Í umræðum vikunnar hefur verið ýjað að því að við lítum á leikskólana sem þjónustustofnun fyrir atvinnulífið. Ekkert er fjær lagi. Atvinnulífið hefur vissulega sett mikið mark á okkar karlæga og kapítalíska samfélag og þar með aðstæður kvenna og jaðarsettra hópa. Málflutningur okkar snýst um að verja konur og jaðarsetta hópa fyrir frekara álagi af völdum þess.
Saga leikskólanna er samofin sögu kvenna á vinnumarkaði. Upphaflega rak hið opinbera dagheimili fyrir börn einstæðra foreldra svo þau gætu séð fjölskyldu sinni farborða. Dagheimilin urðu svo fyrsta skólastigið. Þar njóta börnin menntunar meðan foreldrar, einstæðir jafnt sem pör, eru úti á vinnumarkaði. Þessi þróun hefði aldrei átt sér stað án hugrakkra og sterkra kvenna sem settu konur og börn í forgang á pólítískum vettvangi.
Skammtímalausn á flóknum vanda
Leikskólarnir okkar eru afurð kvenfrelsisbaráttunnar. Konur kröfðust breyttrar forgangsröðunar og breytts verðmætamats. Þær brutust út á vinnumarkað, menntuðu sig, tóku aukinn þátt í stjórnmálum og breyttu. Nútímafyrirkomulag leikskólans er Kvennalistanum að þakka. Kannski hefði eitthvað gerst án þeirra kvenna, en aldrei eins hratt og aldrei eins vel. Og kannski værum við betur stödd ef þeirra nyti enn við í stað stjórnmálafólks sem vill hvorki horfast í augu við né breyta kynjuðu hagkerfi sem byggir á ó- eða illa launaðri vinnu kvenna.
Ítrekuð ummæli borgarfulltrúa um að áhrifin verði lítil á konur og jaðarsett fólk sýna virðingarleysi gagnvart ólaunaðri vinnu kvenna. Ótal rannsóknir hafa sýnt fram á samverkandi þætti kynbundins launamunar og ábyrgðar kvenna á heimilum umfram karla. Styttri opnunartími verður óumflýjanlega til þess að ýkja hvort tveggja, hvort sem borgarfulltrúum líkar betur eða verr.
Reykjavíkurlistinn ruddi brautina
Síðast en ekki síst er þessi niðurskurður vanvirðing við þær baráttu- og stjórnmálakonur sem eiga heiðurinn af núverandi fyrirkomulagi leikskólastarfs. Konurnar í Reykjavíkurlistanum sem breyttu forgangsröðun fjármuna í borgarstjórn og ákváðu að verja þeim til uppbyggingar leikskóla í stað annarra og karllægari verkefna. Borgarfulltrúar sem baða hálfsdagsdvöl í leikskólum dýrðarljóma sýna þeirri vinnu sem þá átti sér stað, ekki mikla virðingu.
Stytting leikskóladagsins þýðir að í stað þess að börnin njóti dvalar á leikskólum í umsjón illa launaðs fagfólks, mun álag á konur við umsjá barna aukast á kostnað atvinnuþátttöku og tækifæra á vinnumarkaði. Það er von okkar að borgarráð hafni þessum breytingum og einbeiti sér að því að efla leikskólana og breyta verðmætamati samfélagsins. Það er löngu tímabært að framlag kvenna verði metið að verðleikum innan sem utan heimilis.
Í ljósi þessa ítrekum við enn og aftur áskorun okkar til borgarráðs um að hafna breytingum á opnunartíma leikskóla sem samþykktar hafa verið í skóla- og frístundaráði.
Claudia Overesch, Edda Ýr Garðarsdóttir, Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir, Elísabet Ýr Atladóttir, Gunnur Vilborg, Halldóra Jónasdóttir, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, Ingibjörg Stefánsdóttir, Kristjana Ásbjörnsdóttir, María Lilja Þrastardóttir Kemp, Ósk Gunnlaugsdóttir, Sóley Tómasdóttir, Sunna Símonardóttir, Unnur Ágústsdóttir og Þóra Kristín Þórsdóttir.