Við það að lesa um hinn langa biðlista sjúklinga á Íslandi í dag til að komast jafnvel í hjartaaðgerð, sá ég að ég ætti að taka þjóðina aftur í tímann og segja frá upplifun minni árið 1964 af læknisþjónustu og sjúkrahúsdvöl. Enn þann dag í dag sé ég þessa sögu sem afar dularfulla og grunar mig að eitthvað meira hafi verið í gangi en bara hin áberandi ástæða fyrir að ég lenti á spítalanum. Og trúlega skapa öll slík atriði áfallastreitu í mannverunni, þó að barn eða ung kona skilji hana kannski aldrei almennilega, og allra síst á tímum þegar það orð eða hugtak var ekki til í málinu eða almennri hugsun. Þjóðin hefur auðvitað verið meira og minna í slíku ástandi af endalausum ástæðum; vegna veðurs, slysa, og dauðsfalla og hefur hún verið iðin við að kyngja, vegna þess að það var séð sem hin mesta dyggð.
Áfallastreita er svo margvísleg og blessað fólkið sem verður að bíða eftir hjartaaðgerð upplifir ábyggilega slíkt stress og ástvinir þeirra með þeim.
Mitt tilfelli var annarskonar ...
Það voru eitruð orð sem ég kem meira inn á síðar ...
Nú þurfum við að fara inn í tíma þegar allavega foreldrar mínir áttu mjög erfitt með að tala um virkni líkamans og mest þann hluta sem sneri að getnaðarfærum, blæðingum og slíku. Allavega hvað mig varðaði sem fyrsta barnið. Og það þó að faðirinn hafi verið læknir og eiginkonan hans vildi verða hjúkrunarkona, en gat það ekki á endanum út af getnaðinum sem kom mér í heiminn.
Svo hér eru tvö slæm tilfelli um veg frekjunnar í kynhvötinni og hvernig höftin um að tjá sig um þau sköpuðu mikið drama, sársauka og erfiðleika fyrir þá sem lifðu við það. Þessir einstaklingar ættu að hafa vitað nóg um öll kerfi líkamans til að fræða börnin. En tunguhöftin voru trúlega mikið til frá kenningum kirkjunnar um syndina um það kerfi. Slæmur mannlega tilbúinn geðklofi.
Kennarar gátu ekki heldur orðað þann kafla í heilsufræðinni af því að þessir hlutir líkamans voru í raun á einskonar bannlista um tjáningu í samfélaginu á þessum tímum. Þeir voru séðir sem mjög dónalegir! Og hvernig á það sem fólk er skapað með að vera séð sem dónalegt í stað þess að vera frætt um hvernig kerfið virkar og hvers vegna og svo hvernig væri hægt að sleppa að lenda í vandræðum út af því.
Það er sérkennilegt hvernig því var öllu haldið svo leyndu sem snerti þetta frekasta kerfi í mannverum sem heimsækir ekki heilabúið um hvort það yrði í lagi að barn yrði til.
Ég hafði lent í sjúkrahúsi sem barn eftir að það kom í ljós að hægri mjöðmin hafði farið úr liði. Það hafði kostað að teknar voru margar röntgenmyndir, svo að það hafði svo áhrif á hæð mína seinna. Og að blæðingar fóru ekki í gang hjá mér fyrr en um þetta leyti 1964 þegar ég var sautján ára.
Blæðingarnar voru miklar, ég þvoði nærfötin á kvöldin í vaskinum í baðherberginu þó að flottasta þvottavélin í bænum og þurrkari og líka nýmóðins strauvél stæðu í hinum enda íbúðarinnar í eldhúsinu. En þar sem þöggunarsnúran var rækilega utan um hálsinn á öllu liðinu á heimilinu sem varðaði þessi atriði líkamans, og það á heimili sem hafði fimm stúlkur, en ekki allar komnar á blæðingar á þessu stigi. Þær yngri áttu nokkur ár í það.
Á heimilinu var bara einn karlmaður sem var faðirinn. Varðandi þetta með þvottinn var ég aldrei spurð af þeim af hverju ég væri að þvo nærfötin á kvöldin, og svo rúmfötin á morgnana í baðherberginu. Með foreldrana áhugalausa um þetta ferli með þvott hangandi í baðherberginu og þess vegna engar spurningar. Og ég auðvitað rækilega í tjáningarlás með þöggunarsnúruna rækilega vel herta um hálsinn, þá hélt ég auðvitað áfram að þvo af mér sjálf og hengja upp í baðherberginu. Fíllinn í rýminu var blóð og líkamsstarfsemi kvenna.
Viðhorfið var litað af viðhorfum trúarbragða um synd líkamans – Hvernig átti sköpun líkamans að vera syndugur sem slíkur?
