Þessi grein fjallar um nýlegan hrossadauða á norðurlandi m.a. í ljósi dýravelferðar, ákvæða laga um velferð dýra og hrossa, tengsl hrossadauðans við lagaboð, óviðunandi fyrirbyggjandi aðgerðir eigenda og stjórnvalda, umfjöllun fjölmiðla o.fl.
1000 ára reynsla ekki næg?
Fyrstu hrossin komu til Íslands fljótlega eftir landnám. Fyrr á tímum urðu þau oft undir og létu lífið í baráttu sinni við veður og vegna fóðurskorts. Einnig í flutningum til landsins með skipum vegna slæms aðbúnaðar. Menn tóku það alvarlega og reyndu, sem best þeir gátu, að bæta hag hrossa, sem þeir héldu til að fyrirbyggja að sú ógn, sem stæði af veðri og slæmum aðbúnaði yrði þeim að falli. Um þetta eru til ritaðar heimildir. Þá var hrossið nauðsyn, í dag er það tómstundaiðja margra, hágæðahross eru ,,viðskiptavarningur" hinna efnameiri og þau eru tilraunadýr í blóðmerabúskap.
Mörg hundruð ára reynsla Íslendinga í hrossahaldi hefur breytt aðbúnaði þeirra, yfirleitt, til hins betra, en virðist líka hafa staðið í stað sum staðar í afmörkuðum tilvikum, eins og nýlegur harmleikur á norðurlandi er vitnisburður um.
Offjölgun hrossa hamlar velferð þeirra
Fjöldi hrossa á Íslandi er allt of mikill. Það er viðurkennt, meira að segja af þeim, sem hafa lifibrauð sitt af hrossabúskap. Stjórnvöld setja samt engar takmarkanir á fjölda hrossa per einstakling. Það getur leitt til þess, að sá sem heldur hross eða hefur þau í umsjón sinni hefur ekki lengur yfirsýn yfir velferð þeirra. Það er þó skýrt boðað í lögum að sú yfirsýn skuli vera tryggð. - En sumum lagaboðum um velferð hrossa og reyndar annara dýra líka er hreinlega ekki fylgt, hvorki af eftirlitsaðilanum Matvælastofnun né eigendum. Þetta er því miður ekki bundið við hross, miklu fleira dýrategundir.
Ítrekað gáleysi ekki næg lexía
Fyrir nokkrum misserum féllu fjölmörg hross á Álftanesi. Þau hlupu undan veðri, féllu í vök og drukknuðu. Veðurspá gaf til kynna að bregðast hefði þurft við. Hrossunum hefði auðveldlega mátt koma í hús eða skjól en eigandi þeirra hafði og hefur ennþá góða aðstöðu til þess skammt frá þeim stað þar sem þau voru í útivist yfir veturinn. Sá harmleikur, vegna veðurs, varð ekki víti til varnaðar, þvert á móti, hann endurtók sig nú og yfir hundrað hross hafa fundist látin, enn er leitað og fleiri munu líklega finnast, fallin. Veður var aftur fyrirsjáanlegt skv. spám, með margra daga fyrirvara. Mestur varð hrossadauðinn á svæði á norðurlandi þar sem rannsóknir erlendra dýraverndarsamtaka frá því sl. sumri sýna að blóðmerabúskapur er stundaður í mjög miklu mæli. Í blóðmerastóðum er haldin svakalegur fjöldi hrossa, en sá búskapur er mjög umdeildur af ýmsum ástæðum, sem ég mun fjalla um í næsta pistli.
Andstæðar fylkingar
Það sætir undrun að Íslendingar skuli skiptast í tvo hópa varðandi þennan yfirgengilega hrossadauða. Annar hópurinn heldur því fram, fremur léttvægt, að þetta hafi verið ófyrirbyggjanlegt slys, hinn rökstyður þá skoðun sína að hrossadauðinn hafi verið óþarfur þ.e. hægt hefði verið að fyrirbyggja hann. Ég tilheyri seinni hópnum og finnst eiginlega allt of auðvelt að rökstyðja það að teknu tilliti til réttarstöðu hrossa samkvæmt lögum og skyldur hrossaeigenda.
