Við höfum verið hressilega minnt á mikilvægi fjölmiðla og mikilvægi öflugra blaðamanna að undanförnu. Nægir að nefna uppljóstranir Kveiks um Samherja í Namibíu og viðamikla umfjöllun Kjarnans um peningaþvætti og skort á regluverki sem hindrar slíkt athæfi hér á landi. Dæmin eru auðvitað miklu miklu fleiri. Öflugir fjölmiðlar og öflugir blaðamenn eru nauðsynlegir hér á landi sem annars staðar. Við þurfum fjölmiðla sem upplýsa almenning, veita valdhöfum aðhald og styrkja þannig stoðir lýðræðisins.
Ráðamenn hafa nú tækifæri til að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla til muna gegnum frumvarp til breytinga á lögum um fjölmiðla sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra hefur mælt fyrir og komið er til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. Stuðningur ríkisins við einkarekna fjölmiðla í frumvarpinu er í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við öflun og miðlun frétta og fréttatengds efnis.
Fólk vill styrkja lýðræðið
Verði frumvarpið að lögum breytir það miklu fyrir rekstur á fáliðuðum fréttamiðli eins og Kjarnanum. Yfirbygging okkar er lítil og langsamlega stærstur hluti kostnaðar eru laun ritstjórnar. Með bættu rekstrarumhverfi og sanngjörnum endurgreiðslum gæti draumurinn um að stækka og efla miðilinn enn frekar færst örlítið nær.
Ábyrgð bæði hjá ráðamönnum og fjölmiðlum
Þingmenn standa nú frammi fyrir því að geta lagt sitt af mörkum til því að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla hér landi í formi endurgreiðslna að norrænni fyrirmynd. Því fylgir mikil ábyrgð að færa fé úr sjóðum almennings og því fylgir líka ábyrgð að taka við fé úr sameiginlegum sjóðum. Það er skylda fjölmiðla sem þiggja greiðslur gegnum fjölmiðlafrumvarpið, verði það að lögum, að nýta féð í það sem því er ætlað - að efla umræðu í landinu og stuðla að vönduðum fréttaflutningi sem veitir aðhald.
Kjarninn tekur hlutverk sitt gagnvart almenningi alvarlega og það sem af er ári hafa alls 409 fréttaskýringar verið birtar á Kjarnanum og 2.367 fréttir. Kjarninn vill líka vera vettvangur umræðu og á árinu hafa 539 skoðanagreinar verið birtar, langstærstur hluti þeirra eru aðsendar greinar. Skoðanaefni ritstjórnar, leiðarar og önnur skrif þar sem skoðanir ritstjórnar birtast eru 1,7% af öllu efni Kjarnans.
Skyldur fjölmiðla við almenning eru ríkar og tryggð Kjarnans er aðeins við lesendur, það breytist ekki þótt hluti ritstjórnarkostnaðar fáist endugreiddur. Að sama skapi er það skylda þingmanna sem taka ákvarðanir um að útdeila fé að skoða vandlega hvernig féð kemur best að notum. Um þetta var til að mynda fjallað þegar lögð var fram metnaðarfull nýsköpunarstefna fyrir Ísland á dögunum, sem allir flokkar studdu og komu að því að móta. Þar er lögð sérstök áhersla á það að fjármagn „rannsókna og frumkvöðla” frekar en í „umsýslu og yfirbyggingu” eins og það var orðað í kynningu á Nýsköpunarlandinu Íslandi. Auðveldlega mætti heimfæra þessa hugsun á framlög til fjölmiðla.
Peningum úr sjóðum almennings er augljóslega betur borgið hjá minni fjölmiðlum en þeim stærri sem hafa safnað upp tapi gegnum árin. Fjármagn til minni miðla með skýra sýn á hlutverk sitt og ábyrgð er til þess fallið að nýtast beint í ráðningu fleiri blaðamanna. Fjármagn sem veitt er til stærri miðla er líklegra til að fara í umsýslu og yfirbyggingu.
Hærri endurgreiðsla og lægra þak
Með því að hækka endurgreiðsluhlutfall ritstjórnarkostnaðar og lækka hámarksgreiðslu sem einstakur fjölmiðill getur fengið gætu þingmenn stuðlað að því að féð sem til fjölmiðla rennur nýtist frekar í fjölgun blaðamanna við störf. Flótti úr blaðamannastétt hefur verið til umfjöllunar, meðal annars í leiðara ritstjóra Kjarnans nýverið. Það ætti að vera sérstakt keppikefli þingmanna sem nú velta fyrir sér fjölmiðlafrumvarpinu að tryggja að það stuðli að því að blaðamönnum fjölgi.
Styrktaraðilar Kjarnans standa undir dágóðum hluta launakostnaðar Kjarnans og fyrir það erum við þakklát. Endurgreiðslur á hluta kostnaðar við ritstjórn myndi skipta sköpum fyrir frekari uppbyggingu Kjarnans. Við leggjum okkur fram um að gæta hófs í yfirbyggingu en viljum að sjálfsögðu fara í öllu að ákvæðum í kjarasamningum blaðamanna. Kjarninn hefur þegar samið við Blaðamannafélag Íslands og mætt sanngjörnum kröfum um bætt kjör á meðan stærri miðlar, sem útlit er fyrir að fái margföld framlög á við Kjarnann gegnum endurgreiðslur á kostnaði, þráast enn við í kjaradeilunni við blaðamenn.
Viljum bæta í hópinn
Við hjá Kjarnanum viljum gjarnan sækja fram, þróa fréttavefinn okkar áfram, nýta enn fleiri leiðir við miðlun frétta og fréttatengds efnis, sækja okkur frekari þekkingu, bæta enn frekar í hóp vandaðra blaðamanna og leggja okkur almennt fram um að bjóða framúrskarandi fréttaefni fyrir lesendur okkar.
Það þurfti sannarlega kraft og áræðni í bland við skapandi frumkvöðlahugsun til að láta sér detta í hug að stofna fréttamiðilinn Kjarnann árið 2013 í samkeppni við mun stærri miðla. Stjórnmálamenn sem nýlega hafa sett nafn sitt við metnaðarfulla stefnu um nýsköpun þar sem talað er sérstaklega um „virðingu fyrir frumkvöðlum og skapandi einstaklingum í efnahagslífi og menningu” mættu gjarnan skoða endurgreiðslur til fjölmiðla í sama ljósi og styrkja frekar minni miðla sem hafa getu og vilja til að byggja sig upp almenningi til heilla. Krafan hlýtur alltaf að vera að það fé sem er til skiptanna renni þangað sem það þjónar lýðræðinu best.
Höfundur er framkvæmdastjóri Kjarnans.