Að skilja okkur sjálf: Þriðji hluti

Árni Már Jensson skrifar síðustu greinina í greinarflokki um stjórnarskrármál.

Auglýsing

Tilvistarkreppa íslenskra stjórnmála snýst ekki um vinstri, hægri eða miðju. Hún snýst um sammannlegt eðli, sjálfhverfu, hroka, fé, og valdgirnd. Við þessum brestum er engin skjótvirk lausn
 önnur en að hvert okkar fyrir sig líti í eigin barm, rækti andann, leiði hugann að æðri gildum lífsins,
iðrist, fyrirgefi, og geri náunganum og sjálfum sér betur í dag en í gær, því það sem við gerum
öðrum til góðs, umbunar lífið okkur. Stjórnmálamenn eru þessu lögmáli ekki undanskildir frekar en
 við öll.

Á heimasíðu Betra Íslands er skrifað:

„Stjórnarskráin verður endurskoðuð á þessu kjörtímabili í samstarfi allra flokka á þingi. Háskóli Íslands & Betra Ísland bjóða upp á samráð við stjórnvöld þar sem almenningur getur haft áhrif á fyrirhuguð frumvörp um breytingar á stjórnarskrá.“

Skoðum inntak framangreinds orðalags:

„Stjórnarskráin verður endurskoðuð á þessu kjörtímabili í samstarfi allra flokka á þingi.“

Framangreind setning felur í sér fullyrðingu um að allir flokkar á þingi muni endurskoða stjórnarskrá Íslands en raunin er sú að flokkar og þingmenn eru kosnir til tímabundinna valda af almenningi til að framfylgja daglegum rekstri ríkisstofnana. Þeir eru fulltrúar almennings sem hefur aldrei framselt uppruna valds né stjórnarskrárvald til flokkanna.

Auglýsing

Svo segir; „... þar sem almenningur getur haft áhrif á fyrirhuguð frumvörp um breytingar á stjórnarskrá.“ – „... getur haft áhrif ...“, - felur í sér að mögulega getur almenningur haft áhrif en er þó háð því hvað formönnum flokkanna finnst. Þetta orðalag er í meira lagi undarlegt; að fulltrúar valdsins setji umbjóðendum sínum, uppruna valdsins, skilyrði og kosti sem þessa, „... almenningur getur haft áhrif á fyrirhuguð frumvörp ...“ Þessi almenningur, sem vísað er til, er uppruni valdsins og hið eina vald sem heimild hefur til að breyta stjórnarskrá lýðveldisins.

Það hljómar eins og hártogun að kryfja framangreinda setningu til mergjar en orðalagið er einmitt lýsandi fyrir þá rangtúlkun sem á sér stað meðal kjörinna fulltrúa til þess valds sem þeim er tímabundið falið. Túlkun hugtaksins lýðræði er fyrir löngu orðin villandi meðal þingmanna og það sem meira er, þjóðin, uppruni valdsins, er ekki heldur viss um sína stöðu í stjórnskipuninni sem ber vott um langtíma bjögun á skilgreiningu valdsins, uppruna þess og fulltrúum í lýðræðisríkinu. Á Íslandi einkennist stjórnskipunin af fulltrúalýðræði sem felst í því að á Alþingi, sem fer með löggjafarvaldið ásamt forseta Íslands, sitja kjörnir fulltrúar almennings.

Samráð þetta og aðferðarfræði myndi bera vott um jákvætt skref í átt lýðræðisþróunar væri ekki um að ræða skoðanakönnun sem lýtur að breytingu á stjórnarskrá sem þegar hefur verið breytt fyrir sjö árum síðan. Eins og ég hef rakið í fyrri greinum sama titils, og þjóðin þekkir best, var langþráð þjóðaratkvæðagreiðsla haldin þann 20.10.2012 þar sem 2/3 hluta kjósenda völdu tillögur Stjórnlagaráðs til grundvallar betrumbættri stjórnarskrá Lýðveldisins. Án þess að halla almennri aðferðafræði, Betra Íslands og Félagsvísindadeild HÍ, er framkvæmdin nú, til þess fallin að yfirskyggja fyrri vilja þjóðar og endurskrifa einn mikilvægasta kafla í sögu lýðveldisins sem er miður.

Sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar

Stjórnskipun Íslands IV þáttur, 6. Sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar bls 97. 

