Í nýlegri könnun Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð, sem Maskína framkvæmdi í nóvember sl., kemur í ljós að mikill meirihluti Íslendinga styður dánaraðstoð. Ef skoðuð eru öll svör segjast 77.7% mjög eða frekar hlynntir dánaraðstoð en 6.8% svara því til að þeir séu mjög eða fremur andvígir. Þá eru 15.4% sem svara „Í meðallagi“.
Af þeim 6.8% sem sögðust andvígir dánaraðstoð töldu 30.7% að hætta væri á misnotkun. Þá töldu 23.5% dánaraðstoð andstæða siðferðislegum og faglegum skyldum lækna. 21.7% töldu að líknandi meðferð (núverandi þjónusta við sjúklinga) nægði til að draga úr þjáningu. 20.4% töldu dánaraðstoð andstæða eigin siðferðisgildum og að lokum töldu 3.6% dánaraðstoð í andstöðu við eigin trúarskoðanir.
Dregið úr líkum á misnotkun með skýrri umgjörð
Stærsti hluti þeirra sem eru andvígir dánaraðstoð telja að það að leyfa heilbrigðisstarfsfólki að grípa til aðgerða sem gagngert hafa dauða sjúklings að markmiði bjóði heim misnotkun. Áhyggjurnar sem birtast í þessari andstöðu eru þekktar og mikilvægt að ræða þær. Alltaf er hætta á misnotkun en ein af forsendunum fyrir lögleiðingunni er að umgjörðin sé góð og í stöðugri endurskoðun. Einnig að allir þeir sem koma að ferlinu hafi fullnægjandi þekkingu og færni. Reynslan frá Belgíu, þar sem lögin um dánaraðstoð tóku gildi árið 2002, sýnir að lögleiðing dánaraðstoðar með skýrum ströngum skilyrðum dregur úr líkum á misnotkun. Eftir gildistöku belgísku laganna fækkaði sem dæmi þeim tilfellum til muna þar sem dánaraðstoð var veitt án skýrrar beiðni eða samþykkis sjúklings. Sama var uppi á teningnum í Hollandi. Læknar sýndu auk þess meiri varkárni og voru ekki eins viljugir til að veita dánaraðstoð og áður en lögin tóku gildi (sjá meðfylgjandi töflu). Rannsóknir í Hollandi og Belgíu hafa þar að auki sýnt að læknar gæta frekar læknisfræðilegrar vandvirkni við að binda endi á líf sjúklinga, m.a. með því að nota réttu lyfin og í réttu magni. Með því að smíða vandaðan lagaramma og þróa skýra og gagnsæja verkferla er þannig dregið úr líkum á misnotkun og því að farið sé á einhvern hátt gegn vilja sjúklings.
Læknar undir smásjá kollega sinna
Eitt af skilyrðunum í Hollandi er að lækninum er skylt að ráðfæra sig við a.m.k. einn annan, óháðan lækni, sem hefur vitjað sjúklingsins og veitt skriflegt álit sitt um það hvort ósk sjúklingsins sé sjálfviljug og vel ígrunduð, þjáning hans sé viðvarandi (ómeðhöndlanleg) og óbærileg, læknirinn hafi upplýst sjúklinginn um ástand hans og horfur, og sjúklingurinn séu sannfærðir um að engin önnur skynsamleg úrræði séu í boði.
Fá dómsmál verið höfðuð
Í Hollandi var hlutfall þeirra sem fengu dánaraðstoð 4% af öllum andlátum 2018 en var 2% við gildistöku laganna árið 2002, sem þykir ekki mikil aukning í ljósi þess að á móti dró úr þeim tilfellum sem dánaraðstoð var veitt án skýrrar beiðni eða samþykkis sjúklings. Einnig má benda á að á þeim 18 árum sem dánaraðstoð hefur verið leyfileg í Hollandi, Belgíu og Lúxemborg hafa nærri 100.000 manns fengið dánaraðstoð. Samt hafa aðeins örfá dómsmál verið höfðuð. Árið 2016 var það sem dæmi í fyrsta sinn, á þeim 14 árum sem lögin höfðu verið í gildi, sem hollenskur læknir var sóttur til saka fyrir manndráp þegar hann veitti áttræðri manneskju með Alzheimer á alvarlegu stigi dánaraðstoð. Málið endaði með sýknun þar sem dómarinn taldi að læknirinn hefði uppfyllt öll skilyrðin fyrir dánaraðstoð. Í Belgíu hófst nýlega fyrsta dómsmálið síðan lögin um dánaraðstoð tóku gildi árið 2002 en þrír belgískir læknar, heimilislæknir, geðlæknir og læknirinn sem gaf banvæna sprautu, eru sóttir til saka fyrir að veita 38 ára gamalli konu sem leið óbærilegar andlegar kvalir dánaraðstoð. Það voru ættingjar konunnar sem höfðuðu mál á hendur þeim. Það að svona fá dómsmál skulu hafa verið rekin á þeim tæpum tveimur áratugum sem dánaraðstoð hefur verið leyfileg sýnir að lítið bendir til þess að dánaraðstoð bjóði heim misnotkun.
Þörf á faglegri umræðu
Línan milli lífslokameðferðar og dánaraðstoðar getur verið næfurþunn. Félaginu okkar, Lífsvirðingu, hafa frá stofnun þess borist sögur um lækna hérlendis sem hafa gefið sjúklingum of stóran lyfjaskammt til að flýta fyrir dauða þeirra. Rannsóknir frá öðrum löndum benda einnig til að þetta gerist reglulega og það er engin ástæða til að halda að ástandið sé eitthvað öðruvísi hér heima. Dánaraðstoð virðist fara fram hvort sem hún er bönnuð eða ekki. Í löndum þar sem dánaraðstoð er bönnuð er vitaskuld ekki farið eftir neinum viðurkenndum reglum eða aðferðum heldur fer hún fram „undir borðinu“. Þörf er á faglegri umræðu heilbrigðisstarfsmanna, stjórnmálamanna og samfélagsins alls um þetta mikilvæga mál.
Höfundur er formaður Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð.