Sköpunarkerfið í kvenkyni sem svo fæðir af sér þessa yfirleitt fullkomnu líkama og mannverur með öllu, er auðvitað magnað og ólýsanlega vel skapað kerfi en það á við um öll kvendýr sem og spendýr.
Um aldir og fyrir tíma getnaðarvarna fæddu konur börn vegna kynlífs, burtséð frá því hvort að þær hugsuðu í alvöru um hvað það þýddi fyrir þær eða ekki, eða hvort þær virkilega vissu hvort þær þráðu að verða mæður eða ekki. Trúlega fengu fleiri foreldrar þó börn sem þau elskuðu og voru rétt fyrir þau.
Þau hjálpuðu til við búskapinn og svo framvegis og fjölskyldan elskaði og elskar hvert annað.
Lífið er þó stundum flóknara þegar á reynir.
Þá koma þessar spurningar:
- Hvaða hugsanir eru í gangi hjá fólki þegar það vill bjóða börnum inn í líf sitt?
- Hvað er það sem kemur í heilabú einstaklinga þegar þá dreymir um að fá barn inn í líf sitt?
- Hugsar fólk í raun um öll þau mögulegu atriði og möguleikana um hvað sé og geti verið innifalið?
- Eða eru flestir til í að hætta á það burtséð frá því hvað geti gerst?
- Það að hafa það tækifæri fyrir framan sig að geta valið og ákveðið án þrýstings að maður þrái að fá barn inn í líf sitt, er allt annað dæmi, en að vera ýtt í það af öðrum með slæmum skilaboðum eða vera slysabarn sjálf.
- Svo hvað brást frá draumnum til veruleikans?
Hið mikla val sem fóstur hefur
Þau hafa fengið sál inn í líf sitt sem hefur greinilega nýtt sér það sem Stephen Hawking lýsir í síðustu bók sinni. Það er að genabanki mannveru sé á við fimmtíu Harry Potter bækur að gagnafjölda, svo að hvert fóstur sem kemur, hefur þá aðgang að tveim genabönkum sem nemur valmagni um ótal atriði frá líkamlegu útliti til allskonar annarra atriða frá innihaldi hundrað slíkra bóka. Það er meira val en ég tel að nokkur mannvera hafi nokkurn tíma hugleitt né einu sinni látið sér detta í hug.
Það þýðir þá að hvert barn sem kemur í móðurlíf til að skapast hefur efni úr því sem nemur hundrað Harry Potter bókum til að velja sinn skammt fyrir líkamann eða það kerfi sem sjái um það.
Möguleikarnir á vali um það hver útkoman verður eru því mun fleiri en ég tel að nokkur mannvera hafi gert sér grein fyrir, og margir því reiknað með að genabankinn væri bara frá því sem er í líkömum þeirra, og kannski öðrum nánustu ættingjum.
Það er hugsun sem er til víkkunar sjóndeildarhringsins um hvað fólk dreymi um áður en þau ákveða að gefa nýrri sál aðgang inn í líf sitt.
Upplýsingamagn og möguleikar sem gæti verið skemmtilegt eða flókið og erfitt að velja vel úr. Einstaklingur sem virkar eins og hann tilheyri allt annarri fjölskyldu en hann kom inn í.
Sá einstaklingur kemur foreldrum sínum þá stórkostlega á óvart.
Eða hafa það að markmiði að fá sálir inn í líf sitt til að sjá hver þau eru, skynja hæfileika þeirra og njóta þess að styrkja þau í að ná sínu besta í lífi sínu.
Hinir ótal möguleikar um hvað getur komið
Hvað var í gangi í hugum foreldra við ákvörðun um getnað? Var það þetta sæta umkomulausa krútt sem er svo ósjálfbjarga svo lengi, og muni þurfa á þeim að halda. Telja foreldrar hugsanlega að barnið þeirra verði einskonar útgáfa af þeim eða „klón“? Eins og þau, hugsi eins og þau, líti út eins og þau, vilji það sama og þau, eða hlýði og geri allt sem foreldrar vilja án mótstöðu.
Vilja þau bæta við ættina og vera opin fyrir hvernig einstakling sem þau fái af því að þau upplifi sig fær um að ala upp hvaða barn og einstakling sem komi?