„Það hafa löngum verið skiptar skoðanir um það, hvar ríkisvaldið ætti eiginlega upptök sín, hver væri frumuppspretta þess. Konungar töldu áður fyrr vald sitt runnið frá guði. Þeir töldu sig ríkja af guðs náð. Þeir gáfu svo þingunum hlutdeild í valdi sínu. Þessu gagnstæð er sú kenning, að frumuppspretta ríkisvaldsins sé hjá þjóðinni. Sú kenning var sett fram í heimspekiritum á átjándu öld. Skýrast kom hún fram í riti Rousseau „Contrat social”, sem kom út árið 1762. Þessi kenning hlaut viðurkenning í frönsku mannréttindayfirlýsingunni frá 1789. Í 3.gr. hennar var svo fyrir mælt: „Allt þjóðfélagsvald á rætur sínar hjá þjóðinni. Engin stofnun og enginn einstaklingur geta farið með vald, nema beinlínis þaðan sé runnið.” Og í 6.gr. mannréttindayfirlýsingarinnar var m.a. komist svo að orði: „Í lögunum birtist almannaviljinn. Allir borgarar eiga rétt á að taka þátt í samningu þeirra, annaðhvort sjálfir eða með kjörnum fulltrúum.“ Ákvæði í þessa átt hafa síðan verið tekin upp í ýmsar stjórnarskrár. 


Fyrsta stjórnarskrá Íslands, stjórnarskráin frá 1874, var sem kunnugt er gefin af konungi. Hún var því eigi byggð á þeirri kenningu, að hið sameinaða þjóðfélagsvald væri frá þjóðinni runnið. Stjórnarskráin frá 1920 var samþykkt af Alþingi, það síðan rofið lögum samkvæmt og efnt til nýrra kosninga. Síðan var hún samþykkt af nýju þingi og staðfest af konungi. Samt verður naumast staðhæft, að hún hafi byggst á kenningunni um sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Öðru máli gegnir
aftur á móti um lýðveldisstjórnaskrána. Hún er ótvírætt byggð á þeirri skoðun, að uppspretta ríkisvaldsins sé hjá þjóðinni sjálfri. Sú kenning er raunverulega grundvöllur stjórnarskrárinnar og lýðveldisstofnunar. Þegar sambandslagasamningurinn við Dani var niður fallinn 1944, var á því byggt, að Íslenska þjóðin hefði óskoraðan rétt til að setja sér stjórnarskrá og velja sér stjórnarform. Stjórnarskráin og stjórnarformið, sem talið var, ber og vitni þeirri skoðun, að ríkisvaldið eigi upptök sín hjá þjóðinni. Sú stefna lýsir sér í kjöri þjóðhöfðingja og þings og kemur einnig fram í því, að tiltekin löggjafarmálefni skal bera undir þjóðaratkvæði, sbr. 11. gr., 26. gr. og aðra mgr. 70. gr. stjskr. Sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar er samkvæmt þessu grundvallarregla Íslenskrar stjórnskipunar.“

Vísir þann 31.10.2012 eftir Björgu Thorarensen lagaprófessor: 


„Stjórnskipun Íslands byggist á þeirri grunnhugmynd vestrænna lýðræðisríkja að uppspretta alls ríkisvalds kom frá þjóðinni. Í því felst að þjóðin hefur endanlegt vald til að ákveða þær leikreglur sem handhafar ríkisvalds skulu fylgja. Með öðrum orðum; þjóðin er stjórnarskrárgjafinn. Öll lýðræðisríki byggja stjórnskipun sína á grunnstoðinni um uppsprettu valdsins. Gilda jafnan reglur um setningarhátt og síðari breytingar á stjórnarskrá sem tryggja vandaða málsmeðferð og gera breytingar örðugri en á almennum lögum. Þær stuðla að samhljómi og sátt milli þjóðarinnar og þjóðkjörinna fulltrúa um kjölfestu stjórnskipulagsins. Spornað er við því að stjórnarskrárbreytingar stjórnist af dægursveiflum um pólitísk deiluefni og naumum sitjandi þingmeirihluta á hverjum tíma eða minnihluta kjósenda í háværum þrýstihópum, sem reiða sig á þögn meirihlutans.“

Skoðum aðeins af hverju Alþingi er ekki búið að lögleiða tillögur Stjórnlagaráðs jafnvel þó þær séu samþykktar af 2/3 hluta kjósenda. Hér er samanburður á auðlindafrumvarpi Stjórnlagaráðs, merkt A og tillögum formanna flokkanna, merkt B og dæmi hver fyrir sig.

