Ég var að hlusta á viðtal við Steinar Þór Ólafsson markaðsstjóra Skeljungs í Jóns hlaðvarpinu sem fjallar um markaðsmál. Viðtalið var áhugavert og gaman að heyra í fólki sem brennur fyrir markaðsmál.
Það var eitt atriði sem vakti sérstaklega áhuga minn en það var pælingin hans Steinars um að sölu- og markaðsmál eigi ekki samleið.
Hér að neðan má sjá hvað Steinar hafði að segja um málið:
„Það er alltaf verið að steyta saman sölu og markaðssviði. Sölu- og markaðsmál eiga ekki mikið saman. Sölumennska er skammtímadrifin… á meðan hlutverk markaðsfólks er að að standa vörð um vörumerki og passa upp á ásýndina… Ég held að mannauðsmálin og markaðsmálin eigi miklu meira saman… fólk man eftir frábærri þjónustu…”.
Þarna get ég ekki tekið undir með Steinari. Auðvitað getur það skipt máli hvert markaðslega viðfangsefnið er, hve mikil sala hefur áhrif á markaðsstarfið en ég hef ekki enn upplifað í mínu starfi að sölu- og markaðsmál eigi ekki mikið saman.
Hér eru nokkur rök fyrir því.
Ég trúi því að langtímaárangur af markaðsstarfi náist ekki ef að skammtímaárangur er ekki til staðar eða öfugt og hef í mínum störfum í gegnum tíðina upplifað það. Rannsóknir hafa líka sýnt fram á jákvæð tengsl þarna á milli. Sölumennska er oft lykilþáttur til að tryggja að skammtíma markmiðum sé náð og á það sérstaklega við ef verið er að markaðssetja vörur/þjónustu þar sem kaup eru það flókin að viðskiptavinurinn treystir sér t.d. ekki í að hefja samtalið.
Steinar nefnir í viðtalinu að hlutverk markaðsfólks sé „að standa vörð um vörumerki og passa upp á ásýnd”. Þetta er ágæt lýsing á starfi markaðsfólks. En til glöggvunar er gott að brjóta þetta meira niður. Vörumerkjastjórnun snýst um að viðhalda/auka vitund og ímynd vörumerkja. Til þess að hafa áhrif á vitund og ímynd vörumerkja er markaðsfólk með tól sem skiptast upp í þrjá flokka:
- Eiginleikar vörumerkis (t.d nafn, merki, litur, slagorð og annað sem tengist vörumerkinu sem slíku)
- Söluráðarnir (Vara, verð, sala/dreifing, kynning/almannatengsl og þjónusta)
- Vörumerkjatengingar
Ef hámarka á árangur af markaðsstarfinu er vænlegast að láta alla þessa þætti spila saman og því erfitt að halda því fram að sala og markaðsmál eigi ekki samleið.
Að lokum vil ég benda á það fyrir þá sem eru að velta fyrir sér breytingu á skipuriti að hafa helst alla söluráðana á sama sviði til að stytta boðleiðir og auka samvinnu. Ég lofa því að árangur af markaðsstarfinu verður betri.