Eða vilja þau sjá um að nöfnin í ættinni rúlli áfram. Eða hreinlega elska að rækta mannverur og gera það vel?
Ég velti þessu stundum fyrir mér þegar ég vitna foreldra eins og til dæmis hjá Dr. Phil því að þar kemur oft í ljós að foreldrar höfðu mjög takmarkað sjónarhorn um hvernig einstaklingur myndi fæðast þeim sem þetta fyrirfram óskaða eftir barn. Svo reynast þau algerlega ráðalaus þegar sá einstaklingur er ekki að virka eins og einskonar tvíburi úr þeirra eigin genabanka, né með það hugarfar sem þau töldu að yrði.
Barnið þá unglingur kannski orðinn háður fíkniefnum eða með einhverja óalandi hegðun. Og þeir foreldrar ekki skilið nógu snemma mikilvægi þess að vita hvenær eigi að segja nei og setja takmörk. Slík dæmi gerast um allan heim.
Af hverju fer dæmið ekki alltaf eins og fólk dreymdi um að fá börn eða ekki?
Ótal dæmi um óvissuna um það sjást í þáttum Dr. Phil og í ótal öðrum tilfellum um allan heim þegar unglingar hafa ekki lært eða skilið hinar réttu og gagnlegu umferðarreglur lífsins og var eitt af þeim tilfellum í þætti hans þann 12. desember 2019. Það var tilfelli um algera eigingjarna frekjudós.
Móðirin lét allt eftir frekjudósinni henni dóttur sinni til að sleppa við að glíma við skapvonsku hennar, en faðirinn var strangur þegar hann hafði tækifæri til að leggja eitthvað til um uppeldi hennar. En dóttirin virti orð föðurins einskis og notaði veiklyndi móður sinnar sem viðhengi fyrir sig, en bar enga virðingu fyrir henni.
Mamman var að hennar áliti bara mannvera sem hún gat notað og fengið allt frá sem hún vildi. Hún stal líka frá mömmu sinni í viðbót við það sem mamma hennar gaf henni sjálf, og það bæði peningum, kreditkorti, og bíl.
Bíl sem mamma hennar hafði greinilega aðgengilegan fyrir hana til að fara út að keyra á nóttunni og aka undir áhrifum. Í stað þess að hafa bílinn annaðhvort læstan inni og hafa lyklana óaðgengilega fyrir dótturina. Móðirin sagðist ekki hafa vitað að dóttirin væri að þessum næturferðalögum, sem ég verð að efast um að hafi verið satt.
Dóttirin stal bíl móður sinnar og ók um í honum undir áhrifum fíkniefna og áfengis á nóttunni þegar foreldrar hennar sváfu. Þau hefðu getað fengið símhringingu eða menn á dyrnar til að segja þeim að dóttir þeirra væri dáin frá slæmu bílslysi og undir áhrifum.
Móðirin játaði að það væri auðveldara að gefa eftir, af því að hún hafði ekki skap í sér né persónulegan styrk til að mæta skapi og frekju dóttur sinnar.
Henni láðist að skilja að með því að leyfa það allt, gæti hún verið að gefa dóttur sína beint inn í dauðann með því að hún gæti ekið bíl stolnum bíl hennar undir áhrifum fíkniefna og áfengis.
Í þættinum var greinilegt að dóttirin sýndi enga löngun eða ástæðu til að breyta hegðun sinni, og taldi það vera rétt sinn sem sautján ára unglings að gera það sem henni sýndist, af því að í hennar augum gerðu allir sautján ára unglingar þessa hluti.
Ákvörðunin sem var tekin af Dr. Phil var um fyrsta skref foreldra hennar um að vera samstíga í að segja henni að hún yrði að fara til þeirrar meðferðarstofnunar sem hann skipulagði fyrir hana og máttu ekki sýna neina linkind. Hún fór eftir nokkur öskur inn í bílinn til að hefja þá endurhæfingu sem hún þurfti.