A/Tillaga Stjórnlagaráðs

Eftirfarandi er óbreytt og orðrétt tillaga Stjórnlagaráðs frá 2012, 34. gr.:

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. / Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. / Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar. / Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Meginrök þess að leiða í lög tillögu auðlindarákvæðis Stjórnlagaráðs, er að hún var lýðræðislega samin af þjóðfundi sem studdur var af Alþingi og öllum stjórnmálaflokkum, útfærð af Stjórnlagaráði og samþykkt af 2/3 meirihluta þjóðar í löglegri þjóðaratkvæðagreiðslu 20.10.2012, og er því skýr vilji þjóðar. Samþykktar tillögur Stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20.10.2012, eru að megininntaki niðurstaða þjóðfundarins 2010 sem skipulagður var af Alþingi einróma og studdur öllum flokkum og þjóð. Sem sagt samþykkt og stutt af 63 þingmönnum af 63 mögulegum. Auðlindir, nýting þeirra, sjálfbærni og afgjald er þjóðinni mikilvægara en svo að réttlætanlegt sé að um þær gildi reglugerðir og lög ríkisstjórna með meirihluta Alþingis frá þingi til þings. Stjórnarskráin þarf að ramma inn og úthýsa núverandi óvissu um eignarhald, rentur og veðsetningu svo hentistefnur í þágu þeirra sem hugsanlega ásælast auðlindirnar fyrir ósanngjarnt gald fái ekki að ráða för. Uppruni alls valds er hjá þjóð.

Auglýsing

B/Tillaga formanna flokkanna

Eftirfarandi er nýframsett uppástunga ríkisstjórnarinnar frá formönnum flokkanna (fengin af Samráðsgátt – opið samráð stjórnvalda við almenning, 11. maí 2019) er svohljóðandi:

„Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun. / Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar. / Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“

Meginrök fyrir því að hafna tillögu auðlindarákvæðis nefndar formanna stjórnmálaflokka, er að hún er ekki samin né samþykkt af þjóð og lýtur því ekki vilja þjóðar, auk þess sem vilji þjóðar stendur skýr, óhaggaður og samþykktur í framangreindri, mun ítarlegri, rökfastari og þjóðhagslega hagkvæmari tillögu Stjórnlagaráðs samþykktri í þjóðaratkvæðagreiðslu 20.10.2012. Afsláttur í orðalagi og tillögu formannanna er talsverður og gefur tilefni til efasemda um hollustu fulltrúa valdsins við þjóð. Uppruni valds til stjórnarskrárbreytinga er ekki hjá formönnum né öðrum tímabundið kjörnum fulltrúum þjóðar, heldur hjá þjóð.

Að framansögðu:

Orðalag formannanna í tillögu B er verulega útþynnt frá tillögu A, Stjórnlagaráðs. Af hverju? Því skyldu fulltrúar almennings vilja lakara auðlindaákvæði en almenningur semur sér? Hvaða haldbæru rök styðja lakari tillögu formanna flokkanna nú, frá samþykktri tillögu stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslu? Fyrir orðalagsbreytingu formannanna liggja engin rök þjóðarmegin. Inntak og orðalag samþykktra tillagna Stjórnlagaráðs byggja að meginefni á niðurstöðu þjóðfundarins og er mun hagfelldara þjóð en inntak og orðalag í tillögu formannanna.

Skoðum nánar samhengi hlutanna og stjórnskipun Íslands í tengslum við hrunið, búsáhaldabyltinguna og þeirrar vakningar sem í kjölfarið varð; þjóðfundinn, stjórnlagaþing, stjórnlagaráð og þjóðaratkvæðagreiðsluna. 


