Við vitum að ástandið er alvarlegt í loftslagsmálum. Ísland vill og getur verið fyrirmynd. Við erum að gera vel á mörgum sviðum, en vitum líka að við þurfum, verðum og getum gert betur til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda.
Setjum okkur skýrt markmið um að notkun jarðefnaeldsneytis á Íslandi verði hætt árið 2035. Óljós prósentu markmið, sem eru ekki að skila árlegum árangri í samdrætti á losun, virka ekki. Staðfestum þetta markmið með lagasetningu sem skuldbindur stjórnvöld að vinna með skipulögðum hætti að þessu markmið og skila reglulega skýrslu um framgang og framvindu.
Ísland hefur allar forsendur til að vera fyrirmynd í loftslagsmálum. Í dag erum við það ekki, en við getum auðveldlega orðið það. Við erum eyja sem flytur inn allt sitt jarðefnaeldsneyti. Það er samfélagslega hagkvæmt fyrir okkur að hætta að flytja það inn og skipta yfir í innlenda orkugjafa. Við eigum næga endurnýjanlega orku, eitthvað sem nágrannaþjóðir okkar öfunda okkur mikið af. Notum hana af skynsemi og notum hana rétt. Notum hana til þess að losna við bensín og dísil reykinn sem veldur okkur skaða og spillir heilsu.
Landvernd hefur lýst eftir skýrum og mælanlegum markmiðum í loftslagsmálum. Að hætta brennslu jarðefnaeldsneytis er lykillausn. Að græða upp örfoka land og endurheimta votlendi er nauðsynleg viðbót.
Orkuskipti í samgöngum eru hafin og nær allir bílaframleiðendur í heiminum í dag framleiða nú rafmagnsbíla. Þróunin hefur jafnvel farið fram úr björtustu vonum. Þetta er hægt! Nýlega var einnig birt grein í Morgunblaðinu um þær framfarir sem eru að eiga stað varðandi að rafvæða flugsamgöngur í framtíðinni.
Það þarf kjark og útsjónarsemi til þess að vera fyrirmynd; til að taka erfiðar, en til lengri tíma litið skynsamlegar ákvarðanir. Það er augljóst að Ísland getur verið sjálfbært um orku og því ætti það að vera sjálfsagt mál að setja okkur slíkt markmið.
Gerum betur í loftslagsmálum, setjum skýr markmið um að Íslandi verði jarðefnaeldsneytislaust árið 2035.
Til þess að komast þangað þarf að feta sig áfram með markvissum hætti á næstu árum:
- 2020 Auka fjármagn í nýsköpun og þróun fyrir notkun hreinna orkugjafa í flugsamgöngum í samstarfi við grannþjóðir.
- 2023 Banna innflutning á bensín og dísilbílum.
- 2025 Banna innflutning vinnuvélum og tækjum sem ekki ganga fyrir hreinum orkugjöfum.
- 2025 Öll opinber framkvæmdasvæði noti eingöngu tæki sem ganga fyrir hreinum orkugjöfum.
- 2025 Jarðefnaeldsneytislausar almenningssamgöngur á landi
- 2030 Fyrsta raffarþegaflug innanlands.
- 2030 Jarðefnaeldsneytislausar landssamgöngur.
- 2030 Jarðefnaeldsneytislausar sjósamgöngur.
- 2035 Jarðefnaeldsneytislaus fiskiskipafloti.
- 2035 Jarðefnaeldsneytislaust millilandaflugs.
Höfundur er varaformaður Landverndar og í forsvari fyrir loftslagshóp samtakanna.