Þau hjón eiga aðra dóttur sem var ekki með sömu hegðun og systir hennar, og var sú sem hafði haft samband við Dr. Phil. Sú óstýriláta var með betra ytra útlit en systir hennar, sem ég kalla pakkningu. Af því að ytra útlit hefur ekki nærri alltaf neitt sama-sem-merki við það hver mannveran sé hið innra, og stundum sjá slíkar stelpur það sem einskonar aðgöngumiða að því að eiga rétt á að fá það sem þeim hentar, án tillits til eins eða neins, eins og þessi stelpa hugsar. Ég velti fyrir mér hvort að það hafi spilað inn í dæmið?
Við sjáum það í ótal fjölmiðlum að þetta með útlit fær mun meiri athygli og mikilvægi, en efni um að hið innra skipti mun meira máli.
Við fæðumst ekki endilega sem fullkomnir uppalendur
Hugsa einstaklingar sem vilja fá börnin inn í líf sitt um það ef um hjón er að ræða hvaða verðgildi þau hafi verið alin upp við, eða hvort þau séu þau sömu eða aðferðirnar geti bætt aðferð hins, og því skapað enn betri formúlu? Þau voru langt frá að vera þau sömu í tilfellinu hjá Dr. Phil. Og sú umræða hafði ekki átt sér stað áður en blessuð börnin fæddust.
Staðreyndin er sú að það var aldrei nein kennsla í uppeldi í skólum á Íslandi né vitnaði ég umræðu á hvað gott og rétt uppeldi væri. Og ég efast um að það hafi verið kennsla í uppeldi í bandarískum skólum heldur.
Það sem pirrar mig hinsvegar oft við viðhorf Dr. Phil er að hann talar eins og við konur séum allar fæddar með fullkomið uppeldisprógram í heilanum og að allar konur hafi þetta mæðra-„app“ í sér. Hann hefur allt aðrar skoðanir er varða karlkynið og telur hann yfirleitt að það sé bara karlmaður sem geti verið hetjan í fjölskyldunni, þegar það er ekki alltaf tilfellið og feður eru stundum algerar linkindur við börn sín.
Hann virðist ekki hugleiða að mæðrun lærist frá fjölskyldum niður línuna og er það annaðhvort gott eða slæmt uppeldi nema og ef ný kynslóð vaknar til að sjá að það séu betri og gæfusamari leiðir til slíks.
Með þessi hjón foreldra stelpunnar í Dr. Phil þættinum áttu þau líka að fá meðferð sem gekk út á það að þau næðu að verða sammála um uppeldisleiðir og gætu staðið saman sem hafði greinilega ekki verið tilfellið fram að því að þau komu til Dr. Phil.
Það segir svo mikið um að það að langa í börn, og hvaða draum þau hafi um það í sér, og þá að bera saman bækur sínar um viðhorf sín og stefnu og það uppeldi sem þau fengu sjálf. Sum börn koma sem betur fer í heiminn sem gæðasálir og hreinlega ala sig upp sjálf, og er ansi auðvelt að vinna með. Þegar önnur eins og þau sem foreldrar koma með til Dr. Phil eru eins og um eilíft stríð sé að ræða.
Hinar flóknu tilfinningar þegar börn eru gefin til ættleiðingar
Svo var annað athyglisvert tilfelli um þetta með að fæða börn í heiminn. Á SBS var farið í ferð með tveim ungum konum sem höfðu fæðst í Sri Lanka og verið gefnar til hins vestræna heims. Þær voru í Sri Lanka í leit að uppruna sínum.
Þær voru gefnar vegna erfiðra aðstæðna hjá mæðrum og þjóðinni og höfðu liðið miklar tilfinningalegar þjáningar vegna þess að þær vissu ekki hverjir blóðforeldrar þeirra voru eða hvaðan þær komu. Vissu ekki hverjir höfðu komið þeim í heiminn. Önnur þeirra fann fjölskylduna og var mjög glöð, en hin var leidd til fjölskyldu sem taldi hana vera sína, en DNA próf sýndi svo að það var ekki satt. Mikil vonbrigði fyrir hana og þá fjölskyldu sem taldi hana vera barn dánar móður sem hafði gefið barn upp á því ári sem hún fæddist.
Það sem allavega önnur þeirra hafði upplifað var að hún taldi sig ekki hafa neitt „identity“ – neitt afmarkað ættarsjálf – en þetta orð „identity“ á sér ekki hliðstæðu í íslenska tungumálinu.
Þau orð ungu konunnar hvöttu mig til að skoða það með mig.
Ég sem veit upp á hár hverjir komu mér í heiminn, en ég er ekki endilega á því að sjálfið mitt eða „indentity“ sem sál og persónuleiki sé kominn frá þeim. Því sumt komum við með sem sálir burtséð frá blóðtengslum, en allavega líkaminn er það sem kemur auðvitað frá foreldrum. Sem þýðir ekki endilega að maður hafi sama verðmætamat og þeir.
Það segir mér að ég hljóti að hafa farið í önnur gögn í möguleikabankanum sem Stephen Hawking vitnar í sem upplýsingamagn blaðsíðutals á við hundrað Harry Potter bækur.
Hinsvegar tengi ég vel við það afslítandi ferli sem ungbarn verður fyrir þegar það er slitið frá þeim líkama sem fæddi það í heiminn, og það fékk alla sína líkamlegu næringu frá í níu mánuði og sinn slatta af genum. Grunneðli allra sem fæðast reiknar sjálfvirkt með að það muni fá næringuna frá þeim einstaklingi á næstu mánuðum og árum sem fæddi það í heiminn. Það er því sorgarferli í dýpt iðra mannvera sem erfitt er að finna rétt orð yfir sem á það til að sitja í mannverunni. En að því að ég veit hafa engin vísindi rannsakað það. Og trúlega er það ansi snúið verkefni að vinna og ná fullkomlega. Og ekki alltaf framkvæmanlegt heldur.
Ég var sjálf skilin eftir sem ungabarn í höndum afa og ömmu þegar móðirin fór til Ameríku til að vera með barnsföður. Það var af því að þeim hafði verið skipað að giftast út af getnaði mínum. Það er aðeins annarskonar dæmi en þessar ungu konur með gen frá Sri Lanka voru með en með mörgu af sömu órannsökuðu áhrifum og afleiðingum í mannverunni.
Ein af þessum ungu konum hafði verið ættleidd af hjónum sem voru líka frá Sri Lanka eða Indlandi og höfðu sama húðarlit. En hún einkenndi sig samt engan veginn með þeim hjónum, af því að þau höfðu ákveðið hvernig ætti að móta hana, og það án þess að taka tillit til hennar eigin þarfa. Hún upplifði sig sem einskonar eign þeirra en ekki mannveru með eigin upplifun af því hvernig þróun lífs hennar ætti að verða.
Hin rússneska rúlletta í að fjölga mannkyni
Það minnti mig á veruleikann um að stundum er það að bjóða börn í heiminn til þessarar jarðar á við að leika rússneska rúllettu. Þú hefur ekki glóru um hver kemur inn í líf þitt.
Ég man ekki eftir að heyra neina konu á mínum tíma tala um þessa þrá eftir að verða móðir. Hvort sú tilfinning var í gangi og séð sem einkamál er spurning. Ég heyrði slíka tjáningu ekki opinberlega fyrr en ég kom til Ástralíu.
Að heyra þessar konur tala af svo mikilli þrá um að verða mæður var mikil veruleikaupplifun fyrir mig. Ég táraðist yfir að börnin mín hefðu ekki upplifað þá tilfinningu í móðurlífi að vita að þau væru fyrirfram þráð, en seinna barnið var það á sinn hátt af því að það var til að vera systkini fyrir það fyrra.
Tárin voru af því að ég hafði ekki fengið tækifæri, né svigrúm til að ná að komast á þá síðu í mér röklega eða tilfinningalega til að upplifa sjálf, þegar líkami minn fæddi tvö falleg og fín börn í heiminn, sem var frá slæmum þrýstingi frá brengluðum og fornaldarlegum viðhorfum tveggja kvenna.
Mismunurinn á milli þess að skilja að fyrir daga getnaðarvarna og að vera upp á karlkyn komnar fyrir líf sitt og framfæri, kyngdu konur trúlega oft tilfinningum sínum þegar þunganir urðu fleiri en þær hefðu kosið. Og sáu það hugsanlega oft meira eins og veðrið sem eitthvað sem kæmi og færi, og þær gætu ekki stjórnað.
