Í dag fagnar Klúbburinn Geysir 20 ára starfsafmæli á Íslandi. Klúbburinn er hluti af Fountain House hreyfingunni, sem rekur upphaf sitt til Bandaríkjanna á fimmta áratug síðustu aldar.
Tilgangur hreyfingarinnar er skilgreindur í gæðastöðlum hreyfingarinnar en hann er sá að „hjálpa fólki sem á við geðræn veikindi að stríða til að að ná markmiðum sínum sem varða félagslíf, fjárhag, menntun og atvinnu’’.
Grunn forsenda hugmyndafræðinnar er sú trú að allir hafi getu til að ná nægilega miklum tökum á áhrifum þeirra geðraskana sem þeir glíma við, til að lifa góðu lífi.
Fountain House hreyfingin byrjaði sem grasrótarhreyfing í New York þegar hópur fólks sem kynntist á geðdeild ákvað að viðhalda því samfélagi sem myndast hafði eftir útskrift og styðja hvert annað í þeim áskorunum sem líf utan spítalans færði þeim. Árið 1948 náði félagsskapurinn, með aðstoð stuðningsaðila, að festa kaup á húsi undir starfsemina. Stuðningsaðilar tryggðu félaginu einnig fjármagn til að geta ráðið einn starfsmann.
Fountain House var svar við starfsháttum sem virkuðu ekki
Áður en lengra er haldið er mikilvægt að geta þess að fyrir miðja síðustu öld var sú hugmynd ráðandi að fólk með geðsjúkdóma hefði ekki gott af því að búa í þéttbýli. Betra væri að því væri komið fyrir á rólegum stað úti á landi. Fólk var því tekið úr samfélaginu og flutt á stofnanir úti í sveit þar sem það dvaldi langtímum saman og missti smám saman niður þá færni sem það hafði haft til að taka þátt í verkefnum sem tilheyra daglegu lífi og starfi.
Vinnumiðaður dagur
Árið 1955 byrjaði félagsráðgjafinn John Beard að vinna í klúbbnum. Hann virkjaði atvinnulausa félaga til að vinna með honum að því að gera upp hús félagsins. Vinnan veitti félögum hlutverk og tilgang. Þannig kviknaði hugmyndin um gildi vinnumiðaðs dags. Í dag er starfsemi klúbbhúsa um allan heim byggð upp sem vinnumiðaður dagur.
Árið 2012 birtust niðurstöður rannsóknar Schonebaum og Boyd um áhrif þess, fyrir fólk sem hefur veikst af geðsjúkdómi og hefur þurft að leggjast inn á sjúkrahús, að taka þátt í vinnumiðuðum degi áður en það fer út á almennan vinnumarkað á ný. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að þeir sem tóku þátt í vinnumiðuðum degi áður, entust lengur í vinnu en þeir sem reyndu að fara beint út á vinnumarkaðinn.
Út í samfélagið á ný
Í dag er einn af lykilþáttunum klúbbhúsa að styðja félagsmenn sem vilja vinna á almennum vinnumarkaði eða að sækja sér menntun. En vegna þess að atvinnurekendur eru oft tregir til að ráða fólk til starfa sem á sögu um geðsjúkdóma, vegna ótta við veikindaforföll, samdi Fountain House hreyfingin viðmiðunarreglur árið 1958 í kringum hugmynd sem vaknaði og kölluð er Ráðning Til Reynslu (RTR).
Hugmyndin var sú að finna leiðir til að fólk með geðraskanir fái tækifæri til að spreyta sig á vinnumarkaði, með því að taka að sér hlutastörf í 9-12 mánuði. Starfsmaður í klúbbnum setur sig þá vel inn í starfið og þjálfar áhugasaman félaga til að sinna því. Á meðan á reynslutímanum stendur styður starfsmaður klúbbsins bæði félagann og vinnuveitandann með ráðum og dáð. Ef félagi getur af einhverjum ástæðum ekki mætt til vinnu er klúbburinn ábyrgur og útvegar starfskraft sem leysir hann af. Annað hvort starfsmaður eða annar félagi hleypur þá í skarðið. Vinnuveitandinn þarf því ekki að óttast forföll heldur er honum tryggt 100% vinnuframlag. Þetta fyrirkomulag hefur verið notað víðs vegar um heim og mælst afar vel fyrir, bæði meðal félagsmanna og atvinnurekenda.
Fyrsti félaginn sem fékk starf í gegnum Klúbbinn Geysi var Marteinn Már Hafsteinsson. Hann fékk vinnu í október árið 1999. Eftir reynslutímann fékk hann fast starf hjá fyrirtækinu sem hann gegnir enn. Lesa má um sögu Marteins Más og fleiri félaga í Klúbbnum Geysi í bók sem kemur út fyrir jólin. Bókin er unnin af höfundi þessarar greinar í samstarfi við Klúbbinn Geysi og auglýsingastofuna Hvíta húsið.
Hilton mannúðarverðlaunin
Árið 2014 hlaut Fountain House og Alþjóðasamtök klúbbhúsa (Clubhouse International), Hilton mannúðarverðlaunin sem eru ein merkustu mannúðarverðlaun heims. Þau eru veitt árlega til félagasamtaka sem starfa án hagnaðarsjónarmiða og hafa sýnt einstakan árangur í starfi sínu við að draga úr þjáningum fólks.
Hreyfingin berst til Íslands
Iðjuþjálfarnir Anna Sigríður Valdimarsdóttir og Anna Guðrún Arnardóttir, sem unnu saman á Kleppsspítala, komu með hugmyndafræðina hingað til lands, eftir að hafa orðið vitni að því að það var ekkert sem tók við, til að brúa bilið milli spítalavistar og samfélagsins. Eina úrræðið var að leggja fólk aftur inn á spítala, þar sem færni fólks til að taka þátt í daglegu lífi og störfum hélt áfram að minnka.
Klúbburinn Geysir hlýtur viðurkenningu fagaðila og samfélagsverðlaun
Strax á fyrstu árum Klúbbsins Geysis fóru læknar og endurhæfingaraðilar að benda skjólstæðingum sínum á klúbbinn en það eru mikil meðmæli með starfseminni. Starf klúbbsins hefur haldið áfram að eflst og þróast og starfsmönnum hefur fjölgað í takti við aukin umsvif, fjölgun félaga og fjölgun starfa í verkefninu Ráðning Til Reynslu.
Árið 2014 hlaut Klúbburinn Geysir Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins, eftir að hafa verið valinn úr hópi á fjórða hundrað tilnefninga.
Allir þeir sem eru að glíma við geðraskanir eða hafa sögu um slíkar raskanir eru velkomnir í Klúbbinn Geysi. Engin félagsgjöld eru í klúbbnum.
Höfundur er að skrifa bók um Klúbbinn Geysi.