Í kjölfar afhjúpana Kveiks, Stundarinnar og Al Jazzera á starfsaðferðum stórs íslensks sjávarútvegsfyrirtækis í Namibíu, Angóla og víðar leitar fólk skýringa. Atferlið sem lýst er felur í sér að múta embættis- og stjórnmálamönnum til að fá aðgang að fiskveiðikvóta sem ella væri ekki tiltækur, að nota skattaskjól og flókið net aflandsfélaga til að sniðganga ákvæði skattalaga um skattgreiðslur í Namibíu og víðar. Það er til marks um alvarleika þessara brota að sá sem mútar erlendum eða innlendum embættismanni eða ráðherra á yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi. Fyrrum starfsmenn þróunarsamvinnustofnunar lýsa einnig hvernig atferli fyrirtækisins (m.a. veiðar með verksmiðjuskipum sem sjaldan koma í höfn og þar sem yfirmenn eru ekki heimamenn) hafi stórskaðað þá þekkingaruppbyggingu sem var í höfn þegar stofnunin hvarf á braut 2010. Slíkt framferði er bein árás á framfærslumöguleika framtíðarkynslóða í Namibíu og er ekki síður afdrifaríkt en mútugreiðslur.
Margir þeirra sem ég ræddi við í kjölfar Kveiksþáttarins sögðu: „Tja, eru mútur og „ómaksgreiðslur“ ekki hefðbundin viðskipti í Afríku“. Reyndar brugðu flestir fyrir sig alþjóðlegu útgáfunni „Business as usual in Africa“. Og enduróma þannig röklausa réttlætingu hinna siðblindu mútuboðs- og skattasniðgöngumanna.
Meðvirkni viðmælenda minna kallar á umhugsun. Það er vissulega svo að hver dregur dám af sínum sessunaut. Í fjölþjóðlegri könnun (Betrancea et al, 2019) sem ég átti aðild að komumst við að því að styrkur eftirlitsstofnana (e. power) og traust til stjórnvalda hefur mikil áhrif á skattasiðferði. Þar sem skattsvik eru tíð eru margir tilbúnir til þátttöku í svikaatferli. Þar sem skattsvik eru fátíðari eru færri tilbúnir til slíkra hluta. Það er því eðlilegt að fólk hugsi eitthvað á þessa leið: „Sá sem gerir gott heima, gefur skíðalyftur og flygla og styrkir íþróttastarf unglinga, hann vill vel. Og ef hann sýnir annað andlit utanlands; ber fé á opinbera starfsmenn til að auka sér auðgunartækifæri, þá er á því sú skýring að þetta sé business as usual, og ef „máttarstólpinn trausti“ bæri ekki fé á þetta fólk þá myndi bara einhverjir Spánverjar eða Portúgalar eða Kínverjar fylla skarðið. Þannig myndi staða hinna fátæku í Afríku ekki batna, en geta „máttarstólpans trausta“ til að gera gott heima myndi minnka!“
En er sú ályktun að einn mútugreiðandi leysi annan af eitthvað skárri ályktun en rökleysa hins siðlausa skattsvikara og ómaksfjárgreiðanda? Nei! Í fyrsta lagi er það sá sem mútar sem er upphaf og endir hins siðlausa og löglausa athæfis. Ef hann býður ekki borgun eða vill ekki borga „ómaksfé“ þá fellur sá þáttur viðskiptanna um sjálft sig. Ef embættismaður „biður“ um ómaksgreiðslu, þá á sá sem er beðinn ávallt þann kost að tilkynna athæfið til þar til bærra yfirvalda. Reyndar ber honum skylda til þess í sumum tilvikum að minnsta kosti. Með því að þegja og borga „ómaksgreiðsluna“ er viðkomandi að samþykkja rangláta málsmeðferð og ýta undir að mútuþeginn beiti aðra aðila sömu brögðum.
Sá sem beðinn er um „ómaksgreiðslu“ stendur frammi fyrir vali. Að greiða og ýta þannig undir óheilbrigða viðskiptahætti í framtíðinni. Komist múturnar í hámæli geta viðbrögð alþjóðasamfélagsins á hinn bóginn orðið harkaleg og langtímatapið meira en skammtímaávinningurinn. Sá sem neitar „ómaksgreiðslu“ kann að baka sér óvinsældir og fjárhagstap til skamms tíma. En til lengri tíma hagnast bæði hann og allir aðrir.
Höfundur er prófessor í hagfræði við háskóla Íslands.