Fyrir rösku ári tók yfirdýralæknir ákvörðun um, að aflífa skyldi á fjórða hundrað skrautfugla í einangrun hjá gæludýraverslun. Höfðu þeir verið fluttir til landsins og voru í sóttkví. Einn fuglanna taldist greindur með Norræna fuglamítilinn (Klettamítilinn, eins og Náttúrustofnun skilgreinir hann). Það var ástæða ákvörðunar yfirdýralæknis. Mítillinn mætti ekki dreifast í búfé né menn sökum hættu á skaðlegri dreifingu óskilgreindra smitsjúkdóma. Málið hlaut mikla umfjöllun einkum af fréttastofu Stöðvar 2 og heilbrigðir fuglarnir samúð. Að beiðni eigenda fuglanna urðu þeir skjólstæðingar mínir í þeim tilgangi að vernda lífi þeirra. Rök færustu fuglasjúkdómasérfræðinga erlendis studdu þá ákvörðun mína.
Síðar kom svo í ljós að fyrirhuguð aðför MAST að þessum fuglum hefði verið handvömm eins og svo oft áður hjá þeirri stofnun. Skv. upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun stafar engin hætta af þessu mítli þvert á fullyrðingar MAST. Um það var fjallað í fréttaskýringaþættinum Kveik snemma á þessu ári.
Sandkassaleikur MAST
Sex mánaða málsmeðferð MAST, að undirlagi yfirdýralæknis, framkvæmdastjóra markaðsstofu stofnunarinnar og lögfræðings hennar, var á köflum langt frá þeim kröfum, sem gerðar eru til meðferðar stjórnsýslumála. Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd Alþingis ætti sannarlega að taka til skoðunar starfshætti MAST því þetta er ekki í fyrsta skiptið sem stofnunin virðir ekki stjórnsýslulög.
Aukin gagnaöflun og samstarf við fremstu sérfræðinga leiddi til þess að MAST neyddist til að fresta aftöku fuglanna. Óviturlegar ákvarðanir ósamrýmanlegar lögum komu á færibandi frá fyrrgreindum starfsmönnum, sem brást stöðugt bogalistin í meðferð málsins t.d. með óþolandi skilaboðum um fyrirhuguð inngrip þegar málið var komið á forræði æðsta stjórnsýslustigs, ráðherra, með kæru.
Virðingarleysi yfirdýralæknis
Yfirdýralæknir kom af virðingarleysi fram við umbjóðendur mína í þessu stærsta dýraverndarmáli Íslandssögunnar. Allan málsmeðferðartímann var hann aldrei sýnilegur og vanstilltur lögfræðingur stofnunarinnar virtist um tíma iða í skinninu að farga þessum heilbrigðu fuglum. Í einni misheppnaðri tilraun til slíks og áður en málið var til lykta leitt af ráðuneytinu var honum og dýralæknahirð hans, með drápstólin tilbúin, vísað með skömm frá sóttkvínni að fyrirskipan lögreglu.
Málinu lauk þó aldrei með þeirri niðurstöðu sem ég ætlaði mér að ná, umbjóðendur mínir ákváðu að taka aðra stefnu í málinu en ég ráðlagði þeim og voru fuglarnir að lokum allir aflífaðir m.a. með lagaklækjum, sem stofnunin beitti.
Fréttaskýringaþátturinn Kveikur fjallar um mítla
S.l. vor fjallaði fréttaskýringaþátturinn Kveikur um Skógarmítla(Klettamítla). Það vakti áhuga minn vegna þessa máls. Starfsmaður Náttúruverndarstofnunar upplýsti mig um það að engin hætta stafar af þessum mítli hvorki fyrir búfé né menn. - Þvert á fullyrðingar yfirdýralæknis og sérfræðinga á rannsóknarstofu Háskóla Íslands að Keldum. Því var aðförin að fuglunum svívirðileg, andstæð dýraverndarlögum og olli umbjóðendum mínum verulegu fjárhagslegu tjóni og óþægindum.
Ekki tekið mark á þýskri sérfræðiráðgjöf
Í samræmi við rétt aðila til andmæla og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga var leitað til sérfræðings í fuglasjúkdómum við einn virtasta háskóla Þýskalands í Hanover. Þess sama og yfirdýralæknir þáði dýralæknaprófskírteini sitt frá. Ástæða þótti veruleg þar sem í ljós kom að færa mátti sterk rök fyrir að ákvörðun MAST byggðist ekki á nægri þekkingu, hvað síðar kom í ljós, eins og á undan er getið.
