Lestur er leikfimi hugans

Friðrik Rafnsson skrifar hugleiðingu um bókmenntir og málrækt.

Auglýsing

Nýliðið ár virð­ist hafa verið einkar blóm­legt í bók­menntum lands­ins og nú nýtur bóka­fólk afrakst­urs erf­iðis okkar fjöl­mörgu og frá­bæru rit­höf­unda sem auðga ekki ein­ungis menn­ingu okk­ar, skemmta okkur og dýpka skiln­ing okkar á sögu og sam­tíð heldur eru margir þeirra farnir að gera garð­inn frægan utan land­stein­anna. Þrátt fyrir hrakspár og aukna sam­keppni virð­ist því bók­lestur sem betur fer halda sér nokkuð vel. 

Lestur er nota­leg ein­vera, hug­rækt, gæða­stund með sjálfum sér í félags­skap til­bú­inna per­sóna sem krist­alla mann­eskj­una og lífið snilld­ar­lega þegar best læt­ur. Og það sem meira er, í heimi síauk­innar eins­leitni og hjarð­hugs­unar er lestur góðrar og krefj­andi bókar ákveðin yfir­lýs­ing, frið­sam­leg and­spyrna gegn heimsku og gleymsku. 

Stundum er sagt að móð­ur­málið sé fólki svo inn­gróið að það geti orðað hverja hugsun nán­ast fyr­ir­hafn­ar­laust, það geti sagt nákvæm­lega það sem því býr í brjósti, sagt það sem það hugs­ar. Öðru máli gegni hins vegar með erlend tungu­mál, tungu­mál sem við höfum lært á lífs­leið­inni. Á þeim segi fólk aðeins það sem það getur sagt. Með öðrum orð­um: á móð­ur­mál­inu segjum við það sem okkur langar að segja, en á erlendu máli segjum við aðeins það sem við getum sagt.

Auglýsing
Mig langar að setja spurn­ing­ar­merki aftan við þessa full­yrð­ingu sem maður heyrir fleygt af og til og spyrja: erum við í raun­inni ekki að læra málið okkar frá vöggu til graf­ar? Og í fram­haldi af því hvort bók­menntir séu þá ekki einna besta fáan­lega náms­efnið í þess­ari stöð­ugu end­ur­menntun sem mætti ef til vill kalla mála­skóla lífs­ins. Skóla þar sem við getum reynt að nálg­ast það mark­mið, eða þann draum, að segja nákvæm­lega það sem okkur býr í brjósti.

Í löngu og ítar­legu við­tali sem birt­ist í Tíma­riti Máls og menn­ingar árið 1994 varð franska heim­spek­ingnum Jacques Derrida tíð­rætt um þá ábyrgð sem hver kyn­slóð ber á menn­ing­ar­arf­leifð­inni sem sem henni beri að við­halda og helst auka við. Við­talið nefn­ist „Vofa gengur nú ljósum logum um heim­inn, vofa Marx!“ en þar segir Derrida meðal ann­ar­s: 

„Að erfa er ekki fyrst og fremst að þiggja eitt­hvað, eitt­hvað sem er gef­ið, sem maður getur síðan átt. Að erfa er virk full­yrð­ing. Vissu­lega er orðið við skipun en í arfi felst einnig frum­kvæði, að und­ir­rita, eða kvitta fyrir (fr. contresigner) það sem maður þiggur eftir nokkra umhugs­un. Þegar maður erfir eitt­hvað, þá velur mað­ur, skoð­ar, dregur eitt­hvað fram, gefur því nýtt gild­i.“

Er Derrida ekki þarna í raun­inni alveg óvart að lýsa því hvernig við höfum reynt að umgang­ast tungu­mál­ið: við höfum kvittað fyrir mót­töku arfs geng­inna kyn­slóða og reynt að gefa mál­inu nýtt gildi, aðlaga það nýjum og nýjum aðstæð­um, meðal ann­ars með nýorða­smíð eða með því að blása nýju lífi í gömul og stundum gleymt orð? Með öðrum orð­um: er ekki mál­rækt einmitt það að taka á móti þess­ari arf­leifð, íslenskunni, skoða hana í krók og kring, draga fram það nýti­leg­asta úr henni og gefa því nýtt gildi? Í þessu sam­bandi má geta þess að við erum sann­ar­lega auðug þjóð, höfum beinan aðgang að orða­forða allt aftur til rit­un­ar­tíma forn­rit­anna, sjö til átta hund­ruð ár, jafn­vel enn lengra aft­ur. Við munum þannig ansi langt aftur miðað við vel­flestar þjóð­ir. Til dæmis hafa nútíma Frakkar ekki beinan aðgang að textum nema svona fjögur hund­ruð ár aftur í tím­ann, eftir það taka sér­fræð­ingar við. Venju­legur Frakki tekur ekki verk eftir sext­ándu aldar snill­ing­inn François Rabelais og les hann orða­bók­ar­laust. Hann verður að lesa hann í nútíma­þýð­ingu.

Það er svo­lítið gaman að velta fyrir sér þess­ari virku afstöðu til arfs­ins, móð­ur­máls­ins: það þýðir að fólk er í raun­inni alla ævina að læra tungu­mál­ið, end­ur­nýja það, gleyma, til­einka sér ný orð og orða­til­tæki, bæta við og missa úr, rifja upp og týna nið­ur.  Þessi stöðuga vinna með málið á að sjálf­sögðu við tal­mál og rit­mál, en ég ætla hér að halda mig við ritað mál, enda þótt mörk tals og texta sé gíf­ur­lega spenn­andi við­fangs­efni, sbr. pæl­ingar margra áhuga­verð­ustu höf­unda sam­tím­ans eins og Pat­ricks Chamoiseau frá Mart­inikk sem kom hingað til lands sem gestur Bók­mennta­há­tíðar í Reykja­vík­haustið 1995.

Ef við hefðum ekki blessað rit­málið væri þetta stöðuga móð­ur­máls­nám allt lífið í gegn skelfi­legur barn­ingur með vind gleymsk­unnar í fang­ið, eitt skref áfram og tvö skref aft­urá­bak. Ég býst við að flestir kann­ist við þá til­finn­ingu að bróð­ur­partur þess sem þeir heyra staldri stutt við í minn­inu, fari nán­ast bók­staf­lega inn um annað eyrað og út um hitt. 

En menn fundu sem betur fer upp rit­mál­ið, það má lesa aftur og aft­ur, rifja upp og leggja á minn­ið. Rit­málið hefur vita­skuld hag­nýtt gildi, en ekki síður skemmtigildi. Það er hægt að toga það og teygja í ótrú­legar átt­ir, skoða það frá öllum hliðum í róleg­heit­um, leika sér með það: yrkja það og yrkja á því í orðs­ins víð­ustu merk­ing­u. 

Auglýsing
Skáldskapurinn vinnur með það minni sem fólgið er í tungu­mál­inu, en hann er um leið til­rauna­stofa tungu­máls­ins, hann spyr tungu­mál­ið, efast um að það sé alveg í takt við þann raun­veru­lega sem því er ætlað að tjá. Þess vegna er afar mik­il­vægt að skáldin fái vinnu­frið til að toga tungu­málið og teygja og við verðum að sýna þeim dálítið umburð­ar­lyndi, þótt við komum ef til vill ekki alltaf strax auga á hina tæru snilld. Skáldin sveigja málið og beygja að hugsun sinni eða því list­formi sem þau eru að glíma við, nema þau geri hvort tveggja og sprengi bæði hugsun sína og list­formið sjálfum sér og les­endum til mik­illar furðu. Útkoman við slíka spreng­ingu er ann­að­hvort upp­byggi­leg kafla­skipti í sögu bók­mennt­anna og þar með tung­unnar eða þá bruna­blettur sem grær upp á skömmum tíma. 

Þess vegna getum við les­endur sótt enda­laust í orð­gnótt­ina sem þar er varð­veitt, skemmt okkur við það hvernig skáld­skap­ur­inn lætur reyna á þan­þolið fræga. Við getum hvenær sem er tekið okkur hvaða bók sem er í hönd, fiskað upp ný og gömul orð, snjallar setn­ingar eða teng­ingar sem síðan skila sér beint eða óbeint inn í hugsun okkar og mál­far. Og þá skiptir aldur skálds­ins eða text­ans ekki máli. Magn­aður bók­mennta­texti er tíma­laus og höfðar til alla kyn­slóða ef við höfum getu og mót­töku­skil­yrði til að nema hann. Búið til myndir í hug­an­um, sett okkur í spor per­són­anna, skilið aðstæður ann­arra tíma og fram­andi staða, ferð­ast í tíma og rúmi með hjálp ímynd­un­araflsins, eins merkasta afls sem til er.

