Mikið hefur verið rætt um kulnun í starfi. Einna stærsti hluti þeirra sem mega reyna hana á eigin skinni eru kennarar. Í þessum pistli rýni ég í hvað sé til ráða.
Leikskólastigið – Stórt skref hjá Reykjavíkurborg
Reykjavíkurborg hefur stigið stórt skref til að lagfæra vinnuaðstæður í ákveðnum leikskólum. Með því að stytta vinnuvikuna þá náðist fram aukin vellíðan meðal starfsmanna og veikindadögum fækkaði. Það er mikið réttlætismál að sveitarfélög úti um allt land fari að þessu fordæmi. Það er ekki síður mikilvægt að fækka leikskólabbörnum í einstökum deildum. Einnig má benda á að ef starfsmenn við ákveðinn leikskóla sýna frumkvæði að nýjungum sem stuðla að auknum þroska og aukinni vellíðan barnanna, þá er eðlilegt að verðlauna þá með einhverjum hætti t.d. með styttingu vinnuskyldu vegna undirbúnings við verkefnið.
Grunnskólastigið – „Skóli án aðgreiningar“ – Nafnið tómt
Við berum okkur gjarnan saman við lönd sem standa framarlega í skólamálum. Eitt af þeim er Finnland, en Finnar hafa sett mikinn metnað í að hlúa að skólastarfi sínu þannig að það nýtist hverjum og einum nemanda sem best; og að kennurum líði vel í starfi og þeir finni að starfskraftar þeirra nýtast til fulls. Hér var innleiddur „Skóli án aðgreiningar“ sem átti að jafnast á við það besta í skipulagi skólastarfs í löndum sem við viljum bera okkur saman við. En því miður var framkvæmdin í skötulíki. Skólastjórnendur, margir hverjir, notuðu tækifærið og fjölguðu nemendum í einstöku bekkjardeildum; þeir gerðu það ekki af illmennsku einni saman; þeir gerðu það af illri nauðsyn. Allt frá hruninu hefur fjármagn til skólanna verið skorið við nögl; líklega allt að 10% niðurskurður á hverju ári.
Framhaldsskólastigið – Heilladrýgra starf
Ég hef starfað mest allan minn feril sem eðlisfræði- og stærðfræðikennari í framhaldsskólum. Í eðlisfræðinni var kennslan oft háð þeim annmörkum að tæki eðlisfræðistofunnar voru af skornum skammti. Það var mjög dapurlegt vegna þess að ef vel á að vera þá þarf kennsla í raungreinum að stærstum hluta að byggja á tilraunum. Vinna við að útbúa vinnuseðla fyrir tilraunirnar og aðlaga þá að tækjakosti verklegu stofunnar svo og að panta ný tæki var oft á tíðum óhemju mikil og ef vel ætti að vera þá þyrfti að borga aukalega fyrir hana.
Í báðum þeim greinum sem ég kenndi var oft erfitt að sinna starfinu í vegna of mikils fjölda nemenda í einstökum hópum. Þegar hópurinn er of stór þá velur maður þann kostinn að miða kennsluna við nemendur með meðalnámsgetu en þeir sem verst eru staddir verða að norpa úti í kuldanum; þeir best settu bjarga sér þokkalega m.a. vegna þess að þeir eru líklegastir til að leita eftir aðstoð – að sjálfsögðu ætti að leggja fyrir þá aukaverkefni sem reyna verulega á hæfnina. Ef vel ætti að vera þá þarf að minnka nemendahópa svo kennaranum gefist betra tækifæri til að sinna öllum.
Þrjú síðustu árin í kennslunni hjá mér kenndi ég nemendum stærðfræði í hægferðum og í undirbúningsáfanga í FSu. Kennslan í undirbúningsáfanganum var sérlega gefandi. Nemendurnir voru níu talsins og ég gat því með góðu móti hjálpað hverjum og einum í hverjum kennslutíma. Þarna kenndi ég nemendunum að leggja saman, draga frá, margfalda og deila. Í fyrstu hneykslaðist ég á því hversu kennararnir í grunnskóla höfðu staðið sig illa í stærðfræðikennslunni - en fljótlega áttaði ég mig á því að vinnuaðstæðurnar í grunnskólum eru einmitt þær að sumir nemendur verða algjörlega út undan. Ég gladdist mikið þegar nemendurnir fundu smám saman styrk sinn: Vá, ég gat reiknað tíu dæmi í þessum tíma; Sindri, á ég að hjálpa þér með svona dæmi? Að lokinni önninni hefði ég treyst einum af þessum nemendum til þess að reyna við bóklegt nám í framhaldinu, en bæði hann og hinir þurftu að fá raunhæfa aðstoð til að velja sér nám hæfi – hvernig hafði þeim gengið í þeim greinum sem þeir tóku á þessari önn? Og foreldrarnir verða að setja hag barnsins ofar sínum óskum um frama þeirra.
Skólastefnan mín!
Á undanförnum árum og áratugum hefur nýju og nýju fólki verið treyst til að setjast í stól menntamálaráðherra. Segja má að í hvert sinn sem nýtt fólk tekur til starfa, þá finnur það sig knúið til að smíða nýja skólastefnu – sína skólastefnu! Oftast gerir stefnan ráð fyrir auknum kröfum til kennara. Enginn peningur er settur í framkvæmdina og þess vegna verða breytingarnar litlar sem engar eða þá að kennarar taka á sig meiri og meiri vinnu.
Að mínu viti, var stytting náms til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú, mikið óheillaspor. Afleiðingin varð sú að álag á nemendur varð mun meira og námsefni á einstökum brautumvar skorið það mikið niður að þær að þær stand ekki lengur undir nafni. Á framhaldsskólastiginu taka nemendur út hvað mestan þroska. Þeir þurfa því að hafa tíma til að sinna félagsstarfi jafnframt náminu. Einstaka brautir í framhaldsskóla þurfa að gefa nemendum raunhæfan kost til undirbúnings fyrir næstu skref. Sparnaðurinn með styttingunni verður lítill sem enginn vegna þess að nemendur þurfa að fara í mörgum tilfellum að fara í viðbótarnám til þess að eiga möguleika á námi í ákveðnum greinum í framhaldinu. Geta má þess að í Danmörku er þriggja ára stúdentspróf en þar hefur færst í aukana að nemendur bæta fjórða árinu við þegar þeir átta sig á að undirbúningur þeirra er ekki nægur til að velja ákveðið nám í framhaldinu.
Aðkoma ráðherra að kjarasamningum
Í samninganefnd ríkisins sitja gjarnan menn úr fjármálaráðuneytinu, hámenntaðir í lögfræði og klókindabrögðum. Þetta endurspeglast glöggt í tilboðum þeirra um kjarabætur: „Það er ekki nema sjálfsagt að borga ykkur hærra kaup ef þið eruð tilbúin til að vinna fyrir því“. Maður sér þá fyrir sér glottandi bæta við í huganum „asnarnir ykkar – þið hafið sko aldrei nennt að vinna fyrir kaupinu ykkar“. Svona „kjarabætur“ eru beinlínis móðgandi. Þessir menn þekkja ekkert til skólamála og hafa það eitt að leiðarljósi að spara ríkinu pening með því að krefjast meiri vinnu af þessum „letibikkjum sem aldrei hafa nennt að vinna“.
Hér þarf að verða breyting á – menntamálaráðherrar þurfa að koma í ríkara mæli að gerð kjarasamninga. Ráðherrarnir eða aðstoðarmenn þeirra ættu að vera í stakk búnir til þess að greina hvað þarf að lagfæra skólastarfinu; og móta tillögur til úrbóta fyrir kennara og ekki síður fyrir nemendur. Kennarar eiga fullan rétt á að fá kjarabætur í samræmi við það sem aðrar stéttir fá; og ekki síður betri og mannúðlegri aðstæður á vinnustaðnum.
Á Íslandi er kulnun í starfi vaxandi vandamál. Við verðum að bregðast við af fullri skynsemi. Vellíðan og skilvirkt starf í skólum eru atriði sem skipta sköpum fyrir gott og árangursríkt starf. Við verðum að hafa í huga að bætt viðhorf til skólamála skilar okkur betra samfélagi.
Höfundur er framhaldsskólakennari.