Höfuðeinkenni íslenskrar sjórnskipunar

Stjórnskipun Íslands útg., 1960, 1978, önnur útg., Aðaldrættir og grundvöllur Íslenskrar stjórnskipunar, IV þáttur, 1. Sérstök stjórnarskrá, bls. 90-91. Bókin er í endurútgáfu höfundar
undir ritstj. Gunnars G Schram. Þar skrifar Ólafur Jóhannesson lagaprófessor og fyrrum dómsmála- og forsætisráðherra eftirfarandi:
 

„Helztu grundvallarreglur og höfuðeinkenni íslenzkrar stjórnskipunar eru þessi: Sérstök stjórnarskrá, lýðveldisstjórnarform, greining ríkisvaldsins, þingræði, lýðræði, sjálfsákvörðunarréttur þegnanna og rík mannréttindavernd.“ 


Auglýsing

„Það er höfuðeinkenni íslenskrar stjórnskipunar, að megindrættir stjórnskipulagsins eru ákveðnir í sérstakri stjórnarskrá, sem sett er með öðrum og vandaðri hætti en almenn lög.“ – Jafnframt er á það bent að glöggt verði að greina á milli stjórnarskrárgjafans og almenna löggjafans. – „Almenni löggjafinn má aldrei ganga inn á svið stjórnarskrárgjafans. Af þessum sökum verður stjórnarfyrirkomulagið vafalaust haldbetra og varanlegra en ella myndi. Stjórnarskráin getur staðið af sér hin tíðu veðrabrigði stjórnmálanna og stundarátök þjóðfélagsaflanna.

Stjórnarskrána má því með réttu kalla kjalfestu þjóðfélagsins. Hitt er annað mál, að engin stjórnarskrá, hversu vönduð sem er og hversu tryggilega sem um hana er búið, getur staðist til lengdar ef hún er orðin algerlega andstæð ríkjandi hugarstefnum og þjóðfélagsskoðunum. Séu slík straumhvörf virt að vettugi, og stjórnarskránni haldið óbreyttri, bíða hennar sömu örlög og nátttröllsins í þjóðsögunni, hana dagar uppi og hún verður að steini, dauðum bókstaf, sem enginn hirðir um, hvort sem hún er sett til hliðar með byltingu eða með öðrum hljóðlátari hætti. Þeir varnarmúrar, sem reistir eru um stjórnarskrána, mega því ekki verða til þess að stöðva eðlilega framvindu þjóðlífsins.“ 

Skýring: 

Hér að framan er feitletruð, (af hendi undirritaðs), skýring á aðstæðum sem beinlínis lýtur að því sem seinna raungerðist á Íslandi í eftirmála hruns fjármálakerfisins 2008. Búsáhaldabyltingin olli straumhvörfum og var raunveruleg bylting þegnanna gegn siðrofi sem kafsigldi efnahag þjóðar og afkomu þorra almennings og fyrirtækja í skjóli valdbjögunar, m.a. vegna úreltrar stjórnarskrár samkvæmt niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis (2010, 8. bindi, bls. 184): Hvað felst í framangreindum orðum Ólafs Jóhannessonar lagaprófessors „... algerlega andstæð ríkjandi hugarstefnum og þjóðfélagsskoðunum“? 

Jú, Íslendingar framkvæmdu byltingu, komu ríkisstjórn frá, settu á stofn Rannsóknar-og Sannleiksnefnd Alþingis (RNA), komust að niðurstöðu um mikilvægi nýrrar stjórnarskrár, sömdu hana, og hafa einarðlega staðfest þá ákvörðun sína með leynilegri kosningu í þjóðaratkvæðagreiðslu 20.10.2012, að tillögur um nýja stjórnarskrá, byggða á niðurstöðum þjóðfundarins, útfært af Stjórnlagaráði, séu nauðsynlegar lýðræði og þjóð. 


Sannleiksskýrsla RNA setti hrunið í beint samhengi við núgildandi stjórnarskrá frá 1944.
 

Lærdómar: 

Rannsóknarnefnd Alþingis (2010, 8. bindi, bls. 184):


„Taka þarf stjórnarskrána til skipulegrar endurskoðunar í því skyni að treysta grundvallaratriði lýðræðissamfélagsins og skýra betur meginskyldur, ábyrgð og hlutverk
valdhafa.” 


Bylting var framkvæmd og ríkisstjórn hrökklaðist frá völdum. Skýrari yfirlýsingu um andstöðu þjóðar við gömlu stjórnarskrána er ekki hægt að gefa. Skýrari yfirlýsingu um „algera andstöðu þjóðar gagnvart ríkjandi hugarstefnum og þjóðfélagsskoðunum“ (gömlu stjórnarskránni) getur engin þjóð gefið. Sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar til stjórnarskrárbreytinga er skýr. 


