Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga í Hvalfirði hóf framleiðslu árið 1979. Nú fjórum áratugum síðar kom að því að upphaflegi raforkusamningurinn rynni skeið sitt á enda. Í dag er verksmiðjan með framlengdan orkusamning við Landsvirkjun til tíu ára og gerðardómur nýlega búinn að ákvarða nýtt raforkuverð. Þessi grein fjallar um helstu forsendurnar sem þar var stuðst við og vikið er að nokkrum álitamálum vegna umfjöllunar gerðardómsins. Niðurstaðan er sú að vísbendingar eru um að hið nýja raforkuverð til Elkem sé ekki fyllilega í takti við markaðsverð í ámóta viðskiptum.
Elkem kaupir um 7% af raforkuframleiðslu Landsvirkjunar
Á Grundartanga starfrækir norska fyrirtækið Elkem járnblendiverksmiðju sem mun vera sú næst stærsta í heiminum. Verksmiðjan reis upp úr miðjum áttunda áratug liðinnar aldar, hefur verið stækkuð og eigendaskipti hafa orðið að hlutabréfunum. Í dag er Elkem í eigu í kínversks ríkisfyrirtækis.
Járnblendiverksmiðjan er núna fjórði stærsti raforkukaupandinn á Íslandi, en stendur þó álverunum þremur talsvert að baki í orkumagni. Allt frá upphafi hefur verksmiðjan keypt alla raforkuna frá Landsvirkjun. Orkusamningur Landsvirkjunar við járnblendiverksmiðjuna er upphaflega frá árinu 1975 og skyldi hann gilda í 40 ár frá fyrsta afhendingardegi rafmagns, sem var í mars 1979.
Á þeim 40 árum sem liðin eru frá því raforkusamningurinn tók gildi hafa nokkrar breytingar verið gerðar á honum, m.a. vegna stækkunar verksmiðjunnar og breytinga á reiknireglum á orkuverðinu. Með orkusamningnum, eins og hann hefur verið frá síðasta samkomulagi aðilanna þar að lútandi fyrir um áratug síðan, hefur Landsvirkjun verið skuldbundin til að útvega Elkem 1.035 GWst á ári. Þau raforkuviðskipti nema nú u.þ.b. 7% af öllu því rafmagni sem Landsvirkjun selur árlega.
Gamli samningurinn á skjön við raforkuviðskipti nútímans
Flutningskostnaður raforku er umtalsverður hluti kostnaðarins við að útvega og afhenda stóriðju rafmagn. Í gamla samningnum frá 1975 var kostnaður vegna raforkuflutningsins innifalinn í orkuverðinu. Enda var flutningsfyrirtækið Landsnet ekki orðið til þegar sá samningur var gerður og Landsvirkjun bar sjálf ábyrgð á raforkuflutningunum. Elkem greiddi því ekki afmarkað flutningsgjald, sem er ólíkt því sem gerist í flestum raforkuviðskiptum í dag.
Raforkunotkun járnblendiverksmiðjunnar er hlutfallslega nokkru sveiflukenndari en gerist hjá álverunum. Svo virðist sem gamli samningurinn hafi lagt óvenju ríka afhendingarskyldu á Landsvirkjun, án þess að fyrirtækið fengi nokkrar aukagreiðslur eða sérstakar greiðslur fyrir það að hafa jöfnunarafl tiltækt fyrir Elkem. Þetta er ólíkt því sem gerist í flestum raforkuviðskiptum í dag. Það var því ýmislegt í gamla samningnum sem virðist nokkuð á skjön við nútímann og flesta þá orkusamninga sem gilda á Íslandi í dag.
Samningaviðræður byrjuðu 2015
Eins og áður sagði skyldi gamli samningurinn gilda til marsloka 2019. Í honum var þó ákvæði þess efnis að að Elkem væri heimilt að framlengja raforkuviðskiptin um tíu ár, en þá skyldi sérstakur gerðardómur ákvarða raforkuverðið sem skyldi gilda þann framlengda tíma (2019-2029).
Þegar viðræður hófust milli Landsvirkjunar og Elkem um nýjan orkusamning, snemma árs 2015, varð brátt ljóst að Landsvirkjunar var ekki tilbúin í að semja aftur um ámóta verð eins og í gamla samningnum. Að mati Landsvirkjunar þurfti orkuverðið að hækka verulega og auk þess að verðleggja raforkuflutninginn sérstaklega og einnig það rafmagn sem mætir sveiflukenndri raforkuþörf verksmiðjunnar.
Nokkurra ára árangurslausar viðræður
Næstu þrjú árin áttu sér stað meira en tveir tugir samningafunda milli fyrirtækjanna um áframhaldandi raforkuviðskipti. Þar voru ýmsar leiðir ræddar. M.a. kom til skoðunar sú leið að tengja orkuverðið við verð á norræna raforkumarkaðnum, sem var einmitt niðurstaðan í nýjum samningi Landsvirkjunar og Norðuráls árið 2016. Einnig var rætt um möguleikann á föstu verði með e.h.k. vísitölutengingu, sem er leiðin sem farin var í nýjum orkusamningi Landsvirkjunar og ISAL árið 2010. En engin niðurstaða náðist.
Málið til gerðardóms
Þegar farið var að styttast í að gamli raforkusamningurinn rynni út ákvað Elkem að nýta heimild í samningnum um að framlengja raforkuviðskiptin um tíu ár. Þar með var virkjað ákvæði í gamla samningnum um að sérstakur gerðardómur skyldi ákveða hvaða verð yrði á raforkunni það tíu ára tímabil.
Nýja raforkuverðið er trúnaðarmál
Næstu mánuðina var gagna aflað og lögmenn málsaðila skýrðu sjónarmið umbjóðenda sinna fyrir gerðardómnum. Það var svo í júní s.l. (2019) sem dómurinn birti ákvörðun sína um nýtt raforkuverð vegna tímabilsins 2019-2029. Um niðurstöðu gerðardómsins um orkuverðið ríkir trúnaður og því veit væntanlega enginn, utan málsaðila, lögmanna þeirra og dómaranna, hvert nýja verðið nákvæmlega er.
Aðrir íslenskir stóriðjusamningar til grundvallar orkuverðinu
Í umfjöllun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um nýja raforkusamninginn er útskýrt að við verðákvörðun gerðardómsins var byrjað á að líta til þess hvaða orkuverð önnur stóriðja á Íslandi er að greiða. Þannig skyldi gerðardómurinn finna tiltekið viðmiðunarverð, sem væri sambærilegt við það raforkuverð sem önnur stóriðja hér greiðir Landsvirkjun.
Einnig leit gerðardómurinn til kostnaðar við að flytja rafmagn og hvort rök væru til að veita afslátt af viðmiðunarverðinu. Um leið gætti dómurinn að því hvort raforkuverðið væri innan þess ramma að ekki væri um að ræða ríkisstyrk í skilningi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES).
Íslenskir stóriðjusamningar eru á breiðu verðbili
Við mat á viðmiðunarverði leit gerðardómurinn til raforkuverðsins sem álver ISAL, Fjarðaáls og Norðuráls greiða Landsvirkjun og líka til orkuverðsins sem kísilverksmiðja PCC á Bakka greiðir. Þessi fjögur fyrirtæki greiða vel að merkja langt í frá sama verð fyrir rafmagnið. Álver Fjarðaáls greiðir Landsvirkjun t.a.m. miklu lægra raforkuverð heldur en hin fyrirtækin þrjú og augljóst er að sá geysistóri upprunalegi samningur frá 2003 er ekki í nokkrum takti við verð til stóriðju á raforkumörkuðum í dag. Engu að síður áleit gerðardómurinn að líta yrði m.a. til þessa samnings til að finna viðmiðunarverðið.
Hér er vert að taka fram að í raforkusamningum sem eru upphafssamningar hjá stóriðjuverksmiðjum er tilneiging til að raforkuverð sé talsvert mikið lægra en í endurnýjuðum samningum. Stóri raforkusamningurinn við Fjarðaál frá 2003 er þar gott dæmi, en álverið á Reyðarfirði nýtur mjög lágs raforkuverðs og sennilega einhvers allra lægsta stóriðjuverðs í heiminum í dag. Þá eru og vísbendingar um að kísilverksmiðja PCC á Bakka við Húsavík greiði hóflegt orkuverð miðað við aðra nýlega orkusamninga. Þessir tveir samningar hafa því mögulega báðir dregið raforkuverðið vel niður við verðákvörðun gerðardómsins og þó einkum samningurinn við Fjarðaál.
Tekist á um verð á bilinu ca. 20-40 USD/MWst
Ef einungis hefði verið miðað við samninga Landsvirkjunar við PCC og Fjarðaál gæti niðurstaða gerðardómsins hafa u.þ.b. legið á bilinu 20-30 USD/MWst. En hefðu nýju samningarnir við ISAL og Norðurál ráðið verðinu er líklegt að niðurstaða gerðardómsins um nýtt raforkuverð til Elkem hefði verið einhversstaðar á bilinu u.þ.b. 30-40 USD/MWst. Þetta eru vel að merkja grófar viðmiðanir. En kannski má segja að svigrúm gerðardómsins, samkvæmt samningbundnum viðmiðunum í samningi Landsvirkjunar og Elkem, hafi legið á bilinu 20-40 USD/MWst. Hlutverk dómsins var að taka öll umrædd stóriðjuverð og finna út frá þeim viðmiðunarverð sem endurspegli stóriðjuverð hér núna og út gildistíma hinna framlengdu raforkuviðskipta, þ.e. næstu tíu árin. Hver niðurstaðan var hefur ekki verið gefið upp. Mögulega var þar stuðst við meðalverð eða vegið meðalverð.
Slátrun á Elkem eða hófleg hækkun?
Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur farið hörðum orðum um niðurstöðu gerðardómsins. Hann hefur sagt hækkunina nema um 1,1 til 1,5 milljörðum króna á ári og sagt að þar með sé verið að „slátra“ járnblendiverksmiðjunni. Um niðurstöðu gerðardómsins um orkuverðið ríkir trúnaður milli málsaðila og það er því ráðgáta hvernig viðkomandi verkalýðsformaður veit eða telur sig vita verðið sem dómurinn ákvað. En séu þessar upplýsingar réttar, þ.e. að hækkunin nemi um 1,1-1,5 milljörðum króna á ársgrundvelli, þýðir það að hver MWst til Elkem sé að hækka um u.þ.b. 9-12 USD.
Sá sem þetta skrifar veit ekki enn hvort umræddar upplýsingar um að árleg verðhækkun Elkem nemi u.þ.b. 1,1-1,5 milljarða króna séu réttar og þar að auki munar miklu á hærri tölunni (12 USD) og þeirri lægri (9 USD). En ef þessar tölur eru nærri lagi þá er verðhækkunin eitthvað minni en sú hækkun sem greinarhöfundur spáði í grein fyrir um tveimur árum.
Þetta gæti verið vísbending um að nýja verðið til Elkem sé í reynd hóflegt. Um leið er alveg rétt að hækkun upp á 1,1-1,5 milljarða á ársgrundvelli myndi vissulega merkja að hið nýja raforkuverð er hlutfallslega mikið hærra en gamla orkuverðið var. En gamla verðið var mjög lágt.
Landsvirkjun vildi hærra verð
Miðað við það sem sagt hefur verið opinberlega af hálfu Landsvirkjunar um niðurstöðu gerðardómsins fól hún í sér umtalsverða hækkun frá því verði sem Elkem greiddi áður. Elkem hefur ekkert gefið uppi opinberlega um niðurstöðuna. Það liggur fyrir að Landsvirkjun hefði viljað fá töluvert hærra verð en gerðardómur ákvað. Að mati Landsvirkjunar fól niðurstaðan í sér „óþarflega lágt“ verð og lægra verð heldur en Landsvirkjun er tilbúin að semja við aðra um. Þetta merkir væntanlega að Landsvirkjun sé ekki alveg sátt við orkuverðið sem gerðardómurinn ákvað, þ.e. að fyrirtækið hafi talið eðlilegt að verðhækkunin til Elkem yrði meiri.
Er nýja verðið nálægt því að vera ígildi ríkisstyrks?
Takmörkuð ánægja Landsvirkjunar með niðurstöðu gerðardómsins kemur einnig fram í grein forstjóra fyrirtækisins á vefsvæði Kjarnans í ágúst s.l. Þar segir að nýja orkuverðið til Elem sé svo lágt að það nái varla meðalkostnaðarverði virkjana Landsvirkjunar og sé jafnframt verulega undir kostnaðarverði síðustu virkjana fyrirtækisins. Og í nýlegum skrifum Landsvirkjunar á samfélagsmiðlinum Facebook sagði að raforkuverð í nýjum samningi Elkem nái „hvorki kostnaðarverði núverandi virkjana Landsvirkjunar né nýrra virkjanakosta“ og að „samningur Elkem sé á meðal þeirra hagstæðustu sem í gildi séu í heiminum“.
Þetta eru athyglisverð orð. Ekki verður annað séð en að í þeim felist að Landsvirkjun álíti að nýja verðið sé mjög hóflegt og að gerðardómurinn hafi í aðferðafræði sinni jafnvel valdið Landsvirkjun nokkrum vonbrigðum. Það er freistandi að velta því fyrir sér hvort orðalag Landsvirkjunar merki að nýja orkuverðið til Elkem sé í reynd svo lágt að það sé nálægt því að vera ígildi ríkisstyrks og þar með nánast óeðlilega lágt verð.
ESA áleit raforkuverðið byggja á eðlilegum sjónarmiðum
ESA komst þó að þeirri niðurstöðu að ekki væri ástæða til að ætla að raforkuverðið sem gerðardómurinn ákvað væri ígildi ríkisstyrks í skilningi EES. Ekkert væri athugavert við aðferðafræðina við uppsetningu og forsendur gerðardómsins og að ekkert bendi til annars en að orkufyrirtæki í einkaeigu hefði fallist á samskonar aðferðafræði eins og Landsvirkjun gerði í gerðardómsákvæðum gamla samningsins. Þar með er ESA ekki að fullyrða að nýja verðið sé í góðu samræmi við algengt markaðsverð á raforku til stóriðju í nýlegum samningum; einungis að segja að einkafyrirtæki hefði getað samið um samskonar gerðardómsmeðferð og verðviðmiðanir eins og Landsvirkjun gerði.
Arðsemi Landsvirkjunar fer hækkandi
Eins og áður sagði virðist sem ákvæði í gamla samningnum milli Landsvirkjunar og Elkem hafi skyldað gerðardóminn til að líta m.a. til samninganna við Fjarðaál og PCC við ákvörðun á verðviðmiði. Og að þeir samningar hafi dregið viðmiðunarverðið töluvert niður. Það sem hífði verðið upp á móti eru nýlegu samningarnir við ISAL og Norðurál. Niðurstaðan varð veruleg hækkun frá hinu gamla botnverði Elkem. En þó eitthvað minni hækkun en Landsvirkjun hefði viljað og hóflegt verð miðað við kostnað virkjana.
Hvað sem þessu nýja verði Elkem líður þá má áfram gera ráð fyrir að meðalverð á raforku til stóriðju á Íslandi muni smám saman halda áfram að mjakast upp á við. Og nálgast það að verða sambærilegra við stóriðjuverð t.a.m. í Noregi og Bandaríkjunum og víðar erlendis. Þessi þróun mun færa arðsemi Landsvirkjunar í átt til þess sem sjá má hjá sambærilegum fyrirtækjum á hinum Norðurlöndunum og víðar. Sem er eðlileg þróun. Um leið er þessi þróun mikið hagsmunamál fyrir eigendur Landsvirkjunar, sem er íslenska ríkið og þar með almenningur á Íslandi.
Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland. Það sem fram kemur í greininni byggir einkum á umfjöllun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um málið.