– Amma, hvar keyptirðu eiginlega sjónvarpið þitt? spyr sonardóttir mín sem er nýkomin á skólaaldur og tekin að temja sér gagnrýna hugsun. Það gengur víst ekki lengur að telja henni trú um að ég eigi sjónvarp án barnaefnis. Yfirleitt finnst mér ekki fallegt að hagræða sannleikanum í samskiptum við börn en þessi hvíta lygi hefur þó reynst mér vel af því að mig langar frekar að lesa fyrir hana en sitja með henni yfir talsettum teiknimyndum.
Ég er af fyrstu kynslóð sjónvarpsnotenda á Íslandi. Sjónvarpstæki kom inn á æskuheimili mitt þegar ég var níu ára gömul en á þessum tímum vorum við þess öll fullviss að sjónvarpsáhorf væri á einhvern hátt af hinu illa og þyrfti að takmarka. Á unglingsárunum áttaði ég mig fyrst á að hægt væri að senda út sjónvarpsefni öll kvöld vikunnar, jafnvel á björtum sumarkvöldum. Fullorðin og flutt til Svíþjóðar sá ég fyrst sjónvarp fyrir hádegi þegar börnin mín settust fyrir framan barnaefnið að morgni eins og tíðkaðist. Þetta var snemma á níunda áratug síðustu aldar og önnur tæknibylting var yfirvofandi – myndbandavæðingin. Slíku tækniundri var að sjálfsögðu ekki hleypt mótþróalaust inn á heimilið. Það var ekki fyrr en synirnir gerðu uppreisn gegn úreltum hugmyndum foreldranna og unnu nákvæma úttekt á tækjakosti nágrannanna að fjárfest var í tæki sem laut ekki lögmálum línulegrar dagskrár. Reyndar höfðu þeir nokkra reynslu af því að horfa á vídeó heima fyrir vegna þess að stundum, þegar við foreldrarnir þurftum að kaupa okkur frið, leigðum við vídeóbox. Það var myndbandstæki ásamt einni spólu sem hafa mátti í tuttugu og fjóra tíma. Þá gláptu drengirnir mínir frá morgni til kvölds á sömu myndina og guð má vita hvort ekki var læðst fram um nætur til að njóta töfra hins teiknaða heims.
Undur upplestursins
Þótt ég hafi horft með afkomendum mínum á margt gott sjónvarpsefnið kýs ég fremur að lesa með þeim enda höfum við átt bestu stundirnar með bók í hönd. Ég las upphátt fyrir börnin mín þrjú í tæp þrjátíu ár; byrjaði þegar sá elsti var ungbarn og hætti þegar sú yngsta var komin vel á giftingaraldur. Upplestur úr barnabókum reyndist bæði mér og þeim góð leið til að læra sænsku og síðar önnur tungumál. Við lærðum líka ýmislegt annað nytsamlegt af bókum þótt upplestrarstundirnar hafi ekki endilega verið vitsmunalegs eðlis heldur fremur tilfinningalegs af því að stöðug umræða átti sér stað um innra líf persónanna. Fátt skapar rólegra andrúmsloft á heimili og meiri nánd barns og foreldris en að kúrt sé saman yfir bók. Miðbarnið drakk bókmenntir í sig frá blautu barnsbeini af því að iðulega fylgdust að næringarinntaka þess nýfædda og upptaka þess eldri á andlegri fæðu. Ég vona að báðir tengi ómeðvitað og eilíflega lestur bóka við lífgefandi móðurmjólkina.
Við lásum hvers kyns bækur. Strákarnir vildu að sjálfsögðu njóta töfra hins teiknaða heims í bókarformi og ég gerði mitt besta til að túlka myndabækur á sannfærandi hátt þótt aldrei hefði ég af því sérstaka unun. Fljótlega gerðum við með okkur samning: Alltaf skyldi lesið úr tveimur bókum, fyrst að þeirra vali og svo mínu. Það var ekkert léttmeti sem ég valdi ofan í börnin mín en þau vöndust því fljótt að meðtaka erfiða texta með eyrunum. Sjálf ólst ég upp við að lesnir væru húslestrar, sögur sagðar og hlustað saman á útvarpsleikrit svo að mér fannst hlustun eðlileg leið til að læra. Ég kynnti hverju barnanna minna Sálminn um blómið á sjötta aldurári þeirra og þegar ég var um skeið einkamóðurmálskennari sonar míns á kostnað sænska ríkisins setti ég Nóbelskáldið á námskrá þriðja bekkjar grunnskóla. Hann varð hrifinn af Heimsljósi.