Ég var í hárgreiðslunámi á þessum tíma og notaði auðvitað heil reiðinnar ósköp af dömubindum þennan tíma. Ég hafði líka verið á vissu næringar mótþróarskeiði og drakk mikið af kóki sem samt var ekki næg ástæða fyrir að líkaminn vildi sleppa öllu þessu blóði út úr sér.
Blæðingarnar höfðu staðið í um sex vikur. Svo einn daginn þegar ég var á leiðinni í vinnuna á hárgreiðslustofunni fann ég að það væri að fara að líða yfir mig, svo að ég vissi að ég yrði að snúa við og fara heim. Pabbi kom svo stuttu seinna heim og ég sagði honum þá að hann þyrfti að mæla í mér blóðið. Þá var það sem læknirinn sem átti víst ekki að sinna eigin börnum samkvæmt kenningum fræðanna, var fljótur að bregðast við, fór á stofuna og kom heim með tækið eftir mjög stuttan tíma. Þá kom í ljós að næstum allt blóðið í mér var hreinlega farið.
Mamma var í Bretlandi á þessum tíma svo að hún var ekki meðvituð um hvað væri að gerast, og þá var ekki hægt að hringja í fólk um allan heim, eins og er núna.
Sjö vikna námskeið í hegðun í sjúkrahúsum
Það næsta sem ég vissi var að við vorum í bílnum á leiðinni á Landakotsspítalann. Það átti eftir að verða um sjö vikna sérkennileg törn. Í dag myndi engin kona vera geymd í dýru sjúkrahúsrými í sjö vikur út af blóðleysi, nema kannski ef það væri grunur um blóðkrabba eða eitthvað slíkt, slæman sjúkdóm sem ekki var tilfellið með mig.
En þarna var ég í allar þessar vikur, fékk járn í æð og vítamín og blóð var tekið á hverjum degi. Ef ég ætti krónu eða dollara fyrir hvert skipti sem nál hefur heimsótt æðar mínar í gegnum ævina væri ég rík kona.
Svo þar sem ég var ekki með verki og ekki á neinum verkjalyfjum gat ég verið á ferðinni og varð auðvitað vitni af ansi mörgu af því sem gerðist á sjúkrahúsinu.
Eitt af því sem stakk illilega í hjartað á mér var að vitna blessuð börnin á barnadeildinni, sem var á sömu hæð og deildin sem ég var á, standa grátandi við hurðina að ganginum að deildinni yfir að foreldrarnir voru farnir.
Á þeim árum voru þau sérkennilegu og sjúklegu viðhorf í gangi að það væri betra fyrir börnin að sjá sem minnst af foreldrum sínum, svo að heimsóknir voru bara einu sinni eða tvisvar í viku.
Hugsa sér áfallastreituna sem þau börn hafa lifað með frá þeim viðhorfum. Þau börn eru um yfir fimmtugt og sextugt núna ef þau eru öll á lífi sem dvöldu þar þá og þjáðust. Það viðhorf var líka þegar ég var sjálf barn á spítala árið 1948, og hefur ábyggilega gert sitt í mér sem ég hef ekki næga innsýn í.
Sjúkrahús eru heill heimur út af fyrir sig
Eitt af því sem var mjög líkt því að vera í leikhúsi, var þegar heilt lið lækna birtist við rúmið og dróg gardínuna fyrir í kringum rúmið. Þá hófst hin merkilega stéttabarátta einskonar sjálfs-mikilvægis-keppni á milli þeirra, sem hafði ekkert að gera með sjúklinginn í rúminu. Einhverskonar sena sem ég skildi auðvitað ekki, en upplifði þau samtöl ekki hafa neitt með mig sem sjúkling í rúminu að gera.
Ég hef upplifað þetta á öllum sjúkrahúsum sem ég hef verið á, í einhverja daga. Og yfirleitt eru samræður lækna ekki um mig eða beint tengd mér eða ástandinu, heldur virðist vera um stéttaríg að ræða á sérkennilegan hátt. Nema þeir séu að ræða læknisfræði um sjúklinginn án þess að leyfa honum að vera með í þeirri umræðu.
Landakotsspítalinn var kaþólsktrekin stofnun. Mér hafði einhvern tímann verið sagt að allar nunnur væru giftar Guði og væru einskonar englar hér á jörðu. Hvernig sem það átti að birtast vissi ég ekki þá, nema ég taldi að þá væru þær með hlýja og nærgætna framkomu við veikt fólk.
En það sem ég upplifði af nunnunni á þessum gangi var eitthvað allt annað en það sem sú saga gaf í skyn.
Staðreyndin var að nunnan á þessum gangi var alls ekki ein af þeim nunnum sem ég hafði heyrt um að allar nunnur væru, og væru það af því að þær væru giftar Guði. Svo hvernig gat Guð verið giftur öllum þessum konum sem urðu nunnur? Kannski neitaði hann að giftast þeim slæmu?
