Aukin endurvinnsla er af hinu góða, en alltaf fellur til eitthvað efni sem ekki er hægt að endurvinna. Þess vegna kemur á óvart að núverandi umhverfisráðherra ætli að endurvinna rammaáætlun Sigrúnar Magnúsdóttur og leggja hana óbreytta fram. Bæði er ljóst að forsendur áætlunarinnar hafa gjörbreyst og ekki síður að verklag þáverandi ráðherra stóðst ekki þær kröfur sem eðlilegt er að gera til rammaáætlunar.
Rammaáætlun snýst um að vega saman ólíka hagsmuni á hverjum tíma og flokka virkjunarkosti á grundvelli faglegra sjónarmiða í nýtingar-, bið- eða verndarflokk. Á þeim fjórum árum sem liðin eru síðan verkefnisstjórn rammaáætlunar lagði lokahönd á þær tillögur sem umhverfisráðherra segist nú ætla að leggja fram óbreyttar hafa ýmsar forsendur breyst. Mestu munar þar um þá ákvörðun að stofna þjóðgarð á miðhálendinu, sem gerir allt eldra mat á virkjunarkostum innan þess svæðis úrelt.
Það kemur verulega á óvart að umhverfisráðherra Vinstri grænna ætli að bera fram tillögu forvera síns úr Framsóknarflokknum með þeim rökum að hann vilji standa vörð um ferli rammaáætlunar. Miklu nær er að segja að með framlagningu óbreyttrar tillögu sé verið að standa vörð um léleg vinnubrögð umhverfisráðherra Framsóknarflokksins.
Á sínum tíma var ítrekað bent á það að miklir annmarkar hefðu verið á undirbúningi málsins. Þökk sé sinnuleysi þáverandi ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var verkefnið sett allt of seint af stað og verkefnisstjórn og faghópum því skammtaður naumur tími – um eitt ár í stað þriggja. Í framhaldinu tók ráðherra sér aðeins fjóra daga til að vega og meta tillögu verkefnisstjórnar út frá umsögnum almennings og hagsmunaaðila áður en hún lagði tillöguna óbreytta fyrir þingið í september 2016. Sú flýtiafgreiðsla skrifast á það að boða þurfti til kosninga í kjölfar Wintris-málsins, en getur ekki talist til fyrirmyndar.
Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð lýsti ég áhyggjum yfir því stjórnarsáttmálinn minntist hvergi á hvernig vinna ætti með rammaáætlun á kjörtímabilinu. Greinilega ekki að ástæðulausu miðað við þá niðurstöðu sem loksins virðist hafa náðst á milli stjórnarflokkanna þriggja: Að endurvinna tillögu sem tveir þeirra lögðu fram á handahlaupum í fyrri ríkisstjórn.
Höfundur er þingmaður utan flokka.