Í öllum samfélögum er eitthvað það sem menn vilja alls ekki hrófla við. Oft er því líkt við heilögu kýrnar á Indlandi. Við höfum okkar heilögu kýr hér á landi. Svo sannarlega.
Samkvæmt kolefnisbókhaldi Hagstofu Íslands svarar heildarlosun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum til um 14 milljón tonnum af CO2. Af þessu eru um 9 milljón tonn talin vegna landnýtingar en það hefur verið tekið út úr bókhaldinu, sennilega vegna þess að sá útreikningur er ekki byggður á nægilega góðum gögnum.
Samgöngur á landi valda um um einnar milljón tonna útblæstri. Þar sjá menn vafalaust fyrir sér stóra trukka sem aka um vegina, og það er álitið mesta böl. En notkun stórra vörubíla orsakar aðeins um 18 % af þessu. Sá þáttur sem er langsamlega stærstur er fólksbílar, það er bílar sem skráðir eru fyrir 3 til 9 farþega. Einkabíllinn. Fólksbílar orsaka með öðrum orðum 60 % af þessum útblæstri eða 600.000 tonn af CO2. Hér getur almenningur gert sitt til að draga úr útblæstri. Með bíllausum lífsstíl. Og það er sennilega ódýrasta og fljótvirkasta aðgerðin sem völ er á í loftslagsmálum.
Strætisvagnakerfið á höfuðborgarsvæðinu má bæta mikið. Og það er í gangi endurskipulagning á leiðakerfi Strætó BS í tengslum við svokallaða borgarlínu. Lagt er upp með að stytta ferðatíma með strætó innan höfuðborgarsvæðisins. Nú hafa verið kynntar áætlanir um uppbyggingu á Borgarlínu sem menn telja að öllu muni breyta. Vonandi. En þessar hugmyndir virka þannig þegar þær eru skoðaðar að hér eigi einfaldlega að setja upp einhvern súperstrætó sem er í eðli og skipulagi eins og það kerfi sem hefur fengið á sig slíkt orð að fjöldi fólks lítur á það sem neyðarúrræði að nota það. Og á mörgum er að heyra að þessi kostur sé ekki til.
Það eru fleiri þættir en bara gæði strætisvagnakerfisins sem hafa áhrif á hvort fólk velur bíllausan lífsstíl. Nálægð almennrar þjónustu, svo sem barnaheimila og dagvöruverslana við heimili eða vinnustað skiptir máli.
Margir, sérstaklega þeir sem búa nálægt vinnustað kjósa að nota reiðhjól. Rafmagnsreiðhjól eru tiltölulega nýr valkostur, hentar ágætlega en rafdrifið er alls ekkert skilyrði. Þó er líklegt að rafmótorinn verði til þess að hjólið verði notað meira, t.d. þegar blæs dálítið hressilega. Rafmagnsskútur eru nýr og góður valkostur í þeirri flóru sem fyrir er.
Það er ekki nauðsynlegt að allir tileinki sér bíllausan lífsstíl. Sumir þurfa á bíl að halda vegna vinnu og annarra annmarka á lífinu. Bíllaus lífsstíll þarf líka ekki endilega að þýða að eiga ekki bíl. Heldur að nota bíllausar lausnir við sem mest af daglegu lífi. Svo sem ferðir til og frá vinnu og aðrar ferðir innan þéttbýlis. En auðvitað er ljóst að í dreifbýli þurfa menn á bíl að halda.
Það er hugarfarið sem mest strandar á. Hér á landi er einhver ótrúleg neikvæðni gagnvart strætisvögnum. Margir segja að það komi ekki til greina að þeir stígi upp í slíkt farartæki. Ekki vegna þess að þeir þekki svo vel til heldur er þetta einhvern veginn neðan við þeirra virðingu, eða hvað það nú er. Einnig er hér einhver einkennileg trú á einkabílisma. Sé eitthvað sagt eða gert í þá átt að efla þurfi almenningssamgöngur og þá rís gjarnan upp hópur fólks og talar um aðför að einkabílnum. Það má kannski segja að það sé aðför að einkabílisma. En er ekki rétt og sjálfsagt að tala gegn vandamálum?
En það er auðvitað aðför að einkabílnum að halda þessu fram. Það eru víða heilagar kýr. Á Íslandi eru þær úr blikki.
Höfundur er í loftslagshópi Landverndar.