Þar sem ég sé ekki að það sé einu sinni mögulegt að það sé persóna kölluð guð með mikið grátt skegg sem eigi að hafa alsjáandi auga og átti víst líka að vera barnapía, dómari, leiðbeinandi og svo að veita verðlaun til einstaklinga með rétta hegðun, eins og trúarbrögð reyndu að halda að okkur að þetta kerfi væri, heldur upplifi ég mikið og margþætt og flókið kerfi sem enginn myndi nokkurn tíma þekkja né skilja að fullu. Hvernig geta konur sem eru nunnur virkilega verið giftar því?
En allir geta valið að nota góðu orkuna frá því kerfi, og reynt að gera sitt besta í mannlegum samskiptum, sem samt tekst því miður ekki nærri alltaf.
Nei, það var enginn Guð né mildi eða samhygð í hjónabandinu með þessari nunnu. Hún réðist strax að mér með ruddaskap fyrir að vera svona lág í loftinu, eins og ég hefði gert eitthvað sjálf til að vera ekki eins há í loftinu og talið væri að stelpa á þessum aldri ætti að vera. Hún sagði þetta með skömm. Ég heyrði enga kímni í tóninum, enda ekki mikill bógur með næstum allt blóðið farið. Svo þegar hún lærði hver faðir minn væri hnussaði hún, svona lítil og dóttir hans pabba þíns. Skammastu þín var það sem lá í orðunum.
Fjölbreytni sérkennilegrar hegðunar
Það var eldri kona í stofunni um tíma og einn daginn varð það slys að bolli datt niður af náttborði hennar og brotnaði. Nunnan varð æf og talaði eins og nú væri spítalinn orðinn gjaldþrota, og hún yrði að fá peninginn fyrir bollanum sem fyrst, svo hægt væri að bjarga fjárhag spítalans. Blessuð konan varð mjög stressuð, hringdi í manninn sem kom með hraði með þessar krónur til að bjarga fjárhag spítalans.
Svo var það bænasenan. Á hverju kvöldi kom hún með látum inn í hverja stofu, hristi sig eða hellti sig niður á gólf í stofunni, tuðaði einhver orð sem áttu að vera bæn. Orð sem komust ekki til skila.
Svo kom mamma heim og heimsótti mig á spítalann. Það varð sérkennilegt samtal. Hún spurði mig af hverju ég hafði ekki sagt neitt, og ég benti henni þá á vandræðaskapinn í henni um allt tal um slíkt (en ég hafði ekki þá hugsun í mér þá að minnast á hún hafði aldrei einu sinni spurt mig af hverju ég væri að þvo þessa hluti sjálf). Þá varð hún vandræðaleg og þagnaði.
Svona liðu dagarnir, sjö vikur, allskonar önnur hegðun kom upp. Ein kona sem var í stofunni um tíma vildi bara láta hjúkrunarkonur draga gluggatjöldin fyrir og frá, þó að ég og aðrar konur í stofunni gætum gert það og sparað hjúkrunarkonum þau spor, þar sem þær höfðu margt annað að gera sem við gátum ekki gert.
Fólk í heimsóknum talaði oft eins og að það kæmi aldrei neinn á lífi út úr sjúkrahúsum.
Maður kom á börum með svo mikið hold að það hékk alla leið niður á gólf af sjúkrabíls-börunum. Það þurfti að taka hurðina af hjörum í stofunni sem hann fór í. Svo dó blessaður maðurinn stuttu seinna. Þekkt leikkona átti þar líka stutta dvöl, en var ekki með neina „drottningar“ takta.
Það var auðvitað mikill lærdómur um mannlega hegðun með því að vera þarna í þessar sjö vikur. Svo er það hin dularfulla spurning? Af hverju var ég geymd þarna þegar faðir minn læknir hefði getað gert allt heima sem gert var við mig þar, og tekið sýnin til baka í vinnuna til rannsóknar. Voru þau fegin að vera laus við mig um tíma, eða var eitthvað annað í gangi sem ég mun aldrei vita um.
Ég var líka notuð sem tilraunavera fyrir læknanema til að gera allskonar lækna eitthvað við, allt saklausar æfingar fyrir þá.
Kannski var það eitt af ástæðunum fyrir að hafa mig þar, ef ekki væri hægt að nota aðra sjúklinga í það? Meinlaus próf.
Bergmál traumans kastast langt inn í framtíðina
Það var svo ekki fyrr en löngu seinna að ég áttaði mig á að það gæti líka hafa verið mjög „trauma“-tengd ástæða fyrir þessum miklu blæðingum. Eitruð orð sem hvorki hugur né líkami gátu melt og reyndu þess vegna að deyja á einhvern hátt þannig, og það án þess að sú hugsun heimsækti rökhyggju-hlutann í mér. Þá var það fyrsta stigið af afleiðingum þess atviks sem ég fékk ekki fyllilega skilning á fyrr en meira en hálfri öld síðar.
