Ég er aðdáandi Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns Eflingar og mér fannst löngu tímabært að nýtt fólk kæmist til áhrifa innan verkalýðshreyfingarinnar. Slík hreyfing á að vera lifandi afl en ekki sú steingelda stofnun sem mér fannst hún stundum orðin og hún á að vera róttæk. Það er hún núna. Auðvitað hljótum við öll að styðja baráttu láglaunafólks fyrir betri kjörum. Og umboð Eflingar til aðgerða er gríðarlega sterkt.
En svo er varað við svokölluðu höfrungahlaupi. Það er fáránlega ósanngjarnt að ætla að gera fólkið á lægstu laununum ábyrgt fyrir því höfrungahlaupi sem hækkun launa kann að hafa í för með sér. Það var nefnilega ekki láglaunafólkið sem hóf það hlaup heldur hálaunafólkið eins og lesa má í ótal fréttum frá síðustu tveimur árum. Hlaupið er ekki nýhafið. Sumir höfrungarnir tóku tilhlaup. Hér eru nokkrar fréttir sem ég fann með lágmarksgúggli:
Svona hafa laun ríkisforstjóra hækkað
Launahækkanir ríkisforstjóra sláandi
Forstjórar hafa hækkað um 398 þúsund, afgreiðslufólk á kassa um 86 þúsun
Allir sjá að þessar hækkanir á síðustu árum eru ekki í neinu sambandi við þær hækkanir sem venjulegu launafólki hafa boðist og reyndar eru launin það ekki heldur. Hæstlaunaði ríkisforstjórinn samkvæmt efstu fréttinni var með 4,8 milljónir á mánuði. Fyrir venjulegt fólk hljómar það meira eins og happdrættisvinningur en mánaðarlaun. Sá sem fær 300.000 kr. á mánuði er 16 mánuði að vinna sér inn þá upphæð. Forstjórarnir og kannski ekki síst ríkisforstjórarnir eru því höfrungarnir. Eflingarfólkið kannski meira eins og síld.
En. Svo er það stóra myndin. Ég óttast nefnilega að fleiri krónur í veskið skili sér ekki í betri kjörum til framtíðar. Hugsanlega ef greitt væri út í gulli eða alvörupeningum en matadorpeningarnar sem við notum hér á landi eru drasl og verðgildi þeirra langt frá því að vera fasti sem hægt er að stóla á.
Fyrir hrun var Ísland hálaunaland. Það segir ekkert um kaupmátt launafólks þá eða lífsgæði almennt, bara það að við gátum breytt krónunum okkar í evrur, stokkið upp í flugvél og lifað eins og kóngar í öðrum löndum. Svo hrundi bankakerfið og Ísland varð allt í einu láglaunaland. Samt breyttist krónutalan sem fólk fékk útborgað ekki en sú upphæð dugði bara mun skemur því verðgildi krónunnar hafði rýrnað. Þeir sem álpuðust til útlanda gátu vart keypt sér kaffibolla, slík var dýrtíðin. Svoleiðis líður öllum ferðamönnunum sem hingað koma enda landið aftur orðið hálaunaland. Lágmarkslaun á Íslandi núna eru kr. 300.000.- en á Spáni eru þau 900 evrur eða ríflega kr. 124.000.- Aftur. Það segir ekkert um kaupmátt.
Því er oft haldið fram að Ísland sé stéttlaust þjóðfélag. Örlítil þekking á Íslandssögunni ætti að sannfæra alla um að svo sé ekki og hafi aldrei verið. Frá upphafi hefur verið gríðarlegur munur á þeim sem eiga og þeim sem eiga ekki. Hluti landnámsmannanna voru þrælar, fólk sem annað fólk hafði numið á brott og hneppt í ánauð. Og þótt þrælahald hafi verið bannað tók ekki mikið betra við með vistarbandi og takmörkuðum réttindum þeirra sem ekki voru af réttu kyni eða eignalausir. Þegar kosið var til Alþingis 1844 voru til dæmis aðeins 2,3% íbúa landsins með kosningarétt. Varla dæmi um stéttlaust þjóðfélag?
