Íslensk stjórnmál og íslensk efnahagsmál hafa í gegnum tíðina allt of oft einkennst af skammtímahugsun og plástralækningum. Líklega má kenna um að Ísland hefur verið frumframleiðsluhagkerfi nánast alla tíð, örsmátt hagkerfi þar sem dyntir náttúrunnar og sveiflur í heimsbúskapnum hafa ásótt þjóðarbúskapinn eins og draugar liðinna jóla.
Löngum hafa íslenskir stjórnmálamenn óskað þess að fjölbreytni ykist í atvinnulífi landsins og er þá gjarnan verið að vísa til fleiri útflutningsstoða sem dempað gætu hagsveiflur og tryggt meiri stöðugleika í efnahagslífinu. Með því að þoka íslenskum þjóðarbúskap í átt að stöðugleika væri auðveldara að horfa til langs tíma og leggja upp stefnur til uppbyggingar atvinnulífs og bættra lífskjara.
Lengi vel virtist þetta draumsýn ein. En ekki lengur.
Sjálfbærni er lykill að stöðugleika
Á síðustu 10 árum hefur ferðaþjónustan vaxið í grundvallaratvinnugrein á Íslandi og svarað kallinu um aukna fjölbreytni í atvinnulífi landsins. Þessi „nýja“ atvinnugrein er kærkomin viðbót við aðra grunnatvinnuvegi þjóðarinnar og hún hefur svo sannarlega ýtt undir stöðugleika í þjóðarbúskapnum.
Aldrei fyrr í lýðveldissögunni hefur vöru- og þjónustujöfnuður verið samfellt jákvæður um svo langt skeið. Aldrei fyrr hefur náðst viðlíka árangur í vexti og fjölbreytni atvinnutækifæra á landsbyggðinni. Sjaldan eða aldrei hafa lífsgæði aukist svo hratt í samfélögum um allt land eins og undanfarin tíu ár. Og aldrei fyrr hafa stjórnmálamenn getað gert sér von um að raunverulegur stöðugleiki náist til lengri tíma í efnahagsmálum.
Því þó að eftirspurn eftir ferðaþjónustu sveiflist til og frá eftir gengi gjaldmiðla, flugframboði og fleiri þáttum er varan ekki sömu takmörkunum háð og aðrar mikilvægar atvinnugreinar hún er í ríkara mæli sjálfleiðréttandi. Þegar ferðamönnum fjölgar hratt styrkist gengi krónunnar vegna mikillar eftirspurnar eftir íslensku krónunni og gjaldeyrir flæðir inn í landið. Mikil eftirspurn hækkar verð á ferðaþjónustuvörum og Ísland verður dýrari áfangastaður fyrir erlenda ferðamenn. Það hefur í för með sér að eftirspurn minnkar og að öllu öðru óbreyttu gefur krónan eftir, áfangastaðurinn verður ódýrari og eftirspurn eykst á ný.
Þannig er hægt að segja að erlend eftirspurn eftir ferðaþjónustu með tilheyrandi óbeinum og afleiddum áhrifum á aðrar atvinnugreinar lúti öðrum lögmálum en útflutningur á þeirri útflutningsframleiðslu sem við höfum átt að venjast. Tengsl útfluttrar ferðaþjónustu við aðrar mikilvægar stoðgreinar hefur þannig aukið fjölbreytni og stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Gjaldeyrisforðinn er myndarlegur, gengið stöðugra, verðlagið að nálgast markmið peningastefnunnar, vextir í sögulegu lágmarki og hrein staða við útlönd fordæmalaust góð. Allt hefur þetta þýðingu fyrir stöðugra atvinnulíf og þar með stöðugri lífsgæði íbúanna.
Sjálfbær áfangastaður jafnar þannig af sveiflur í eftirspurn yfir ákveðinn tíma. Og það er einmitt sjálfbærni sem er lykilatriði.
Til að efnahagslífið, samfélagið og stjórnmálamenn í stefnumörkunarhugleiðingum fái notið gæða stöðugleikans sem ferðaþjónustan býður upp á þá skiptir mestu að Ísland sé sjálfbær áfangastaður fyrir ferðamenn. Það er ekki sjálfsagður hlutur. Það kostar bæði peninga og vinnu.
Vel gert en verkefni við hvert fótmál
Íslendingar hafa í raun gert ótrúlega vel í að byggja upp ferðaþjónustu á hlaupum undanfarin 10 ár. Það er í raun kraftaverki líkast. Við höfum sannarlega staðið okkur vel undir pressu. Í handboltanum væri svona árangur líklega þakkaður „íslensku geðveikinni“. Það er heldur ekki fjarri lagi hér.
Íslendingar gripu tækifæri sem varð til við hamfarir í náttúru og efnahagslífi, fjöldi erlendra ferðamanna hefur fjórfaldast á þeim tíu árum sem eru liðin og Ísland er nú einn af heitustu áfangastöðum heims. Markaðs- og kynningarstarf hefur unnið til alþjóðlegra verðlauna fyrir markaðssetningu og auglýsingaherferðir. Hér hafa byggst upp þúsundir fyrirtækja og tekist hefur að gera þetta á þann veg að 96% allra ferðamanna sem heimsækja Ísland segjast vera ánægðir með ferðina og 90% Íslendinga segjast finna fyrir bættum lífskjörum í sinni heimabyggð vegna uppbyggingar ferðaþjónustu.
Þetta er hreint ótrúlegur árangur.
Auðvitað er fjölmargt sem við getum gert betur, bæði atvinnulífið og stjórnvöld. Þó það nú væri. Við sem samfélag eigum að sjálfsögðu að geta horft til baka og lært af mistökunum eftir 10 ára hraðan og samfelldan vöxt. Ekkert samfélag hefði getað tekið við 25-40% fjölgun ár eftir ár án þess að einhver verkefni höfnuðu úti í skurði.
En það er þá verkefni okkar núna að læra af mistökunum, bæta og laga það sem hægt er að gera betur, að draga verkefnin upp úr skurðinum og koma þeim á beinu brautina og skipuleggja umhverfi ferðaþjónustunnar þannig að næsti áratugur geti orðið til þess festa í sessi stöðugleikann og lífskjarabótina til framtíðar.
Það verkefni er reyndar þegar hafið í samstarfi stjórnvalda og atvinnugreinarinnar. Stefnurammi fyrir íslenska ferðaþjónustu til 2030 hefur þegar verið kynntur af ferðamálaráðherra og nú stendur yfir vinna við aðgerðabundna stefnumótun til 2025 á grundvelli þess ramma. Vinnu við hana á að vera lokið í mars næstkomandi, um það leyti sem fjármálaáætlun til næstu fimm ára verður lögð fram á Alþingi.
Fjárfesting er lykill að auknum arði samfélagsins
Hér víkur því sögunni að samhengi stöðugleika, stefnumörkunar og sjálfbærni.
Ef íslensk stjórnvöld vilja í raun byggja upp sjálfbæra ferðaþjónustu og sjálfbæran áfangastað til framtíðar - og byggja samhliða undir efnahagslegan stöðugleika - verður sú stefnumótun að endurspeglast mjög skýrt í höfuðskjali ríkisfjármála næstu ára, fjármálaáætlun fyrir tímabilið 2021-2025.
Fjármálaáætlunin nær yfir helming þess tímabils sem framtíðarsýn ferðaþjónustunnar spannar. Það er því mikilvægt að verkefnin sem ætlun er að ráðast í til að ná markmiðum um sjálfbæra ferðaþjónustu séu fullfjármögnuð í fjármálaáætluninni.
Þetta er auðvelt að segja, erfiðara að fjármagna. En þannig er það jú með öll verkefni ríkisins.
Staðreyndin er hins vegar sú að ferðaþjónustan skilar í dag nægum tekjum til samfélagsins til að standa undir þeirri fjármögnun (og meira til). Á árinu 2018 voru nettó tekjur ríkis og sveitarfélaga af ferðaþjónustu um 65 milljarðar króna – svona svipað og heill Landspítali.
Til að fjármagna forgangsverkefni stefnumótunarinnar þyrfti líklega einungis að verja um 5-7% þeirrar upphæðar til fjárfestingar í þágu atvinnugreinarinnar árlega á gildistíma fjármálaáætlunarinnar. Þegar horft er til þess að eitt af markmiðum stefnumótunarinnar er að auka útgjöld ferðamanna hér á landi svo þau verði um 700 milljarðar króna árið 2030 og að tekjur hins opinbera aukist jafnhliða er það einfaldlega skynsamleg fjárfesting.
Uppskeran af slíkri fjárfestingu mun bæta arðsemi og sjálfbærni í atvinnugreininni og mun byggja undir stöðugra efnahagslíf, auknar tekjur ríkis og sveitarfélaga, fjölbreyttari atvinnutækifæri, sterkari byggðir og betri lífskjör fólks um allt land.
Næsti áratugur ber í sér gríðarlegt tækifæri til slíkrar uppbyggingar. Tækifæri til að áfangastaðurinn Ísland verði leiðandi í sjálfbærri ferðaþjónustu. Tækifæri til að raungera drauminn um meiri stöðugleika í efnahagslífinu á grunni fjölbreyttara atvinnulífs og sjálfbærs vaxtar til framtíðar.
Tíminn til að grípa það er núna.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar