérstaklega að hve miklu leyti innleiða eigi grænmetisfæði í skólunum, með umhverfið að leiðarljósi. Frábær umræða en byggir samt á þeirri hugmynd að skólamáltíðir standi öllum börnum til boða. Svo er hins vegar ekki. Og þá spyr man, hvaða tilgangi eiga skólamáltíðir að þjóna?
Til að taka af allan vafa er auðvitað grundvallaratriði að fyrst boðið er upp á mat í skólanum séu þessar skólamáltíðir bragðgóðar og vel samansettar (þar sem unnið er með regnbogann af grænmeti, farið er eftir lýðheilsuviðmiðum í samsetningu o.s.frv) og í því sambandi er nýja matarstefnan mikil bót frá því sem áður var. Góður skólamatur skiptir hins vegar fjölskyldur máli á mismunandi hátt, og það er þarna sem stefna borgarinnar er gölluð.
Ellefu prósentin
Svo eru það hin börnin, þau sem koma af heimilum þar sem matur er ekki nægur og/eða ekki nógu næringarríkur. Fyrir þessi börn er algjört lykilatriði að fá mat í skólanum. En hann er ekki í boði fyrir þau öll. Nánar tiltekið eru, innan grunnskóla Reykjavíkur, 11% barnanna ekki í mataráskrift. Engar opinberar upplýsingar er að finna um þennan hóp en leiða má að því líkum að þó einhver hluti þessara barna geti ekki verið í mataráskrift vegna fæðuofnæmis, -óþols eða af menningarlegum ástæðum, séu að mestum hluta þarna um að ræða börn af fátækari heimilum.
Af hverju? Jú, foreldrar greiða tæplega 500 kr á dag fyrir skólamáltíðina, eða 9800 kr. á mánuði, óháð fjárhags-, atvinnu- og hjúskaparstöðu og fæst ekki afsláttur af þessu gjaldi nema fleiri en tvö börn á heimilinu séu í mataráskrift. Fyrir heimili með tvö eða fleiri börn í grunnskóla kostar það því 19600 krónur á mánuði að hafa þau í mat í skólanum sem er mikið fyrir margar fjölskyldur, sérstaklega einstæðar mæður.
200 milljónirnar
Samkvæmt Matarstefnu Reykjavíkurborgar 2018–22 er áætlað að sá rekstrarkostnaður sem bætist við vegna stefnunnar verði að allt að 204 milljónir á ári (þar af 130 milljónir í 3-5 starfsmanna deild um matarmál borgarinnar). Það er 10 milljónum meira en það kostar að gefa 1650 börnum (11% af grunnskólabörnum í Rvk) ókeypis mataráskrift í heilt ár. Og það tryggja þessum börnum mataráskrift er ekki tæknilega flókið, því hægt væri að skilyrða fríar mataráskrift við þá forsendu að ráðstöfunartekjur heimilisins væru undir einhverju ákveðnu marki og svo sækja tekjuupplýsingarnar til hins opinbera eins og gert er þegar úrskurðað er um fjárhagslega aðstoð og húsaleigubætur. Þá þarf bara að ákveða hvar mörkin eiga að liggja.
Í öllu falli verður að teljast undarlegt að fé og orku sé veitt í að hanna bændamarkaði og sköpun nýrrar skipulagsheildar innan borgarinnar á meðan í borginni fyrirfinnast börn sem ekki geta treyst því að fá að borða heima hjá sér og hin frábæra lausn, skólamáltíðir, eru ekki enn orðnar að þeirri félagslegu aðstoð sem þær ættu klárlega að vera. En þetta þarf ekki að vera annað hvort –eða. Við getum vel gert bæði.