Bók Andra Snævar Magnasonar, Um Tímann og Vatnið, hefur hlotið einróma lof manna sem hún verðskuldar að ýmsu leyti. Textinn er lipur og auðskilinn, skáldlegur á köflum, og enginn þarf að efast um einlægan vilja höfundar til að vekja lesendur til umhugsunar um þá vá sem stafar af hækkandi hitastigi lofthjúpsins.
Það er hins vegar mitt mat að slagkraftur bókarinnar hefði verið meiri ef höfundur hefði sleppt ýmsum köflum sem bæta litlu við efnislega. Vil ég þar nefna upptalningu á afrekum skyldmenna hans, sem eru þó örugglega hin merkustu en eiga kannski lítið erindi í bók með þetta markmið. Sama má segja um kaflana um Dalai Lama. Þetta er þó fyrst og fremst smekksatriði. Sumir hafa t.d. gaman af því að eiga af sér myndir með frægu fólki. En léttara yrði sótsporið með færri blaðsíðum!
Hitt er öllu alvarlegra að höfundur sökkvir sér í allskonar dulspekilegar vangaveltur um forn trúarbrögð, heilagar kýr, fjöll og fljót og finnur að sjálfsögðu allskonar tengingar sem virðast eiga að sýna einhverja æðri skipan veraldarinnar og það sem verra er, hann telur að gegnum þær eigum við að nálgast lausnir á hinni alltumlykjandi ógn loftlagsbreytinga.
Þetta sjónarmið Andra Snævar hefur komið fram í mörgum viðtölum við hann í fjölmiðlum og birtist einkar skírt á bls. 299: „Til hvers að læra algebru?“ (þeirri spurningu er ekki svarað) og „Til hvers að læra ljóðlist og gömul kvæði? (og svarar:) „Vegna þess að ljóðlistin er silfurþráður mannsandans og án hennar er tilvist mannsins óhugsandi“.
Þetta er afar varhugaverð afstaða. Lausnirnar verður einmitt að nálgast með algebru (les: rökhugsun) en ekki gegnum orðaleppa eins og „þagnarþrungin geimvídd guðs“ og „silfurþráður mannsandans“, sem hver og einn getur lagt sinn skilning í og eru því merkingarlausir í samræðunni. Það er hins vegar sjálfsagt réttmæt ályktun hjá Andra Snæ að nokkur hópur manna hefur ekki tök á að átta sig á vísindalegum rökum og til þeirra nær þessi bók væntanlega og gæti því verið gagnleg að því leyti, en að ætla sér að hafa dulrænar hugljómanir að leiðarhnoða þegar finna þarf lausnir mun næstum örugglega leiða okkur á villigötur.
Lýsandi dæmi um það má finna á bls. 54 þar sem höfundur er enn að harma smíði Fljótsdalsvirkjunar og álversins á Reyðarfirði: „Endurvinnsla á dósum í Ameríku hefði sparað þrjár til fjórar svona verksmiðjur“. Nú væri það auðvitað hið besta mál að Bandaríkjamenn færu að endurvinna áldósirnar en einföld rökhugsun segir okkur að þá ætti fremur að loka þeim álbræðslum sem knúnar eru með jarðefnaeldsneyti en þeim sem nýta orku fallvatna.
Fyrir utan nokkrar hjáróma raddir virðist þorri fólks ætlast til aðgerða til að ná niður útblæstri gróðurhúsalofttegunda, þar með talinn Andri Snær. Notkun okkar á raforku er mikil og erfitt að sjá líkindi þess að úr henni muni draga, þvert á móti. Því sýnist ástæða til að benda á hið augljósa, að árangur í því mikilvæga verkefni mun alfarið ráðast af því hvernig sú raforka sem við notum verður framleidd, þ.e. með endurnýjanlegum orkuauðlindum eða brennslu jarðefnaeldsneytis.
Andri Snær bendir á vænlegar lausnir og vitnar til sérfræðinga (bls. 301 og 304) og nefnir sólar- vind- og varmaorku auk rafvæðingar samgönguflotans (sem kemur að litlu haldi sé raforkan framleidd með brennslu) en forðast eins og heitan eldinn að minnast á vatnsorku. Hún er þó gædd þeim mikilvæga eiginleika að hana má geyma í uppistöðulónum og grípa til þegar vinnsla vind- og sólarorku er í lágmarki í logni og sólarleysi. Þar með sleppur hann við að komast í beina mótsögn við sjálfan sig en fórnar auðvitað þar með rökhyggjunni. (Má sýnast athyglisverð forgangsröð!)
Rétt er að geta þess að unnið er að þróun gríðarlegra rafhlaðna til að brúa bilin þegar sólskin og vindur bregðast. Sú lausn kann að vera hin eina mögulega þar sem vatnsafl er ekki í boði, en verður bæði dýr og veldur miklu álagi á náttúruna t.d. vegna stórfelldrar námuvinnslu.
Það ætti því að vera keppikefli þeirra sem láta sig loftslagsmálin varða að lögð verði áhersla á virkjun þeirra fallvatna sem skilgreind verða í nýtingarflokki svo við Íslendingar getum tekið við orkufrekum verkefnum frá öðrum þjóðum og draga þannig úr útblæstri á heimsvísu. Því er þó ekki að heilsa. Margir þeirra sem fastast berja sér á brjóst sem náttúruverndarsinnar leggjast þyngst á árar til að hindra byggingu vatnsaflsvirkjana svo laða megi fleiri ferðamenn til landsins með tilheyrandi útblæstri CO2!
Í þessu felst nokkuð snúin þversögn sem fjölmiðlar hafa vanrækt að krefja þetta fólk svara um. Auðvitað viljum við öll að umsvif okkar valdi sem minnstu raski á umhverfi okkar, en hér verður ekki bæði sleppt og haldið og nauðsynlegt að fram fari undanbragðalaus umræða um valkostina.