Þeir sletta smjörinu sem eiga það

Prófessor í hagfræði segir að Mjólkursamsalan hafi nú orðið uppvís af að beita svipuðum aðferðum og Karl Lagerfeld og Gucci til að auðgast.

Auglýsing

Fram hefur komið í fréttum að Mjólkursamsalan dumpar nú 300 tonnum af smjöri á erlendan markað. Ég útskýrði í grein í Kjarnanum að ástæða þess að MS kysi frekar að dumpa smjörinu á erlendan markað en að þjóna íslenskum neytendum væru fjárhagslegar. Ávinningur MS af þessu framferði væri um fjórðungur úr milljarði á þessu ári.

Samskiptastjóri MS er ekki ánægður með þessa uppljóstrun og fullyrðir í (svar)grein í Kjarnanum að MS sé nauðugur sá kostur einn að flytja út umrætt magn vegna fyrirmæla í búvörulögum þess efnis að svokölluð umframmjólk skuli seld á erlendum mörkuðum. Á þeirri nauðung eru bæði lagalegar og hagfræðilegar hliðar.

Hugum að lagalegu hliðinni fyrst. Umrædd heimild til útflutnings mjólkur er í 52. Gr. Laga númer 99/1993 og hljóðar svo: „Framleiðsla mjólkur umfram greiðslumark skal fara á erlendan markað á ábyrgð hvers framleiðanda og viðkomandi afurðastöðvar. Framkvæmdanefnd búvörusamninga getur þó heimilað sölu þessara vara innan lands ef heildarframleiðsla verður minni en sala og birgðastaða gefa tilefni til.“ Með hliðsjón af orðum samskiptafulltrúans vekur athygli fyrst að „...Framkvæmdanefnd búvara getur heiimilað sölu þessara vara innanlands“.

Auglýsing
Samkvæmt orðanna hljóðann ætti því að bera það undir framkvæmdanefndina hvort hún telji aðstæður kalli á sölu innanlands frekar en erlendis. Framkvæmdanefndin getur jú því aðeins heimilað sölu innanlands að hún sé fyrst upplýst um að til standi að flytja út! Starfsmaður Framkvæmdanefndarinnar og Ráðgjafanefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara upplýsir mig um að engin erindi hafi borist þessum nefndum í tengslum við útflutning MS á smjöri. Ég læt löglærðum eftir að meta hvort þar sé ekki verið að fara á svig við lög, en sem ólöglærður get ég ekki séð annað en að MS sé skylt að upplýsa umræddar nefndir um áform um útflutning mjólkurafurða og eftir atvikum sækjast eftir samþykki þeirra á þeim útflutningi. Að lágmarki hvílir sú skylda á MS að upplýsa Framkvæmdanefndina um birgðastöðu, framleiðslu og neyslu á helstu neysluvörum. Ekki verður séð af fundargerðum nefndarinnar að nefndin fái slíkar upplýsingar, sjá t.d. fundargerð frá 27/3/2019. En eðlilega má setja spurningarmerki við þá gjörð löggjafans að heimila aðila sem hefur þegið milljarða króna á ári úr ríkissjóði til að framleiða mjólk að dumpa afurðum á erlendan markað. Nær væri að skylda framleiðsluaðila til að selja allar afurðir innanlands.