Ég er ekki að óska neinum refsingar heldur einungis að benda á, að líklegt er, verði ekki brugðist við með þeim hætti, sem ætla mætti að rétt væri, að athugað verði hvað raunverulega hafi orsakað þennan fjöldahrossadauða, fyrir utan veður, þá höfum við lítið af þessum hörmungum lært og búast má fleiri fleiri katastrófum af þessu kaliberi. Komu þarna t.d. mannlegir þættir eins og tómlæti við sögu? Gerðu eigendur nóg áður en hið fyrirsjáanlega veður skall á eða hefðu þeir mátt leggja sig meira fram á meðan veður var enn gott. Réðu þeir við að sinna þeim fjölda hrossa, sem þeir halda/héldu að teknu tilliti til margra daga fyrirsjáanleika veðurs. Hefði maðurinn geta komið í veg fyrir þetta mikla fall hrossa ef hann hefði borið sig að eins og lög skylda hann til? Heimilar Matvælastofnun allt of mikinn fjölda hrossa per einstakling með þessum afleiðingum? Á vef MAST er ekki að finna neinar tilkynningar, sem beint er til hrossaeigenda með áberandi hætti á þessu svæði, um þá veðurvá sem í væntum var. Ekki heldur á vef Bændasamtakanna né á vef Félags hrossabænda. Og auðvitað alls ekki á vef Dýraverndarsambands Íslands - Húsi Hallgerðar.
Samlíkingar við önnur lög
Lögum um velferð dýra og reglugerð um velferð hrossa hafði ekki verið fylgt gagnvart hinum föllnu og eftirlifandi hrossum á norðurlandi á þeim tíma, sem ofsaveðrið á dögunum skall á. Menn bera það þó fyrir sig að slíkt hafi verið gert. Það stenst ekki. Ef sú hefði verið raunin þá hefðu þessar hörmungar aldrei orðið að veruleika. Vel er hægt að koma með gildar samlíkingar úr öðrum lögum. Tilgangur og markmið umferðarlaga er t.d. að að koma í veg fyrir tjón af völdum ökutækja, vernda ökumenn og ökutæki, gangandi vegfarendur og jafnvel búfénað. t.d. vegna veðurs eða veðurfarsaðstæðna.
Einnig voru björgunaraðgerðir ekki nógu vel skipulagðar en vel hefði verið hægt að fá miklu öflugri mannafla og tæki til slíks frá Evrópu hefðu menn lagt sig fram við slíkt. Veðurspáin gaf fullt tilefni til slíks og fyrirvarinn var nægur.
Fjölmiðlaumfjöllun
Ýmsa fleiri vankanta má týna til varðandi þetta ömurlega dýraverndarmál. T.d. aðkomu fjölmiðla, sem er stórlega gagnrýni verð og dýravernd hrossa ekki til framdráttar. Engar gagnrýnar spurningar komu frá fjölmiðlum heldur var spurningum einungis beint til hagsmunaaðila og svörin fyrirsjáanleg fyrir þá, sem til þekkja. Gagnrýnendur voru aldrei kallaðir til og á rök þeirra hlustað. Það er óvönduð fréttamennska í jafn alvarlegu máli. - Ekki skorti gagnrýna fjölmiðlamenn í Samherjamálinu. Á eitthvað annað við í dýravernd en í fjárþvættisglæpamálum? Er það alvarlegra og mikilvægara umfjöllunarefni með her fjölmiðlamanna í skotstöðu þegar þegar meintir fjárglæpir eiga sér stað á Íslandi en þegar dýr kveljast til dauða af vegna meints kæruleysis?
Út fyrir landsteinana
Alvarleiki málsins er svo mikill að málið hefur þegar hlotið umfjöllun erlendra fjölmiðla þ.á.m. þýskra. Það er ágæt því Þýskaland er stórmarkaður fyrir íslenska hrossaræktendur. Máske og vonandi munu Þjóðverjar bregðast við með þeim hætti að þeir íslensku hrossaræktendur, sem það á við um, bæti háttalag sitt.
Málið hefur verið kynnt þýskum dýraverndarsamtökum, sem ætla að tryggja áframhaldandi umfjöllun um það í þarlendum fjölmiðlum enda þykir þeim þetta atvik í senn sorglegt en lýsa á sama tíma furðu sinni yfir því hvernig að hrossum er búið við þessar aðstæður á Íslandi. Já það koma önnur viðbrögð frá þeim heldur en okkar lamaða dýraverndarsambandi, sem kóar, sem fyrr með hrossaeigendum.
Lokaorð
Nú þegar ró hefur að nýju færst yfir þetta mál og nægar upplýsingar liggja fyrir þá er auðveldlega hægt að draga þá ályktun að stjórn- og kæruleysi varð þess valdandi að svo mörg hross féllu. Raunar stjórn og þekkingarleysi fjölmargra aðila að undanskildum björgunarsveitum - sem verður aldrei þakkað nóg, hvað svo sem þær þurfa að taka sér fyrir hendur.
Íslensk stjórnvöld, allt of margir hrossaeigendur og MAST eru hins vegar viðvaningar, að margra mati, þegar takast þarf á við jafn alvarlega dýraverndarkrísu, sem þessa.
Að þessu sögðu hefði ég helst kosið að nota fyrirsögnina - Fjöldahrossadráp á Íslandi - að ég tel með réttu.