Mikið er nú ánægjulegt að fylgjast með framvindu forsetaembættis okkar. Þar virðist hver forsetinn af fætur öðrum leitast við að sýna okkur almúganum hversu þeim er í raun og sann hugað um velferð þeirra sem minnst mega sín. Maður gæti ætlað að forsetar okkar vilji skipa sér í röð með heimsendurlausnurum á borð við Ghandi, Lennon, Dylan, Thunberg, svo ekki sé minnst á aðra öllu magnaðri á borð við Múhammed, Búdda og jafnvel sjálfan Jesús.
Nýverið birti Ólafur Ragnar Grímsson ákaflega hjartnæma mynd af klónuðum hundi, honum Sámi sem kona hans varð ástfangin af við fyrstu sýn, og svo virðist sem núverandi forseta okkar, sjálfum alþýðumanninum, hafi runnið blóðið til skyldunnar í viðleitni til að toppa klónunarafrek fyrirrennara síns.
Guð láti á gott vita í þeim efnum, enda þykja forsetar hverrar þjóðar leiðsögumenn ef það er eitthvað spunnið í þá sæmdarmenn. Það felst í skilgreiningu á því að vera „forseti þjóðar“. Þetta eru mennirnir sem við íslenskir kusum til að leiða okkur fram á veg.
Nú ber svo við að einhver aðframkominn fálki hrapaði í túnið hjá alþýðuforsetanum, honum Hr. Guðna. Hann brá skjótt við, kallaði til sín fréttamenn og gerði þeim grein fyrir þessum ótrúlega viðburði. Hr. Guðni alþýðuforseti gat þess sérstaklega að hann væri farinn að gefa fuglinum æti. Vel gert Hr. alþýðuforseti. Það er gott að hlúa að særðum dýrum.
Nú gæti maður ætlað að þessu máli myndi lykta með því að aðrir færari um meðferð slasaðra fugla myndu taka að sér velferð aumingjans fálkans. Þeir finnast í tugatali sem eru sérfræðingar á þessu sviði. Þeir eru kallaðir „líffræðingar“. Nánar tiltekið fuglafræðingar.
Þá ber svo við að alþýðuforsetinn Guðni kallar aftur til sín blaðamenn til að gera þeim grein fyrir því að hann sé nú farinn að lesa upp fyrir slasaða fuglinum einhver bókmenntaafrek Íslendinga.
Vel gert aftur Hr. alþýðuforseti! Vonandi var það samt ekki „Óhræsið“ efti Jónas Hallgrímsson. Það væri varla við hæfi. Fálkanum slasaða gæti verið misboðið.
Því miður er þessu hjartnæma og dramatíska atviki ekki lokið, enda er marga eindregna dýravini að finna innan stjórnsýslunnar. Stjórnsýslan er sumsé full af velgjörðarmönnum fálka. Þetta er allt svo dásamlegt!
Næst hendir það að við pöpullinn fáum að heyra af því að sjálfur landlæknir skottaðist á Bessastaði með dauðar rjúpur sem slasaði fálkinn mátti gæði sér á eftir upplestur Hr. Guðna úr íslenskum bókmenntum. Með þeim fyrirvara að fálkar þurfi jú að gæða sér á beinum og fiðri til að dafna. Þetta virðist landlæknir vita betur en sérfræðingar um líferni fálka.
Maður hlýtur að spyrja sjálfan sig:
Lifir fálkavesalingurinn slasaði af slíkar trakteringar?
Og geri hann það er það vegna upplestursins, eða var það vegna heimsóknar landlæknis?