Skáld­skap­ur­inn er og verður glíma við mál­ið, mál­far­ið. Og mögu­leik­arnir eru enda­laus­ir. Sum skáldin reyna að beita mál­inu á sem allra fjöl­skrúð­ugastan hátt, ausa úr nægta­brunni tung­unn­ar. Önnur eru alveg á önd­verðum meiði, skrifa heið­skírt, tært og tálg­að, leika sér fremur með hug­myndir en tungu­mál­ið, segja margt í fáum orð­um. Og allt þar á milli. Sumar þjóðir gengu á síð­ust öld öld í gegnum gríð­ar­leg efa­semda­skeið gagn­vart eigin þjóð­tungum og þessar efa­semdir hafa síðan brot­ist út í hatrömmu og stundum dálítið kjána­legu (stundum skemmti­legu) upp­gjöri, einkum eftir heims­styrj­ald­irnar tvær. Slíkar efa­semdir hafa líka getið af sér nýjar bók­mennta­stefn­ur, sbr. súr­r­eal­ismann í Frakk­landi og víðar eftir fyrra stríð og frönsku nýsög­una eftir seinna stríð. Ég held að gæfa okkar sé, fyrir utan það að hafa að mestu sloppið við þær hörm­ung­ar, sú að okkur hefur tek­ist furðu vel að við­halda frjómagni tung­unnar og það er meðal ann­ars bók­mennt­unum og almennum bók­mennta­á­huga lands­manna að þakka. Ef til vill treystum við Íslend­ingar tungu­mál­inu mun betur en margar aðrar þjóð­ir. En við megum ekki treysta því í blindni og verðum stöðugt stunda þá leik­fimi and­ans sem lest­ur­inn er. Þetta traust á tungu­mál­inu er kostur meðan við höldum áfram að sækja mála­skóla lífs­ins, leika okkur með tungu­mál­ið, efast um það og lesa krefj­andi og afhjúp­andi bók­mennt­ir. Ef við gerum það ekki, ef við höldum okkur ein­ungis við örtexta nets­ins og fjöl­miðla er hætt við að geti orðið að teyma Íslend­inga áfram á asna­eyr­un­um. Með öðrum orð­um: fólk sem ræktar mál sitt, m.a. með því að lesa bók­mennt­ir, nær betri tökum á mál­inu og minnkar þannig lík­urnar á því að aðrir noti þetta sama tungu­mál til að ná tökum á því. Það getur sem­sagt í það minnsta talið sjálfum sér og öðrum trú um að það sé frjálst. Þá er til nokk­urs les­ið. 

Höf­undur er bók­mennta­fræð­ingur og þýð­andi.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Anna Dóra Antonsdóttir
Rammaáætlun sem sáttargjörð
Kjarninn 17. maí 2022
Tekjur ríkisins af kolefnisgjaldi aldrei verið jafn miklar og í fyrra
Ríkið hefur milljarðatekjur af losun gróðurhúsalofttegunda, bæði frá uppboðum á losunarheimildum og af kolefnisgjaldi. Féð er ekki eyrnamerkt loftslagsaðgerðum en fjármálaráðherra áætlar að framlög til loftslagsmála nemi yfir 15 milljörðum í ár.
Kjarninn 17. maí 2022
Helga Þórðardóttir varaþingmaður Flokks fólksins.
„Stjórnvöld hafa svikið leigjendur“
Leigjendur eru jaðarsettir og algerlega berskjaldaðir fyrir hentistefnu leigusala, segir varaþingmaður Flokks fólksins. Stjórnvöld verði að koma með beinar aðgerðir sem stöðva brjálsemi óhefts markaðar sem stjórnist af græðgi einstaklinga.
Kjarninn 17. maí 2022
Jón Gunnarsson er dómsmálaráðherra.
Ráðherra svarar engu um Samherjamálið þar sem það eigi ekki að lúta „pólitískum afskiptum“
Dómsmálaráðherra segir að embætti sem rannsaki sakamál fái ekki auknar fjárveitingar til að sinna rannsókn tiltekins sakamáls. Á ríkisstjórnarfundi í nóvember 2019 var hugað sérstaklega að fjármögnun rannsóknar héraðssaksóknara á Samherjamálinu.
Kjarninn 17. maí 2022
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri mætti á opinn fund í allsherjar- og menntamálanefnd um fræðslu og menntun lögreglumanna um fjölmenningu og fordóma.
Segir að ekki hafi verið um kynþáttamiðaða löggæslu að ræða
Ríkislögreglustjóri segist harma það að ungur drengur skyldi hafa ítrekað orðið fyrir áreiti við leit lögreglunnar að strokufanga í síðasta mánuði. Þó sé í þessu tilviki ekki um kynþáttamiðaða löggæslu eða afskipti að ræða.
Kjarninn 17. maí 2022
Viðmiðunarverðið á bensínlítra yfir 300 krónur í fyrsta sinn
Hlutur olíufélaga í hverjum seldum bensínlítra er með lægsta móti um þessar mundir þrátt fyrir mjög hátt verð. Það bendir til þess að þau séu ekki að skila hækkunum á heimsmarkaðsverði nema að hluta út í verðlagið.
Kjarninn 17. maí 2022
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027 í mars.
Spyrja hvort framlögð fjármálaáætlun sé í samræmi við stjórnarsáttmála
ASÍ bendir á það í umsögn sinni við fjármálaáætlun að mjög takmarkað svigrúm sé til aukinna útgjalda næstu árin sem þó er fyrirséð að muni aukast mikið. Vilja efla tekjustofna ríkisins, meðal annars með komugjaldi og hækkun fjármagnstekjuskatts.
Kjarninn 17. maí 2022
Guðmundur Ingi Kristinsson þingflokksformaður Flokks fólksins.
„Á ekki að skila þessum ólöglega ránsfeng?“
Þingflokksformaður Flokks fólksins segir að álag gangi nærri heilsu fólks sem hefur lent í skerðingum á greiðslum. „Er einhver hissa að kvíði, þunglyndi, streita, svefnleysi sé að hrjá þennan hóp í boði ríkisstjórnarinnar?“ spurði hann á þingi í dag.
Kjarninn 16. maí 2022
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar