Í gömlum sögnum segir svo frá
er konur bjuggu körlum hjá.
Saman þau lifðu í sælu á jörð,
vinátta, samvinna, leikur og störf.
Kæru landsmenn, þingmenn, rökhyggjumenn, efahyggjumenn, hugsjónamenn, formenn, fundarmenn, athafnamenn, félagsmenn, afreksmenn, íþróttamenn og allir menn. Ég er með smá hugleiðingu.
Ætlum við konur að afsala okkur orðinu maður? Er það skref áfram í jafnréttisbaráttunni eða erum við að skjóta okkur í fótinn og afhenda körlum þetta orð á silfurfati til einkanota? Orðið maður hefur verið notað yfir Homo Sapiens lengur en elstu menn muna. Það hefur verið samheiti yfir konur og karla. Maður, manneskja, mannkyn. Til aðgreiningar frá öðrum lífverum á jörðinni.
Mannkyn skiptist í kvenkyn og karlkyn og maður í kvenmann og karlmann. Eða þannig var það allavega. Er þetta núna orðið að mannkyni og kvenkyni?
Oft heyrði ég talað um menn og dýr jarðarinnar. Var þá aldrei verið að meina konur líka? Hef ég misskilið þetta þegar talað er um menn jarðarinnar? Erum við konur þá þriðja tegundin sem föllum ekki undir orðið maður eða manneskja? Spurning hvort við séum kvenneskjur.
Tvistið í þessu öllu er að við mennirnir hættum nánast að nota orðið karl fyrir mörgum árum síðan (nema viðkomandi heiti það) og tóku karlarnir orðið maður yfir. Þetta áttum við konur hins vegar ekki að leyfa að fara í gegn og þar liggja mistökin, enda er auðveldara að taka til okkar þegar verið er að tala um menn heldur en að breyta stórum hluta orðasafnsins með því að skeyta orðinu kona í fleiri fleiri orð í stað maður.
Ég trúi að allir menn séu jafnir (karlar séu jafnir konum) og vil alls ekki hætta að vera maður. Nú er búin að vera svo mikill þrýstingur á að nota orðið kona út um allt þó verið sé að tala um menn. Við heyrum setningar eins og „kæru fundarmenn..../og konur“ eins og þær séu ekki menn. Ef hins vegar væri sagt „kæru fundarkarlar“ væri mjög viðeigandi að bæta við „og konur“.
Af þessu leiðir að til verða orð eins og forkona. Hvað er nú það? Jú, prófið að setja orðið maður í stað konu þá kveikið þið.
Eftir að ég heyrði orið forkona fór ég að hlusta betur eftir þessu og fór að pæla út frá þessu. Sama kvöld og ég heyrði forkonu orðið í útvarpinu sat ég yfir einum fótboltaleik. Lýsandinn talaði um leikmann og leikmenn á vellinum nokkrum sinnum á meðan leiknum stóð. Flaug þá í gegnum huga minn hvort sami lýsandi myndi tala um leikkonur á vellinum ef leikmennirnir væru konur.
Í framhaldi af því ætti maður ársins jafnmikið að geta verið karl eins og kona annars værum við að tala um „karl ársins“ og þá „konu ársins“.
Afreksmaður getur af sömu ástæðu verið kona eða karl. Við hér á Íslandi erum heppin með það að nafnið á afreksmanninum upplýsir í flest öllum tilfellum hvort um konu eða karl sé að ræða.
Í stað þess að afsala okkur orðinu maður skulum við öll vera gáfumenn og byrja að tala um karla og konur ef við viljum aðgreina kynin en nota orðið menn ef við tölum um bæði kynin.
Megi allir menn vera jafnir
Með virðingu og vinsemd
Þóra Sveinsdóttir