Við það að lesa um skort á starfsfólki á Barnastofu þá kemur það í ljós að allt of margir eru enn of fastir í gömlu rómantíkinni sem hefur verið sköpuð í kringum barneignir.
Málið er því miður að það að kynhvötin fari á háan hita við að vera í nærveru mannveru sem kallar á að genin í líkömum þeirra leitist við að fjölga sér, hefur það ekki nærri alltaf að gera með ást né að viðkomandi einstaklingar þrái að verða foreldrar eða séu færir um að vera það. Það er ótrúlega stór hluti mannkyns sem hefur fæðst út frá slíkum tilfellum.
Tilfinningaþroski eða skortur þar á er svo annað dæmi og sást í því sorglega dæmi þegar Barnastofa hótaði ungri konu sem hafði ekki verið fær um að skipuleggja líf sitt vel en notaði ekki getnaðarvarnir þegar hún hafði kynmök og hafði séð á eftir barni sínu til Noregs. Hafði fætt annað barn og auðvitað í tárum en starfsfólk Barnastofu hafði enga samhygð með að konur sem hafa fætt barn eru mjög hráar tilfinningalega. Ég man að þegar ég var á fæðingardeildinni árið 1971 og sá konu keyrða fram hjá mér á ganginum vera með súrefniskút á rúminu og tárin streymdu niður kinnarnar af samkennd með ástandi hennar.
Sterk kynhvöt er ekki nærri alltaf samferða því að vera fært foreldri, né eru þeir sem eru reknir sterklega áfram af henni, og þá ansi oft án hugsunar, endilega færir um að framfylgja afleiðingum hugsunarlausra kynmaka. Það er greinilega enn að gerast þó að getnaðarvarnir séu til.
Það að horfa á þættina „Eitt barn fæðist á mínútu hverri“ eða eins og þeir heita á frummálinu „One born every minute“ birtir oftast rómantíska hliðin hjá pörum sem stundum hafa átt í erfiðleikum með getnað.
Þættir Dr. Phil sýna hinsvegar mest hina hliðina og það er að þeir sem hafa fætt börnin í heiminn hafa ekki haft glóru um hvernig eigi að virkilega ala börn upp, ekki bara vera barnapíur þeirra.
Sumir foreldrar nota börnin til að dekra við þau á hátt sem þau hefðu viljað að væri dekrað við þau, en var ekki. Svo að þau nota börnin í raun fyrir að gæla við sjálf sig á þann hátt, en enda svo of oft því miður með heimtufrekar frekjuskjóður sem eru orðnar óalandi og óferjandi á heimilinu. Og þess vegna er á endanum leitað til Dr. Phil. Það sem Dr. Phil hefur sagt mörg þúsund sinnum við mæður er að þær séu ekki að gera neitt af því fyrir börnin heldur fyrir sjálfar sig. Og eru að skaða barnið með því að láta undan.
Svo eru það foreldrar sem kynhvötin stjórnar en þegar barnið kemur er engin hvöt eftir til að sinna því og það er vanrækt á ótal sviðum af því að það voru kynmökin sem voru númer eitt fyrir þeim. Snertingin í kynmökum er fyrir sumum það eina sem lætur þau upplifa sig vera tengd, og kannski skilja þau það sem ást, þegar það er oftar losti sem hefur enga tengingu við ást. Og þá er engin alvöru tenging við barnið sem fæðist frá því augnabliki af losta. Og blessuð börnin verða blórabögglar þeirra kringumstæðna.
Genin sem slík hafa ekkert siðferði, engan móral, engar umferðareglur um að verða að líkama. Það eru þau sem ráða of oft of miklu í hegðun fólks sem lætur þá hvöt stjórna hegðun sinni án hugsunar.
Það er stundum eins og rússnesk rúlletta að fæða börn í heiminn
Um aldir voru aðilar trúarbragða að halda því að mannkyni að það yrði að margfaldast og uppfylla jörðina. Nú hefur það gerst og meira en jörðin getur í raun borið.
Það er yndislegt þegar fólk þráir að eignast börn og skilur ábyrgðina til fullnustu og framfylgir samferðinni á meðan allir eru á lífi.
Því miður er það ekki alltaf þannig. Og sumir sem fæða börn í heiminn fá verkefni sem eru of þung og erfið, eins og til dæmis að fá börn með mikla fötlun eða hegðun sem er ekki endilega frá slæmu uppeldi heldur af því að sálir barna koma í heiminn með allskonar persónulega vankanta, og sumir foreldrar hafa enga þekkingu til að vinna með það barn, og fá enga hjálp heldur.
Svo enda börn líka sem unglingar og eldri með foreldrum sem þeim semur ekki við og átta sig á að þau hafa engin sameiginleg áhugamál, verðmætamat eða lífsviðhorf sem geri það þess virði að halda í sambandið.
Síðan eru það börn sem enda í dópi eða glæpum og foreldrar hafa enga þekkingu til að koma í veg fyrir að börn þeirra verði fíklar eða fremji glæpi.
Ég hef orðið vitni að sterkum andstæðum í slíku hér í sjónvarpinu í Ástralíu. Fyrra tilfellið var að eiginmaður keyrði óvart yfir son sinn og varð hann stórfatlaður frá því. Sektarkenndin í þeim vildi endilega að hann myndi kjósa að lifa áfram þó að hann væri nær dauða en lífi. Yfirvöld byggðu æfingaaðstöðu nálægt þeim handa honum, en það kom aldrei starfslið til að fylgja því eftir. Svo komu þau fram í öðrum „Australian Story“-þætti og þá var það áberandi að það að sinna honum allan sólarhringinn var hreinlega búið að gera út af við allt í þeim.
Hitt dæmið er meiriháttar um foreldra sem fæddu þrjár stúlkur með dverglíkama og þau gerðu það með snilld, og er ein þeirra í leiklist og hefur komið fram í „Q&A“-þætti hér og sýnt að hana skortir ekki sjálfvirði, af því að foreldrar þeirra skilja hvernig það sjálfsvirði sé byggt upp. En hún segist af og til fara til sálfræðings til að fara í ítarlega sjálfsskoðun.
Svo eru það þau tilfelli þegar einstaklingum var skipað að gifta sig af því að getnaður hafði orðið en þau höfðu engan veginn það sem þurfti til að láta hjónaband ganga. Og þá eru það börnin sem verða blórabögglar erfiðs hjónabands í sínum mismunandi uppskriftum af slíku.
Hvenær ætti að halda í barnið eða afhenda það öðrum?
Það er afar viðkvæmt og flókið atriði. Kenningar hafa lengi verið um að barn væri og sé best komið hjá og með þeim sem hafa fætt þau í heiminn. En nú erum við að sjá að staðgöngumeðganga er til, og að það eru til konur sem eru tilbúnar að ganga með börn og fæða fyrir aðra til að ala upp. Flestar þeirra gera það af hugsjóna og mannúðarástæðum, en ekki allar og þess vegna fara þau mál því miður ekki alltaf vel.
Ég hafði sjálf fætt barn áður en vinkona mín fæddi son eftir að hafa fætt barn örfáum árum áður og hélt því barni. En henni var skipað að gefa það barn upp til ættleiðingar, og var erfitt að ganga með henni í gegnum þann sársauka fyrir mig að vera með nýfætt barn sjálf, og ekki síst vegna þess að hún hafði ekki neinn ákvörðunarrétt í málinu.
Ég gæti þó ekki metið hvor kosturinn hefði verið betri fyrir barnið sem hún var neydd til að gefa, né hvort það hefði verið betra fyrir það að vera með henni í flóknum kringumstæðum, eða hjá fólki sem hefur ábyggilega haft auðveldara líf. Það eitt gæti svarað því.
Áströlsk yfirvöld hafa beðið bæði frumbyggja og einhleypar konur djúprar fyrirgefningar fyrir aðskilnaðarstefnu þeirra fyrr á árum, þegar yfirvöld sáu gift fólk þau einu sem ættu að fá að ala upp börn. Börn úr báðum hópum höfðu gengið í gegnum miklar þjáningar við að vita ekki um blóðforeldrið. En mörg þeirra náðu svo að finna hvert annað þegar aðgangur var veittur að pappírum.
Svo hverja ætti að spyrja hvað virkaði fyrir þau? Ætti að spyrja börn sem voru afhent öðrum hvernig þeim leið með þeim sem ættleiddu þau eða voru þau með söknuð í sér í ótal ár til blóðforeldranna?
Við höfum líka séð dæmi um hörmulega foreldra sem hafa beitt börn sín ótrúlegri grimmd eins og til dæmis Turpin-hjónin í Bandaríkjunum og önnur tilfelli hafa komið fram í fjölmiðlum. Ofsatrúarhópar hafa líka lokkað auðtrúa fólk undir sinn væng til að misþyrma og heilaþvo og haldið heilu fjölskyldunum föngnum í áratugi. Svo gerist það stundum að einstaklingur vaknar og sér að það líf sé ekki hollt og yfirgefur hópinn. Stundum verða hinir fjölskyldumeðlimirnir eftir af því að þeir eru ekki tilbúnir að lifa sínu eigin sjálfstæða lífi.
Það að eiga auðvelt með getnað er einn hlutur, og kannski kunna ekki allir sem eiga auðvelt með getnað, að virkilega meta það. Svo fyrir þá sem geta ekki getið auðveldlega er það annarskonar dæmi.
Réttur til að „eignast börn“ er viðhorf sem ekki allir sjá með sömu augum. En þeir sem hafa það viðhorf fá oft mjög sterka þörf til að fá barn, sama hvað það kostar.
Staðreyndin er sú, eins og áður hefur verið talað um hér, að kynhvöt komi ekki endilega alltaf saman við þrá til að skapa fjölskyldu og ala upp börn. Dæmin um það eru algengari en ég tel að mannkyn vilji viðurkenna fyrir sjálfu sér. Goðsögnin er ansi sterk í hugum svo margra um að fjölga mannkyninu.