Eftirfarandi eru ummæli Ragnars Aðalsteinsson hrl., í Vísi þann 23.03.2016 en þar skrifar hann eftirfarandi álit um auðlindaákvæði vegna starfs stjórnarskrárnefndar Alþingis sem
hóf störf 2013 og skilaði af sér 2016: 


„Ákvæði Stjórnlagaráðs var samið af óháðum og sjálfstæðum fulltrúum, sem þjóðin hafði til þess kjörið, og Alþingi svo skipað eftir ógildingu Hæstaréttar á grundvelli formsatriða. Ráðið vann verkefnið fyrir opnum tjöldum og tók sjónarmiðum almennings opnum örmum og gaumgæfði þau. Ráðsmenn komust að sameiginlegum niðurstöðum um efni og orðalag nýrrar stjórnarskrár fyrir landið. Stjórnarskrárfrumvarpið var þannig samið á lýðræðislegan hátt. Þeim, sem hafa hug á að
endursemja og breyta tillögum ráðsins, er vandi á höndum, því færa má að því rök að þeir, sem það reyna, verði að færa á það ótvíræðar sönnur að breytingartillögur þeirra séu betur til þess fallnar að treysta almannahag en tillögur ráðsins.” 


Greinarhöfundur spyr: 


Hvaða haldbær rök geta formenn flokkanna fært þjóð fyrir því að nýtt orðalag þeirra í auðlindaákvæðinu verndi betur auðlindir Íslands og sé Íslenskri þjóð hagfelldari en tillaga þjóðfundar, útfærð af Stjórnlagaráði og samþykkt af 2/3 hluta kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu 20.10.2012? Hvaða haldbær rök geta formenn flokkanna fært þjóð fyrir því að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, hin Nýja íslenska stjórnarskrá, sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu
 20.12.2012 hefur ekki verið lögleidd á Alþingi þjóðarinnar? 


Hugleiðingar um íslensk stjórnmál og lífið


Það er auðvelt fyrir okkur sem ekki tóku þátt í stjórnmálum liðinna tíma, að horfa til fortíðar og benda á það sem betur mátti fara, mjög auðvelt. Á barnsfótum lýðræðis verða mistök stjórnmálamanna mörg. En stjórnmálamenn eru einungis spegill þeirrar menningar og valds sem sem þeim er látið í té af þegnum hvers tímabils. Í þeim efnum erum við samábyrg fyrir því ástandi, jákvæðu eða neikvæðu sem við blasir. Við erum breyskar mannverur á lærdómsleið en til þess að uppskera þurfum við að vinna saman, öll sem eitt, þó hvert sinni sínu hlutverki.
 

Öll erum við Íslendingar skyld, og bregðumst því sjálfum okkur, er við lítum undan neyð samborgara okkar. Neikvæð myndbirting eigingirni og sjálfhverfu fárra er fátækt margra, og hefur verið hringekja mannlegrar hegðunar of lengi. Samfélag okkar þarf minni græðgi og meiri kærleika. 


Amma mín brýndi fyrir mér þann einfalda sannleik; að það sem sagt er skuli standa. Við efndir þessarar setningar hef ég glímt all ævi og geri enn. Hvernig getur stjórnmálamaður lifað með sjálfum sér, sem einn maður, ein vitund, ef siðferðisviðmið og gildi eru misjöfn eftir þeim skyldum sem hann rækir hverju sinni, sem þingmaður, ráðherra, faðir, móðir, afi, amma, systir eða bróðir?
 

Getur samviska okkar, sem grundvöllur siðferðis og réttlætis, verið háð valkvæði aðstæðna? Samviskan hefur stundum verið túlkuð sem leiðarvísir æðri vitundar. Þeir sem trúa á Guð þekkja andans tengingu við samviskuna. Þeir sem trúa ekki á Guð þekkja samviskuna. Hvor hópurinn sem er, veit og skynjar að samviskan eða Guð vakir yfir okkur öllum, hið ytra sem innra, til leiðbeiningar á vegi dyggðarinnar. Okkur hefur lærst, að göngum við gegn samviskunni og betri vitund, líður okkur illa en vel ef við þýðumst hana. Um samviskuna og sannleikann þurfum ekki að lesa okkur til í frumspeki eða fræðum. Okkur er þessi meðvitund borin og barnfædd. 