Málið var endurupptekið að kröfu umbjóðenda minna. Haldinn var fjölmennur símafundur með starfsmönnum MAST með sérfræðingnum, sem höfundur sat, sem fulltrúi eigenda. Yfirdýralæknir sá þó ekki sóma sinn að sitja þennan fund þó vart hafi hann fengið alvarlegra mál á sitt borð að teknu tilliti til þess fjölda dýra, sem ógnað var og fullyrt var af MAST að ógn stæði af.
Ráðleggingarnar þýska sérfræðingsins voru skýrar en hafðar að engu af MAST. Þær voru:
- að mítlinum væri hægt að eyða, það væri gert reglulega á fuglabúum í Þýskalandi, mítilinn væri löngu orðin landlægur á Íslandi með farfuglum, dýraverndarsjónarmið ætti að virða og ekki að aflífa heilbrigða fugla.
- Það var vægast sagt ömurlegt, að horfa á yfirlætisleg andlit fulltrúa MAST, stökkva bros á kinnar á fundinum, þegar þýski sérfræðingurinn ítrekaði tilmæli í lok fundarins að aflífa ekki heilbrigð dýr þegar viðurkenndar aðferðir stæðu til boða að hjálpa þeim. Geðshræringu mátti greina í rödd þýska sérfræðingsins, að vera svo fjarri og geta ekki haft meiri áhrif, en ég hafði áður undirbúið og upplýst hann um hvaða mótlæti hann mætti búast við. Það koma á daginn. Símafundurinn var formsatriði og tilgangslaus sýndarmennska af hálfu MAST í því skyni að geta sagt að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga hefði verið fylgt.
Dýralæknum bannað að sinna fuglunum
Þrátt fyrir skýr fyrirmæli í lögum um velferð dýra heimilaði MAST ekki að koma dýrunum, sem voru undir grun um að hýsa mítilinn til hjálpar þó að lagaákvæðið, sem beitt var ætti við um sjúk dýr, smitsjúkdóma.MAST studdi ákvörðun sína um aflífun fuglanna auk þess við ákvæði í lögum um innflutning dýra, sem gat ekki átt við og er úr lögum, sem telja má úreld miðað við nútíma þekkingu. Þar er ritað:
Komi upp alvarlegur smitsjúkdómur í sóttvarna- eða einangrunarstöð skal gera hverjar þær ráðstafanir sem þurfa þykir til að hefta útbreiðslu hans, m.a. fella dýr, ef nauðsyn krefur, og stöðva dreifingu erfðaefnis þaðan. (15. gr. laga um innflutning dýra nr. 54 frá 1990)
Skýring á ákvæðinu er þessi: Greining mítils á fugli samsvarar ekki að fuglinn beri smitsjúkdóm.
Ekki var sýnt fram á neina nauðsyn, að fella dýrin og engar ráðstafanir gerðar, eins og ákvæðið skyldar, til hefta útbreiðslu á meintum grun um tilvist smitsjúkdóms. Þar má nefna, að veita þeim dýralæknisaðstoð sbr. 7. gr. laga um velferð dýra um skyldur dýralækna til að veita sjúkum dýrum læknisaðstoð, sbr. 2. gr. laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr sem kveður á um sömu skildu.
Miklu fleiri lagaákvæði mætti týna til, sem hefðu verndað líf þessara fugla og geta leitt til þess að grunsemdum um framangreinda óværu væri útrýmt með viðeigandi meðferð. - MAST sýndi enga slíka viðleitni.
Yfirdýralæknir var kærður til lögreglunnar á Suðurlandi fyrir meint brot á tugum lagaákvæða í málsmeðferðinni og rökstutt ítarlega í hverju hin meintu brot fólust. - Slík var spillingin í þessari málsmeðferð að mati eiganda að rík ástæða þótti til þess. Kærumálinu var vísað frá.
MAST vinni samkvæmt lögun en ekki þóknanleika
Matvælastofnun er stjórnsýslustofnun, sem á að vinna að framkvæmd þeirra laga, sem henni er falin framfylgd á og það skv. stjórnsýslulögum, mikilvægustu lögunum þegar leysa á úr ágreiningi á milli einstaklinga, lögaðila og stjórnvalds um réttindi og skyldur. MAST hefur enga hentugleikaheimild í þeim efnum. Það er því viðfangsefni fyrir stjórnskipunar og eftirlitsnefnd þingsins að taka mark á því, sem hér kemur kemur fram og láta sig stjórnarhætti MAST varða. Brýnt tilefni er til.