Það sem þó er gott í okkar samfélagi og hefur oft verið ruglað saman við stéttleysi er að tiltölulega auðvelt er fyrir flestalla sem á annað borð hafa til þess elju, áhuga og hæfileika að sækja sér menntun. Það er fremur auðvelt þrátt fyrir að velferðarkerfið sé alls ekki eins burðugt hér á landi og á hinum Norðurlöndunum þar sem nemar fá jafnvel námsstyrki í stað námslána. Því er svo logið að okkur að menntun sé ávísun á betri kjör. Svo er ekki. Þau sem mennta sig til þess að sinna öðru fólki fá þá menntun t.d. sjaldnast metna til hærri launa. Spyrjið bara hjúkrunarfræðinga og leikskólakennara. Sama á við um hugvísindi. Hugsanlega borgar það sig þó fjárhagslega að mennta sig til að hugsa um peninga.
Mér hefur fundist mesta stéttskiptingin á Íslandi vera á milli þeirra sem eiga og þeirra sem eiga ekkert. Þegar ég starfaði í stjórnmálum varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að fólk treysti mér fyrir ýmsum upplýsingum um sig og sitt viðurværi sem hjálpuðu mér að skilja líf þeirra og tilveru. Eitt af því voru fjármál fólks, útborguð laun eða bætur og svo útgjöld. Ég áttaði mig fljótlega á því að sá sem býr einn í leiguíbúð við starfslok og er gert að lifa á lífeyri úr almannatryggingakerfinu getur það alls ekki. Slíkt er einfaldlega ógjörningur enda húsaleiga hér á landi almennt alltof há og nauðsynjar dýrar. Hjón sem fá sömu upphæð hvort um sig en búa í skuldlausu húsnæði geta hins vegar haft það fínt á sínum lífeyri. Þótt alltaf sé einhver kostnaður af fasteigninni er hann mun lægri en leiga og hagkvæmara fyrir tvo að búa saman. Þeir sem eiga skuldlaust íbúðarhúsnæði eru líka líklegri til að hafa getað komið sér upp sparifé. Eignir geta oft af sér meiri eignir. Eignaleysi viðheldur eignaleysi.
Aðstæður fólks skipta nefnilega máli, oft öllu máli. Í auglýsingum Eflingar sem nefndust „Jólasögur úr borginni“ segist ein þeirra kvenna sem þar segir frá vinnu sinni í mötuneyti fyrir aldraða að fyrir 100% vinnu fái hún um kr. 355.000.- eða á milli kr. 260.000–270.000.- útborgað. Svo greiðir hún kr. 252.000 í leigu og auðvitað skiljum við öll að þetta er reikningsdæmi sem gengur ekki upp. Hún getur ekki dregið fram lífið á 10 þúsund kalli á mánuði. Samkvæmt kröfugerð Eflingar í samningaviðræðum við borgina ættu lágmarkslaun að vera kr. 425.000 við lok samnings sem á að gilda í þrjú ár og þannig hækka um kr. 125.000. Til að einfalda dæmið skulum við bæta þeirri upphæð ofan á laun konunnar. Hún fengi þá kr. 480.000.- fyrir 100% vinnu og kr. 351.300.- útborgað samkvæmt reiknivél staðgreiðslu hjá skattinum (ég setti engar viðbótargreiðslur inn, svo sem orlof eða greiðslur í stéttarfélag, svo þessi upphæð er rífleg). Eftir að hafa greitt leigu ætti hún því um kr. 100.000 til að lifa af og öll skiljum við að það er auðveldara en að lifa af kr. 10.000.- Nema bara að líklegt er að leigan myndi hækka líka og þar komum við að hákörlunum.
Ef ríkisforstjórar eru höfrungar þá eru þeir sem allt eiga hér á landi hákarlar og þeir geta gert það sem þeim sýnist. Þeir geta til dæmis keypt bíóhúsnæði og ákveðið að hækka leiguna svo mikið að ekki sé hægt að halda áfram að reka bíó þar. Þeir geta líka keypt blokk á Akranesi og gert 18 fjölskyldur húsnæðislausar. Og umfram allt þá virðast þeir geta ávaxtað eignir sínar eins og það sé heilög skylda samfélagsins að tryggja þeim ávallt góða ávöxtun.