Við þurfum að víkka sjóndeildarhringinn, rækta kærleik, gangast við skyldleika okkar og meðtaka þjóð sem þá stórfjölskyldu sem við erum. Sóun á orku okkar sem samfélags, í streitu, gagnrýni og reiði í garð hvors annars, drepur á dreif sameiginlegri skyldu okkar að umbera og elska náungann, rækta lýðræðisvitund, efla menntun, velferð, hag og hamingju. Neikvæð streita hefur lamandi áhrif á heilastarfsemi og hugarorku og letur því sköpunargáfu okkar og þroska og er neikvæð í tilfinningalegum jafnt sem þjóðhagslegum skilningi. Við sem þjóð þurfum að hugsa og skapa og til þess þurfum við velmegun, réttlæti, öryggi, hvíld, holla næringu, vandaða menntun, góða heilbrigðisþjónustu, gleði, drauma og bjartsýni. Við þurfum að endurhugsa mörg gildi lífsins. Mestur er mannauðurinn, fái hugsjón kærleikans að marka gildismat okkar.

Ef athyglin fer í endalaust karp um vanhöld hvors annars og aurabasl, missum við sjónar af þeim tækifærum sem fara hjá. Um þetta höfum við nærtækt og sársaukafullt dæmi, hrunið, sem má álykta að taki 2-3 kynslóðir að vinna úr og jafna sig á. Hrunið er löngu orðið að sársaukafullu tímatali í okkar sögu. Hvorki stjórnmálastéttin né eigendur fjármálafyrirtækja ætluðu sér þá skelfingu sem þeir sköpuðu þegnunum og kennir þessi bitra reynsla okkur hvað best hversu mikilvægt það er að treysta grundvöll virks lýðræðis með vandaðri stjórnarskrá sem undirstöðu að réttar,- og siðferðiskerfi okkar. Við Íslendingar sýndum með sannleiksskýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, undir faglegri stjórn Páls Hreinssonar prófessors í lögum, að við gátum rýnt í eigin barm, iðrast, fyrirgefið og lært. Við sameinuðumst öll sem eitt og settum á stofn þjóðfundinn sem í sögulegum og lýðræðislegum skilningi er stórmerkilegur vitnisburður um sjálfbjarga þjóð á þroskaleið. Við sömdum okkur lýðræðislegri stjórnarskrá og unnum að sátt, sannleika og fyrirgefningu, sem innblés okkur sameiginlega von og drauma.

Auglýsing

Til varð hugtakið gamla og nýja Ísland til að aðskilja okkur frá vonleysi liðinna tíma og fylla okkur von og birtu komandi tíma. Lýðræðisumbætur meðal þjóða hafa aldrei raungerst án árekstra og átaka milli valdastétta og alþýðu. Um þetta vitnar einnig okkar saga. Yfirgripsmikil sannleiksskýrsla í níu bindum opinberaði það sem okkur grunaði en vildum ekki opna augun fyrir; Íslensk stjórnsýsla var slæm, mjög slæm. En nú bauðst okkur tækifæri til að vakna upp af martröð umliðinna áratuga og líta augum bjartari tíma. Áföll og harmur hrunsins svipti burt möru þrælslundar og heimóttar, og skilaði okkur hugdjarfri og endurlífgaðri þjóðarsál. Okkur var ljóst að gamla Ísland, það sem við kvöddum með sárum tárum, var liðið undir lok. 


Tilvistarkreppa íslenskra stjórnmála snýst ekki um vinstri, hægri eða miðju. Hún snýst um sammannlegt eðli, sjálfhverfu, hroka, fé, og valdgirnd. Við þessum brestum er engin skjótvirk lausn önnur en að hvert okkar fyrir sig líti í eigin barm, rækti andann, leiði hugann að æðri gildum lífsins, iðrist, fyrirgefi, og geri náunganum og sjálfum sér betur í dag en í gær, því það sem við gerum öðrum til góðs, umbunar lífið okkur. Stjórnmálamenn eru þessu lögmáli ekki undanskildir frekar en við öll. Göfugmæli Krists verða aldrei ofsögð og er gullna reglan og undirstaða mannhelginnar þessi: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ 


Það er þjóðinni engin fróun lengur að sjá stjórnmálamenn í viðtölum fjölmiðla, iða í skinninu, vipra andlit, svitna og ranghvolfa augum við að fara með hálfsannleik eða ósannindi sem allir sjá í gegnum. Þjóðin er nefnilega glöggskyggnari í dag en hún var fyrir 10 árum síðan. Tímabil óheiðarleika á að vera lokið á Íslandi og við taka tímar heiðarleika, hugsjóna og andagiftar. Nú þarf að gefa röddum góðra stjórnmálamanna gaum. Þær eru til, en eru ekki margar, þær heyrast, en eru ekki háværar. Hinir valdsæknu sérhagsmunaaðilar verða að vitja síns tíma og víkja af því sjónarsviði sem lýtur valdsvettvangi almennings. 


Sæki einstaklingur í völd í umboði fjöldans á það að vera hans helga markmið að þjóna fjöldanum en ekki að koma fyrir meðal lamba sem úlfur í sauðargæru. 


Þjóðin vill að hagsæld ríki, útgerð blómstri, orkufyrirtæki hagnist og fjármálastofnanir og fyrirtæki dafni að verðleikum. En þetta þarf að vera á þeim forsendum að sjálfstæðinu sé ekki storkað og allrar sanngirni sé gætt, og að hvorki verði illa gengið um auðlindir, né arðrán heimilt eða mannréttindi fótum troðin. Að sjálfstæði okkar er vegið þegar lýðræðisbjögun og sundurþykkja verður skoðanamyndandi þjóðfélagsafl og það er brot á andlegum, siðferðislegum og lýðræðislegum mannréttindum okkar og afkomenda að virða ekki auðlindir og sanngjarnt afgjald þeirra. Þennan sannleik þurfa kjörnir umboðsmenn okkar, alþingismenn, að meðtaka, ætli þeir að eiga framtíð í stjórnmálum. 


E.t.v. er glíma andans við efnið dagleg áskorun þeirra einstaklinga, sem fara með völd og fjármuni almennings. Einstaklingur sem t.a.m. er eingöngu knúinn áfram af græðgi, verður henni ofurseldur og glatar gjarnan tengingu við annan veruleika en þann sem færir honum arð eða völd. Lífið í sinni fjölbreyttu dýrð og litum verður honum einsleitt að öðru leiti en þröng sýn á takmarkaða þætti veruleikans, sem mynda mögulegan farveg fyrir fjár-og eignamyndun. Peningar og völd verða hið ráðandi gildismat lífsins. Tengsl vina, fjölskyldu og vinnufélaga verða hagsmunatengsl, eða lítil sem engin ella. Lífshlaupið verður lítið annað en námagröftur og leiðangur eftir peningum og eignum af þeim toga sem takmörkuðum sálarþroska eða æðri auð skila. Sá gráðugi nýtur t.a.m. ekki lista nema gildi sköpunarinnar sé mælanleg í peningum eða ásókn annarra til verksins, en ekki vegna næmi hans og hrifningar á listsköpuninni sjálfri. Í huga þess gráðuga taka dauðir hlutir á sig líf og hið eiginlega líf deyr anda sínum. 


Valdið lýtur efnisheiminum og er erfitt að höndla í auðmýkt vegna hrópandi andstæðna efnis og anda. Ég velti stundum fyrir mér hvernig einstaklingur í valdastöðu, t.d. stjórnmálamaður getur auðsýnt kærleika í garð lítilmagnans eða fjöldans og verið einskonar lifandi hugsjón réttlætis og göfugmennsku? Eftir þessu er óskað. Valdið í eðli sínu bjagar sjálfsvitund þess sem valdið fer með, tímabundið eða til langframa. Huglæg skilgreining valds, hvers og eins, er einstaklingsbundin áskorun, gömul og ný. Sú áskorun stjórnmálamanna að fara með umboð sitt af auðmýkt og virðingu í þágu heildarhagsmuna þjóðar, er raunveruleg og aðkallandi. Þjóðin hefur ekki langlundargeð til frekari rangbreytni, tafa eða trassaskapar af hálfu kjörinna fulltrúa. Störf ráðamanna snúast um það að vera góðir valdsherrar eða vondir. Þolinmæði þjóðar er þrotin gagnvart þeim vondu sem ætti öllum að vera ljóst.

Nú þarf þjóðin skilning, heiðarleika og frið til að vaxa og þroska lýðræðisvitund sína og sjálfsvirðingu eða er það svo að almenningur standi nú frammi fyrir ásetningsbroti hins tímabundins kjörins fulltrúavalds, gegn lýðræðisþróun í þágu þjóðar? 


