Á Kveik hefur kviknað ljós. Við höfum fengið að skyggnast inn í meintar, ógeðfelldar, athafnir Samherja, í fjarlægu landi.
Ísland og Namibía eru ólík lönd en margt er þó líkt með þeim. Í báðum löndum býr fólk með vonir og þrár. Svo virðist sem Namibíska þjóðin hafi verið illa svikin og hún orðið leiksoppur braskara og spilltra pólitíkusa.
Samherjamálið á eftir að rannsaka og vonandi verður sannleikurinn leiddur í ljós. Framkomnar upplýsingar hljóta að vekja allt hugsandi fólk með réttlætiskennd til vitundar um að yfirgnæfandi líkur eru á því að óhreint mjöl sé í poka fyrirtækisins, ýlda í lestinni.
Fyrirtækið virðist hafa varið gríðarlegum fjármunum til þess að fá í hendur fiskveiðikvóta í þessu fátæka landi, greitt fyrir hann og mútað áhrifamönnum til að tryggja sér veiðiréttinn.
Á Íslandi hefur útgerðin hins vegar fengið kvótann fyrir lítið sem ekkert með samþykki fólks á Alþingi sem þar með brást almenningi hrapallega. Stjórnmálamenn, sem bjuggu kvótamálið í þann búning sem það nú er í, hafa í raun fórnað æru sinni, meðvitað eða ómeðvitað, ókeypis eða fyrir borgun. Ber gjörningurinn merki um ætlaðan verknað í þágu "sinna manna" eða var þetta bara hreinn óvitaskapur? "Æ sér gjöf til gjalda", segir í fornu máltæki, ekkert fæst ókeypis. Hvað gekk Alþingi til með setningu laga um fiskveiðikvótann, eign fólksins í landinu? Er hægt að tak eign annarra og gefa hann örfáum einstaklingum án þess að bera ábyrgð á verknaðinum?
Auðvitað þarf að stjórna veiðum í íslenskri landhelgi til að koma í veg fyrir ofveiði, en „gjafakvótakerfið“ er að flestra mati siðlaust og óverjandi og hefur skipt þjóðinni upp í tvær fylkingar. Annars vegar er sá hluti almennings, sem er með sæmilega meðvitund, en hins vegar 20 fjölskyldur, sem virðast skorta bæði meðvitun og samkennd, með auðinn okkar í bólgnum vösum sínum.
Auður er vandmeðfarinn og margur maðurinn höndlar það engan veginn að vera moldríkur. Handhafar kvótans eru margir hverjir hið vænsta fólk, tel ég, og ég þekki sumt þeirra persónulega og af góðu einu. En vinátta og kunningsskapur breytir ekki afstöðu minni til grunngilda, breytir ekki siðferðilegri afstöðu minni til máls, sem varðar þjóðina alla, kaup hennar og kjör.
Veiðiheimildir hafa gengið kaupum og sölum um árabil. Flétturnar væntanlega að hluta til hugsaðar til að festa kerfið í sessi og gera alla þræði óljósa og vandrekjanlega.
Auðurinn, sem gefin var án nokkurs endurgjalds eða fyrir smánargjald og arðurinn af auðlindinni, er í röngum höndum í báðum löndum, á Íslandi og í Namibíu, í vösummútuþeganna syðra en kvótafólksins hér heima.
Ólík lönd en í áþekkum sporum andspænis misnotkun og spillingu. Namibía og Ísland. Namísland.
Tvö lönd eins og spyrtir þorskar á trönum, spyrt saman með spillingarbandi af líkum toga.
Lögreglan í Namibíu rannsakar málið og hefur handtekið fólk en hér á landi eru allir eins og tvístraðir, hlaupandi mófuglar, sem vita ekki sitt rjúkandi ráð. Sjávarútvegsráðherra situr áfram á valdastóli vinavæðingarinnar. Samherji gengst sjálfur fyrir rannsókn á eigin máli með aðstoð norskrar lögmanna. Hefur virkilega enginn verið kallaðu til yfirheyrslu hér á landi? Eiga forystumenn Samherja ekki að sitja í gæsluvarðhaldi meðan rannsókn stendur yfir til að verja rannsóknarhagsmuni og þar með hagsmuni Namibíu og Íslands?
Þungt er að horfa upp á slíka vanhæfni okkar Íslendinga. Málið varðar bæði löndin og fólkið sem á auðlindirnar, auðinn sem braskað hefur verið með og vélað um, með ólögmætum hætti.
Róttækra breytinga er þörf. Auðlindin verður að vera skilgreind á ótvíræðan hátt sem eign þjóðarinnar og hún verður að fá að njóta arðsins af henni. Það sæmir ekki að 20 fjölskyldur leiki sér með auðlind þjóðarinnar, en þeim er hins vegar velkomið að nýta hana gegn „fullu gjaldi“ á hverjum tíma. Nú er komið að skuldadögum og algjöru uppgjöri.
Við, sem þolum ekki þetta misrétti, bíðum þess að allur kvótinn verði innkallaður og svo leigður út aftur – en við bíðum ekki lengi.