Til að bregðast við hamfarahlýnun þarf að stokka upp landbúnað og draga úr kjötframleiðslu. Um þetta eru sérfræðingar í loftlagsmálum sammála. Þetta verður ekki auðvelt, enda vöxtur og aukin framleiðsla innbyggð í hugsunarhátt og stefnumótun samtímans. Mörgum brá við þegar Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti lýsti því yfir í sjónvarpsviðtali að helsta framlag einstaklinga til loftslagsmála væri að hætta að borða nautakjöt. Forsetinn fyrrverandi hefði getað gengið lengra án þess að vera sérstaklega róttækur: mjólkurframleiðsla og framleiðsla lambakjöts þurfa einnig að dragast saman. Ekki hverfa, eins og sumir túlka ummæli af þessu taginu, heldur minnka. Íslensk stjórnvöld telja þó enga sérstaka ástæðu til breytinga, landbúnaðarkerfið mun standa óbreytt.
Þetta aðgerðarleysi þarf ekki að koma á óvart. Flokkur hins græna í íslenskum stjórnmálum er einnig flokkur kjötsins. Flokkurinn er í forystu í ríkisstjórn sem vill óbreytt ástand í þessum efnum. Frá stofnun hafa Vinstri Græn lagt áherslu á að styðja við landbúnaðarkerfið og oft verið með yfirboð um aukin útgjöld og bætt kjör bænda. „Vandi sauðfjárbænda“ kemur iðulega fyrir í ályktunum flokksins. Fyrrverandi formaður flokksins, Steingrímur J. Sigfússon var um tíma uppnefndur „Rollugrímur“ vegna ástar hans á sauðfé og landbúnaði. Þetta uppnefni var líklega Steingrími til framdráttar, sauðfé hefur löngum verið vinsælt á Íslandi. Það er áleitin spurning hversu lengi hin rauðgræna, eða kjötgræna eins og kannski mætti kalla hana, stefnublanda Vinstri grænna fær staðist. Það verður að segjast eins og er að umhverfisstefna Vinstri grænna virðist nokkuð stöðnuð, föst í hjólförum sem henni voru mörkuð í gamla Alþýðubandalaginu.
Það er eðlilegt og viðbúið að Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn vilji halda í kjötið og óbreytt landbúnaðarkerfi. Það sem vekur furðu er tryggð Vinstri grænna við úrelt landbúnaðarkerfi. Í orði vill flokkurinn bregðast við loftslagsbreytingum, en í verki er allt óbreytt. Einstaklingar og einstaka stofnanir eins og mötuneyti eiga að bregðast við, jafnvel landsfundur Vinstri grænna var kjötlaus. Loftlagsmálin krefjast hins vegar nýrrar hugsunar og stefnu sem Vinstri græn, líkt og margir aðrir, virðast ekki alveg tilbúin til að takast á við. Breyta þarf framleiðslustyrkjum í landbúnaði, líklega er besti að taka upp búsetustyrki og draga úr opinberum stuðningi við framleiðslu kjöts. Styrkja þarf byggð í landinu, án þess að framleiðslutengja styrkina með beinum hætti. Í það minnsta þarf að endurskoða landbúnaðarkerfið frá grunni. Fyrsta skrefið er að viðurkenna vandann, horfast í augu við fyrri mistök og krefjast breytinga. Forystu í þessum efnum er ekki að vænta frá sjálfskipuðum fulltrúum grænna sjónarmiða í íslenskum stjórnmálum. Þegar landbúnaður er annars vegar þorir hvorki VG né getur, þar ríkir enn kjötgræn moðsuða ættuð úr Alþýðubandalaginu.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.