Greinarhöfundur ráðleggur formönnum flokkanna, kjörnum fulltrúum og sitjandi forsætisráðherra að breyta um betur og virða rétt og vilja þjóðar. Nú eru liðin sjö ár frá því þjóðin samdi og samþykkti sér nýja stjórnarskrá og mál að töfum linni. Í stjórnskipun Íslands er þjóðin stjórnarskrárgjafinn. Um þennan rétt almennings er enginn vafi. Þjóðin hefur þegar
 samið sér góða langþráða stjórnarskrá og uppruni valdsins er hennar.
 

Höfundur er áhugamaður um betra líf.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir ríkisstjórnina ræða málin í þaula og hafa verið í meginatriðum samstíga um aðgerðir í faraldrinum hingað til.
Stjórnmálin falli ekki í þá freistni að gera sóttvarnir að „pólitísku bitbeini“
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir samstöðu í ríkisstjórn um þær hertu aðgerðir sem tóku gildi í dag. Hún segist vilja forðast að sóttvarnir verði að pólitísku bitbeini fyrir kosningar og telur að það muni reyna á stjórnmálin á næstu vikum.
Kjarninn 25. júlí 2021
Steypiregnið ógurlega
Steypiregn er klárlega orðið tíðara og umfangsmeira en áður var. Öll rök hníga að tengingu við hlýnun lofthjúps jarðar. Í tilviki flóðanna í Þýskalandi og víðar hefur landmótun, aukið þéttbýli og minni skilningur samfélaga á eðli vatnsfalla áhrif.
Kjarninn 25. júlí 2021
Ísraelsk stjórnvöld sömdu við lyfjafyrirtækið Pfizer um bóluefni og rannsóknir samhliða bólusetningum.
Alvarlega veikum fjölgar í Ísrael
Það er gjá á milli fjölda smita og fjölda alvarlegra veikra í Ísrael nú miðað við fyrstu bylgju faraldursins. Engu að síður hafa sérfræðingar áhyggjur af þróuninni. Um 60 prósent þjóðarinnar er bólusett.
Kjarninn 25. júlí 2021
Danska smurbrauðið nýtur nú aukinna vinsælda meðal matgæðinga í heimalandinu.
Endurkoma smurbrauðsins
Flestir Íslendingar kannast við danska smurbrauðið, smørrebrød. Eftir að alls kyns skyndibitar komu til sögunnar döluðu vinsældirnar en nú nýtur smurbrauðið sívaxandi vinsælda. Nýir staðir skjóta upp kollinum og þeir gömlu upplifa sannkallaða endurreisn.
Kjarninn 25. júlí 2021
Fjallahjólabrautin við Austurkór var eitt verkefna sem valið var til framkvæmda af íbúum í íbúðalýðræðisverkefninu Okkar Kópavogur í fyrra.
Kópavogsbær skoðar flötu fjallahjólabrautina betur eftir holskeflu athugasemda
Kópavogsbær hefur boðað að fjallahjólabraut við Austurkór í Kópavogi verði tekin til nánari skoðunar, eftir fjölda athugasemda frá svekktum íbúum þess efnis að brautin gagnist lítið við fjallahjólreiðar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Með stafrænum kórónuveirupassa fæst QR kóði sem sýna þarf á hinum ýmsu stöðum.
Munu þurfa að framvísa kórónuveirupassa til að fara út að borða
Evrópska bólusetningarvottorðið hefur verið notað vegna ferðalaga innan álfunnar síðan í upphafi mánaðar. Í Danmörku hefur fólk þurft að sýna sambærilegt vottorð til að sækja samkomustaði og svipað er nú uppi á teningnum á Ítalíu og í Frakklandi.
Kjarninn 24. júlí 2021
Eldgosið í Geldingadölum hefur verið mikið sjónarspil. Nú virðist það í rénun.
Ráðherra veitir nafni nýja hraunsins formlega blessun sína
Eins og lög gera ráð fyrir hefur Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra staðfest nafngift nýja hraunsins í landi Grindavíkurbæjar. Fagradalshraun mun það heita um ókomna framtíð.
Kjarninn 24. júlí 2021
Ferðamenn við Skógafoss.
Lágur smitfjöldi talinn mikilvægur fyrir heilsu og hagsmuni ferðaþjónustu
Ótti við að lenda á rauðum listum sóttvarnayfirvalda í Evrópu og Bandaríkjunum var tekinn inn í heildarhagsmunamat ríkisstjórnarinnar varðandi nýjar sóttvarnaráðstafanir innanlands. Á morgun verður mannlífið heft á ný vegna veirunnar.
Kjarninn 24. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar