Snemma í nóvember fjallaði Stundin um mál Erlings Smith, íbúa í Mosfellsbæ. Erling talaði þar um valdaleysi um eigin hagi sem hann upplifir vegna NPA samnings sem hann var með en var tekinn af honum fyrir um 2 árum síðan. Ekkert hefur breyst í málum Erlings síðan að greinin um hans mál kom fram. Erling lamaðist í mótorhjólaslysi í Reykjavík fyrir um 18 árum síðan og þarf því á daglegri aðstoð að halda. Hann hefur undanfarin 2 ár búið á hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ gegn vilja sínum. Hann upplifir nauðungarvist þar og þráir að búa heima hjá sér og að konan hans fái aftur greitt fyrir að sinna honum eins og áður í gegnum NPA samning. Þau misstu þennan samning fyrir 2 árum þegar þau giftu sig en samkvæmt reglum um NPA samninga, að sögn bæjarfélagsins, er ólöglegt að gera slíkan samning við skyldmenni eða fjölskyldumeðlim. Hér er þó um að ræða fremstu ósk Erlings, íbúa í bæjarfélaginu og íslensks þegns.
Ég tel að þetta gangi gegn grundvallarmannréttindum Erlings. Bæjarfélög ættu að geta gert samninga við fjölskyldumeðlimi sé það í hag notanda NPA samnings. Að gera það ólöglegt er út í hött. Í þessu máli sést að það er farsælasta leiðin fyrir einstaklinginn og er jafnframt hans fremsta lífsósk, þá væri hann sáttur. Í stað þess upplifir hann innilokun á hjúkrunarheimilinu. Þetta gengur einfaldlega ekki upp.
Þessi staða er ámælisverð fyrir Mosfellsbæ og ég krefst þess að fulltrúar bæjarins taki undir með máli Erlings og tala fyrir fólki í hans stöðu. Að við breytum samfélaginu þannig að það virki fyrir alla. Hann bíður enn lausna sinna mála. Við verðum að búa samfélagi okkar þannig að fólk geti verið sátt og að grundvallarnauðsynjum fólks sé sinnt af þeim sem fara með völdin. Ef yfirvöld telja sig ekki geta veitt landsmönnum þau mannréttindi sem hverjum ætti að vera sjálfsögð þá er ekki annað í stöðunni en að mótmæla viðkomandi stjórnvaldi. Ég hvet bæjarstjórn Mosfellsbæjar til þess að senda frá sér yfirlýsingu um stöðu þessara mála án tafar.