Kynslóð mín kom mikið til frá slíkum viðhorfum og lífi sumra mæðra sem höfðu ekki allar náð að vakna til nýrra tíma um möguleika dætra á sjötta áratugnum.
Þetta með sálir og ferðir þeirra
Slíkar pælingar eru miklar ráðgátur. En eftir að ég kom hingað til Ástralíu fór ég að fá innri vitneskju um það – bæði varðandi fyrri líf fólks og svo þetta með að sumar sálir velja vissa einstaklinga sem framtíðar foreldra. Bíða þær glaðar eftir að hliðið opnist fyrir þær að byrja nýja líkamssköpun í móðurlífinu, eða að foreldrum sem þrá börn sé sagt að þær sálir sem séu þeirra, séu ekki tilbúnar, en verði það eftir smá tíma og „pöntunin“ kemur á þeim tíma. Svo eru það sálir sem koma frá skipulagsleysi eða kaosi. Ég vitnað það í heiluninni mér til óvæntrar ánægju og lærdóms um smá sneið um það hvernig það kerfi virkar.
Allar sálir geta svo dregið úr því magni DNA sem Stephen Hawking segir í síðustu bók sinni að sé á við fimmtíu Harry Potter bækur. Og eiga sálir þá val um að geta valið frá magni gena í því sem jafnast á við hundrað Harry Potter bækur, ef það hefur sama skammt af vali frá bæði sæði og eggi. Svo að engin tvö börn sömu hjóna eða para komi út með sömu uppskrift, þó frá sömu foreldrum sé. Nema ef tvær sálir eða fleiri velji að koma með sömu uppskrift sem er kallað eineggja.
Það segir okkur að þetta með að fæðast í jarðneskan líkama sé bæði mikið veisluhlaðborð af möguleikum, sem og þeim veruleika. Og um leið að fólk fái stundum mjög óvæntar sendingar þegar barnið birtist úr móðurlífi.
Samt er trúlega nokkuð minna um mjög óvæntar komur við fæðingar eftir að sónar kom til sögunnar. Það voru engar sónarskoðanir á árunum milli 1970 og 1973, svo að ég sá mín börn ekki þar inni, bara þegar þau komu út.
Það er ljúft að fræðast af Stephen Hawking í einlægni hans á blaðsíðunum í síðustu bókinni sem hann skrifaði áður en hann kvaddi þetta jarðlíf. Og það í sínum allt að því ónýta líkama, og hugsa um hvernig honum gæti hafa fundist að lifa með sína líkamlegu kyrrsetningu sem hann lifði við mikinn hluta ævinnar, en ég ekki lesið neina kvörtun frá honum um það. Spurning er hvort það hafi getað gert hann enn einbeittari við það verkefni. Með heilabúið og hæfileika til að ferðast hugrænt og andlega allar þessar ótrúlegu fjarlægðir út í himinhvolfin sem hann kom til jarðar til að vinna.
Ég hef gaman af þeim gullmolum hans sem ég skil, og er eitt af þeim það, að hann telur að almættið sé ekki nærri eins skipulagt og sum trúarbrögð halda fram.
Hann fékk hinsvegar ekki að læra neitt um þetta með ferðir sálna í sínum skammti af að veita mannkyni þekkingu, þegar hann kenndi okkur um himingeiminn.
Það var trúlega samt svaka mikill skammtur sem hann fékk af þessari miklu dular-gátu sem sköpun og skapari er og hefur gert. Það eru aðrir sem munu fá æ meira af þekkingu á því í gegn um aldirnar, ef mannkyn lifir hlýnunina af.
Það væri forvitnilegt að vita hvort hann Stephen Hawking sé þarna hinum megin að vinna og skoða hvernig líkama hann ætli að fá næst og geti kannski fengið að skoða hina ýmsu „Harry Potter“ hundrað bóka möguleika. Hann hlýtur líka að vera í stórkostlegu færi til að sjá himingeiminn frá nýju sjónarhorni og kannski er hann að læra hluti um sálir sem hann fékk ekki aðgang að á meðan hann var á jörðu.
Svo hann og líf hans og gjöf hans til mannkyns til að kenna okkur um himingeyminn var trúlega óvænt uppákoma fyrir foreldra hans löngu áður en sónar kom til sögunnar.