Eftir því sem lesfærni barnanna fleygði fram hættu þau að leggja sjálf bækur til upplesturs en ég sá alfarið um valið á framhaldssögum. Þá las ég upphátt bækur sem ég ætlaði hvort sem er að lesa að því gefnu að ég teldi þær hafa nokkurt uppeldisgildi. Stundum velti ég því fyrir mér hvort allur þessi upplestur reyndist fremur lestrarletjandi en hvetjandi en sá að öll urðu þau fljótt læs enda voru þau í raun að lesa sjálf þegar ég kom bókinni þannig fyrir að þau gætu fylgst með stöfunum raðast saman í orð um leið og ég las þau. Dóttir mín var komin á fullorðinsár þegar ég hætti að lesa fyrir hana úr heimsbókmenntunum. Hún tók ung upp þann sið að forvitnast um hvað væri að gerast í þeim bókum sem ég las fyrir sjálfa mig. Ég minnist þess að eitt sinn þegar ég lá í suðrænum sundlaugargarði með spennubók í hönd kom hún til mín með nýfundna leikfélaga af ýmsum þjóðernum og bað mig um að greina hópnum frá plotti sögunnar.
Sameiginleg ímyndun mannkyns
Sögur eru límið í samfélagi manna. Án sagna gætum við aðeins átt samfélög þar sem allir þekktust. Í bók sinni Sapiens – mannkynssaga í stuttu máli, sem nýverið kom út í íslenskri þýðingu (JPV útgáfa, 2019), segir sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari á aðgengilegan hátt frá því hvernig mannfólkið hefur með félagslegri hugsmíð tvinnað saman ótrúlega flókið net sagna úr ímynduðum veruleika. Hann telur leyndarmálið að baki þess að milljónum takist að vinna og búa saman vera að allir trúi sömu goðsögnunum, þeim trúarlegu en ekki síst goðsögunum sem við höfum í sameiningu skapað um aðra óáþreifanlega þætti samfélaga okkar.
Bandaríski goðsagnafræðingurinn Joseph Campbell setti um miðja síðustu öld fram hina þekktu kenningu um hetjuferðina (The Hero´s Journey) í bókinni A Hero with A Thousand Faces (1949). Hann taldi, eftir að hafa rannsakað heim goðsagnanna um árabil, að allar lytu þær sama frásagnarfræðilega líkaninu. Síðar hafa fræði-og listamenn sýnt fram á að hetjuferðin birtist ekki eingöngu í fornum sögnum heldur einnig í klassískum sem og samtíma-bókmenntum og kvikmyndum en ekki síst í lífssögum hverrar manneskju. Hetjuferðin fjallar um söguhetju sem heyrir kall til breytinga. Eftir að hafa horfst í augu við það sem hindrar hana stígur hún inn í heim ævintýrisins þar sem hún mætir margvíslegum ögrunum, deyr táknrænum dauða en endurfæðist, vinnur sigra, fer í gegnum ferli friðþægingar og snýr aftur til fyrri heimkynna sem umbreytt manneskja. Sú gjöf sem raunveruleg hetja þiggur í hetjuferð sinni kemur samfélagi hennar öllu til góða.
Hetjuferðin sem hjálpartæki
Ég tók hugmyndinni um hetjuferðina fagnandi þegar ég kynntist henni fyrst eftir að hafa lifað, lesið og kennt ritlist í áratugi. Sjálf skynjaði ég hvernig ég hafði allt mitt líf farið í lengri og styttri hetjuferðir eins og lýst er hér að ofan en einnig speglað mig í ferðum ímyndaðra hetja í hljóði fyrir sjálfa mig en upphátt með afkomendum mínum. Þegar ég fór að nota hetjuferðina í kennslu áttaði ég mig enn betur á því að lestur og skrif eru sameiginleg sjálfshjálparvinna mannlegra samfélaga enda speglum við líf okkar og líðan stöðugt í vegferð hetjunnar.
Hetjuferðin birtist ekki síst í afþreyingariðnaði nútímans og því velti ég fyrir mér hvers vegna mér finnist enn að það hljóti að vera börnum hollara að lesa um hetjuferðir en að horfa á þær myndgerðar á skjá. Í hetjuferðarþjálfun sem ég fór nýverið í gegnum fann ég skýringu sem heillaði mig. Hún er sú að nútíma neysluhættir á frásögnum feli gjarnan í sér að barnið fylgi ekki söguhetjunni í gegnum allan ofangreindan þroskahring. Börn sjá brot úr myndum og meðtaka því ekki á sama hátt skilaboðin um að hverri hetju sé mikilvægt að klára þroskahringinn eins og börn gerðu þegar þau hlustuðu á ömmu sína ljúka sögunni af Búkollu á þeim orðum að bóndasonur hafi komið heim breyttur maður. Þótt ég skammist mín enn örlítið fyrir að hafa stundum geymt drengina mína daglangt framan við vídeóboxið hugga ég mig við að þeir hljóti að hafa náð að meðtaka hetjuferðarboðskap þeirrar einu myndar sem horft var á. Mér hefði þótt gaman að geta gripið til þess frásagnarfræðilega verkfæris sem hetjuferðin er á meðan ég las sem mest upphátt fyrir börn og ég hvet alla foreldra til að hjálpa börnum sínum að skoða ferðir söguhetja í bókum og myndum sem þroskahring. Ég held að það gæti orðið lestrarhvetjandi sjálfsvinna fyrir börn jafnt sem fullorðna.