Stofnunin hundsaði í upphafi, rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Fór sínar eigin leiðir og eina ástæðan getur verið þekkingarleysi. Það er samfélaginu ekki boðlegt af hálfu stjórnsýslustofnunar. Í lögum segir: Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.
Málið var ekki nægilega vel upplýst þegar höfundur fékk það í hendur og rökstudd andmæli eigenda voru í upphafi málsins virt að vettugi. Andmælafrestir voru allt of skammir að teknu tilliti til hagsmuna og fræðilegs flækjustigs málsins.
Hvorki yfirdýralæknir né aðrir innan MAST eru ekki sérfræðingur í hegðun og áhrifum skordýra á búfé eða mannfólk, en settu sig þó skör hærra en erlendur sérfræðingur. Tóku ekkert mark á röksemdum hans byggðum á áralöngum vísindalegum rannsóknarstörfum og árangri.
Margar fleiri meginreglur stjórnsýslulaga voru brotnar af hálfu MAST, sem gekk fram af mikilli hörku, óbilgirni, beitti að því er virðist af ásetningi röngum réttarheimildum og virti ekki heldur mikilvæga meginreglu stjórnsýslulaga, regluna um meðalhóf. Hún kveður á um:
Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.
Framkvæmd verði gæðaúttekt á starfsháttum MAST
Ég hef oft þurft að eiga samskipti við MAST vegna dýraverndarmála og kann frá fl. sögum að segja, sem m.a. varða sjálfan mig persónulega og svívirðilegri framkomu yfirdýralæknis.Stjórnsýsla MAST virðist ekki lúta neinu utanaðkomandi eftirliti. Í dýraverndarmálum hagar hún sér hreinlega heimskulega í ýmsum skilning. Mál dragast árum saman á langinn á kostnað vanlíðan dýra - dýraníðs. Þar má nefna mál eins og Dalsmynni hundaræktun, svína og Brúneggjamálið. Þá virðist þekkingarleysi lögfræðinga stofnunarinnar á beitingu refsiákvæða laga um velferð dýra af afar skornum skammti. Engin framangreindra aðila var t.d. kærður til lögreglu með kröfu um útgáfu ákæru og refsingu þó lög kveði á um allt að tveggja ára fangelsi fyrir aðför að dýrum eins og í þessum málum átti sér stað. - Ég ítreka því, að fullt tilefni er fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis að leggjast yfir starfshætti MAST varðandi velferð dýra.
Úrbótatækifæri í innra starfi MAST
Það væri ekki óviturlegt af forstjóra MAST að rifja upp annan hluta SKÝRSLA UM MATVÆLASTOFNUN frá 27. mars 2017, gefin út af Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu eftir Bjarni Snæbjörn Jónsson og Ólafur Oddgeirsson og jafnvel beina því til stjórnvalda með eftirlitshlutverk gagnvart opinberum stofnunum, að kynna sér efni þeirra skýrslu, sem er henni ekki til sóma.Matvælastofnun hefur hlotið mikla gagnrýni í gegnum tíðina og alvarlegan áfellisdóm má finna í fyrrnefndri skýrslu. Engin trygging er þó fyrir því að úr verði bætt enda virðist eftirlit með stofnuninni ekkert. Hún virðist ríkja í eigin ríki eins og virtur lögmaður komst að orði í gagnrýni sinni um ýmiss stjórnvöld nýlega.
Stofnunin hefur neyðst til að hverfa frá fyrri ákvörðunum sínum, sem hafa oft einkennst af mikilli handvömm, sem á ekkert skylt við meðferð stjórnsýslumála. Sérfræðingar stofnunarinnar, sem svo er kallaðir, falla í þá gryfju að fást við mál, sem þeir á engan hátt hafa vald á, eru þrasgjarnir, eiga erfitt með að hemja skap sitt, nokkuð sem á ekki heima í stofnun á vegum ríkisins, sem ætlað er að leiða hið sanna og rétta í ljós ef ágreiningur kemur upp, fylgja meginreglum stjórnsýslulaga - og í kjölfarið taka ákvörðun, byggða á meðalhófsreglu laganna eða vísa máli til lögreglu sé um meint refsivert brot á lögum að ræða.