Vopnahlé hermanna á jólum 1914

Jólin voru haldin hátíðleg á vígvöllum fyrri heimstyrjaldarinnar. Flosi Þorgeirsson, sagnfræðingur og listamaður, kynnti sér þessa einstöku hátíðarsögu úr stríði.

Teikning (Mary Evans Picture LibraryAlamy) (1).JPG
Auglýsing

Ekki þarf að orðlengja að fyrri heimsstyrjöldin er einn mesti hildarleikur sögunnar og oft kölluð fyrsta „nútíma“ styrjöldin. Seinni heimsstyrjöldin var reyndar lengri og inniheldur auk þess ómældan hrylling eins og Helförina. Hermenn eru líklega aldrei öfundsverðir en hermenn í seinni heimsstyrjöld þurftu þó sjaldnast að hírast lengi í daunillum skotgröfum sem voru yfirfullar af rottum, lúsum og flóm en slíkt máttu hermenn í fyrri heimsstyrjöld þola árum saman. Auk þess var enginn gashernaður í þeirri seinni en líklega ber flestum saman um að það er sérlega andstyggilegt vopn. Sumir vilja reyndar meina að þessar styrjaldir séu nátengdar og að millistríðsárin hafi í raun verið langt vopnahlé.

Það vill því miður oft einkenna styrjaldir, a.m.k. áður fyrr, að hernaðarfræði er iðulega ekki í takti við tækniþróun. Slíkt var t.d. uppi á teningnum í bandarísku borgarastyrjöldinni þar sem ungir menn, þúsundum saman, marséruðu beint á móti gapandi byssukjöftum stórskotaliðsins. Í því stríði leit forveri vélbyssunnar, Gatling-byssan, fyrst dagsins ljós. Vélbyssan var einmitt eitt aðalvopn fyrri heimsstyrjaldar, auk fallbyssunnar. Aftur og aftur reyndu herforingjar að brjóta upp stöðuna með því að senda þúsundir ungra manna, blómi margra ríkja Evrópu, gegn víglínu óvinarins en þeir voru brytjaðir niður. Víglínan hreyfðist nær ekkert árin 1914 – 1916 en þá var þrek þýskra hermanna að þrotum komið og breski flotinn hafði hindrað vöruflutninga svo að verulegur skortur var orðinn á nauðsynjavörum í Þýskalandi. Árið 1917 blönduðu Bandaríkin sér svo í stríðið og einnig kom einnig fram nýtt stríðstól, skriðdrekinn, sem átti einnig nokkurn þátt í að rjúfa pattstöðuna á vestur-vígstöðvunum. 

Fáir áttu von á að stríðið myndi dragast svona á langinn. Ýmsir stóðu í þeirri trú að það yrði háð svipað og orrustur 19. aldar. Herir myndu mætast á ákveðnum stað, eins og Austerlitz og Waterloo á Napóleonstímanum, riddaralið myndi þjóta yfir vígvöllinn, fótgönguliðar reka upp heróp og æða hetjulega gegn hvor öðrum. Ýmsir bjuggust við að úrslitin yrðu ráðin fyrir jól. Þannig fór ekki, riddaraliðið reyndist algjörlega úrelt og fótgönguliðar komust heldur ekkert áleiðis gegn vélbyssum og fallbyssum. Þetta dróst á langinn, pattstaða myndaðist og í desember 1914 héngu hermenn í köldum skotgröfum sínum og hugsuðu heim, hryggir í hjarta. Fæstir höfðu væntanlega hugsað sér að halda hátíð á þennan máta og margir gerðu sér nú grein fyrir því að þessi jól gætu vel orðið þeirra síðustu.

Auglýsing

Það var einmitt um jólin 1914 sem ákveðinn atburður varð á vígstöðvunum sem lengi hefur vakið athygli og getið af sér skáldverk og kvikmyndir. Hermenn, ekki herráð eða hershöfðingjar, gerðu hlé á stríðinu og héldu jólin hátíðleg saman. Þýskir og breskir hermenn klöngruðust upp úr skotgröfunum og nálguðust hvorn annan varfærnislega. Þeir skiptust á gjöfum, drykk og matvælum og sungu jólalög saman. Þetta var magnaður atburður og sumir hafa bent á mannlega þáttinn í þessu sambandi. Í miðjum hildarleiknum ákváðu nokkrir menn að leggja hatrið til hliðar. Það er þó langt um liðið og orðið stundum erfitt að greina hvað er satt og logið, ýmsar þjóðsögur hafa spunnist um þetta vopnahlé. En, hvað gerðist í raun?

Vopnahléið 1914 var í raun ekki einn sérstakur atburður, heldur gerðist þetta á nokkrum stöðum á vestur-vígstöðvunum. Austan megin horfðust þýskir hermenn í augu við Rússa en í þeim var enn lítill jólahugur, enda fylgdu Rússar þá gamla tímatalinu og þeirra jól voru í byrjun janúar. Ekki fer neinum sögnum af því að slík vopnahlé hafi átt sér stað milli franskra og þýskra hermanna og þarf ekki að koma á óvart. Þjóðverjar höfðu sótt inn í Frakkland og ógnað París, sjálfri höfuðborginni. Það var því langt í jólakærleikann milli þeirra. Upphafið að því að þýskir og breskir hermenn fundu í sér jólalandann var menningarfyrirbrigði sem fylgt hefur mannkyninu um aldir: Söngur.

Vilhjálmur Þýskalands-keisari hafði sent hermönnum lítil jólatré sem þeir höfðu sett upp og einnig kveikt á kertum. Síðan sungu þeir þýsku „Stille nacht, heilige nacht“, sem við Íslendingar þekkjum sem Heims um ból. Bresku hermennirnir voru hrifnir af þessu og klöppuðu ákaft. Hafa ber í huga að ekki voru nema um 50-60 metrar á milli þeirra. Þeim bresku fannst sem þeir yrðu að svara í sömu mynt og sungu þá lagið „The First Noel.“ Áfram hélt söngurinn og von bráðar sungu allir saman því það kom í ljós að hverrar þjóðar sem menn voru, þá þekktu þeir allir þessi klassísku jólalög. Skyndilega kölluðu Þjóðverjarnir og báðu Bretana að skjóta ekki því þeir væru með jólagjafir. Síðan komu þeir úr skotgröfum sínum og nálguðust. 

Bretarnir gerðu hið sama og óvinirnir mættust á svokölluðu „einskismannslandi“, en það var svæðið milli víglínunnar kallað. Þjóðverjarnir höfðu nóg af vindlum sem gladdi þá bresku en Bretarnir höfðu fengið aukinn matarforða sem þeir gáfu þeim þýsku. Þessir fundir munu hafa verið algengari þar sem þýskir hermenn frá Saxony voru staðsettir. Þeir voru almennt vinalegri í garð Breta sem þeir litu á sem nokkurs konar Saxa einnig: „Við erum Saxar og þið eruð Engil-Saxar. Við ættum ekki að berjast.“ Í sumum sögum og kvikmyndum má sjá hermenn heimsækja skotgrafir hvers annars og jafnvel leika knattspyrnu saman en slíkt mun vera þjóðsaga. Þó menn hafi slakað á og leyft jólaandanum að koma yfir sig þá voru þeir einnig á varðbergi og reyndu jafnvel að koma auga á eitthvað sem gæti gagnast í baráttunni. 

Sögur af vopnahléi hermanna á jólum 1914 eru eflaust nokkuð ýktar og hafa verið gerðar dramatískar, eins og t.d. í myndinni „Joyeux Noel“ frá 2005. Ólíkt því sem gerist í myndinni, þá  var engum sérstaklega refsað, hvað þá dreginn fyrir herrétt en yfirvöld sendu þó frá sér yfirlýsingu þar sem öll slík umgengni við óvininn var bönnuð. Enda gerðist þetta ekki aftur. Næstu þrjú jól geysaði heimsstyrjöldin enn, en jóla-andi hermanna var þrotinn. Vopnahléið 1914 stendur þó eftir sem dæmi um að menn gátu sett hatrið til hliðar um stundarsakir og fyrir það eitt, er það þess verðugt að minnast þessa atburðar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands tók við af Matt Hancock fyrr í sumar.
Biðst afsökunar á að hafa sagt fólki að hætta að „hnipra sig saman“ andspænis veirunni
Sajid Javid heilbrigðisráðherra Bretlands segist hafa notað óheppilegt orðfæri til að lýsa því hvernig landar hans þyrftu að fara að lifa með veirunni, í ljósi útbreiddra bólusetninga.
Kjarninn 25. júlí 2021
DÓTTIR er stuttmynd um ást, þráhyggju og brotna sjálfsmynd.
Stuttmyndin DÓTTIR er „ástarbréf til Íslands“
Sofia Novakova, leik- og kvikmyndagerðarkona frá Slóvakíu, er þessa dagana að taka upp stuttmyndina DÓTTIR hér á landi. Safnað er fyrir útgáfu myndarinnar á Karolina Fund.
Kjarninn 25. júlí 2021
Hólmfríður Árnadóttir menntunarfræðingur og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir bóndi skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi.
Þjórsáin okkar allra
Kjarninn 25. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar