Kemur í hug minn við að lesa um harmleikinn varðandi leikhúsmálin og ásakanir sem þolendur hafa ekki viljað standa fyrir í eigin persónu.
Hér í Ástralíu fékk Geoffrey Rush leikari miklar skaðabætur út af slíku. Konan sem ásakaði hann um slæma kynferðislega hegðun í vinnu þeirra í leikhúsi vildi halda nafni sínu og andliti leyndu fyrir þjóðinni.
Ég er 72 ára og fagna #MeToo-hreyfingunni af öllu hjarta og sé hana sem mikið tækifæri fyrir alla að færa sig lengra fram-á-við í tjáningu okkar um alla þessa hluti nauðganir, óæskilega snertingu og allt þar á milli í öllu litrófi tilfinninga. En ég hef séð að sumir einstaklingar af báðum kynjum ná því ekki og vilja viðhalda gömlu frumskógar-lögmálunum um alla þessa hluti. Og vilja ekki skoða sinn innri mann um þessi atriði.
Karlveldið réð hreinlega öllu um snertingar um aldir og komst upp með nauðganir um aldir. Við sjáum hvernig það er að taka margar þjóðir langan tíma að breyta bæði viðhorfum og þá auðvitað líka lögum um þau mál og hvernig þau séu unnin.
Ég upplifði íslensku þjóðina mjög tilfinningalega fatlaða þegar ég var þar og ég heyrði aldrei neina umræðu um að læra að skilja eigin tilfinningar til fullnustu og helst átti að bæla þær og kæfa og nota smá bara spari því að rökhyggjan var séð sem mikilvægari sem umferðarreglur lífsins.
Hvernig gat maður skilið það öðruvísi þegar manni var bannað að sýna tár á almannafæri, og að það væri séð flottara fyrir syrgjendur að herða sig í jarðarför ástvinar og ekki láta neinn sjá neina væluskjóðu hegðun með tárum á almannafæri, þó að barn eða maki eða náinn vinur hefði dáið og það kannski mjög óvænt?
Þess konar skilaboð fékk ég frá móður minni ef ég fór í jarðarför sem hún fór ekki í og það var um að fá tækifæri til að dæma viðkomandi ef ég myndi segja, að já tárin flæddu niður kinnarnar. En ég sagði aldrei neitt nema já þau stóðu sig vel og minntist ekki einu orði á hvort tár sáust eða ekki, því að ég var svo ósammála þessu viðhorfi.
Það var ekki fyrr en eftir að koma hingað til Ástralíu og að sjá nýja bók koma út sem kallast Emotional Intelligence sem ég gat farið að byrja á taka öll þessi atriði í sundur og sjá þau fyrir það sem þau eru. Og ég hef aldrei verið fær um að koma með það sem kallast „krókódílatár“.
Hin djúpa lotning fyrir kynþörfum karla
Þrátt fyrir jafnréttisbaráttuna sem hafði verið í gangi á virkan hátt í nokkra áratugi voru konur af kynslóð foreldra minna og þar með sú sem fæddi mig í heiminn enn með skráninguna um að kynhvöt karla væri mikilvægari en nokkuð annað og mætti sko alls ekki storka henni, né þeim. Mamma taldi sig jafnréttissinnaða en þegar kom að einhverju um karlkyn þá hurfu þær hugsanir og tilfinningar yfir um.
Þegar ég að lokum sagði henni árið 2000 frá einni erfiðustu atlögu að sjálfi mínu og mér sem unglingsstúlku, og það af manni sem hún þekkti deili á og var nógu gamall til að geta verið afi minn, og hafði verið fyrrverandi yfirmaður á opinberum vinnustað birtust þau viðhorf á mjög áberandi hátt. Þau sýndu og sönnuðu það viðhorf hennar að hann og þarfir hans voru allt í huga hennar, en tilfinningar mínar við þá upplifun skiptu hana engu máli. Þarfir hans voru mikilvægari. Og þessi margra alda heilaþvottur á konum um karla er enn viðloðandi í sellum líkama margra og við sáum það þegar þær frönsku sýndu neikvæðni til þess að #MeToo-hreyfingin fór af stað.
Ég hafði heimsótt þennan vinnustað eftir að hætta að vinna þar til að heilsa upp á konurnar sem unnu þar. Þessi maður hafði ávarpað mig um leið og ég kom inn og beðið mig um að koma inn í skrifstofu hans þegar ég væri búin að tala við þær. Ég skildi alls ekki af hverju eða hvað hann gæti viljað mér af því að það voru engar tengingar við hann fyrir utan að hann hafði verið þessi yfirmaður og var enn.
Það var af hreinni kurteisi sem ég fór svo inn í þessa skrifstofu til að læra hvert erindið við mig væri. Ég settist í stólinn beint á móti honum og þá kom spurningin til sextán ára stelpu sem var mun seinni en aðrar til að vera kynþroska, hvort að ég hefði haft kynmök. Ég sagði nei. Þá kom hann með þessa miklu ræðu um hversu mikilvægt það væri að fyrsti maðurinn myndi „vita hvað hann væri að gera“ og bauð sig fram til þess að vera sá kennari. Ég svaraði honum ekki, stóð upp gul og rauð og græn í framan og kom aldrei inn á þann vinnustað aftur. Og það tók mig tíma að ná að hafa kjark til að segja einni konu sem vann þar hvað ég hafði upplifað.
Það var svo um fjórum áratugum síðar sem ég loksins hafði það andlega sjálfstæði að geta sagt móður minni af þessari upplifun og var frestunin í nokkra áratugi af því að eitthvað í mér vissi að hún myndi ekki styðja mig. Þegar ég sagði henni söguna fékk ég þessi orð: Af hverju ertu að segja mér þetta núna? Af hverju hugsar þú ekki um mannorð hans og hann sem er dáinn?
Í þeim orðum lá að hún hefði frekar viljað að ég hefði þegið boðið. En hvort hún hefði orðið glöð yfir ef þungun hefði orðið er hin mikla spurning eftir allar þær hótanir sem ég hafði fengið ef mér yrði á að verða lauslát.
Konum, stelpum var innprentað að taka á sig og í alla smán, alla sekt og alla ábyrgð um það sem snerti kynlíf og afleiðingar þess, ef við vorum ekki trúlofaðar eða giftar. Strákum var aldrei kennt um.
Móðir vinkonu minnar hafði enga samhygð með börnum sínum heldur þegar þau tóku stjúpföður sinn fyrir rétt fyrir misnotkun á sér. Samhygð hennar var eingöngu með manninum, ekki börnum hennar og það hefur verið saga ótal margra um allan heim.
Hversu tilbúið er mannkyn í raun til að þroskast með #MeToo?
Nú er þessi hreyfing sem er kölluð #MeToo að kalla mannkyn til að þroskast á nýtt stig í sér um alla þessa meðvitund um tilfinningar okkar, kynhvöt, kröfur um að vita nákvæmlega hvernig eigi að fullnægja okkur og vera með allan tónstiga tilfinninga á hreinu. Það sorglega er, að ef og þegar við höfum ekki alist upp við að fá kennslu í því frá blautu barnsbeini, þá eigum við langt í land með allan þann heim og tóna allra þessara tilfinninga, og þess að kunna að senda þær yfir í rökhyggjuna á réttan hátt.
Og það sama á við um karlmenn sem hafa greinilega annarskonar tilfinningakerfi. Og ég veit ekki um neina konu sem fékk þá leiðbeiningu á þeim árum.
Ég hef aldrei drukkið eða notað önnur vímuefni, svo að ég hef því enga reynslu í hvernig þessi efni virka í meðvitund um hvað sé í lagi þá stundina sem einhver vilji mök, hvort þá sé meðvitundin nógu skörp til að stoppa slæma reynslu áður en hún gerist.
Svo að þá geta hlutir gerst sem lenda á gráu svæði um túlkun á já-i eða nei-i.
Sem betur fer eru margir karlmenn komnir um borð og styðja þessa hreyfingu heils hugar.
Leikhús- og kvikmyndaheimar eru svo eigin veröld
Eftir að #MeToo kom upp hér og svo margar kvartanir komu frá konum um senur sem krefjast nándar sem eru í raun á mörkum mjög persónulegra sena ef saga í verkinu krefst þess að samfarir séu sýndar sem og annarra mjög líkamlega og tilfinningalega náinna atriða sem krafist er í verkum sem sýnd eru, var komið upp með að hafa hlutlausan aðila sem er vel að sér um slíkt og sér um að tjá sig við þá sem hlut eiga í máli svo að báðir aðilar upplifi það í lagi sem sé viljað af leikstjóra.
Ég veit ekki hvort þetta er í öllum leikhúsum hér eða kvikmyndagerð, en það hljómar og virkar sem mjög jafnandi og gott að hafa slíka mannveru í þeim tilfellum. Og kemur vonandi í veg fyrir að mismunandi skilningur og túlkun í slíkum atvikum, eða kærur komi upp.
Ég upplifði aldrei þetta slæma káf sjálf. Því að þegar ég fór á böll dansaði ég bara við menn sem ég fílaði að kæmu rétt fram, og þá var ferlið frá dansgólfinu og heim eðlilegt ef dæmið fór það langt. Ef eitthvað var, þá þráði ég meiri snertingu í lífi mínu en ég fékk.
Svo eru það huldu vandamálin sem koma ekki upp fyrr en á reynir
Ég veit núna að konur sem urðu fyrir kynferðislegri misnotkun sem börn eiga erfitt með að aðrir snerti þær nema að fá formlegt leyfi til slíks fyrst. En ef þær eru í leiklist þá er möguleiki á að þær nái ekki að vera það meðvitaðar um afleiðingar hugsanlegrar gleymdrar misnotkunar fyrr en snerting gerist sem þá kallar upp gamla reynslu, að þá fara öll kerfin eftir á í Ba-Bú ástand og þær upplifa sig eftir á hafa orðið fyrr enn einni misnotkun.
Ef stelpur og konur hafa alist upp við að taka alla smán og skömm af hvaða misnotkun sem var sjálfar inn á sig og skipað að þegja. Svo að við að nándin í hlutverkinu getur vakið upp reynslu í líkamanum sem rökhyggjan man ekki, en líkaminn man eru atriði sem leikstjórar þyrftu að kynna sér og gera þær ráðstafanir sem hjálpa viðkomandi einstaklingum..
Kannski að það sé þess virði að fara í nánar samræður við leikara, konur sem karla um hvort þau telji sig geta hafa orðið fyrir til dæmis kynferðislegri misnotkun sem gæti verið hindrun fyrir þau að taka að sér slík hlutverk eins og að eiga að vera par að elskast.
Þá þarf að skoða það þegar svona tilfelli koma upp og fara ofan í saumana á því þegar dæmið virðist á gráum svæðum.
Leifar gömlu viðhorfanna eru enn í gangi hér og þar
Sú staðreynd að margir karlmenn túlka svipbrigði og útlit kvenna á sinn hátt í heilabúinu sem jákvætt fyrir sig, og það án þess að sjá um að kynna sér hvort það sé raunin eða ekki, er svo annar flötur í þessu og ótal karlmenn sem hafa verið teknir fyrir lög og rétt sáu sig eiga rétt á aðgangi að þessum konum. Þoldu ekki neitun og notuðu kúgun til að hræða þær og fá sínu fram. En það eru ekki öll tilfelli í þeim geira.
Þegar ég sé einstaklinga kenna #MeToo-hreyfingunni um að eitthvað megi ekki lengur, sé ég það sem viðkomandi hafi í raun ekki náð hver tilgangurinn sé með þessari #MeToo-hreyfingu. En það er auðvitað mannlegt og trúlega eðlilegt að þeir einstaklingar sem hafa komist upp með allskonar snertingu í áratugi sjái það þannig. Það að kona kvartaði yfir að nú væri rassinn á þeim ekki kreistur lengur og hún vill greinilega að rassinn á sér sé kreistur, og myndi sakna þess ef það gerðist ekki og það allt út af #MeToo er dæmi um þessa sorglegu rangtúlkun um ætlun og markmið hreyfingarinnar.
Eins og ég hef nefnt áður voru konur af kynslóð foreldra minna ansi mikið algerlega undir valdi og áhrifum og ákvarðanatöku karlmanna sem síðan smaug mikið inn í mína kynslóð þó að við höfðum náð að rumska með jafnréttishreyfingum um rétt okkar alla vega að nokkru leyti án þess að þetta með að þroska tilfinningar okkar hafi komið inn í dæmið á þeim tímum. Áherslan þá var mikið meira sú að málefni sem tengdust rökhyggjunni voru greinilega í forgangi. Svo að hin atriðin um tilfinningar okkar var algerlega óunnið verkefni í því ferli að ná algeru jafnrétti, og tilfinningalega sjálfsvirðingu í okkur í samböndum við hitt kynið.
Við sjáum það enn þann dag í dag með því til dæmis hversu margar konur eru myrtar af eiginmönnum sínum hér í Ástralíu eða fyrrverandi eiginmönnum sem þola ekki að þeim sé hafnað þannig og ná því miður ekki að sjá eigin hegðun sem hefur valdið því. Og konur á Íslandi verða líka fyrir heimilisofbeldi þrátt fyrir allt montið um að landið sé það besta í heiminum fyrir konur. Það er greinilega ekki, og er mest fyrir þær sem hafa stöður og menntun en ekki hinar.
Það mun taka langan tíma fyrir bæði kynin að þróast upp í jafnræði í öllum þessum málum. En ég heyrði samt sögu hér um konu sem hafði þann kjark fyrir meira en hundrað árum til að yfirgefa ofbeldisfullan eiginmann með öll börnin sín, og flytja langt í burtu í aðra borg hér til að bjarga sér og börnum sínum frá að verða að lifa við það ofbeldi. Enda er Ástralía 75 sinnum stærra land en Ísland.
Almennt séð er það auðvitað hreinna að þeir sem kvarti undan og vilji kæra aðila fyrir ranga hegðun hvort sem það sé í einkalífi eða skemmtanalífinu eða í leiklistarheiminum komi fram í persónu og nafni.
En á meðan að tilfinningalegur þroski og erfið reynsla í fortíð þeirra eru það sem þær eru, þarf að finna millileið sem skapar ekki það óréttlæti sem virðist vera í gangi með þetta núna, hvort sem það sé á Íslandi eða í öðrum löndum heims. Hver mannvera á að eiga rétt á að vita fyrir hvað hann eða hún er ásökuð um. Hvernig það er unnið ætti að geta verið breytilegt.