Árið 2001 kostaði kr. 35.000.- að leigja 67 fm íbúð með sérinngangi og aðgangi að þvottahúsi á góðum stað í Kópavogi. Samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofunnar jafngildir það ríflega kr. 81.000.- á verðlagi dagsins í dag. Þessi tiltekna íbúð er ekki í útleigu núna en á vefnum Leiguskjól eru ódýrustu tveggja herbergja íbúðirnar á höfuðborgarsvæðinu á kr. 180.000 og upp í kr. 300.000.- Ef leiguverð hefði haldist í hendur við verðþróun á þessum tíma væri sennilega léttara að lifa að kr. 300.000.- lágmarkslaunum en það er.
En af hverju er þetta svona? Árið 2001 var erfitt fyrir venjulegt fólk að kaupa íbúðarhúsnæði, sérstaklega fyrstu íbúð, alveg eins og nú. Einu lánin sem buðust flestum voru hjá Íbúðalánasjóði. Hámarkslán var, ef ég man þetta rétt, 12,5 milljónir króna. Á árunum 2004-8 voru það hins vegar bankarnir sem lánuðu flestum íbúðakaupendum húsnæðislán og mun auðveldara var að standast greiðslumat. Og allt í einu var ekkert hámark og húsnæðisverð, og þar með leiguverð líka, hækkaði upp úr öllu valdi. Hugsanlega voru hámarkslán Íbúðalánasjóðs árið 2001 alltof lág og dugðu ekki fyrir byggingarkostnaði. En það sem við upplifðum svo var að húsnæðikostnaður margra varð allt í einu á pari við ráðstöfunartekjur þeirra en ekki 25% þeirra eins og talið er eðlilegt. Við vitum að hækkun fasteignaverðs fyrir hrun var bóla en vegna ýmissa séríslenskra lausna eins og verðtryggingar sprakk hún ekki almennilega í hruninu. Heimilin voru gríðarlega skuldsett og erfitt að selja íbúðir á lægra verði en fólk skuldaði. Húsnæðisverð er enn hátt þótt það hafi lækkað töluvert á tímabili og m.a. ferðamenn og útleiga til þeirra skapaði skort sem hélt upp verðinu.
Víða um heim hefur svipað ástand myndast í borgum. Mikil ásókn hefur verið í húsnæði og hákarlarnir séð sér leik á borði og braskað með þeim afleiðingum að venjulegt fólk hefur að óbreyttu ekki haft efni á að leigja sér þak yfir höfuðið. Heimili er grunnþörf og þótt við viðurkennum að íbúðir geti verið markaðsvara þá má það aldrei vera háð markaðsöflunum hvort við getum búið einhvers staðar. Á Íslandi áttuðu menn sig á því fyrir mörgum áratugum og byggðu verkamannabústaði fyrir tekjulægra fólk og félagslegar íbúðir. Verkamannabústaðakefið var eyðilagt og leyst upp og sveitarfélög, sem lögum samkvæmt ber skylda til að sjá þeim sem þurfa fyrir félagslegu húsnæði hafa mörg hver komist upp með að gera það ekki. Hér hafa verið gerðar tilraunir, t.d. með Bjargi, fasteignafélagi, til að koma upp vísi að slíku kerfi aftur en það þarf bara svo miklu meira til.
Nýlega komst Berlín í heimsfréttirnar fyrir að hafa fryst leiguverð næstu fimm árin. Borgaryfirvöld hafa líka yfirtekið íbúðir sem eitt sinn voru félagslegar þegar leigufélagið sem hafði rekið þær ætlaði að selja þær hæstbjóðandi. Víðar hafa borgaryfirvöld og önnur stjórnvöld ráðist í aðgerðir til að tryggja stöðugleika á leiguverði – tryggja að hákarlarnir geti ekki bara alltaf krafist þess að fá næstum allar ráðstöfunartekjur okkar. Við þær aðstæður þýðir nefnilega lítið að hækka kaupið. Hákarlarnir sem allt eiga eru fyrir löngu búnir að vinna höfrungahlaupið. Og ætlum við virkilega ekki að gera neitt til að reyna að stöðva þá?