Það var atvikið sem gerðist einhverjum vikum áður en mamma fór í frí til Bretlands að ég hafði hugsað upphátt þegar ég var að greiða á mömmu hárið og velti því fyrir mér hvað ég ætti að gera í sumarfríinu.
Ég hafði rétt endað samband við fyrsta vin af karlkyni sem ég hafði, og það var af því að ég var ekki tilbúin í kynlíf og slíkt, en hann eldri en ég og greinilega tilbúinn. Ég hafði ekki sagt mömmu það, þá sagði hún, auðvitað ferðu með vini þínum. Þá sagði ég að ég hefði endað það samband.
Demban sem kom að mér og yfir mig og í mig þegar ég sagði henni að ég væri búin að enda það samband, en nefndi ekki af hverju ég hafði endað það. Hún hugsaði ekki einu sinni þá hugsun að vilja vita ástæðuna. Hún spurði ekki um ástæðuna, heldur trylltist. Orð full af reiði, hatri og svekkelsi helltust að mér og yfir mig. Orðin sem komu hárbeitt af hatri voru:
„Það mun aldrei neinn annar maður elska þig, það mun aldrei neinn annar líta við þér, þú munt aldrei giftast og líf þitt vera ömurlegt.“
Bergmál neyðarinnar í henni vegna þess að ég ætlaði ekki að giftast honum skapaði greinilega heilt „vortex“ og kallaði á allar dökku hugsanirnar um þrána í henni til að vera laus við mig, af neyð í hugarheimi hennar.
Ég veit ekki hvað gerðist í mér við að fá þessa miklu eiturdembu, nema að ég var ófær um að segja neitt gegn þessum orðum, eða geta melt orku reiðinnar og hatursins sem hún hellti yfir mig unglinginn. Barnið sem eyðilagði drauma hennar um starfsframa, og var aldrei það afkvæmi sem var þráð, heldur það sem minnti hana ævilangt á slæm mistök.
Ofræði kynhvatarinnar sem er þar of oft á fullum krafti að heimta virkni, án neinnar tillitssemi til annarra þarfa í einstaklingum.
Svo þeir sem telja að öll börn sem séu getin séu óskabörn þurfa að skilja að það er óskhyggja, en ekki reynsla nærri allra sem fæðast í heiminn og hefur ekki verið hvorki fyrr eða síðar.
Leiðir til að deyfa heila barna
Ég náði svo að skilja nú í ellinni að það að hafa verið færð eins og peð á tafli í mörg ár sem barn hafði skapað vissan doða eða óvirkjað hólf í heilabúi mínu. Mamma hafði yfirgefið mig sem ungabarn til að byggja samband við manninn sem barnaði hana, af því að þau urðu að giftast út af tilkomu minni, og hann var þá í námi í Bandaríkjunum.
Hún náði svo í mig eftir um trúlega tvö ár og þá upplifði ég hana auðvitað ekki sem móður mína. Sálfræðingur hér í Ástralíu sagði mér að barn sem upplifði slíkt, upplifði það sem því væri rænt. Og það er tilfinningalega fjarlægt ástand.
Hún var bara kona sem rændi mér frá afa og ömmu. Svo að heilabúið í mér hafði þá ekki öðlast neina sjálfsmeðvitund, hvað þá sjálfsumhyggju til að standa upp fyrir sjálfri mér gegn slíkri árás.
Það var svo ekki fyrr en í enda ársins 2017, árið sem ég varð sjötug að ég fékk þessa dýrmætu athugasemd frá syni mínum, sem reyndust lykilorð (enda vinnur hann við tölvur) til að súmma allt dæmið upp um ekki bara þessa árás á mig, heldur aðra í sama dúr af frænku eitthvað eftir sjúkrahúsdvölina.
Þá flæddu allar tilfinningarnar og annað að mér sem ég hefði átt að hafa þá, en voru frystar í doða sjálfsbjargarleysi kringumstæðnanna. Einhver hólf í heilabúinu fóru í gang sem höfðu verið dofin í öll þessi ár.
Það að lesa fyrstu orðin í bók Bessel Van Der Holk: The Body Keeps the Score, Mind, Brain and Body in The Transformation of Trauma, er góð staðfesting á svona hlutum sem enginn viðurkenndi á þeim tímum að gætu einu sinni verið umræðuefni. Hvað þá vandamál. Hlutur til að þegja yfir.
Sú staðreynd að fólk með hjartasjúkdóma þurfi nú árið 2019 að vera á biðlistum, mun svo sannarlega skapa mikið af óþarfa stressi og oft ótímabærum dauðsföllum og trauma fyrir þá og ástvini þeirra.