Enn á ný einkennist áliðnaður heimsins af offramboði. Þó svo óvíst sé hvernig til tekst að vinda ofan af offramleiðslunni í þetta sinn er augljóst að þrýstingurinn verður hvað mestur á samdrátt hjá álverum sem knúin eru með kolaorku. Mikil kolefnislosun kolaorkuvera og lækkandi kostnaður vind- og sólarorku eru sterkir drifkraftar þess að smám saman dragi úr framleiðslu slíkra „kolaálvera“. Þar með mun samkeppnisstaða álvera sem nýta endurnýjanlega orku styrkjast. Þar er Ísland í kjörstöðu vegna hagkvæms vatnsafls og óvenju góðra möguleika á virkjun ódýrrar vindorku.
Kolsvört álframleiðsla og fordæmalausir kjarreldar í Ástralíu
Álver Alcoa í Portland suður í Viktoríufylki í Ástralíu er sterk birtingarmynd fáránleikans. Þar eru áströlsk brúnkol grafin upp og brennd í stórum stíl til að knýja gríðarstórt álverið í Portland og fleiri álver í Ástralíu Á sama tíma æða ánast fordæmalausir kjarr- og skógareldar um stór svæði víða í Ástralíu í óvenju miklum og tíðum hitabylgjum.
Starfsemi álversins í Portland er augljóslega óskynsamleg og órökrétt í heimi þar sem unnið er hörðum höndum að því að leita leiða til að halda aftur af bruna kolvetniseldsneytis. Þar að auki er veruleg offramleiðsla af áli í heiminum og því ætti að vera borðleggjandi að álbræðslum af þessu tagi verði lokað.
En í stað þess að Alcoa og viðskiptafélagar þess loki kolaálverinu í Portland hafa áströlsk stjórnvöld lengi aðstoðað við að halda þessari kolsvörtu álframleiðslu gangandi með gríðarlegum opinberum stuðningi. Á um 35 ára rekstrartíma álversins nemur sá stuðningur nú sem samsvarar hundruðum milljörðum íslenskra króna! Þetta er einn þáttur í algjörlega galinni stefnu ástralskra stjórnvalda, sem þar að auki vilja opna enn fleiri kolanámur til raforkuframleiðslu.
Vatn á myllu Íslands og annarra grænna orkuframleiðenda
Með aukinni umhverfisvitund hlýtur að koma að því að þarna verði breyting á, þegar áströlsk stjórnvöld og aðrir í svipuðu hlutverki átta sig á því hversu fjarstæðukennt það er að knýja orkufrekan iðnað eins og álver með kolabruna. Þróunin á komandi árum hlýtur að verða sú að kolaálverum muni fækka eða a.m.k. fjölga hlutfallslega minna en álverum sem nýta umhverfisvæna orku.
Um leið minnir þetta okkur á það hversu íslensk orka er með jákvæða ímynd og að í umhverfislegu tilliti standa álverin á Íslandi vel að vígi. Í harðri samkeppninni sem ríkir á álmarkaði er augljóst að aðgangur álfyrirtækja að endurnýjanlegri orku er þeim afar mikilvægur. Það kom því ekki á óvart þegar norska álfyrirtækið Norsk Hydro fór að horfa hýru auga til álversins í Straumsvík og hagstæðs raforkusamningsins sem álverið hefur við Landsvirkjun. Þó svo reyndar ekkert yrði af þeim kaupum; líklega vegna þröngsýnnar afstöðu evrópskra samkeppnisyfirvalda.
Hagkvæmt vatnsafl og ódýr vindorka eru fullkomið samspil
Með sífellt sterkari og útbreiddari umhverfisvitund styrkist staða álvera sem nota einungis rafmagn frá endurnýjanlegum auðlindum til framleiðslunnar, líkt og álverin á Íslandi gera. Stór vestræn álfyrirtæki eins og Alcoa, Norsk Hydro og Rio Tinto stefna öll að því að auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í framleiðslu sinni. Og með sífellt hagkvæmari vindorku er nú svo komið að bæði Alcoa og Norsk Hydro hafa nýverið gert stóra kaupsamninga við vindorkufyrirtæki, m.a. við norska Zephyr sem einmitt nýlega stofnaði dótturfyrirtæki á Íslandi.
Ódýr vindorka er alveg sérlega áhuaverð sem viðbót í raforkukerfi sem byggir mikið á vatnsafli. Vindurinn er jú mismikill og þá hentar vatnsafl með miðlun fullkomlega til að jafna álagið. Þetta er einmitt staðan t.a.m. í Noregi og Svíþjóð, þar sem vindur og vatnsafl eru nýtt í hagkvæmu samspili. Og vegna hins stóra vatnsaflskerfis á Íslandi er fyrirsjáanlegt að þetta verði líka hagkvæmasta leiðin til að auka framboð af endurnýjanlegri íslenskri raforku á samkeppnishæfu verði.
Vindorkan getur viðhaldið sterkri samkeppnisstöðu Íslands
Batnandi samkeppnisstaða álvera sem knúin eru endurnýjanlegri orku ætti að styrkja áliðnað á Íslandi. Allt tekur þetta samt tíma og því miður virðast álmarkaðir nú aftur einkennast af offramboði, ekki ósvipað því sem var fyrir nokkrum árum þegar greinarhöfundur fjallaði um þáverandi erfiðleika á álmarkaði og nauðsyn þess að álfyrirtækin myndu bregðast við og halda aftur af meiri framleiðslu.
Ætli Ísland sér að viðhalda öflugri samkeppnisstöðu á raforkumarkaði er áríðandi að við nýtum áfram þau tækifæri sem við höfum til að geta boðið stóriðju og öðrum hagkvæma raforku, sem unnin er með endurnýjanlegum hætti. Og nú er svo komið að vindorkan er þar orðin ódýrust.
Til að grípa þetta tækifæri sem vindorkan skapar er mikilvægt að lagaumhverfi vindorku verði ekki gert of flókið eða óskýrt. Brátt mun einmitt sérstakur starfshópur þriggja ráðuneyta skila tillögum um hvort „um vindorkunýtingu gildi sérsjónarmið og hvort gerlegt sé að einfalda og e.t.v. flýta málsmeðferð og leyfisveitingarferli“ vegna vindorku. Vonandi má gera ráð fyrir því að 2020 verði árið þegar verkefni um nýtingu íslenskrar vindorku komast á gott skrið.
Höfundur er framkvæmdastjóri vindorkufyrirtækisins Zephyr Iceland.