Víkjum þá að hagfræðilegu hliðinni á meintri umframframleiðslu: Eftirspurn ræðst af verði. Haldi einkasali smjörs verði á smjöri mjög háu eykur hann líkurnar á því að sitja uppi með umframbirgðir. Lækki einkasali verðið á smjörinu getur hann lent í þeirri klípu að geta ekki sinnt öllum þeim sem vilja kaupa smjör. Í hagfræðilegum skilningi er því erfitt að festa hönd á magni umframsmjörs og umframmjólkur. Í hagfræðilegum skilningi er óvænt birgðasöfnun dæmi um of hátt verðlag. Í hagfræðilegum skilningi er óvæntur skortur dæmi um að verð hafi verið sett of lágt. Það breytir því ekki að aðstæður geta verið þannig að það borgi sig fyrir einkasala út frá hagnaðarsjónarmiði að keyra framleiðslu á haugana (eða hleypa henni út í holræsakerfið, sé um hrámjólk að ræða). Þannig munu sumir tískuvöruframleiðendur eyðileggja óseldan lager frekar en að selja hann. Eftir að það tiltæki komst í hámæli hafa fyrirtækin orðið fyrir talsverðu neikvæðu umtali. Mjólkursamsalan hefur nú orðið uppvís af að beita svipuðum aðferðum og Karl Lagerfeld og Gucci til að auðgast!

Auglýsing
Víkjum aðeins að verðmyndun smjörs. Eins og ég hef bent á áður þá verðleggur MS fitueininguna í smjöri með öðrum hætti en fitueininguna í rjóma. Mjólkurfita í formi rjóma kostar 3-4 sinnum meira en mjólkurfita í formi smjörs. Verðið er ákveðið af Verðlagsnefnd landbúnaðarins eftir tillögu frá MS. Sem fyrrverandi nefndarmaður í umræddri nefnd veit ég að Mjólkursamsalan er afar treg til að gef upplýsingar um raunkostnað við framleiðslu einstakra vinnsluvara. Við vitum því ekki hvort rjóminn eða smjörið er „rétt“ verðlagt miðað við raunkostnað MS við að afla fitunnar og vinna úr henni. Meðan ég sat í umræddri nefnd var mér tjáð að kominn væri halli á „verðjöfnunarsjóð“ Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM). SAM vildi tilkynna Verðlagsnefndinni að til stæði að auka „inngreiðslur“ frá einstökum greinum inn í sjóðinn. Smjör er „greitt niður“ með fjármunum úr verðjöfnunarsjóðnum, rjómi er „skattlagður“ af sjóðnum. Neyslumjólk nýtur „niðurgreiðslu“. Það vakti athygli mína að margar góðar söluvörur MS greiða ekki í sjóðinn. Það á t.d. við um Gríska jógúrt, en framlegð í þeirri framleiðslu er líklega 2-3 föld á við framlegð í framleiðslu skyrs. Þegar ég spurðist fyrir um hvers vegna var mér sagt að inn í sjóðinn greiddu aðeins vörur sem voru í framleiðslu um miðjan 10 áratug síðustu aldar! Þ.e.a.s. sjóðurinn er í raun aðeins brandari.

Lærdómurinn af þessu öllu er sá að erfitt er að fullyrða með hliðsjón af hagfræðilegum röksemdum að offramleiðsla sé á smjöri á Íslandi. Hin rétta hagfræðilega fullyrðing er að miðað við framleiðslu MS á smjöri er verð á smjöri of hátt. Þá er það einnig ástæða til að spyrja hvort formkröfum búvörulaga hafi verið fylgt þegar ákvörðun var tekin um útflutning smjörs haustið 2019. 

Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur.
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Nornahár og nornatár
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá fimmti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 8. maí 2021
Þögnin rofin á ný
Hundruð íslenskra kvenna hafa í vikunni stigið fram opinberlega með sínar erfiðustu minningar, í kjölfar þess að stuðningsbylgja reis upp með þjóðþekktum manni sem tvær konur segja að brotið hafi á sér. Lærði samfélagið lítið af fyrri #metoo-bylgjunni?
Kjarninn 8. maí 2021
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Arion banki að ná markmiðum sínum og ætlar að dæla fé til hluthafa á næstu árum
Umfram eigið fé Arion banka var 41 milljarður króna í lok mars síðastliðins. Bankinn ætlar að greiða hluthöfum sínum út um 50 milljarða króna á næstu árum. Hann hefur nú náð markmiði sínu um arðsemi tvo ársfjórðunga í röð.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar