Á fimmtudaginn síðastliðinn fékk ég fregnir af andláti föðurafa míns. Hann var 94 ára. Það er að sjálfsögðu alltaf undirbúið að manneskjur sem náð hafa svo háum aldri geti dáið hvenær sem er, en afi hafði alltaf verið tiltölulega frískur, hugsað mikið um heilsuna og ég tel að hann hafi haldið innst inni að hann myndi verða 120 ára rétt eins og við öll í kringum hann héldum.
Afi vaknaði sem sagt á fimmtudagsmorgni á Grund, klæddi sig og gerði sig tilbúinn fyrir morgunverð sem hann svo fór niður og snæddi. Líklega spjallaði hann við einhvern borðfélaga, gluggaði kannski aðeins í blöðin og gekk síðan upp í herbergið sitt aftur. Og þar fannst hann. Við vitum ekki hvort hann dó áður en hann datt eða hvort hann hafi dáið af fallinu. Við vitum bara að hann er fallinn. Ljósin slökkt.
Ég tel mig hins vegar vita að hann hafi ekki verið búinn með lífið, hann vildi örugglega vera með í leiknum svolítið lengur, sérstaklega ef hann hefði getað sloppið undan fylgikvillum ellinnar. Hér var á ferðinni gamall boxari, maður sem þar til nýlega synti daglega og hafði síðasta áratuginn hækkað dagskammtinn af sundi í 1100 metra því það var svo einhæft að synda bara kílómetra. Hann fór í langa labbitúra og reiknaði til að halda kollinum klárum. Síðast þegar við hittumst í sumar sagði hann að það væri lítið gaman að verða gamall, hann dygði ekkert til í eltingarleik við barnabarnabörnin lengur.
Og nú eru þau aftur sameinuð – ef svo má að orði komast. Þau vildu bæði trúa því að þeirra biði framhaldslíf eftir dauðann þar sem þau fengju að hitta þá sem þau söknuðu svo sárt. Þegar maður er orðinn ríflega níræður er margra vina og ættingja að sakna og þó ég deili ekki þessari trú þeirra sjálfur, finnst mér notalegt til þess að hugsa að þetta hafi verið þeirra trú og von. Þessar manneskjur sem mér þótti svo vænt um, svo ólík, partýljónið sem elskaði bækur og var á undan mér að nota bæði tölvupóst og facebook, og bóndasonurinn sem varð útibússtjóri og þynnti kaffið sitt með tevatni.
Þegar ég reyni að setja orð á sorg mín yfir andláti ömmu og afa, finnst mér sorgin vera bæði hlý og mjúk. Ég sakna svo sannarlega raddanna þeirra, og ég finn tár á hvarmi yfir mörgum góðum minningum, depurð og gleði samofin. Engin manneskja er einföld, samskipti við aðra eru oft flókin, en ég hef verið svo heppinn að eiga gott samband við foreldri bæði mömmu minnar og pabba, og að hafa átt þau öll á lífi fram undir fertugt, sem hlýtur að teljast einstakt. Og enn á ég tvö eftir.
Fregnin yfir fráfalli afa fékk hins vegar nýjan blæ, strax daginn eftir að hann dó. Á föstudeginum barst mér fréttin að gamall æskuvinur hefði fallið fyrir eigin hendi, fjörutíu ára margra barna faðir. Við höfðum ekki haft nein samskipti í meir en aldarfjórðung, við þekktum ekki hvorn annan lengur og hefðum líklega ekki heilsast út á götu, en þessar fréttir slógu mig engu að síður út af laginu. Fyrir utan allt hið augljósa, það að við vorum vinir í æsku, að við vorum jafnaldrar og að ég finni til með börnum hans, þá held ég að það séu andstæðurnar í dánarfregnunum sem ég kemst ekki yfir.
