Við lifum í skrýtnum heimi þar sem hraði breytinganna gerir þversagnarkenndar kröfur til okkar. Annars vegar eigum við að sýna aðlögunarhæfni, sleppa fyrir fram mótuðum hugmyndum, taka nýjum hugmyndum opnum örmum og vera fljót að grípa tækifæri. Hins vegar þurfum við að læra að sýna úthald þegar við höfum ástríðu fyrir verkefni eða hugmynd í stað þess að snúa okkur strax að þeirri næstu.
Hvenær er gott að taka ákvörðun um að snúa sér að öðru?
1. Þegar þú ert farin að skaða heilsu þína eða sambönd
Stundum verðum við heltekin af því sem við erum að reyna að áorka og notum það sem leið til að sanna okkur. Þegar drifkrafturinn er að ná árangri getur það farið á kostnað annarra mikilvægra þátta í lífi okkar. Þegar vinnan á hug manns allan gefur maður sér stundum ekki tíma til að skemmta sér með vinum sínum. Eða maður missir ítrekað af kvöldmat með fjölskyldunni til að geta skilað góðu verki.
2. Þegar þú upplifir ekki gleði við að vinna að markmiðunum
Stundum verjum við miklum tíma í að elta drauma annarra og missum tengslin við það hver við erum, fyrir hvað við stöndum og hvað okkur langar raunverulega að gera. Við missum gleðina og erum ekki lengur í tengslum við gildi okkar.
Ef þessi tilfinning hljómar kunnuglega er gott að gefa þér tíma til að velta fyrir þér hvaða lífi þú viljir lifa og hvers konar arfleifð þú viljir skilja eftir. Hvað veitir þér mesta ánægju og lífsfyllingu? Þegar þú finnur svörin er gott að breyta um stefnu. Það er ekki góð tilfinning að leggja mikið á sig til að ná árangri og klifra metorðastigann til að uppgötva þegar á toppinn er komið að hann stóð við rangan vegg.
3. Þegar þú ert of hrædd/ur við að sleppa
Það er ekki óalgengt að ákveða að vera kyrr jafnvel þó að við erum óhamingjusöm í vinnunni eða sambandi af því að okkur finnst við ekki hafa neitt annað val. Kannski höfum við verið í sama starfinu alla ævi og kunnum ekkert annað. Eða við höfum fjárfest það mikið í sambandinu að tilhugsunin um að yfirgefa þægindahringinn fyllir okkur ótta, jafnvel eftir að okkur er ljóst að það virkar ekki lengur fyrir okkur.
Ef þú kannast við þessa tilfinningu er gott að taka lítil skref sem eru veita þér áskorun en varpa þér ekki um koll. Stækkaðu tengslanetið, verðu tíma með öðru fólki eða skráðu þig á námskeið til að læra nýja færni. Spurðu sjálfa/n þig: Á hvaða sviðum þarf ég að fara út fyrir þægindahringinn? Hvaða skref gæti ég tekið núna? Hvað hefur mig alltaf langað til að gera en aldrei gert?
Hvenær er gott að þrauka?
1. Þegar þú trúir ekki á sjálfa/n þig
Stundum sleppum við hlutum sem veita okkur ánægju af því að við erum ekki sannfærð um eigið ágæti. Við höfum tilhneigingu til að bera okkur saman við aðra og finnst við oft ekki standast þann samanburð.
Ef þú kannast við þetta þarftu að færa athyglina yfir á það sem þú gerir vel. Hverjir eru styrkleikar þínir? Ef þér dettur ekkert í hug, hugsaðu þá um aðstæður þar sem þú varst upp á þitt besta eða náðir árangri þvert gegn væntingum. Hvaða innri hæfileikar hjálpuðu þér? Hvernig geturðu virkjað þá að nýju?
2. Þegar þú flögrar frá einni hugmynd til annarrar
Sumir halda sig ekki nógu lengi við áætlun sína þar sem þeir gleyma sér í hverri þeirri hugmynd sem þeim dettur í hug. Þetta gæti verið merki um sköpunargáfu en einnig merki um að við höfum ekki skuldbundið okkur að fullu.
Ef þetta hljómar kunnuglega er gott að ákveða að helga þig verkefninu, starfinu, sambandinu eða hverju öðru sem er. Hvert er þitt hlutverk og hvaða ábyrgð berðu? Hvernig tengist það framtíðarsýn þinni? Hvaða skref ætlarðu að taka til að gera hana að veruleika?
3. Þegar þú vænst þess að hlutirnir verði auðveldir
Margir fyllast eldmóði við að fá hugmynd en gefast upp þegar á móti blæs. Ef þú missir áhugann þegar þú stendur frammi fyrir vaxandi áskorunum er gott að reyna að tengjast aftur leiðinni að markmiðum þínum. Hvaða áskoranir gætirðu þurft að takast á við? Hvað ætlarðu að gera þegar þú ert ekki í stuði. Hvers óskarðu þér, hver er útkoman sem þú stefnir að, hvaða hindranir gætu komið upp og hvernig ætlarðu að tækla þær?
Þótt gott sé að leita sér aðstoðar þegar maður er ekki viss um leiðina, þurfa svörin að koma innan frá. Því meiri sjálfsþekkingu sem við höfum, þeim mun minna látum við álit annarra hafa áhrif á okkur. Sá sem veit hvert hann stefnir mun síður villast.
Höfundur er framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar og með MSc í hagnýtri jákvæðri sálfræði.