Í greininni Enn eykst kynjabilið í starfsnámi á framhaldsskólastigi í Kjarnanum þann 20. september síðastliðinn var m.a. fjallað um nauðsyn þess að fjölga starfsnámsnemendum. Þar var vitnað í Guðrúnu Hafsteinsdóttur, stjórnarformann Samtaka iðnaðarins, en hún segir að ráðast þurfi í átak við fjölgun þeirra. „Slíkt átak þarf að eiga sér stað í samvinnu skólastofnana, forsvarsmanna atvinnulífs og stjórnvalda. Samtök iðnaðarins eru tilbúin til verksins,“ er haft eftir Guðrúnu í greininni.
Hér í Verkmenntaskóla Austurlands er okkur mjög umhugað um að fjölga starfsnámsnemendum. Meginþorri okkar kynningarstarfs grundvallast á því að kynna slíkt nám fyrir verðandi framhaldsskólanemendum.
Við erum t.a.m. með verknámsviku á vorin þar sem nemendur í 9. bekk í sveitarfélaginu (Fjarðabyggð) koma inn í skólann í vikutíma og kynnast þar þeim greinum sem við kennum. Á haustin erum við með Tæknidag fjölskyldunnar þar sem lögð er áhersla á að kynna tækni, frumkvöðlahátt og ekki síst nám og tækifæri í starfsnámi. Dagskráin er fjölbreytt og öllum opin. Dagurinn er einmitt þann 5. október næstkomandi. Þennan dag sækir um fimmtungur íbúa Austurlands og er hann því ómetanlegur í því að kynna starfsnám fyrir samfélaginu.
Við höfum leitað eftir því að Samtök iðnaðarins komi að stuðningi við þennan dag. Í sumarbyrjun var leitað eftir stuðningi Samtakanna við daginn og var svarið svohljóðandi: „Þetta árið höfum við aðallega einbeitt okkur að kynningum á iðn-, tækni- og verkgreinum fyrir grunnskólana.“
Markhópur okkar á Tæknideginum eru grunnskólanemar og snýst dagurinn um hvernig við getum kynnt möguleika í starfsnámi sem best fyrir þeim. Þrátt fyrir að við hefðum komið þeim skýringum til skila varð árangurinn enginn. Þrátt fyrir fögur orð í blaðaviðtölum virðist raunin sú að litla innistæðu sé að finna í þeim og Samtökin hafi ekki áhuga á því að koma að verkefni eins og þessu. Við eigum í góðu sambandi við atvinnulífið og nú er komið að Samtökunum að sýna að þau séu tilbúin til verksins. Tæknidagurinn er árlega og því er nægur tími fyrir Samtökin að sýna að orðum fylgi efndir.
Höfundur er verkefnisstjóri Tæknidags fjölskyldunnar.