Það hvernig við erum sköpuð inn í móðurlífi er magnað en ekki er allt svo einfalt með það heldur
Það eru auðvitað engin orð til yfir það hvernig sköpun setti upp kerfið til að fjölga mannkyninu og tilfinningar flestra varðandi það eru trúlega í auðmýkt. Það að sjá þennan litla líkama koma út úr leginu eftir níu mánaða feril þar sem það kerfi þar inni er sett upp sem stórmerkileg verksmiðja með allt þar, fótleggi, tær og fingur og handleggi, augu og nef og munn og öll líffærin að innan, og svo kannski fullt af hári eða ekki allt eftir ættgengni. Svo er ferli inni í líkamanum sem mun leiða af sér smábarnatennur og seinna fullorðinstennur og svo líka allt hormónakerfið og getnaðarfæri kerfið einn daginn.
Hvað þau koma með í heilanum og sálinni er svo það sem lærist eftir því sem barnið vex og þroskast. Þau eru ekki auðar blaðsíður fyrir aðra að fylla, því að þau eru einstaklingar sem koma með sitt eigið veganesti og lífsstefnu og munu sýna persónuleika sinn um leið og þau fara að tala og oft líka sem ungbörn og sést eftir því hvernig þau bregðast við hljóðum og myndum og öðru. Sumum þarf að vagga til að þau sofni í vagninum eða vöggunni en önnur sofna kannski um leið og þau eru lögð niður.
Ég man eftir viðtali í íslenska sjónvarpinu fyrir nokkrum áratugum þar sem talað var við konu á Ólafsfirði sem hafði fætt um tuttugu börn í heiminn. Ég man eftir upplifuninni af að heyra konu í fyrsta skipti játa tilfinningar sínar um það, málefni sem hafði verið á hinum mikla þögla bannlista hjá þjóðinni um aldir. Hún leyfði sér að tjá sinn sannleika um það að hún hafði aldrei haft löngun til að fæða svona mörg börn, og þau voru auðvitað efnislega fátæk og faðirinn sjómaður á litlum bát. Hann var mjög stoltur yfir að hafa fengið öll þessi börn og að hafa átt hlut í komu þeirra. Það var auðvelt fyrir hann því að hann gekk ekki með þau. Ég dáðist að kjarki hennar til að tjá sannleika sinn.
Það er þarna sem misræmið er á milli þess að skaffa sæði, og geta svo kannski horfið og hugsað aldrei neitt um lögmál orsaka og afleiðingar með mannveruna sem kemur frá þeirri sköffun, eða fyrir konuna að hafa barn vaxa aftur og aftur, og enn og aftur inni í sér án tilfinningalegs stuðnings frá þeim sem skaffaði sæðið eða öðrum einstaklingum.
Margar konur þurfa á slíku að halda, af því að þetta ferli er oft erfitt fyrir þær þar sem þessi litli líkami sem er í byggingu inni í móðurlífinu og dregur allt til sín sem er þarfnast frá móðurinni sem það er innbyrðis í.
Læknavísindin hafa ekki endilega skilið allt það ferli eins og varðandi hormóna og næringarefni sem barnið verður að fá frá móðurinni sem oft veldur þá erfiðu hormónaójafnvægi í konunni, sem er kallað fyrir og eftir barnsburðarþunglyndi.
Það ástand getur gerst burtséð frá hvort áhugi eða vilji eða löngun sé fyrir hendi í konunni til að fjölga mannkyninu og fá það barn.
Ég þekki nokkrar konur sem hafa vitað frá unga aldri að þær myndu ekki fjölga mannkyninu en hafa sinnt ótal umönnunarhlutverkum sem flokkast undir mæðrun.
Svo er annar flötur á þessu, og hann er sá að sumum konum líður aldrei betur en þegar þær eru barnshafandi og með börn á brjósti, vegna þess hvernig hormónakerfi þeirra eru. Sumar eiga það aftur á móti til að vera svo tilbúnar til að afhenda barnið til annarra til að sjá um það og ala það upp.
Málið er að auðvitað er þessi ferill sköpunar magnaður. En er samt ekki endilega hvatning fyrir allar konur að hafa það í gangi í sér öll árin sem líkaminn gæti verið fær um það. Hugur, hjarta og vitund um lífstilgang eru mikilvæg atriði fyrir konur að upplifa innan frá, áður en ákvarðanir eru teknar.
Öll börn sem fæðast þrá sjálfvirkt og það auðvitað án rökhugsunar að vera fyrirfram óskuð eftir og elskuð börn foreldra. Á dögum getnaðarvarna og möguleikum á þungunarrofi ef óæskilegur getnaður verður, ætti það að vera fært fyrir öll börn framtíðarinnar, alla vega þar sem slíkir hlutir eru í boði. Raunsæi um sjálfan sig, borgar sig þó áður en mannkyni er fjölgað.