Við erum öll tilvonandi þátttakendur í dánarfregnum framtíðarinnar – sem móttakendur eða sem efniviður þeirra – sama hversu gömul við erum og án nokkurs fyrirvara um smáatriðin eða tímasetninguna. Við vitum hvorki hvenær né hvernig dauðann ber að en vitneskjan um það sem við vitum ekki en er engu að síður óumflýjanlegt, sameinar okkur öll. Dánarfregnir vikunnar lýsa björtu ljósi á þessa tilvistarlegu þekkingu okkar sem við svo gjarnan reynum að geyma í skugganum. Bara tölurnar í þessum tveimur tilfellum segja sitt. Annar þeirra föllnu var næstum níutíu og fimm ára og hinn hefði bráðum orðið fjörutíu og eins. Það eru fimmtíu og fjögur ár á milli þeirra – það er fjórtán árum meira en sá yngri náði að upplifa. Afi hafði verið á eftirlaunum í næstum aldarfjórðung, um það bil síðan ég og forni félagi minn gengum hvora leiðina sína. Afi vildi lifa, við vitum ekki hvernig hann dó, gamli félaginn sá dauðann sem útleið, en við vitum ekki af hverju. Annar þeirra upplifði hartnær hundrað ár, en var samt til í meira og var ekki búinn enn. Hinn var ekki einu sinni búinn að ná hálfum aldri afa, en virðist hafa verið búinn að fá nóg. Það er alltof algengt að ungir einstaklingar svipti sig lífi eða deyi að óþörfu, bróðir minn sem er ellefu árum yngri en ég hefur þegar verið viðstaddur í fleiri jarðarfarir félaga sinna en ég hef farið í samtals, og það er svo óendanlega sorglegt. Í nóvember heyrði ég líkama lenda undir lestinni sem ég sat í, hvort það var slys eða meðvituð ákvörðun er óljóst, en atvikið minnti mig sterkt á góðann vin minn sem valdi að enda daga sína á lestarteinum þegar hann gat ekki afborið lífið lengur. Hljóðið og tilhugsunin yfirgaf mig ekki í marga daga.
Að hlúa að og byggja upp umönnun kringum geðrækt er eitthvað sem ráðamenn tala oft fallega um og vilja vera tengdir við, en svo er skorið niður þar eins og annars staðar án tillits til þeirra sem á þjónustunni þurfa að halda, því jafnvægi í fjárhagsáætlunum er mikilvægara en jafnvægi í starfseminni sem áætlanirnar eiga að styðja við. Sem dæmi má nefna að í Stokkhólmi skera stjórnmálamenn niður 600 starfsstöður á næsta ári við Karolinska Sjukhuset og láta um leið sjúkrahúsforstjórann íslenska lofa að uppsagnirnar muni hvorki koma niður á gæðum starfsemi sjúkrahússins né niður á sjúklingunum. Það má þykja offramboð á heimsmælikvarða að hafa ráðið 600 manns að óþörfu.
Hér væri hægt að skrifa einhverskonar lokahnykk, byggðum á mórölskum boðskap innpökkuðum í innihaldslaus slagorð: lifðu í núinu, njóttu stundarinnar, upplifðu lífið, carpe diem, hugsið um hvort annað, live-love-eat. En reynslan sýnir að innsæi stundarinnar og meðvitundin um endanleika alls er of þung til burðar í lengri tíma – ekki síst þegar hversdagsleikinn og jólastressið þrengir að. Við römbum áfram og rembumst við að lifa af vikuna: „I just wanna live life and survive it“ eins og Ghostpoet orðaði það. Því hver hefur tíma fyrir tilvistarkreppu og hugleiðingar um endanleika alls þegar við þurfum að versla í matinn og koma krökkunum á æfingu. Hver hefur tíma til að hugleiða sína eigin líðan, hvað þá heldur annarra, í hraðanum sem við lifum í í dag.
Og svo – skyndilega – fellur einhver frá og minnir okkur á hversu viðkvæm við erum og hversu stutt lífið er. Lítil áminning og svolítið innsæi, stutta stund
Kannski er til of mikils mælst að við notum þessar stundir af tilvistarlegu innsæi til að endurskipuleggja líf okkar svo það samsvari límmiðanum á stofuveggnum sem var keyptur í innréttingabúð fyrir þarsíðustu jól.
Kannski er nóg að að bara velta vöngum svolitla stund og muna að lífið fer svo harkalegum höndum með mörg okkar að dauðinn lítur út sem lausn og að úrræðin til að sjá þau og grípa þurfa að vera betri.
Ekki síst rétt svona kringum jólin.
Höfundur er lektor við Háskólann í Uppsölum, Svíþjóð.