Með ákvörðunum okkar í dag höfum við áhrif á morgundaginn. Samkeppnishæfni er nokkurs konar heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum. Þeim mun betri sem samkeppnishæfnin er, þeim mun meiri verðmæti verða til og þar með verður meira til skiptanna fyrir okkur öll. Með ákvörðunum okkar í dag þarf að örva fjárfestingu, sjá til þess að ný tækifæri blómstri og mannauðurinn eflist. Þetta eru lykilþættir í atvinnustefnu sem Samtök iðnaðarins kynntu fyrir um ári síðan. Vel færi á því að stjórnvöld mörkuðu sína eigin atvinnustefnu sem væri rauður þráður í annarri stefnumótun og væri ætlað að auka verðmætasköpun á Íslandi, landsmönnum öllum til heilla.
Ár nýsköpunar
Árið 2020 verður ár nýsköpunar hjá Samtökum iðnaðarins. Samtökin kynntu nýsköpunarstefnu sína í febrúar 2019 í aðdraganda þess að stjórnvöld mótuðu sína stefnu um nýsköpun. Stefna stjórnvalda var kynnt síðastliðið haust og hefur ráðherra kynnt aðgerðir í kjölfarið, meðal annars hugmyndir um Kríu – sjóð sem fjárfestir í sprotum. Ísland er nýsköpunarland, segir í stefnu stjórnvalda. Þetta er stærri yfirlýsing en ætla mætti í fyrstu þar sem þetta segir að stjórnvöldum er alvara með það að efla nýsköpun og gera hana árangursríkari en hingað til hefur verið. Því ber að fagna.
Nýsköpun snýst um ný tækifæri, um þróun og um lausnir á samfélagslega mikilvægum verkefnum. Þannig getur nýsköpun átt sér stað í rótgrónum fyrirtækjum jafnt og í nýjum sprotum. Nýsköpun byggir að miklu leyti á hugviti en einnig þarf handverk til að láta hugmyndir verða að veruleika. Hugvitið er óþrjótandi uppspretta sem þarf að virkja en það er án landamæra og þess vegna reyna ríki heims að auka nýsköpun með stefnumörkun. Í því ljósi er sérstaklega jákvætt að íslensk stjórnvöld hafi mótað metnaðarfulla stefnu sem fylgt er eftir. Með ári nýsköpunar vilja Samtök iðnaðarins leggja sitt af mörkum til að efla nýsköpun og ný tækifæri á Íslandi.
Auka þarf fjárfestingar
Fjárfesting í dag er hagvöxtur á morgun. Það þarf frekari fjárfestingar til að byggja undir framtíðarvöxt. Seðlabankinn hefur lækkað vexti á árinu til þess að örva fjárfestingu. Það hefur enn ekki skilað tilætluðum árangri og mun ekki skila sér nema vextir lækki enn meira. Það er vegna þess að lægri vextir Seðlabankans hafa ekki leitt til lægri útlánsvaxta bankanna. Seðlabanki sem bregst við fjármálum hins opinbera verður að taka tillit til bankaskatta og áhrifa þeirra en það virðist ekki vera gert í nægum mæli. Þá eru ríkari eiginfjárkröfur á bankastarfsemi hér á landi heldur en annars staðar og það þýðir hærri vextir. Það þarf að hugsa út fyrir kassann til að breyta þessu og það hlýtur að verða gert á nýju ári.
Þessi staða hefur til að mynda áhrif á íbúðafjárfestingu. Næstu áratugi þarf að reisa um tvö þúsund íbúðir á ári að meðaltali svo landsmenn hafi þak yfir höfuðið. Regluverk og kerfi sem er þungt í vöfum tefur uppbyggingu sem og ofangreind staða á fjármálamarkaði. Þessu þarf að breyta og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar í tengslum við Lífskarasamninginn lofar þar góðu. Í sjónmáli eru mestu umbætur í áratugi en þar þurfa allir að leggja hönd á plóg svo þær geti orðið að veruleika – ríki og stofnanir, sveitarfélög og iðnaðurinn. Vonandi verða stór skref stigin árið 2020.
Stórátak þarf við uppbyggingu innviða eins og landsmenn hafa verið minntir á undanfarin misseri. Vegakerfið hefur verið undirfjármagnað þó það horfi til betri vegar á næstu árum. Opinberar byggingar hafa legið undir skemmdum vegna myglu sem stafar meðal annars af of litlu viðhaldi. Flutningskerfi raforku brást landsmönnum í óveðrinu skömmu fyrir jól og rafmagnslaust var svo dögum skipti með tilheyrandi tjóni. Alvarleg bilun varð á dögunum í heitavatnslögn á höfuðborgarsvæðinu þar sem Landspítalinn þurfti að ræsa gufukatla til að hita byggingar. Við göngum að traustum innviðum sem sjálfsögðum hlut. Þegar þeir virka sem skyldi tökum við ekki eftir þeim en ef þeir bregðast þá hefur það mikil áhrif. Þessi staða hefur að miklu leyti legið lengi fyrir en nú er aðgerða þörf til að tryggja öryggi landsmanna.
Fjölbreyttir möguleikar með starfsnámi
Með eflingu mannauðs er einkum tvennt sem þarf að gera. Annars vegar þarf fleiri menntaða í svokölluðum STEM fögum en það eru raunvísindi, tæknigreinar, verkfræði og stærðfræði. Tækifærin eru óþrjótandi en það hamlar mjög verðmætasköpun að geta ekki fengið fólk með rétta hæfni til starfa. Hins vegar þarf mun fleiri starfs- og tæknimenntaða á Íslandi. Í löndum Evrópu eru að meðaltali um 50% starfsmenntaðir einstaklingar. Hér á landi er hlutfallið um þriðjungur. Af þeim félagsmönnum Samtaka iðnaðarins sem vilja ráða fólk til starfa eru um ¾ að leita að starfsmenntuðu fólki. Eftirspurnin er því sannarlega til staðar en þetta lýsir ágætlega færnimisræmi á íslenskum vinnumarkaði. Þetta er mjög kostnaðarsamt fyrir íslenskt samfélag og úr þessu verður að bæta.
Breytt landslag – atvinnustefna
Samkeppnishæfni íslenska hagkerfisins hefur að miklu leyti sveiflast með gengi krónu. Sögulega séð hefur gengi krónu gefið verulega eftir í efnahagslægð. Þar með batnar samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja þar sem erlendar vörur verða dýrari. Þetta gerist ekki núna þegar hagkerfið dregst aðeins saman eftir langvarandi hagvaxtarskeið. Endurreisn efnahagslífsins tókst vonum framar og samhliða uppgangi ferðaþjónustu voru stoðirnar treystar svo um munaði. Skuldir heimila, fyrirtækja og ríkis hafa lækkað umtalsvert, erlendar eignir eru umfram erlendar skuldir og aukin fjölbreytni er í útflutningi. Saman styrkir þetta stoðir hagkerfisins og áhrif þess koma nú fram í minni sveiflum. Fyrir vikið verður ekki leiðrétting á samkeppnisstöðunni og það fækkar störfum í einkageiranum hér á landi.
Evrópusambandið mótar nú atvinnustefnu sem verður kynnt árið 2020. Henni er fyrst og fremst ætlað að tryggja samkeppnishæfni Evrópu gagnvart stórþjóðum eins og Kína og Bandaríkjunum en kínversk fyrirtæki hafa aukið hlutdeild sína á vestrænum mörkuðum á kostnað vestrænna fyrirtækja. Atvinnustefna ESB mun í gegnum EES samninginn hafa áhrif hér á landi. Það ætti að vera íslenskum stjórnvöldum metnaðarmál að móta sína eigin stefnu til að efla samkeppnishæfni Íslands sem tekur mið af íslenskum hagsmunum en ekki eingöngu hagsmunum stærstu ríkja og fyrirtækja í Evrópu. Samtök iðnaðarins hafa lagt sitt af mörkum til þessarar umræðu og gáfu samtökin út ítarlega skýrslu um atvinnustefnu haustið 2018. Í stuttu máli gengur slík stefna út á að bæta almenn skilyrði til rekstrar enda hækka öll skip á flóði. Slík stefna stuðlar að eflingu mannauðs, aukinni nýsköpun, bættum starfsskilyrðum og aukinni fjárfestingu, meðal annars í innviðum. Slík stefna ætti að vera rauður þráður í annarri stefnumótun hins opinbera.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.